Þegar Ísland vinnur EM mun rigna confetti-i...Og Framsókn bjóða öllum á leikinn

Ísland gerði yfirstandandi viku að þeirri verstu í sögu Englands frá lokum seinni heimstyrjaldar. Sjálfumglaðir og ofborgaðir drengir voru opinberaðir af veðurbörðum og hrjúfum fótboltalegum verkamönnum. Og það er nóg eftir.

Aron Einar
Auglýsing

Forsíðan á Verdens Gang (VG), einu stærsta dagblaði Noregs, segir allt sem segja þarf um leik Íslands og Englands í gær. Þar segir að Norðmenn sjái nú eftir því að hafa gefið Dönum Ísland árið 1397. Danskir fjölmiðlar sögðu að í dag værum við allir Íslendingar. Umfjöllun um Ísland er að finna í öllum stærstu fjölmiðlum Bandaríkjanna og Evrópu. Sigurinn og árangur íslenska liðsins til þessa er eitt mesta fótboltaafrek fótboltasögunnar (staðfest).

Líkt og tilfinningin hafði sagt manni þá var Ísland, með stuðning heimsins að baki sér, alltaf að fara að vinna þennan leik. 

Ástæðan var einföld: íslenska landsliðið er gott í fótbolta en það enska er það ekki. Niðurbræðsla enskra fótboltagreiningaraðila á öllum tiltækum miðlum nútímans var síðan kirsuberið ofan á kökuna. Þar skar þessi vanhæfi herramaður sig sérstaklega úr.

Sannfærandi, og sanngjarn, sigur íslenska liðsins fullkomnaði verstu viku Englands frá seinna stríði. Viku sem hófst með því að popúlistar náðu að ljúga landið út úr Evrópusambandinu og inn í efnahagslega og stjórnmálalega kreppu, og lauk með því að íslensku villimennirnir sem allir heimurinn elskar niðurlægðu ofborguðu tískufyrirbrigðin í enska landsliðinu sem áttu að vera svo ægilega góðir, en opinberuðu sig sem allt annað í þessari Evrópukeppni. Sjaldan hefur verið jafn augljóst að ástæða þess að enska úrvalsdsdeildin er besta fótboltadeild Evrópu er sú að um 70 prósent leikmanna hennar eru ekki enskir. Hæfileikaríku útlendingarnir láta síðan ensku gosmenninn líta út fyrir að geta eitthvað. Ef eftirleikar Brexit verða eins og Nigel Farage vill að þeir verði þá mun fljótt fjara undan getustigi þessari deild, enda mun útlendingunum þá fækka hratt.

Stéttaskipting og hómóerótísk væntumþykja

Í heimi þar sem misskipting eykst stöðugt, og sú tilfinning að sumir séu að fá allt of mikið á kostnað annarra án þess að framlag þeirra sé þess eðlis að þeir eigi það skilið, þá var leikur Íslands og Englands líka ákveðið form stéttarbaráttu. Hörðu, veðurbörðu, skipulögðu verkamennirnir sem standa saman og vinna skítugt fyrir hvorn annan gegn nærbuxnamódelum með tískuklippingar og sjálfsálit langt umfram getu. Almúgaleikmenn hrintu enskum niður af þeim ímyndaða stalli að þeir væru fótboltalega konungsbornir. Fast.

Roy Hodgson tókst að stýra Englendingum heim eins og að drekka vatn.Það segir mest um enska liðið að í flestum þarlendum miðlum var Marcus Rashford valinn maður leiksins hjá liðinu. Hann kom inn á á 85 mínútu.

Það er skrýtin tilfinning að líða þannig nokkrum klukkutímum fyrir svona leik að vera nær öruggur um að Ísland myndi vinna. Ég var meira að segja farinn að athuga með flug til Parísar í gærmorgun, sem ég sé nú mjög eftir að hafa ekki bókað.

