Þá eru öll litlu liðin dottin út úr EM, nema Ísland. Slóvakarnir, Norður-Írarnir og Ungverjarnir mættu allir ofjörlum sínum í gær og virtust að mestu hafa sætt sig við að vera komnir eins langt og mögulegt væri fyrir þá. Wales var í þeirri óvenjulegu stöðu að vera miklu sigurstranglegra liðið í sínum leik í 16 liða- úrslitum og því tel ég þá ekki með hér að ofan. Fyrir utan að þeir eru með Gareth Bale, sem er svindl.
Þessi 16 liða-úrslit á EM röðuðust reyndar sérkennilega upp. Öðru megin raðaðist upp átta liða-blokk sem mætist sín á milli fram að úrslitum, með landsliðum sem hafa samtals unnið 20 Evrópumótstitla. Hinu megin raðaðist upp blokk með liðum sem hafa aldrei unnið slíkan.
Og auðvitað lenti Ísland með titlasöfnurum. Þegar þetta er skrifað eru Frakkar og Þjóðverjar þegar komnir áfram úr þeirri blokk. Og annað hvort Spánverjar eða Ítalir á leiðinni þangað líka. Með okkur.
Brexit-pressan og að vera „Spursy“
Ég ætla að halda því fram að aldrei hafi verið betri tími til að spila við England. Evrópa hatar þá meira en venjulega fyrir Brexit-steypuna og stendur óskoruð, fyrir utan popúlistana og rasistana, að baki íslenska liðinu. Við höfum meira að segja selt fleiri feik-landsliðsbúninga en Englendingarnir þrátt fyrir að vera bara með íbúafjölda upp á 330 þúsund manns, eða svipað og Coventry. Það eru einhverjir aðrir en Íslendingar að kaupa þessa búninga. Öll pressan því er á þeim ensku að kæta sundraða þjóð í áfalli og sýna Evrópu að þeir skipti enn máli. Sú pressa verður vonandi yfirþyrmandi.
Þess utan er þetta enska landslið ekkert sérstaklega gott. Þeir eru ekki með neinn heimsklassa leikmann. Miðvarðaparið er eitt það slakasta sem sést hefur hjá þessu landsliði áratugum saman. Það eru fimm, FIMM, leikmenn frá Tottenham sem byrja nánast hvern einasta leik.
Það er til orðatiltæki á meðal breskra fótboltaspekinga um Tottenham Hotspur: að vera „Spursy“. Það að vera „Spursy“ felur í sér að koma sér í góða stöðu en klúðra því síðan stórfenglega. Þessi tilhneiging hefur m.a. valdið því að Tottenham hefur ekki unnið ensku deildina frá 1961, ekki enska FA-bikarinn síðan 1991 og ekki Evrópukeppni síðan 1984. Eini titill liðsins á síðustu 25 árum er deildarbikartitill árið 2008. „Spursy“ er hugarfar taparans.
Á síðasta tímabili var Tottenham að margra mati besta liðið í ensku úrvaldsdeildinni og í lok apríl, þegar fjórir leikir voru eftir, virtist liðið ætla að keppa mjög hart við Leicester um titillinn. Liðið vann engan af síðustu fjórum leikjunum og Leicester hirti dolluna. Þegar pressan var sem mest þá bugaðist liðið. Það tapaði meira að segja 5-1 fyrir þegar föllnu, og skelfilega lélegu, Newcastle-liði í síðasta leik tímabilsins með þeim afleiðingum að erkifjendurnir Arsenal komust upp fyrir þá í annað sætið og gerði það að verkum að stuðningsmenn Arsenal gátu haldið upp á St. Totteringham's daginn 21. tímabilið í röð, en það er fögnuður sem þeir blása til ár hvert þegar tölfræðilega ómögulegt er fyrir Tottenham að ná Arsenal að stigum.
Sökum þess að enska liðið er fullt af Tottenham-leikmönnum, og vegna þess að England hefur tilhneigingu til að klúðra nær öllum lokamótum sem landsliðið spilar á, þá má vel halda þvi fram að það sé „Spursy“. Sem er frábært fyrir Ísland.
Wayne er Volvo
Eini leikmaður enska liðsins sem var einhvern tímann nálægt því að vera í heimsklassa er Wayne Rooney. Hann er það ekki lengur. Þótt hann sé líklega enn mikilvægasti leikmaður liðsins þá er hann ekki það Lamborghini-ólíkindatólið sem hann var á fyrra hluta ferils síns sem gat tætt upp malbik og tekið fram úr hverjum sem var. Í dag er hann meira Volvo. Stöðugur, öruggur, hægur upp en steinliggur í beygjum. Það er miklu auðveldara að halda Volvo í skefjum en sportbíl.
Það verður að teljast líklegt að Englendingarnir byrji með hinn hraða en afar mistæka Raheem Sterling á hægri kantinum og að þeir muni keyra hart á Ara Frey Skúlason þar, með Kyle Walker í overlappi. Það er í raun eina skýra leiðin sem ég sé fyrir mér að Englendingar geti fundið í gegnum íslenska varnarmúrinn. En Sterling er enginn gæðasportbíll heldur. Í besta falli Hyundai Coupe. Gulur.
