Þegar Ísland vinnur EM mun rigna confetti-i...Og Framsókn bjóða öllum á leikinn

Ísland gerði yfirstandandi viku að þeirri verstu í sögu Englands frá lokum seinni heimstyrjaldar. Sjálfumglaðir og ofborgaðir drengir voru opinberaðir af veðurbörðum og hrjúfum fótboltalegum verkamönnum. Og það er nóg eftir.

Aron Einar
Auglýsing

For­síðan á Ver­dens Gang (VG), einu stærsta dag­blaði Nor­egs, segir allt sem segja þarf um leik Íslands og Eng­lands í gær. Þar segir að Norð­menn sjái nú eftir því að hafa gefið Dönum Ísland árið 1397. Danskir fjöl­miðlar sögðu að í dag værum við allir Íslend­ing­ar. Umfjöllun um Ísland er að finna í öllum stærstu fjöl­miðlum Banda­ríkj­anna og Evr­ópu. Sig­ur­inn og árangur íslenska liðs­ins til þessa er eitt mesta fót­bolta­afrek fót­bolta­sög­unnar (stað­fest).

Líkt og til­finn­ingin hafði sagt manni þá var Ísland, með stuðn­ing heims­ins að baki sér, alltaf að fara að vinna þennan leik. 

Ástæðan var ein­föld: íslenska lands­liðið er gott í fót­bolta en það enska er það ekki. Nið­ur­bræðsla enskra fót­bolta­grein­ing­ar­að­ila á öllum til­tækum miðlum nútím­ans var síðan kirsu­berið ofan á kök­una. Þar skar þessi van­hæfi herra­maður sig sér­stak­lega úr.

Sann­fær­andi, og sann­gjarn, sigur íslenska liðs­ins full­komn­aði verstu viku Eng­lands frá seinna stríði. Viku sem hófst með því að popúlistar náðu að ljúga landið út úr Evr­ópu­sam­band­inu og inn í efna­hags­lega og stjórn­mála­lega kreppu, og lauk með því að íslensku villi­menn­irnir sem allir heim­ur­inn elskar nið­ur­lægðu ofborg­uðu tísku­fyr­ir­brigðin í enska lands­lið­inu sem áttu að vera svo ægi­lega góð­ir, en opin­ber­uðu sig sem allt annað í þess­ari Evr­ópu­keppni. Sjaldan hefur verið jafn aug­ljóst að ástæða þess að enska úrvals­ds­deildin er besta fót­bolta­deild Evr­ópu er sú að um 70 pró­sent leik­manna hennar eru ekki ensk­ir. Hæfi­leik­a­ríku útlend­ing­arnir láta síðan ensku gos­menn­inn líta út fyrir að geta eitt­hvað. Ef eft­ir­leikar Brexit verða eins og Nigel Farage vill að þeir verði þá mun fljótt fjara undan getu­stigi þess­ari deild, enda mun útlend­ing­unum þá fækka hratt.

Stétta­skipt­ing og hómó­eró­tísk vænt­um­þykja

Í heimi þar sem mis­skipt­ing eykst stöðugt, og sú til­finn­ing að sumir séu að fá allt of mikið á kostnað ann­arra án þess að fram­lag þeirra sé þess eðlis að þeir eigi það skil­ið, þá var leikur Íslands og Eng­lands líka ákveðið form stétt­ar­bar­áttu. Hörðu, veð­ur­börðu, skipu­lögðu verka­menn­irnir sem standa saman og vinna skítugt fyrir hvorn annan gegn nær­buxna­mód­elum með tísku­klipp­ingar og sjálfs­á­lit langt umfram getu. Almúga­leik­menn hrintu enskum niður af þeim ímynd­aða stalli að þeir væru fót­bolta­lega kon­ungs­born­ir. Fast.

Roy Hodgson tókst að stýra Englendingum heim eins og að drekka vatn.Það segir mest um enska liðið að í flestum þar­lendum miðlum var Marcus Ras­h­ford val­inn maður leiks­ins hjá lið­inu. Hann kom inn á á 85 mín­útu.

