Ísraelska borgin Tel Aviv er oft kölluð „bubblan“ sökum þess að þeir sem í henni búa hafa oftast nær ekki fundið beint fyrir þeim mikla ófrið sem geisar milli Ísrael og Palestínu. Í lok síðasta árs birti The New York Times til dæmis stóra umfjöllun um borgina þar sem ferðamenn voru hvattir til að heimsækja hana. Borginni var lýst sem opinni og veraldlegri þar sem samfélag hinsegin fólks væri fyrirferðarmeira í umræðunni en hin flóknu stjórnmál svæðisins. Í Tel Aviv væru 300 sólardagar á ári, frábærir barir, næturklúbbar og veitingastaðir á heimsmælikvarða. Aðrir Ísraelar sem lifa fyrir báráttuna um stærra og meira Ísrael nota „bubblu“ hugtakið til að lýsa Tel Aviv-búum með neikvæðum formerkjum. Þeim finnst landar sínir í partý-sólinni einbeita sér um of af því að skemmta sér í stað þess að taka þátt í alvarleika hversdagsins.
Að vera á EM í Frakklandi er eins og að vera í íslenskri „bubblu“. Hún er auðvitað ekkert eins og sú ísraelska, þar sem íbúar hennar aftengja sig við dagleg morð og önnur ömurlegheit sem fylgja þeirra aðstæðum. Í íslensku EM „bubblunni“ eru hins vegar tæplega tíu prósent þjóðarinnar vinir og með skýrt sameiginlegt markmið, að Íslandi gangi vel í fótbolta. Við slíkar aðstæður er mjög auðvelt að gleyma íslenskum umræðu- og hugmyndafræðiátökum sem vanalega heltaka mann daglega, og sjúga oftar en ekki úr manni alla gleði.
Siggi var einn í heiminum
En það er auðvitað internet í „bubblunni“, og þegar stund er milli stríða þá er erfitt að komast hjá því að reka augun í fréttir og myndir af forsætisráðherra flytja ræðu fyrir erlenda sendimenn, víggirtur frá fólkinu sem hann þjónar. Aleinn á Austurvelli eins og Palli var í heiminum.
Þessi mynd sýnir betur en flest annað hvers konar gjá er orðin til milli valdastéttarinnar á Íslandi og þjóðarinnar. Hún á sér auðvitað margar aðrar birtingarmyndir sem hægt væri að tíunda, en ljósmynd segir oft meira en þúsund orð.
Á internetinu var líka hægt að lesa um að forseti Íslands, og orðuveitinganefnd embættis hans, hefði hengt nýjasta knippi af fálkaorðum á fólk. Á meðal þeirra sem fengu slíka var Katrín Pétursdóttir, Kata í Lýsi. Hún var sæmd orðunni fyrir „störf á vettvangi íslensks atvinnulífs“. Það kom reyndar ekki fram hvort það væri fyrir það að hafa ekki greitt neitt af 2,9 milljarða kröfum í bú félags síns sem einu sinni átti Lýsi, hvort það væri fyrir að hafa selt fyrirtækið sitt til Guðbjargar Matthíasdóttur daginn eftir neyðarlögin, sem svo seldi henni það aftur þegar „rétti“ tíminn var kominn eða hvort það væri fyrir að kaupa hlut í Morgunblaðinu á tímum þar sem milljarðameðgjöf þarf til að halda því vopnabúri gangandi. Kannski fékk hún orðuna fyrir að ganga í störf verkamanna í Straumsvík þegar þeir háðu verkalýðsbaráttu gegn alþjóðlegu stórfyrirtæki. Nú eða fyrir að segja að Íslendingar væru svo leiðinlegir að vera alltaf að kvarta, sérstaklega yfir viðskiptalífinu.
Geir Waage fékk líka fálkaorðu. Hann fékk hana þó ekki fyrir ötula baráttu gegn mannréttindum samkynhneigðra. Hann fékk hana ekki fyrir þá skoðun sína að þagnarskylda presta sé ofar landslögum og því beri þeim ekki að tilkynna um kynferðisbrot sóknarbarna sinna, ekki einu sinni gagnvart börnum. Geir fékk hana heldur ekki fyrir að berjast gegn fóstureyðingum og yfirráðarétti kvenna yfir eigin líkama. Nei, hann fékk hana fyrir „framlag til uppbyggingar Reykholtsstaðar og varðveislu íslenskrar sögu og menningar“.
Þegar ég renndi yfir listann yfir orðuhafa beið ég hálfpartinn eftir því að tilkynnt væri um að Sigurður Einarsson myndi fá sína aftur.
