Íslenska landsliðið í fótbolta hefur unnið hug og hjörtu fólks um allan heim með frammistöðu sinni á EM í Frakklandi, og hefur hið virta Washington Post, verið sérstaklega duglegt við að hrósa íslenska liðinu og Íslandi, fyrir magnaðan árangur. „Ekki slæmur árangur hjá þjóð sem er svipað fjölmenn og Riverside í Kaliforníu, eða Corpus Christi í Texas,“ segir í umfjöllun blaðsins, og vef þess.
Svipaða sögu er að segja af mörgum stærstu íþróttafjölmiðlum Bandaríkjanna, sem hafa bæði furðað sig á magnaðri frammistöðu Íslands, en um leið glaðst yfir árangri „litla liðsins“. Í umfjöllun ESPN í gær var sérstaklega tekið fram, að 57 borgir í Bandaríkjunum væru fjölmennari en Ísland. „Auðvelt er að heillast að þessu magnaða liði,“ bætti Michael Ballack, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Þýskalands, við en hann var að greina leik Íslands og Austurríkis hjá ESPN.
Eins og kunnugt er, mun Ísland mæta Englandi í 16 liða úrslitum EM, í Nice, á mánudaginn. Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, segist þekkja Lars Lagerback, annan tveggja landsliðsþjálfara Íslands ásamt Heimi Hallgrímssyni, og segir að hann undirbúi sín lið virkilega vel. Þá hafi Ísland náð framúrskarandi árangri í undankeppninni og í keppninni til þessa. „Þetta verður erfiður leikur og nú þurfum við að einbeita okkur að undirbúningnum, að mæta tilbúnir til leiks,“ sagði Hodgson í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC, í dag.
Leikreyndasti leikmaður Englands, Wayne Rooney, sem leikið hefur 114 landsleiki, segist hafa heillast af því sem hann sá til Íslands í undankeppninni. „Við þurfum að spila hratt, og nýta færin sem við fáum,“ sagði Rooney, og bætti við að hann bæri mikla virðingu fyrir Íslandi, og ótrúlegum árangri liðsins.
Þá hefur stórbrotin lýsing Guðmundar Benediktssonar á sigurmarki Íslands í gær, ratað í marga af helstu fréttatímum í útvarpi og sjónvarpi í Bandaríkjunum í dag, og hefur hann oftar en ekki fengið viðurnefnið „hamingjusamasti maður í heimi“.