Það skal viðurkennt að ég bæði dauðöfunda og finn til með þeim íslensku stuðningshermönnum sem eru núna að ferja sig þvert yfir Frakkland til Nice. Auðvitað vilja allir sem hafa tekið þátt í þessari ótrúlegu upplifun sem EM-ævintýri Íslands er vera hér áfram og klára mótið. En sársaukinn sem fylgir því að deila litlum vistaverum með þvölum, og sífullum vinum og/eða ættingjum með krónískar meltingatruflanir í enn eina vikuna er augljóslega farinn að taka sinn toll af ýmsum.
Menn (þessi tegund stuðningsmanna eru að langmestu leyti menn) sem maður hitti í St. Etienne ferska og sumarlega eru nú orðnir þrútnir og Breta-sólbrunnir með gleraugnaför. Menn sem eru rétt um þrítugt og uppúr líta allt í einu út fyrir að vera 65 ára. Ef maður rekst á þá að morgni þá sést tómleikinn í augunum og óveðurskýið hangandi yfir þeim. Líkamstjáningin segir: mig langar í heimilismat sem kostar ekki 20 evrur á túristabistro, mig langar að sofa í hreinu rúmi en ekki klesstur upp við loðna og aðeins of þunga ferðafélagann á ódýrasta hostelinu sem fannst í París, mig þyrstir í rútínu hversdagsins.
En eins og Big-Pete sagði í viðtali teknu á Ölveri við öðlinginn Roger Bennett þá er þetta stærsta víkingainnrás á meginland Evrópu síðan á elleftu öld. (Senuþjófnaður Big Pete er í lok myndbandsins).
Ef frá er skilin sú litla staðreynd að þessi innrás snýst ekki um morð, gripdeildir og kynferðisbrot heldur að öskra „ÁFRAAAM ÍÍÍÍSSSLAAAANNDDD“ þá er margt sameiginlegt með stuðningsmannahermönnunum og víkingum til forna. Á hverjum morgni galla þeir sig upp í súran búninginn, þröngva fyrsta drykknum inn í líkamann og ganga svo hreint til verka.
Snittur og gloryhunt
Það tók smá tíma að jafna sig á vonbrigðunum í Marseille. En það var líka eitthvað svo stórkostlegt við það að eiga „meik or breik“ í París á fimmta stærsta velli Evrópu um hvert framhald uppáhaldsfótboltaævintýris allra yrði. Ný sending af ferskum vinum og ættingjum var á leiðinni til að leggja sitt af mörkum og búist var við fleiri Íslendingum á leikinn gegn Austurríki en höfðu verið á hinum tveimur.
Eftir því sem árangur íslenska liðsins verður áþreifanlegri þá fjölgar viðhengjunum sem vilja gera hann að sínum. Og kjánalegu uppákomunum í kringum slíkt munu bara verða fleiri á næstunni. Sú fyrsta í keðju slíkra var sjónvarpað fyrirmannapartí við Signubakka þar sem Siggi Hall henti í snittur og elítan sem mætt er hingað til Frakklands gat skálað í kampavíni í friði frá skrílslátum íslenska bolsins. Það var 2007 í loftinu og maður fór ósjálfrátt að hugsa um hvernig heimkoma liðsins verður. Ef hún verður eitthvað í námunda við kjánahrollshryllinginn sem lending Silfurdrengjanna var eftir Ólympíuleikanna í ágúst 2008 þá getum við aðdáendur óþægilegra aðstæðna farið að hlakka til.
Öllum blazerum lagt
Vinur minn átti aukamiða á leikinn sem hann var tilbúinn að gefa mér og því ákvað ég að sitja með stuðningsmönnunum í þetta skiptið frekar en í blaðamannastúkunni. Það reyndist kórrétt ákvörðun, enda slíkt miklu skemmtilegra.
Leikdagurinn var um margt merkilegur. Þann 22. júní er nefnilega Maradona-dagurinn og nú voru liðin nákvæmlega 30 ár síðan að hann niðurlægði England með andlegri hendi og fáranlegri tækni. Það boðaði gott fyrir Ísland.
Ljóst var að Íslendingarnir ætluðu ekki að lenda í sama vanda og í Marseille með að komast inn á völlinn. Það var orðið þéttsetið í íslenska hlutanum einum og hálfum tíma fyrir leik og undirtektirnar með „Ferðalokum“, eða hvað sem þetta ungverska lag heitir, voru sterkar. Þótt að Austurríkismenn væru rúmlega 30 þúsund á vellinum en Íslendingarnir „bara“ tíu þúsund þá var taktur sleginn fyrir baráttuna strax í fyrir-leik-söngnum. Austurríska lagið sem fylgdi á eftir var nefnilega þurrt, langt og hundleiðinlegt. Ísland gat alveg átt þessa stúku. Það var rosaleg samstaða og samhugur hjá Íslendingum. Meira að segja blazermennirnir frá því í St. Etienne voru komnir í landsliðslitina.
Ákveðinn ferskleiki fylgdi „nýju“ stuðningsmönnunum sem mættir voru á sinn fyrsta leik. Og Ríkharður Daðason, sem átti líklega stærstu stund íslenskrar knattspyrnusögu áður en að núverandi landsliðshópur varð til, fær þumal upp fyrir að taka svokallaðan Erik Meijer með því að mæta á völlinn í eigin landsliðspeysu (Meijer er frægur fyrir að hafa mætt á úrslitaleik Liverpool og AC Milan í meistaradeildinni 2005 í Liverpool-búning með nafnið Meijer ritað aftan á). Hjörvar Hafliðason fær slíkan líka fyrir að taka eina einbeittustu úr að ofan rifu sem sést hefur.
