Það getur stundum verið flókið að búa á fákeppnis-eyju. Sérstaklega þegar þúsundir manna reyna að panta sér flug á sama áfangastaðinn til að reyna að verða hluti af einhverju ógleymanlegu. Það reyndi því sérstaklega á útsjónarsemina þegar óstöðvandi vilji færðist yfir til að vera í París í annað sinn á viku til að sjá íslenska landsliðið spila við stórþjóð.
Strax var útilokað að fara í gegnum lukkuriddara sem sáu sér tækifæri í skyndigróðabraski. Þetta voru allt ævintýri sem voru dæmd til að enda illa, líkt og þau gerðu nánast undantekningarlaust. Það má kalla svona lagað íslenska-draums-heilkennið, nema í stað þess að braska með Ópal-sígarettur átti að smyrja vasana með smálánum órvæntingafullra Íslendinga með því að leigja flugvélar eða bjóða upp á milligöngu um miða með súrrealískri álagningu.
Á endanum tókst okkur að klístra saman ferð sem bauð upp á hálfan sólarhring í Vín á leiðinni út og beint flug heim, á um 60 prósent af því sem lukkuriddararnir voru að selja sínar ferðir á. Og með því að kaupa miðanna beint af UEFA þá greiddum við um 15 prósent af því sem maður heyrði að sumt fólk hafi borgað milligöngumönnum fyrir sína.
Heimsfræg um eina helgi
Það var merkileg upplifun að vera Íslendingur í París um liðna helgi. Í leigubílnum inn í borgina, að kvöldi laugardags, keyrðum við í gegnum rauða hverfið, sem dags daglega er heimavöllur vændiskvenna og verslana sem selja DVD-klám, en hefur undanfarið verið undirlagt af Íslendingum. Þegar við nálguðust O´Sullivan-barinn, sem hefur að mestu spilað „Lífið er yndislegt“ og Bubbalög síðustu vikurnar, heyrðist hið fræga „Huhh“ úr fjarska. Fyrir utan barinn voru þúsundir Íslendinga á öllum aldri, fjölskyldufólk, djammhetjur, forstjórar, lagerstarfsmenn og allt þar á milli, að kyrja þetta fræga fagn. Að flykktust Frakkar og aðrir áhugasamir til að taka þátt í gjörningnum.
Í raun má segja að íslenska þjóðin hafi verið eins og kvikmyndastjörnur í sjálfri París um eina helgi. Fólk þyrptist út á götu til að fagna okkur hvert sem farið var, vildi fá myndir af sér með Íslendingum og taka „Huhh“ fagnið. Það vildi vita hvernig við teldum að leikurinn myndi fara og allir óskuðu okkur velfarnaðar. Blessi Frakka. Þvílíkt dásemdarfólk. Samandregið virtist mun meiri stemmning fyrir Íslendingunum en nokkurn tímann franska landsliðinu, sjálfum heimamönnum.
Súperstjörnurnar voru síðan Tólfumeðlimir og aðrir reynsluboltar sem höfðu fylgt liðinu vikum saman. Þykkir, veðurbarnir og sólbrunnir menn á fertugsaldri á síðustu metrum yfirdráttarheimildar, síðustu skrefum andlegrar inneignar og korteri frá lifraskemmd voru eins og Brad Pitt heiðarlegu og jákvæðu knattspyrnubullunnar í nokkra daga.
Vildu ekki yfirgefa bubbluna
Leikurinn fór eins og hann fór. Íslenska liðið virtist aldrei líklegt. Varnarlínan virtist vera að spila allt of framarlega miðað við þann hraða sem hún býr yfir og ákvörðun Frakkanna að pressa ekki öftustu menn neyddi okkur í meira spil og minni kýlingar en liðið hafði komist upp með til þess. Það virtist skapa vandræði og Plan-B virtist aldrei vera sýnilegt.
Það er erfitt að greina hvað olli því hversu lélegir íslensku strákarnir voru í fyrri hálfleik. Kannski voru þeir saddir eftir þann ótrúlega árangur sem þeir höfðu þegar náð. Kannski var bensínið á örþreyttum búkunum búið eftir þær ótrúlega aðfarir og fórnir sem þeir höfðu sýnt af sér í fyrri leikjum. Kannski var spennustígið einfaldlega ekki rétt stillt. Þessu má velta endalaust fyrir sér. En niðurstaðan var sú að Frakkar gengu gjörsamlega frá okkur á 45 mínútum. Ekkert sem einkenndi íslenska liðið í fyrstu fjórum leikjum mótsins var til staðar. Ég man varla eftir því að hafa séð íslenskt landslið vera svona rosalega yfirspilað, og ég er búinn að sjá nær alla landsleiki, oft á tíðum afar slakra, landsliða okkar frá því snemma á níunda áratugnum.
