Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis voru lagðar fram ábendingar um að gera þyrfti ráðstafanir til að styrkja stöðu fjölmiðla gagnvart misnotkun eigenda sinna. Reynslan af fyrri tíð hefði sýnt að þetta yrði að gera.
Í ljósi þess lagði Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, fram frumvarp um lög um fjölmiðla árið 2011. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu kemur bersýnilega í ljós að eitt helsta markmið þeirra var að fyrir lægi á hverjum tíma hverjir „séu eigendur fjölmiðlanna á hverjum tíma til að almenningur geti lagt mat á hvort þeir dragi taum eigenda sinna“. Þar sagði einnig að „reglur um gagnsæi eignarhalds auðvelda almenningi að fá upplýsingar um eigendur einstakra miðla og hversu mikilla hagsmuna þeir eiga að gæta í miðlunum. Gagnsæi í eignarhaldi er nauðsynlegt til að almenningur geti tekið afstöðu til ritstjórnarstefnu og efnis miðlanna.“
Þegar lögin voru samþykkt síðar sama ár innihéldu þau meðal annars ákvæði sem sagði að „skylt er að veita fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo að rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar.“
Í 22. grein laganna er fjallað um tilkynningarskyldu um eigendaskipti að fjölmiðlaveitu. Þar segir: „Við sölu á hlut í fjölmiðlaveitu bera seljandi og kaupandi ábyrgð á því að tilkynning um söluna sé send fjölmiðlanefnd. Tilkynning um söluna skal hafa borist fjölmiðlanefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings“. Í lögunum segir einnig að Fjölmiðlanefnd skuli leggja stjórnvaldssekt á bæði seljanda og kaupanda komi í ljós að þeir hafi vanrækt að tilkynna um eigendaskipti á hlut í fjölmiðli.
Af hverju er verið að rifja þetta upp? Jú, vegna þess að nokkur nýleg dæmi sýna að eigendur stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins virða hvorki þessi ákvæði né markmið laganna.
Eigandi segist ekki eiga en er samt skráður eigandi
Þann 8. maí átti ég samskipti við hæstaréttarlögmanninn Sigurð G. Guðjónsson á samfélagsmiðli. Samskiptin voru opinber. Sigurður er samkvæmt heimasíðu Fjölmiðlanefndar skráður sem eigandi að tíu prósent hlut í Pressunni ehf. sem á m.a. 84,23 prósent hlut í DV ehf. Þær upplýsingar voru síðast uppfærðar 12. janúar 2016. Í samskiptum við mig sagðist Sigurður hins vegar alls ekkert eiga þennan hlut heldur hafi verið „óskað eftir aðstoð minni við að innheimta skuld sem Reynir Traustason og félög á hans vegum höfðu stofnað til við aðila og sett hlutabréf sín að veði. Það tókst og ég afhenti umbjóðanda mínum hlutina. Hvað hann gerði við þá eftir það hef ég bara ekki hugmynd." Fjölmiðlanefnd hefur verið gerð grein fyrir þessum samskiptum.
Nú, tólf dögum síðar, hafa ekki orðið neinar breytingar á skráðu eignarhaldi í einu stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, þrátt fyrir að einn hinna skráðu eigenda segi sjálfur að skráningin sé ekki rétt.
Í lögum um fjölmiðla segir að skylt sé að veita upplýsingar um „eignarhald og/eða yfirráð“ til einstaklinga eða almennra félaga. Lögin áttu því ekki einungis að upplýsa um þá sem skráðir voru fyrir eignarhlutum heldur líka þeirra sem hafa óbein yfirráð yfir miðlunum. Þar sem um ný lög var að ræða, og Fjölmiðlanefnd var ný stofnun sem gert var að fylgja þeim eftir, þá var það túlkunum hennar undirorpið hvað teljist yfirráð. Það virðist vera sem að nefndin hafi kosið að túlka það ansi þröngt.
Það vita allir sem komið hafa að fjölmiðlarekstri að það standa ekki bankar í röðum til að lána peninga í slíkan. Nánast undantekningarlaust hafa fjölmiðlar verið reknir með tapi. Við hjá Kjarnanum þurftum til að mynda að gangast í persónulegar ábyrgðir hjá viðskiptabanka okkar fyrir tryggingarvíxli sem lagður var fram vegna húsaleigu. Hann var upp á nokkur hundruð þúsund krónur. Langt er síðan að við áttuðum okkur á því að enga fjárhagslega fyrirgreiðslu er að fá fyrir fyrirtæki eins og okkar hjá bankakerfinu, enda skuldar Kjarninn ekkert.