Það þarf ekkert að vera með boltann
Það verður skrítið að horfa á íslenska liðið í sjónvarpi, eða á risaskjá, í dag í fyrsta sinn í keppninni, en ekki úr stúkunni. Þá mun maður til að mynda ekki sjá alla vinnuna sem leikmennirnir sem eru ekki við boltann hverju sinni eru að inna af hendi við að loka svæðum og þrýsta andstæðingum okkar þangað sem við viljum hafa þá. Þótt Ísland hafi einungis verið með boltann tæplega 30 prósent í leikjum sínum þá hefur það ekki skipt neinu máli. Það sem skiptir máli er hvernig þú notar boltann þegar þú ert með hann og hvert þú beinir andstæðingum þínum þegar svo er ekki. Það er list sem íslenska liðið er búið að fulkomna.
Íslenska liðið verður líklega óbreytt fjórða leikinn í röð. Alfreð Finnbogason kemur aftur inn á bekkinn eftir bann og varamennirnir úr síðasta leik hafa sannarlega sýnt að við eigum möguleika þar til að breyta leikjum. Svo á Eiður Smári enn eftir að gera það sem handritið gerir ráð fyrir að aldna kempan geri. Það er því ekkert að hræðast og íslenska liðið ætti að njóta þess að þeir eru þegar orðnir sigurvegarar þessa móts.
Norður-írsku áhrifin og Boris
Það er auðvitað óþolandi að Ísland hafi bara fengið 3000 miða á leikinn í Nice. Og lýsandi fyrir hversu spillt og galið UEFA-batteríið er. Eftirspurnin er augljóslega margfalt meiri og svo lítill hópur mun hafa þau áhrif að tólfti maðurinn, sem íslensku áhorfendurnir voru sannarlega í leikjunum á móti Portúgal og Austurríki, verður ekki til staðar með sama hætti í dag.
En það þýðir ekki að svekkja sig á því sem ekki er hægt að breyta og vonandi eru bara sem flestir komnir með aðgerðaráætlun við að tryggja sér miða á átta liða úrslitin.
Ég viðurkenni það fúslega að ég hef aldrei getað haldið með Englandi á stórmótum, eins og margir Íslendingar hafa gert sökum dálætis síns á ensku deildinni. Þar mótast ég töluvert af því að hafa búið í Skotlandi með tveimur Norður-Írum. Annar þeirra er frá IRA-hluta Belfast, er með húðflúr af sameinuðu Írlandi á annarri löppinni og neitar að kalla heimalandið sitt Northern Ireland (Norður-Írland). Þess í stað segir hann alltaf North of Ireland (Norðurhluti Írlands). Þeir litu báðir á Norður-Írland sem enskan tilbúning og hötuðu England eins og pestina fyrir vikið. Líkt og ansi margir Skotar gera líka, enda eru þeir komnir í startholurnar við að setja í ganga aðra sjálfstæðiskosningu til að skilja sig frá ESB-lausu breska heimsveldinu með Boris við stýrið. Sama Boris og virðist reka stjórnmál sín með sama hætti og hann spilar fótbolta, með hausinn á undan sér og er svo fullur eftirsjár þegar allt fer til fjandans vegna fáránlega aðfara hans.
Við þurfum sigur, til að fara ekki aftur að rífast
Það er því bæði óskandi og sanngjarnt að Ísland vinni þennan leik á eftir og auki enn á myrkrið í Stóra-Bretlandi. Þótt hugur manns sé hjá ungu og menntuðu fólki í borgum landsins, sem laut í lægra haldi fyrir gömlu fólki á landsbyggðinni sem hræðist útlendinga, alþjóðavæðingu og skuggann sinn svo mikið að það er tilbúið að setja framtíð afkomenda sinna í fullkomið uppnám án þess að hafa neina skýra hugmynd um hvert eigi að stefna nú, þá verður sá hugur að víkja í tvo tíma í kvöld.
Við Íslendingar höfum nefnilega sjálf gengið í gegnum ótrúlega sundrung og erfiðleika á undanförnum árum og ekkert frá bankahruni hefur sameinað íslenska þjóð jafn mikið og árangur þessa dásamlega fótboltaliðs sem vill helst ekki spila fótbolta.
Líkt og landsliðsmarkaðurinn Hannes Þór Halldórsson sagði í ræðu sinni yfir utandeildarliðinu Brostnum Draumum sumarið 2009, sem nú hefur verið fjarlægð af internetinu, þá býr lítill drengur með brostna drauma og nárameiðsl inni í okkur öllum.
Ég hef þá trú að Hannes og meðhermenn hans muni gera það að verkum að íslenska þjóðin, þjakaði nárameiðsladrengur heimsins, muni dansa stríðdans vegna þess að draumar hennar um fótboltalega framgöngu og áframhaldandi samstöðu hafi ræst. Við munum vinna England fyrir okkur sjálf og áframhaldandi samstöðu. Þannig heldur þetta langþráða sumafrí frá íslenskum hversdagsleika áfram enn um stund.
Ef ekki munum við aftur fara að rífast á morgun um Icesave, þorskastríð, kvóta, verðtryggingu og Framsóknarflokkinn. Og þessi pistill mun eldast mjög illa.
Lestu þriðja pistil Þórðar Snæs um EM.