Ólafur Ragnar Grímsson er engum líkur. Þótt hann sé slyngur stjórnmálamaður af gamla skólanum þá fækkar þeim alltaf sem falla fyrir leikþáttum hans, sem snúast oftar en ekki um að blása upp mikilvægi sinnar persónu fyrir land og þjóð í skrúðmælgisflóði þar sem forsetinn talar um sjálfan sig í þriðju persónu. Með greini.
Nú er Ólafur Ragnar þó í vanda. Opinberað hefur verið að eiginkona hans, Dorrit Moussaieff, og fjölskylda hennar tengjast neti aflandsfélaga. Þetta er staðreynd. Og það er líka staðreynd að eini vitræni tilgangur þess að eiga félög á Bresku Jómfrúareyjunum eða í Panama eða í öðrum þekktum skattaskjólum eru a) til að forðast skattgreiðslur eða b) til að fela eignir. Það eru engar aðrar sýnilegar ástæður fyrir slíku eignarhaldi.
Nei, nei, nei, nei, nei
Það hefur einnig verið opinberað að Dorrit færði lögheimili sitt frá Íslandi í desember 2012, eftir að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti í fimmta sinn. Sú skýring Dorritar, sem sett var fram í yfirlýsingu nokkrum mánuðum síðar, um að færslan væri tilkomin vegna þess ráðstafana sem forsetafrúin hefði gert „þegar horfur voru á að eiginmaður minn yrði ekki lengur forseti“ heldur ekki. Í desember 2012 voru nefnilega engar horfur á því að Ólafur Ragnar yrði ekki lengur forseti. Hann var nýbúinn að láta kjósa sig enn á ný í embættið.
Ólafur Ragnar er líka í vanda vegna þess að hann sagði ósatt í viðtali við CNN þegar hann var spurður hvort hann, eiginkona hans eða fjölskylda ættu aflandsreikninga. Svar Ólafs Ragnar var: „„Nei, nei, nei, nei, nei. Það verður ekki þannig.” Í ljós kom hins vegar að fjölskylda Dorritar á vítt net aflandsfélaga og Dorrit tengist þeim. Ólafur Ragnar hefði getað valið að svara spurningum CNN með „ég veit það ekki“ eða „ég og eiginkona mín erum með aðskilin fjárhag og höfum aldrei rætt fjármál hvors annars við hvort annað“. En hann kaus að gera það ekki heldur sagði afdráttarlaust „nei“. Fimm sinnum.
Málin flæktust enn þegar breska stórblaðið The Guardian greindi frá því að Dorrit er ekki einu sinni með lögheimili í Bretlandi. Hún er skráð „utan lögheimilis” (e. non-domicile, eða „non-dom“). Það er fyrirbæri sem þekkist hvergi annar staðar í heiminum en í Bretlandi og gerir auðugu fólki kleift að borga lægri skatta þó að það sé búsett þar í landi. Í yfirlýsingu sem Dorrit sendi frá sér á fimmtudag sagðist forsetafrúin að hún væri búsett í Bretlandi „þar sem ég hef veitt breskum skattayfirvöldum viðhlítandi upplýsingar.“ Niðurstaðan eftir yfirlýsingaflóð og allskyns svör frá skrifstofu forseta Íslands, sem flest voru mismunandi útgáfur af „við vitum það ekki“, er sú að ekkert er á hreinu með hvort, hvar og hvernig Dorrit Moussaieff hefur verið að borga skatta.
Ólafur Ragnar útskýrir misskilning
Í dag steig landsfaðirinn þó fram og útskýrði fyrir þjóðinni að þetta væri bara allt saman misskilningur. Í hans huga næði hugtakið fjölskylda bara yfir dætur hans og Dorrit, ekki foreldra og systur eiginkonu hans. Þess vegna hafi hann ekkert logið. Þessi skýring minnir óneitanlega á eftiráskýringar annars og valdameiri forseta fyrir 18 árum síðan á því hvers konar kynferðislegt athæfi teldist vera „kynmök“ (e. sexual relations) og hvað ekki.
Ólafur Ragnar fullyrti líka, með áður vel þekktri vissu þess sem telur sig alltaf vita betur en allir aðrir, að umfjöllun Suddeutche Zeitung (eitt stærsta dagblað Þýskalands), The Guardian (eins stærsta enskumælandi fjölmiðils heims) og Le Monde (stærsta dagblaðs Frakklands) um aflandsfélagaeign fjölskyldu forsetafrúarinnar hefði engin neikvæð áhrif á ímynd Íslands í útlöndum. Það er álíka fjarstæðukennd fullyrðing og að halda því fram að aflandsfélagaeign Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og taugaáfallið sem nánast öll heimsbyggðin fylgdist með honum í beinni rata í í kjölfarið, hefði ekki haft nein áhrif á ímynd Íslands utan landssteinanna.
Allir útlendingar, hvort sem þeir eru blaðamenn eða vinir, sem ég hef rætt við undanfarinn rúman mánuð hafa þá mynd af Íslandi að hér sé eitthvað í grundvallaratriðum að. Hér séu allar forsendur til þess að byggja upp allsgnægtarsamfélag sem allir landsmenn og enn fleiri til geti þrifist vel í. Af einhverjum ástæðum höfum við þó eytt síðustu árum í að vera a) þekkt fyrir að hafa alið af okkur einhverja glæfralegustu og vanhæfustu bankamenn sem sagan hefur augum litið og b) að vera Evrópu-, Ólympíu- og heimsmeistarar í að eiga aflandsfélög miðað við höfðatölu. Fyrir þessa skrýtnu valdaelítu, sem margir ráðamenn þjóðarinnar tilheyra, erum við þekktust. Jú, og frábæra tónlistarmenn.
Varðmenn kerfis sem mismunar
Það er auðvitað lýðræðislegur réttur Ólafs Ragnars að draga þjóðina á asnaeyrum áfram og láta sem ekkert sé athugavert við þá stöðu sem er uppi. Það breytir því ekki að allt er athugavert við hana. Hún opinberar að í landinu búa tvær þjóðir. Sú sem tengist aflandsfélögum og vistar ýmsar eignir í þeim vegna skattahagræðis eða leyndarávinnings, og hin. Ólafur Ragnar tilheyrir þeirri fyrri. Þorri Íslendinga hinni síðari.
Ólafur Ragnar er því frambjóðandi elítunnar. Þeirra sem vilja viðhalda valdaójafnvægi í samfélaginu með þeim hætti að fáir menn, í krafti óbilandi trúar á eigin yfirburði, ráði sem mestu. Þeirra sem standa varðstöðu um óbreytt kerfi gríðarlegrar misskiptingar auðs, áhrifa og valda. Þeirra sem reka pólitík sem gengur út á að ala á hræðslu við hið óþekkta til að réttlæta eigin tilveru.
Þeirra sem líta á sig sem lausnina, en eru í raun vandamálið.