Það er skrýtin til­finn­ing að líða þannig nokkrum klukku­tímum fyrir svona leik að vera nær öruggur um að Ísland myndi vinna. Ég var meira að segja far­inn að athuga með flug til Par­ísar í gær­morg­un, sem ég sé nú mjög eftir að hafa ekki bók­að.

Málið með þetta íslenska lands­lið er að það er fanta­gott og spilar mun frekar eins og félags­lið en lands­lið. Þegar við bæt­ist öll þessi nán­ast hómó­eró­tíska vænt­um­þykja sem er á milli allra sem að því koma (og krist­all­að­ist svo vel í mitt­is-faðm­lagi þjálf­ar­anna í gær) og það ofursjálfs­traust sem árang­ur­inn til þess hefur veitt þeim, þá er allt hægt. Evr­ópu­meist­ara­tit­ill er, í fullri alvöru, ekki ein­hver súr­r­eal­ískur draumur heldur raun­veru­leiki.

Það fal­leg­asta við þetta allt saman er hversu hreinn árang­ur­inn er. Hann byggir á raun­veru­legum gæðum og heið­ar­leika. Það er eng­inn að svindla til að láta árang­ur­inn líta vel út á pappír eins og síð­ustu hetjur Íslands, lélegu banka­menn­irn­ir, gerðu með þeim afleið­ingum að þeir nær eyðilögðu sam­fé­lagið sem ól þá af sér. Á meðan að enska lands­liðið stráði salti í svöðusárið sem Boris og Nigel og hinir trúð­arnir bjuggu til með Brexit þá virkar íslenska lands­liðið sem fljót­græð­andi AD-krem á íslenska sárið sem Halla Tóm­as­dóttir var alltaf að tala um að græða. Í fyrsta sinn í tæp átta ár er eng­inn að ríf­ast.

Ný vopn frum­sýnd

Leik­ur­inn sjálfur var hrein unun á að horfa. Þrátt fyrir klaufa­legt vítið sem Ísland gaf í byrjun þá var ein­hvern veg­inn alltaf ljóst að það myndi ekki ráða úrslit­um. Íslend­ing­arnir stýrðu leiknum allan tím­ann og höfðu þá ensku nákvæm­lega þar sem þeir vildu frá fyrsta flauti til hins síð­asta. Eng­lend­ing­arnir sköp­uðu sér ekk­ert af viti og reyndu mikið af skrýtnum háum bolt­um. Mér líður alltaf vel þegar bolt­inn er í loft­inu í leikjum Íslands, vegna þess að þá bolta vinnum við nær alltaf.

Auglýsing

Leik­ur­inn í gær var án nokk­urs vafa sá besti sem við höfum spilað á þessu móti. Trúin á verk­efnið vex með hverjum deg­inum og hið aukna sjálfs­traust sem ein­kennir nú liðið krist­all­að­ist í hjól­hesta­spyrnu hálf­guðs­ins Ragn­ars Sig­urðs­sonar í seinni hálf­leik. Það sem var hins vegar mest hug­hreystandi við Eng­lands­leik­inn var að í seinni hálf­leik fórum við skyndi­lega að halda bolt­anum innan liðs­ins eins og við værum Barcelona. Ok, kannski ekki Barcelona, en Everton undir Roberto Martinez, sem hélt að leikir ynn­ust á því að gefa sem flestar send­ing­ar, ekki með því að skora mörk. Sam­an­dregið þá sýndi íslenska liðið það að dásam­legur ljót­leiki þess hefur þró­ast. Að það eru fleiri vopn í búr­inu.

Er Kol­beinn 47 ára?

Ég hlust­aði, í alvöru, á hlað­varp í dag þar sem verið var að dásama íslenska fót­bolta­mód­el­ið. Það sem var áhuga­vert við þetta hlað­varp var að sú dásömun snérist ekki bara um þetta hefð­bundna: vel mennt­aða þjálf­ara og knatt­spyrnu­hús, heldur líka þá hörku sem átta mán­aða vetur í níða­myrkri og skíta­kulda skilur okkur skers­búa eftir með. Þegar ein­hver er far­inn að mæra íslenska vet­ur­inn, sama hvert sam­hengið er, þá er ljóst að umræðan er farin að nálg­ast að vera farsi. En stór­skemmti­legur farsi.