Það er við svona aðstæður sem tímabært var að hverfa aftur inn í „bubbluna“. Og slökkva á internetinu.
Þegar manni líður eins og maður sé í Keflavík
Leikurinn við Portúgal í St. Etienne var ákveðið klímax. Þar gekk allt upp. Aðdragandinn var stórkostlegur, stuðningsmennirnir urðu heimsfrægir á svipstundu og liðið lék stórkostlega. Við vorum mætt og tilkynntum það með mögnuðum hætti.
Niðurstaðan var 1-1 sigur og eftirmálarnir m.a. þeir að risastór beygla hefur myndast á ímynd hins algjörlega óþolandi Christiano Ronaldo, sem má alls ekki rugla með neinum hætti saman við hinn eina sanna Ronaldo, þann feita.
Maður fékk það eiginlega á tilfinninguna strax og komið var inn til Marseille að hér væri eitthvað annað á seyði. Fanzone-in, sem hýsa stuðningsmenn fyrir leik á meðan þeir vökva sig í gang, voru mun síðri. Auk þess var hvasst. Svo hvasst að ef maður lokaði augunum gat maður auðveldlega ímyndað sér að maður væri staddur á bílastæði í Keflavík en ekki í hafnarborg í Suður-Frakklandi. Íslendingarnir voru líka sýnilega „veðraðari“. Þ.e. gleðin, sumblið og ferðalögin voru sýnilega farin að taka toll af ýmsum.
Það var þó bjartsýni í loftinu þegar um níu þúsund Íslendingar fóru að streyma í átt að hinum glæsilega Velodrome-velli eftir einni breiðgötu borgarinnar. Þrátt fyrir að Ungverjar hefðu óvænt unnið Austurríki í fyrsta leik voru þeir taldir eitt slakasta lið mótsins fyrirfram, ásamt okkur auðvitað. Og þrátt fyrir fregnir um að 21 þúsund Ungverjar ætluðu að mæta á völlinn þá var sá fjöldi hvergi sjáanlegur. Þeir þaðan sem höfðu dúllað sér með Íslendingunum í Fanzone-inu virtust flestir vera hresst fjölskyldufólk að taka selfies. Ástæðan var ekki sú að það væri ekkert neinir Ungverjar hérna, þeir voru bara langflestir annarsstaðar.
Hörðustu stuðningsmenn þeirra höfðu lagt undir sig gömlu höfnina í Marseille, vígvöllinn þar sem stuðningsmenn Englendinga og Rússa tókust svo ömurlega á í fyrstu umferð mótsins. Þúsundir þeirra stilltu þar saman strengi og Íslendingar voru sérstaklega varaðir við af embætti Ríkislögreglustjóra að fara ekki inn í hverfið í gær. Þá voru skilaboð látin ganga um að ekki ætti að reyna að eiga neitt samneyti við þá stuðningsmenn Ungverja sem klæddust svörtu. Það varð ljóst þegar á völlinn kom hvað lá að baki þeim meldingum.
Nína á ungversku?
En fyrst að skipulagi. Þótt langflestir Íslendinganna hefðu verið komnir á völlinn klukkutíma fyrir leik gekk afleitlega að koma þeim inn. Þegar ég settist í blaðamannastúkuna þá blöstu við troðfull ungversk svæði en þau íslensku voru hálftóm. Og þannig voru þau fram að þjóðsöng. Seinna kom í ljós að læti í ungversku stuðningsmönnunum – þeir slógust við vallarverði fyrir leik – og sú staðreynd að hluti þeirra kom sér fyrir í einu íslenska hólfinu hefði gert það að verkum að ákveðið hefði verið að hefta innflæði íslenskra. Þetta var enn eitt dæmið um afleita skipulagningu á þessu móti.
Búið var að gefa það út að „Ferðalok“ yrðu sungin 45 mínútum fyrir leik. Þetta átti að vera mikill viðburður þar sem um ungverskt þjóðlag er að ræða, sem Íslendingar eru búnir að gera að sínu. Helgispjöll líkt og Ungverjar myndu syngja „Draum um Nínu“ með nýjum ungverskum texta. Þegar lagið fór í gang voru hins vegar bara örfáir Íslendingar komnir inn á völlinn. Niðurstaðan varð því hjákátleg, enda þorri Íslendinganna í kös fyrir utan fram að því að leikurinn var flautaður á. Og sumir komust ekki inn fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleik.