Þá má færa sterk rök fyrir því að það felist yfirráð í að lána fé til fjölmiðlafyrirtækja. Ef lánin eru eðlileg hljóta þau nefnilega að vera með veði í viðkomandi fjölmiðli. Í tilfelli 365 miðla, stærsta einkarekna fjölmiðils landsins, var til að mynda greint frá því í fréttatilkynningu í nóvember fyrra að fyrirtækið hefði flutt bankaviðskipti sín frá Landsbankanum til Arion banka. Það var heiðarleg framsetning á upplýsingum.
Þetta er nefnt vegna þess að skuldir Pressunar ehf., sem á 84,23 prósent í DV, jukust úr tæpum 69 milljónum króna í 271,7 milljónir króna á árinu 2014. Félagið, sem er að stærstum hluta í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar, eignaðist ráðandi hlut í DV seint á því ári. Í ársreikningi Pressunnar fyrir árið 2014 kemur ekki fram hverjir lánveitendur félagsins eru né hvenær lán þess eru á gjalddaga.
Engar opinberar upplýsingar eru til um hvaðan umrædd lán komu að öðru leyti en það að Björn Ingi hefur upplýst um að hluti af kaupverðinu á DV hafi verið greitt með seljendaláni frá þeim sem breyttu kröfum sínum í hlutafé í miðlinum þegar hann var tekinn yfir haustið 2014. Hann hefur ekki viljað svara því nánar hvernig kaupin á DV voru fjármögnuð að öðru leyti og Fjölmiðlanefnd hefur ekki séð ástæðu til þess að leita upplýsinga um það.
Valkvætt að fylgja lögum?
Hitt dæmið sem sýnir að lög um fjölmiðla eru virt að vettugi snýr að nýlegri hlutafjáraukningu í 365 miðlum. Í lok síðasta árs, nánar tiltekið á gamlársdag, var samþykkt hlutafjáraukning í stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 miðlum. Þá skráðu þrír aðilar sig fyrir nýju hlutafé og borguðu samtals 550 milljónir króna fyrir. Tveir þeirra eru félög í eigu núverandi meirihlutaeiganda 365 miðla, Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, og eitt félagið, sem skráð er í Lúxemborg, er í eigu Sigurðar Bollasonar.
Það er auðvitað ekkert athugavert við það að fjárfesta í fjölmiðlum. Það mættu sem flestir gera. Það sem vakti hins vegar athygli var að þótt hinir nýju eigendur hefðu skráð sig fyrir hlutafénu í lok síðasta árs, og að hún hafi verið tilkynnt til fyrirtækjaskráar 26. febrúar 2016, var ekki enn búið að tilkynna um þessa breytingu á eigendahópnum til Fjölmiðlanefndar í lok apríl, þegar Kjarninn fjallaði um málið. Það var gert í kjölfar þeirrar umfjöllunar en hlýtur að vera í andstöðu við ákvæði laga um fjölmiðla sem segir: Tilkynning um söluna skal hafa borist fjölmiðlanefnd innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings“. Ekki er að sjá að Fjölmiðlanefnd hafi brugðist með neinum hætti við þessari stöðu.
Lög eiga að gilda jafnt um alla
Ráðamenn tala mikið um það á tyllidögum hversu mikilvægt það sé að vera með sterka fjölmiðla. Að þeir séu lýðræðinu nauðsynlegir. Það að reka fjölmiðil í örsamfélagi eins og því íslenska er hins vegar fullkomlega galið, þótt það sé líka afar gefandi.
Rekstrarskilyrðin eru afar erfið, vegna fámenns markaðar sem talar sitt eigið tungumál og vegna þess að frændhyglin íslenska lætur oft á sér kræla þegar kemur að notkun á auglýsingafé, stærstu rekstrarstoð íslenskra fjölmiðla. Auk þess niðurgreiðir hið opinbera annars vegar RÚV með beinum framlögum þrátt fyrir að fyrirtækið sé líka á auglýsingamarkaði og hins vegar valda einkafjölmiðla með því að beina auglýsingatekjum til þeirra. Þetta á bæði við um ríki og borg.
Þá er áhugi valdamikils og efnaðs fólks sem vill hafa áhrif á stjórnmál, dómskerfið og atvinnulífið á því að eiga fjölmiðla ekkert leyndarmál. Áhrif þess sjást mjög vel á tímum sem þessum, þar sem tekist er á um völdin í samfélaginu.
Þetta er allt eitthvað sem maður lærir fljótt að eru staðreyndir í íslensku fjölmiðlaumhverfi og eitthvað sem maður verður að lifa með og keppa við, þótt þetta verði seint eitthvað sem hægt er að sætta sig við. En það sem er gjörsamlega óþolandi er þegar það eru sett lög í landinu sem öllum sem þau ná utan um er gert að fylgja, en valdir aðilar virðast ekki þurfa að gera það. Og það hefur engar afleiðingar.
Ef lögin eru ekki að virka þá er einungis tvennt í stöðunni, breyta þeim eða fella þau úr gildi. Því eins og er þá er hluti laga um fjölmiðla algjörlega marklaus og án tilgangs.