Annar farsi sem er stór­kost­legur er sá sem rit­höf­und­ur­inn Dagur Hjart­ar­son setti af stað á Twitter þegar hann fór að pósta myndum af því sem hann sagði vera „upp­eldis­torf­bæ“ Ragn­ars Sig­urðs­son­ar, ætl­uðum heima­slóðum Kol­beins Sig­þórs­sonar (sem Dagur sagði að væri 47 ára) og bens­ín­stöð­inni sem Jón Daði Böðv­ars­son starfar á vet­urna. 

Þessu mjög þró­aða, og stór­kost­lega fyndna, gríni er heim­ur­inn bara að trúa. Yfir sjö þús­und manns hafa retweetað og/eða lækað sumar færsl­urnar hans. Á meðal þeirra sem hafa fallið fyrir þessu eru fót­bolta­hlað­varps­stór­menn­inn í Foot­ball Weekly á The Guar­di­an. Þar var rætt ítar­lega um að íslenskir leik­menn hefðu alist upp í torfbæ og þoku­mistri við harð­gerða sjáv­ar­síðu þegar raun­veru­leik­inn er lík­lega sá að þeir hafi flestir alist upp í úthverfa­blokkum í Kópa­vogi.

Himn­arnir munu gráta con­fett­i-i

Hvað næst? Ef hægt væri að skrifa hand­rit af áfram­hald­inu þá væri það svona: Ísland vinnur slaka Frakka á sunnu­dag sann­fær­andi, í leik þar sem óþol­in­móðir franskir áhorf­endur snúa ansi fljótt baki við sínum mönnum og fara að púa á þá. Næsta verk­efni yrði að ryðja Þjóð­verjum úr vegi, þar sem ég sé fyrir mér rautt spjald á þýskan haf­sent í fyrri hálf­leik sem hjálpar okkar mönnum yfir lín­una. Til að epíkin verði full­komn­uð, og Hollywood-­myndin hans Balta um ævin­týrið fái þann endi sem hún á skil­ið, þá verðum við að mæta Portú­gölum í úrslitum svo Kári Árna­son geti stungið Christ­i­ano Ron­aldo aftur í rassvas­ann og hann verði lát­inn éta ofan í sig smæ­lingja-kommentin sem hann lét um okkur falla eftir leik eitt. Ég reyndi að ná sam­bandi við hann á Twitter í gær til að ræða þessi mál við hann. Ron­aldo hefur enn ekki svar­að.

Eiður Smári yrði loks að skora sig­ur­markið með síð­ustu snert­ingu sinni við fót­bolta á ferl­in­um. Þá myndi rigna con­fetti úr skýj­un­um. Þeim sem finnst þetta fjar­stæðu­kennt skal bent á að á tólf ára fresti ger­ist eitt­hvað stór­kost­legt á EM. Dan­mörk 1992. Grikk­land 2004. Ísland 2016.

Mun Fram­sókn bjóða öllum til Par­ís­ar?

Óaf­vit­andi held ég að Guð­mundur Bene­dikts­son, fræg­asti lýsandi heims um þessar mund­ir, hafi haft óaft­ur­kræf áhrif á íslenskt stjórn­mála­lands­lag í gær þegar hann lagði til að rík­is­stjórn Íslands ætti að bjóða öllum á leik­inn í Par­ís. Eitt­hvað innan í mér segir að það séu til Fram­sókn­ar­menn sem sjá þetta sem tæki­færi til að kaupa sér hylli eftir Wintris og Sig­mund Davíð með því að bjóða æski­legum kjós­enda­hópi til Par­ísar á úrslita­leik­inn. Jafn­vel séu uppi hug­myndir um að þjóð­nýta Icelandair í þeim til­gangi. Hér á Íslandi er enda allt hugsað til skamms tíma.