Ungversku stuðningsmennirnir voru allt annar tebolli en þeir portúgölsku sem Íslendingar jörðuðu fyrr í vikunni. Þeir voru fleiri, agaðri, samstilltari, háværari og miklu, miklu, miklu ógnvænlegri. Á meðan að íslensku áhorfendurnir biðu fyrir utan völlinn voru gallharðir, hermannalegir Ungverjar að dunda sér við að berja vallarverði. Það kom þó fljótt í ljós að þeir kunnu ýmislegt annað fyrir sér, því ef maður á að vera alveg heiðarlegur þá mættu íslensku stuðningsmennirnir algjörum ofjörlum sínum. Þetta var eins og leikur barns við veðurbarinn málaliða. Gríðarleg læti, blys, fasistakveðjur og handahreyfingar sem minntu helst á hlátur á táknmáli voru meðal þess sem boðið var upp á. Í hvert sinn sem íslensku stuðningsmennirnir reyndu að keyra eitthvað í gang, yfirgnæfðu Ungverjarnir þá. Það voru ekki bara Íslendingarnir sem voru smeykir við þessa hermenn. Skipuleggjendur voru það líka, enda var nær öll gæslusveit vallarins færð yfir til Ungverjanna. Það var enginn að passa upp á hressu Íslendinganna.
Kiraly tekur, en hann gefur líka
Byrjunarlið Íslands var óbreytt, eins og við var að búast. Enda frammistaðan síðast stórkostleg. En það var alltaf ljóst að þetta yrði öðruvísi fótboltaleikur. Í BBC-hlaðvarpinu sem við hlustuðum á við keyrsluna á leikinn var þulin upp tölfræði um að sá leikmaður í íslenska liðinu sem hefði átt flestar sendingar á móti Portúgal hefði átt 18 slíkar. Pepe, hinn óþolandi hafsent Portúgala, átti 71.
Pressan á liðinu var líka allt önnur. Nú voru raunverulegar væntingar, ekki bara óskhyggja. Og þessar væntingar voru ekki bara á meðal íslenskra stuðningsmanna, heldur hjá öllum hinum í heiminum sem tóku ástfóstri við þetta Norðurslóðaundur eftir leikinn gegn Portúgal.
Mér fannst íslenska liðið ná fínum tökum á leiknum strax frá byrjun. Þeir þurftu ekki endilega alltaf að vera með boltann en notuðu hann vel þegar þannig var. Skipulagið var til fyrirmyndar og ungverska liðið náði ekki að skapa sér nein færi. Ragnar Sigurðsson, sem er eins og marmarastytta af einhverri norrænni goðsögn, fór fremstur í að hindra það. Hann var stórkostlegur í þessum leik. Gerði nær allt rétt. Tæklaði, stoppaði, skallaði og hamraði boltann upp í röð Z þegar tilefni var til.
Íslenska liðið var að leika mun framar á vellinum en á móti Portúgal, og skapaði sér tvö dauðafæri í fyrri hálfleik þegar fyrst Jóhann Berg Guðmundsson og svo Kolbeinn Sigþórsson komust einir í gegn. Í bæði skiptin varði hinn skrautlegi, og fertugi, Gabor Kiraly, íklæddur náttbuxunum sínum, mjög vel. En þessi aldna goðsögn tók og hann gaf.
Tæpum fimm mínútum fyrir leikhlé missti hann klaufalega fyrirgjöf og henti sér inn í Ragnar Sigurðsson í kjölfarið. Boltinn skoppaði þaðan á Aron Einar Gunnarsson sem var líka felldur. Ég veit ekkert á hvaða brot dómarinn var að dæma – nóg var framboðið – en niðurstaðan var dásamleg: víti.
Gylfi setti boltann ískaldur í vinstra hornið fyrir framan sturluðu ungversku stuðningsmennina og þar með bætti Ísland enn eitt metið. Við erum nú minnsta þjóð í sögu lokamóts til að komast yfir.
Allt breyttist með brotthvarfi Arons
Fyrri hluti síðari hálfleik var síðan alveg eftir handritinu. Kolbeinn Sigþórsson fékk dauðafæri strax í byrjun hans sem hefði átt að klára leikinn, en skallaði yfir. Hann hafði, líkt og á móti Portúgal, unnið nær alla skallabolta sem hann fór upp í. Vandamálið var, líkt og á móti Portúgal, að við unnum nær aldrei seinni boltann.