Málið með þetta íslenska landslið er að það er fantagott og spilar mun frekar eins og félagslið en landslið. Þegar við bætist öll þessi nánast hómóerótíska væntumþykja sem er á milli allra sem að því koma (og kristallaðist svo vel í mittis-faðmlagi þjálfaranna í gær) og það ofursjálfstraust sem árangurinn til þess hefur veitt þeim, þá er allt hægt. Evrópumeistaratitill er, í fullri alvöru, ekki einhver súrrealískur draumur heldur raunveruleiki.

Það fallegasta við þetta allt saman er hversu hreinn árangurinn er. Hann byggir á raunverulegum gæðum og heiðarleika. Það er enginn að svindla til að láta árangurinn líta vel út á pappír eins og síðustu hetjur Íslands, lélegu bankamennirnir, gerðu með þeim afleiðingum að þeir nær eyðilögðu samfélagið sem ól þá af sér. Á meðan að enska landsliðið stráði salti í svöðusárið sem Boris og Nigel og hinir trúðarnir bjuggu til með Brexit þá virkar íslenska landsliðið sem fljótgræðandi AD-krem á íslenska sárið sem Halla Tómasdóttir var alltaf að tala um að græða. Í fyrsta sinn í tæp átta ár er enginn að rífast.

Ný vopn frumsýnd

Leikurinn sjálfur var hrein unun á að horfa. Þrátt fyrir klaufalegt vítið sem Ísland gaf í byrjun þá var einhvern veginn alltaf ljóst að það myndi ekki ráða úrslitum. Íslendingarnir stýrðu leiknum allan tímann og höfðu þá ensku nákvæmlega þar sem þeir vildu frá fyrsta flauti til hins síðasta. Englendingarnir sköpuðu sér ekkert af viti og reyndu mikið af skrýtnum háum boltum. Mér líður alltaf vel þegar boltinn er í loftinu í leikjum Íslands, vegna þess að þá bolta vinnum við nær alltaf.

Auglýsing

Leikurinn í gær var án nokkurs vafa sá besti sem við höfum spilað á þessu móti. Trúin á verkefnið vex með hverjum deginum og hið aukna sjálfstraust sem einkennir nú liðið kristallaðist í hjólhestaspyrnu hálfguðsins Ragnars Sigurðssonar í seinni hálfleik. Það sem var hins vegar mest hughreystandi við Englandsleikinn var að í seinni hálfleik fórum við skyndilega að halda boltanum innan liðsins eins og við værum Barcelona. Ok, kannski ekki Barcelona, en Everton undir Roberto Martinez, sem hélt að leikir ynnust á því að gefa sem flestar sendingar, ekki með því að skora mörk. Samandregið þá sýndi íslenska liðið það að dásamlegur ljótleiki þess hefur þróast. Að það eru fleiri vopn í búrinu.

Er Kolbeinn 47 ára?

Ég hlustaði, í alvöru, á hlaðvarp í dag þar sem verið var að dásama íslenska fótboltamódelið. Það sem var áhugavert við þetta hlaðvarp var að sú dásömun snérist ekki bara um þetta hefðbundna: vel menntaða þjálfara og knattspyrnuhús, heldur líka þá hörku sem átta mánaða vetur í níðamyrkri og skítakulda skilur okkur skersbúa eftir með. Þegar einhver er farinn að mæra íslenska veturinn, sama hvert samhengið er, þá er ljóst að umræðan er farin að nálgast að vera farsi. En stórskemmtilegur farsi.

Annar farsi sem er stórkostlegur er sá sem rithöfundurinn Dagur Hjartarson setti af stað á Twitter þegar hann fór að pósta myndum af því sem hann sagði vera „uppeldistorfbæ“ Ragnars Sigurðssonar, ætluðum heimaslóðum Kolbeins Sigþórssonar (sem Dagur sagði að væri 47 ára) og bensínstöðinni sem Jón Daði Böðvarsson starfar á veturna. 

Þessu mjög þróaða, og stórkostlega fyndna, gríni er heimurinn bara að trúa. Yfir sjö þúsund manns hafa retweetað og/eða lækað sumar færslurnar hans. Á meðal þeirra sem hafa fallið fyrir þessu eru fótboltahlaðvarpsstórmenninn í Football Weekly á The Guardian. Þar var rætt ítarlega um að íslenskir leikmenn hefðu alist upp í torfbæ og þokumistri við harðgerða sjávarsíðu þegar raunveruleikinn er líklega sá að þeir hafi flestir alist upp í úthverfablokkum í Kópavogi.

