Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð um helgina fyrstur stjórnmálaleiðtoga til að opinbera áherslur síns flokks í kosningunum sem fyrirhugaðar eru í október. Í þættinum Sprengisandi sagði hann að Sjálfstæðisflokkurinn myndi í fyrsta lagi beita sér fyrir áframhaldandi stöðugleika í landinu og að ríkið yrði rekið með ábyrgum hætti. Það yrði einnig passað upp á að kerfum yrði ekki kollvarpað og að staðið yrði gegn því að ný stjórnarskrá myndi verða tekin upp.
Í öðru lagi sagði Bjarni að flokkurinn ætlaði sér að koma betur til móts við ungt fólk á Íslandi, sérstaklega í húsnæðismálum, þótt að ungt fólk hefði reyndar aldrei haft það betra. Í þriðja lagi ætlaði flokkurinn að beita sér í velferðar- og heilbrigðismálum í breiðum skilningi.
Þótt yfirlýsing Bjarna hafi fallið er í skugga þeirrar ótrúlegu atburðarásar sem varð í forsetaframboðsmálum á síðustu dögum er hún samt sem áður stórmerkileg.
Stöðugleikinn í efnahagsupprisu
Það er rétt að efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið mjög vel og því hljómar ekki óskynsamlega að veðja á stöðugleika sem kosningarvopn. Við höfum risið upp úr öskutónni í mjög góða efnahagslega stöðu. Sú endurreisn byggir á þrennu:
Í fyrsta lagi því að síðustu þrjár ríkisstjórnir hafa komist upp með að taka fordæmalausar ákvarðanir sem alþjóðasamfélagið hefur viðurkennt og/eða sætt sig við. Þessar ákvarðanir hafa skilað háum einskiptistekjum á borð við arðgreiðslur úr bönkum, tekjum vegna sérstakra bankaskatta og stöðugleikaframlaga. Þetta eru hins vegar ekki sjálfbærar tekjur sem við getum treyst á til framtíðar.
Í öðru lagi vegna þess að gjaldeyristekjur hafa margfaldast, annars vegar vegna þess að fjöldi ferðamanna hefur aukist um 800 þúsund frá árinu 2008 - farið úr 472 þúsund í 1.261 þúsund – og hins vegar vegna þess að landhelgi okkar fylltist af makríl. Báðar breyturnar eru frábærar fyrir Ísland en hvorug er þess eðlis að ríkisstjórnir, núverandi eða fyrrverandi, geti eignað sér tilurð þeirra. Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði, sagði nýverið í sjónvarpsþætti á Hringbraut að heppni útskýrði hagvöxt á Íslandi á undanförnum árum.
Í þriðja lagi ríkir hér efnahagslegur stöðugleiki vegna þess að við erum með mjög sterk fjármagnshöft. Höft sem stór hluti þjóðarinnar, sá sem fær borguð laun í krónum og á ekki fjármunaeignir erlendis, þarf að lifa við. Höftin hafa gert það að verkum að hægt er að handstýra gengi gjaldmiðilsins og mun auðveldara er að láta stýritæki Seðlabankans halda niðri verðbólgu. Hin lága verðbólga er reyndar fyrst og síðast vegna utanaðkomandi þátta –að mestu hruns á verði olíu á heimsmarkaði – en ekki vegna hagstjórnar innanlands, enda er undirliggjandi innlend verðbólga að jafnaði fjögur til fimm prósent.
Ofangreint sýnir því að það er ekki undirliggjandi valdakerfi íslensks samfélags sem hafa orsakað þann efnahagsbata og stöðugleika sem Íslendingar búa við í dag. Og þegar höftum verður lyft að einhverju leyti kemur í ljós hversu vel kerfi samfélagsins, sem hefur nánast ekkert verið breytt frá því fyrir hrun, þola frelsið.
Afleiðing pólitískra ákvarðana
Í öðru lagi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að mæta ungu fólki, og taka sérstaklega á stöðu þess á húsnæðismarkaði. Þetta vilyrði vekur upp mjög gilda spurningu um hvað sé orsök og hvað sé afleiðing.
Ungt fólk á sannarlega erfitt með að koma undir sig fótunum í samfélaginu í dag. Það á mjög erfitt, án aðgangs að meðgjöf fjölskyldu eða velgjörðarmanna, með að eignast eigið húsnæði. Það hefur líka setið eftir í kaupmáttaraukningu undanfarinna áratuga sem gerir því enn erfiðara fyrir að greiða fyrir húsnæði á mun dýrari leigumarkaði. Ein ástæða þess að kaupmáttaraukning þeirra er minni en annarra er sú að menntun er ekki metin til launa á Íslandi á sama hátt og á öðrum Norðurlöndum. Við rekum auðlindadrifið hagkerfi, ekki mannauðsdrifið, og hvatar kerfisins sem er við lýði taka allir mið af því. Þótt ungt fólk sé alltaf að mennta sig meira og meira þá hefur það lítil sem engin áhrif á buddu þess. Hagkvæmast væri að fara að vinna í auðlindatengdum atvinnuvegi strax eftir grunnskóla. Það myndi skila betri bókhaldslegri niðurstöðu úr lífinu.