Ungverjar sköpuðu sér engin færi, þótt þeir væru meira með boltann. En á 65. mínútu breyttist leikurinn.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, stífnaði í bakinu og þurfti að fara út af. Inn á kom Emil Hallfreðsson og við þetta var eins og að leikur íslenska liðsins umbreyttist til hins verra. Liðið fór að gefa frá sér boltann við hvert tækifæri á verri og verri stöðum og umsátur Ungverja, bæði á vellinum og í stúkunni, þyngdist og þyngdist. Eina jákvæða sem gerðist hjá íslenska liðinu á síðustu mínútunum var þegar Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á. Loksins kominn á EM, rétt tæplega 38 ára. Íslensku stuðningsmennirnir sturluðust af gleði. Ég fékk stundarofskynjun um að kannski væri þetta ekki of seint fyrir mig. Ég er enda tveimur árum yngri en Eiður og HM í Rússlandi er eftir tvö ár. Það sem vantaði auðvitað inn í þessa breytu er að hann er besti leikmaður Íslandssögunnar, en ég get ekkert. Og hef aldrei spilað alvöru fótbolta.
1-1 tap
Það verður að viðurkennast að ég beið bara eftir jöfnunarmarki Ungverja. Óöryggið í íslenska liðinu var það mikið undir það síðasta að það virtist nær óumflýjanlegt. Ungversku hermannabullurnar gjörsamlega biluðust þegar slysalegt, og óþarft, sjálfsmarkið varð. Blys voru tendruð, bolir rifnir af, einhvers konar sprengjur sprengdar. Ástandið minnti meira á Evrópumótið í stríði með frjálsri aðferð en fótbolta. En þetta mun líklega ekki hafa nein áhrif, frekar en dólgslætin í Rússum, Englendingum og Króötum. Engin stig dregin af, enginn sendur heim. Og ruglið mun því halda áfram í boði gerspilltu peningavélarinnar UEFA.
Íslendingar fengu einn lokaséns. Aukaspyrnu á vítateigslínunni sem helvítis Rússinn með flautuna hefði alveg mátt breyta í víti, en kaus að gera ekki. Gylfi Sigurðsson er afburða spyrnumaður sem hefur skorað tugi marka með því að snúa boltanum yfir varnarveggi. Í þetta skiptið kaus hann að reyna að setja boltann undir vegginn, með engum árangri.
Upp úr þessu spruttu hins vegar aðstæður sem hefðu átt heima í kvikmyndahandriti, hefðu þær gengið upp. Boltinn barst af veggnum til Eiðs Smára sem náði markbundnu skoti. Tíminn hægði á sér og ég var farinn að sjá fyrir mér fyrirsagnirnar í erlendu fjölmiðlunum um öldnu hetjuna sem tryggði Ísland áfram á stórmóti í fyrsta sinn. En svo henti einhver Ungverji sér fyrir skotið og leikurinn var flautaður af í kjölfarið. 1-1 tap niðurstaðan.
Lífið í „bubblunni“
Þetta var and-klímax. Íslensku leikmennirnir sátu eftir á vellinum niðurbrotnir á meðan að Ungverjar fögnuðu eins og þeir hefðu sigrað EM. Hugarfar smælingjans myndu einhverjar sólbrúnar auglýsingaverur með skrýtna hálsvöðva segja.
Í ljósi þess að Ísland er eina taplausa liðið á lokamóti EM frá upphafi þá er dálítið skrýtið að halda því fram að liðið og stuðningsmennirnir hafa nú upplifað bæði hæðir og lægðir þess að vera á stórmóti. En þannig er tilfinningin. Eftir að hafa sofið úr sér vonbrigðin áttar maður sig hins vegar á því að endapunkturinn á þessu ævintýri er enn í okkar höndum. Austurríkismenn eru að eiga slakt mót og fyrst Ungverjar unnu þá er ekkert sem segir að við getum ekki gert það líka. Niðurstaða gærdagsins er nefnilega sú að íslenska liðið er, heilt yfir, betra fótboltalið en það ungverska.
Áfram til Parísar til að klára það ætlunarverk. Og ef það tekst bíða stórþjóðir í 16 liða úrslitum. Bestu fótboltaþjóðir heims, á borð við Spán, Þýskaland eða England. Ljóst er að mikið verður að gera hjá íslenskum flugfélögum við að breyta miðum nokkur þúsund Íslendinga ef ætlunarverkið næst, með tilheyrandi afleiðingum fyrir atvinnulífið á Íslandi. Lífið í „bubblunni“ er nefnilega dásamlegt, gefandi og einfalt. Og það verður erfitt að stíga út úr henni þegar þessari vegferð lýkur.