Himnarnir munu gráta confetti-i

Hvað næst? Ef hægt væri að skrifa handrit af áframhaldinu þá væri það svona: Ísland vinnur slaka Frakka á sunnudag sannfærandi, í leik þar sem óþolinmóðir franskir áhorfendur snúa ansi fljótt baki við sínum mönnum og fara að púa á þá. Næsta verkefni yrði að ryðja Þjóðverjum úr vegi, þar sem ég sé fyrir mér rautt spjald á þýskan hafsent í fyrri hálfleik sem hjálpar okkar mönnum yfir línuna. Til að epíkin verði fullkomnuð, og Hollywood-myndin hans Balta um ævintýrið fái þann endi sem hún á skilið, þá verðum við að mæta Portúgölum í úrslitum svo Kári Árnason geti stungið Christiano Ronaldo aftur í rassvasann og hann verði látinn éta ofan í sig smælingja-kommentin sem hann lét um okkur falla eftir leik eitt. Ég reyndi að ná sambandi við hann á Twitter í gær til að ræða þessi mál við hann. Ronaldo hefur enn ekki svarað.

Eiður Smári yrði loks að skora sigurmarkið með síðustu snertingu sinni við fótbolta á ferlinum. Þá myndi rigna confetti úr skýjunum. Þeim sem finnst þetta fjarstæðukennt skal bent á að á tólf ára fresti gerist eitthvað stórkostlegt á EM. Danmörk 1992. Grikkland 2004. Ísland 2016.

Mun Framsókn bjóða öllum til Parísar?

Óafvitandi held ég að Guðmundur Benediktsson, frægasti lýsandi heims um þessar mundir, hafi haft óafturkræf áhrif á íslenskt stjórnmálalandslag í gær þegar hann lagði til að ríkisstjórn Íslands ætti að bjóða öllum á leikinn í París. Eitthvað innan í mér segir að það séu til Framsóknarmenn sem sjá þetta sem tækifæri til að kaupa sér hylli eftir Wintris og Sigmund Davíð með því að bjóða æskilegum kjósendahópi til Parísar á úrslitaleikinn. Jafnvel séu uppi hugmyndir um að þjóðnýta Icelandair í þeim tilgangi. Hér á Íslandi er enda allt hugsað til skamms tíma.

Lélegir Englendingar trúðu því varla hversu lélegir þeir eru, eftir að Ísland var búið að sýna fram á það.Sjálfur ætla ég að reyna að komast út til Parísar á næta leik, þaðan sem ég er nýkominn heim. Ég er búinn að réttlæta þetta fyrir sjálfum mér sem skynsemisákvörðun og vonandi ganga þau áform eftir. Miðað við síhækkandi verðið á síðum flugfélanna í gær var ég fjarri því sá eini sem fékk þessa hugmynd.

Víkingadansinn íslenski, sem er orðinn frægari en Ný-sjálenski Haka dansinn sem rugby-lið landsins fer alltaf í gegnum, mun því vonandi verða tekinn eftir leik með enn fleirum en verið hefur hingað til. Maður má að minnsta kosti vona. 

Og mikið er gaman að vona.


Lestu fjórða pistil Þórðar Snæs um EM.

Lestu þriðja pistil Þórðar Snæs um EM.

Lestu annan pistil Þórðar Snæs um EM.

Lestu fyrsta pistil Þórðar Snæs um EM.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá Keflavíkurflugvelli.
Segja Ísland geta orðið miðstöð flugs á norðurslóðum
Í skýrslu starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum er sagt mikilvægt að flugi frá Íslandi til Rússlands og Kína verði komið á, enda hafi kínverskir ferðamenn mikinn áhuga á ferðum til norðurslóða. Þá séu tækifæri fólgin í betri tengingu við Grænland.
Kjarninn 14. maí 2021
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None