Lélegir Englendingar trúðu því varla hversu lélegir þeir eru, eftir að Ísland var búið að sýna fram á það.Sjálfur ætla ég að reyna að kom­ast út til Par­ísar á næta leik, þaðan sem ég er nýkom­inn heim. Ég er búinn að rétt­læta þetta fyrir sjálfum mér sem skyn­sem­is­á­kvörðun og von­andi ganga þau áform eft­ir. Miðað við síhækk­andi verðið á síðum flug­fél­anna í gær var ég fjarri því sá eini sem fékk þessa hug­mynd.

Vík­inga­dans­inn íslenski, sem er orð­inn fræg­ari en Ný-­sjá­lenski Haka dans­inn sem rug­by-lið lands­ins fer alltaf í gegn­um, mun því von­andi verða tek­inn eftir leik með enn fleirum en verið hefur hingað til. Maður má að minnsta kosti vona. 

Og mikið er gaman að vona.Lestu fjórða pistil Þórðar Snæs um EM.

Lestu þriðja pistil Þórðar Snæs um EM.

Lestu annan pistil Þórðar Snæs um EM.

Lestu fyrsta pistil Þórðar Snæs um EM.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Besti knattspyrnumaður allra tíma látinn
Diego Maradona er látinn, sextugur að aldri.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir reyndist vera með COVID-19
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur greinst með COVID-19, eftir að hafa áður greinst neikvæður í prófi á mánudag. Hann var þegar í sóttkví eftir að hafa orðið útsettur fyrir smiti í nærumhverfi sínu.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa borið þungann af því að deila út ríkisábyrgðarlánunum sem skýrslan fjallar um.
Stuðningslánum mögulega of naumt skammtað
Eftirlitsnefnd með lánum með ríkisábyrgð telur að ætla megi að innan við helmingur þeirra fyrirtækja sem sóst hafa eftir stuðningslánum fái út úr úrræðinu það fé sem þau telji sig þurfa. Nefndin skilaði skýrslu til ráðherra á dögunum.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Heimsfaraldurinn rekur unga Íslendinga aftur heim í foreldrahús
Hlutfall ungra Íslendinga sem búa heima hjá foreldrum sínum hefur farið úr 42 í 70 prósent á innan við ári. Ljóst er að COVID-19 spilar þar stóra rullu, en atvinnuleysi hjá 18-24 ára hefur aukist um 134 prósent á einu ári.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Á baðströnd í Hong Kong.
Farsóttin herjar aftur á fyrirmyndarríkin
Í Japan hafði fólk verið hvatt til að ferðast innanlands og fara út að borða. Herferðinni hefur snarlega verið hætt. Til stóð að ýta ferðabandalagi milli Hong Kong og Singapúr úr vör, þar sem fólk gæti ferðast án sóttkvíarkvaða. Af því verður ekki í bráð.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Kristbjörn Árnason
Sóttin hefur þegar bætt íslenska menningu
Leslistinn 25. nóvember 2020
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Kallar eftir meiri stuðningi stjórnvalda við einstaklinga og heimili
Formaður VR segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um nýtingu COVID-19 úrræða stjórnvalda hafi einungis um 7 milljarðar króna skilað sér beint til einstaklinga og heimila, en yfir 80 milljarðar til fyrirtækja.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Svona leit turnbyggingin út í teikningum sem fylgdu deiliskipulagstillögu bæjarins.
Turnbygging sem íbúar lýstu sem „fokkmerki“ lækkuð um 10 hæðir
Hópur íbúa í Glaðheimahverfi í Kópavogi krafðist þess að hæsta hús á Íslandi yrði ekki byggt í hverfinu, til þess að áfram yrði gott að búa í Kópavogi. Turn sem átti eitt sinn að verða 32 hæðir og síðan 25 hæðir verður á endanum sennilega bara 15 hæðir.
Kjarninn 25. nóvember 2020
Meira úr sama flokkiÁlit
None