Ef við horfum afmarkað á stöðuna á húsnæðismarkaði þá er hún afleiðing af pólitískum ákvörðunum síðustu ríkisstjórna. Í fyrsta lagi er hún afleiðing af því að ferðamönnum hefur fjölgað mun meira en gistirýmum til að hýsa þá. Vegna þessa hefur orðið gullgrafaraæði í útleigu íbúðahúsnæðis til ferðamanna og stjórnvöld eftirhrunsáranna hafa lítið sem ekkert gert til að stemma stigu við þeirri þróun með laga- eða reglusetningu sem takmarkar slíka útleigu. Það var pólitískt val að láta hlutina þróast með þeim hætti, ekki einhverskonar óumflýjanleiki. Bæði vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og núverandi samsteypustjórn bera ábyrgð á þessu ástandi.
Í öðru lagi hefur haftaumhverfið gert það að verkum að fjárfestar hafa í mjög auknum mæli fjárfest í íbúðarhúsnæði, bæði vegna þess að það hefur reynst afar arðbært og vegna þess að skortur hefur verið á fjárfestingatækifærum innan hafta. Sumir þeirra hafa komið með háar fjárhæðir utan frá í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og þar með fengið 20 prósent afslátt á eignunum sem þeir kaupa. Þetta er stóreignafólk sem á fjármunaeignir á erlendum bankareikningum og algjör leynd hvílir yfir því hvaða fólk það er sem nýtti sér þessa leið til að hagnast mjög á íslenskum aðstæðum. Þessi leið var sett upp í tíð vinstristjórnarinnar.
Í þriðja lagi ákvað sitjandi ríkisstjórn að greiða hluta þjóðarinnar, mest megnis eldra fólki sem átti þegar eignir, 80 milljarða króna í skaðabætur vegna verðbólguskots sem varð á árunum 2008 og 2009. Verðbólguskots sem markaðurinn var þegar löngu búinn að leiðrétta þegar leiðréttingarpeningarnir voru greiddir úr ríkissjóði. Þessi aðgerð, sem var pólitískt valkvæð, hafði gríðarleg ruðningsáhrif á húsnæðismarkaðinn. Frá byrjun árs 2011 og til loka síðasta árs hækkaði húsnæðisverð um 50 prósent. Spár gera ráð fyrir að það muni hækka um 30 prósent til loka árs 2018. Það þýðir að verð á íbúðum mun tvöfaldast á átta ára tímabili, og sú upphæð sem ungt fólk þarf a) að eiga í útborgun og b) að taka að láni hækkar í takti við það.
Vandamálið sem blasir við ungu fólki á húsnæðismarkaði í dag er því heimatilbúið. Það er afleiðing af pólitískri stefnu þeirra sem ætla nú að móta pólitíska stefnu til að leysa það.
Vilja gera við bílinn sem þau klesstu
Í þriðja lagi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að setja velferðar- og heilbrigðismál á oddinn. Meðal annars málefni þeirra sem lifa á bótum. Og það er algjörlega óhætt að segja að þessir málaflokkar hafi setið á hakanum frá hruni.
Sú þjónusta sem íslenskir launamenn greiða fyrir með sköttunum sínum hefur hrakað á vakt síðustu tveggja ríkisstjórna. Og fyrir því finnur almenningur tilfinnanlega. Í bættri velferðarþjónustu felast mjög aukin lífsgæði fyrir flesta Íslendinga sem hafa ekki tækifæri til að kaupa þau lífsgæði með uppsöfnuðum auði.
Þessi skerta þjónusta er ekki bundin við þá málaflokka sem ríkið heldur á, sem eru almannatryggingakerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Hún er líka á forræði sveitarfélaganna, sem eru mörg hver ekki lengur í stöðu til að halda uppi því þjónustustigi í grunnskólum, leikskólum, í umönnun fatlaðra eða í þjónustu við aldraða sem ætlast er til vegna tekjuskorts.
En, líkt og með húsnæðiskerfið, þá var það pólitískt val að forgangsraða ekki meira í þágu velferðarkerfisins. Sérstaklega á síðustu árum þegar afgangur hefur verið af ríkisrekstri. Og því er dálítið ódýrt að ætla að lofa fyrir næstu kosningar að gera við bílinn sem þú klesstir sjálfur.
Kerfin sem skapa sundurlyndið
Öll ofangreind kerfi eru hluti af þeirri heild sem Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn ætla að sjá til þess að verði ekki kollvarpað. Fyrsta kosningamál flokksins verður varðstaða um þessi kerfi. Þau ríma mjög vel við þær áherslur sem fyrrum formaður flokksins sem nú sækist eftir því að verða forseti ætlar að leggja til grundvallar sínu framboði. Þar er kerfisvörn og andstaða við nýja stjórnarskrá ráðandi tónn.
Þessi kerfi sem mönnunum er svo umhugað að verja eru kerfi sem þrifast á mikilli misskiptingu auðs, tækifæra, lífsgæða og valds. Kerfi sem almenningur hefur aldrei treyst jafn illa sem stýrt er af stjórnmálamönnum sem almenningur ber lítið traust til. Kerfi sem er að mörgu leyti ástæðan fyrir tortryggninni og sundurlyndinu sem er í íslensku samfélagi, ekki límið sem heldur því saman.
Um þetta verður kosið í komandi forsetakosningum og komandi þingkosningum. Um hvort við viljum viðhalda gömlu valdakerfunum sem mismuna gríðarlega, eða hvort við viljum ný og réttlátari kerfi.