Það var einstakt að horfa á hvað öllum þessum Íslendingum fannst þetta allt saman einstakt. Þeir upplifðu sig sem sérstaka, nánast útvalda, að fá að sjá þennan leik. Og annar hver þeirra deildi þeirri upplifun auðvitað á samfélagsmiðlum.
Umsátrið um Ísland
Það er fátt eftir ósagt um leikinn sjálfan. Fyrri hálfleikur var stórgóður að hálfu íslenska liðsins. Stuðningsmennirnir áttu stúkuna og liðið hefði getað skorað fullt af mörkum. Auðvitað vorum við heppnir líka, sérstaklega þegar Austurríkismenn brenndu af réttdæmdu víti og þegar Hannesi Halldórssyni var ekki refsað fyrir boltahangs sem hefði getað endað í hræðileika. En heilt yfir var þetta ljótur fótbolti eins og hann gerist bestur. Loka öllum leiðum andstæðinganna og sækja síðan hratt þegar tækifæri gefst til. Skalla allt burt og setja alla lausa bolta á hættusvæðum mjög langt upp í stúku. Íslenska miðvarðaparið, Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson, hljóta að vera menn mótsins hingað til. Ekki bara í íslenska liðinu heldur heilt yfir. What men.
Seinni hálfleikur var allt öðruvísi. Austurríska umsátrið um Ísland hófst strax. Og 30 þúsund stuðningsmenn fóru að skipta máli. Síðustu 25 mínúturnar þá ríghélt ég mér í eitthvað handrið þar til hendurnar blánuðu og var flökurt af stressi. Sekúndur liðu eins og mínútur og hverri snertingu okkar manna á boltann inni á vallarhelmingi andstæðinganna var fagnað eins og sigurmarki. Þegar fersku varamennirnir gerðu það sem þeir gerðu á 94 mínútu, og framkvæmdu þar með magnaðasta andartak mótsins til þessa (sem hefur gert Guðmund Benediktsson heimsfrægan), greip mann ofsalega skrýtinn hamur. Einhvers konar lömunartilfinning sem lagaðist síðan á skotstundu þegar adrenalínið skaust upp í hausinn eins og byssukúla. Hér að neðan sést markið upptekið af manninum við hliðina á mér, og sýnir því mitt sjónarhorn á það algjörlega.
Maður gat lítið annað gert en að öskra bara „jááááááá“ síendurtekið og faðmað þvala búka samlanda sinna í kringum sig tilviljunarkennt. Gleðin var svo mikil að maður nennti ekki einu sinni að láta hallærislegt gloryhuntið í forsætisráðherranum, sem mætti inn á grasið til að faðma fótboltamenn, fara í taugarnar á sér.
Hreimur í Landi og sonum hefur líklega ekki ímyndað sér þegar hann söng þjóðhátíðarlagið árið 2001 að það myndi hljóma á Stade De France ellefu árum síðar, þar sem tíu þúsund Íslendingar sungu allir með þessu skelfilega leiðinlega lagi af barnslegri ánægju, fyrir framan heimsbyggðina alla.
Það eru gæði að vera klár
Það er auðvitað búið að ræna þessum leik á mánudag og klæða hann í einhvern íslenskan pólitískan búning þar sem þetta snýst á einhvern afbakaðan hátt um þorskastríð, Icesave, hryðjuverkalög og Evrópusambandið. Verði þeim sem verða að skilgreina allt í lífinu út frá einhverjum slíkum mælistikum að því. Markmið næstu daga verður að leiða slíka sósu framhjá sér. Ég hlakka bara til að horfa á fótbolta.
Ummæli Danny Mills, líklega eins slakasta leikmanns sem leikið hefur fyrir enska landsliðið, um að það íslenska væri lið án gæða, hafa vakið nokkra athygli. Þetta er nefnilega einhverskonar mantra í fótboltaheiminum sem er síendurtekin. Að lið sem eru ekki með leikmenn sem búa yfir ofurhraða eða yfirburðartækni, geti ekki gefið 700 sendingar í leik eða eru með svindlkalla eins og Gareth Bale, skorti gæði. En hvað eru gæði? Það er nefnilega skilgreiningaratriði.
Íslenska liðið er skipulagðara, skynsamara og harðara en öll önnur lið í þessari keppni. Það að geta bætt upp fyrir skort á ofurkröftum með því að nýta hvern einasta eiginleika sem þú hefur til hins ítrasta, það eru gæði. Að geta notað höfuðið til að hugsa sig út úr aðstæðum þar sem líkamlegar takmarkanir eru til staðar, það eru gæði. Það getur hver sem er verið með góða tækni, en það getur ekki hver sem er verið klár. Það eru gæði að vera ekki heimskur.
Prentaðu það
Áætlaðri veru minni á EM er lokið. Heimferð er fyrirhuguð á morgun, laugardag. Það skal viðurkennt að hausinn fór á fullt við að reyna að finna leiðir sem gætu skilað mér til Nice í stað Reykjavíkur á mánudag, sem fælu ekki í sér blöndu af gjaldþroti og skilnaði. En með því að beita skynseminni, eða sjálfsblekkingunni, sannfærði ég sjálfan mig um að það væri taktískur afleikur að fara þangað. Þetta verður nefnilega ekki síðasta leikur Íslands á þessu móti. Eftir að við vinnum England eigum við þrjá aðra eftir. Og þá er best að stefna á nýja utanför þegar kemur að úrslitaleiknum.
Líkt og Big-Pete sagði við Roger Bennett þá er Ísland nefnilega að fara að vinna þessa Evrópukeppni. „YOU CAN PRINT THAT!“