Það er í þessu ljósi sem seinni hálfleikurinn var svo stórkostlegur. Hversu mörg landslið sem keppa á EM myndu hafa karakter í að setja kassann út, 4-0 undir í hálfleik, og reyna eins og ljón að vinna leikinn. Enda vannst sá síðari 2-1 og Ísland hefði alveg getað skorað fleiri mörk ef ekki væri fyrir Hugo Lloris. Frakkar skoruðu á hinn bóginn úr nær öllum færum sínum í leiknum.
Ein ástæða þessa var sú að það var einfaldlega ekkert annað í boði. Tugir þúsunda Íslendinga hafa fylgt liðinu, í nokkrum hollum, og ásamt leikmönnunum búið til eftirminnilegustu sögu yfirstandandi EM. Söguna um pinkulitla liðið með sturluðu áhorfendurna sem gat.
Stuðningsmenn Ísland voru sem fyrr frábærir. Það sást vel fyrir leik hversu ótrúlegt þetta ævintýri er allt saman þegar allur Stade De France, sem tekur yfir 80 þúsund manns, tók undir í víkingaklappinu fræga. Það skal fulllyrt að árangur Íslenska landsliðsins og frammistaða íslenskra stuðningsmanna á þessum risastóra vettvangi sé jákvæðasta landkynning sem íslensk þjóð hefur nokkru sinni orðið fyrir. Það er raunar staðfest í mælingum.
Þrátt fyrir að íslenska liðið væri að skíttapa þá sungu og klöppuðu íslensku stuðningsmennirnir stanslaust. Þessi leikur snérist alls ekki bara um það sem var að gerast á vellinum, heldur var hann uppskeruhátið mótsins í huga Íslendinganna á pöllunum. Við fengum líka ljóðrænt augnablik að gjöf þegar Kolbeinn Sigþórsson skoraði fyrra mark liðsins, nánast á nákvæmlega sama tíma og stúkan lauk við að syngja, enn einu sinni, „Ég er kominn heim/Ferðalok“ fyrir umheiminn.
Þegar leiknum lauk týndust tugþúsundir stuðningsmanna Frakka fljótlega af vellinum. Hálftíma eftir að lokaflautið gall var nær enginn Íslendingur farinn. Fólk vildi ekki að veran í EM-bubblunni myndi enda og ætlaði að ná allra síðustu dropunum úr þessum dásamlega veruleikaflótta sem ævintýrið hefur verið.
Heildin leysist upp í litlar einingar
Og nú er þetta allt saman búið. Lokapunkturinn var fögnuðurinn á Austurvelli í gær þegar strákarnir snéru aftur heim til að taka „Huhh“-ið með þjóðinni, fyrir heimsbyggðina.
Stjórnmálamennirnir stóðu blessunarlega til hliðar og hápunktur hátíðarhaldanna fyrir mér var ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrir það hversu stutt hún var. Sigurður Ingi fær plús í kladdann frá mér fyrir að reyna ekki að stela þrumu sem hann á ekkert meira í en við restin. Þá var það líka skynsamleg ákvörðun hjá skipuleggjendum að láta ÓIaf Ragnar Grímsson ekki tala fyrr en flestir voru hættir að horfa. Þá gat hann sett þetta allt saman í samhengi við sig og erlenda elítu-kunningja sína í rólegheitunum og löngu máli, en aðrir verið í friði frá þeirri raðendurteknu uppákomu.
Næstu vikur verða erfðar þeim sem lengst höfðu verið erlendis og barist í því sem Big-Pete kallaði stærstu víkingainnrás inn á meginland Evrópu frá elleftu öldinni. Maður getur ímyndað sér að nú taki við átök við afleiðingarnar, jafnt líkamlega, andlega og fjárhagslega. Skrefin í bankann og samtölin við makann verða ugglaust þung. Vonandi verða minningarnar nægjanlegt mótvægi.
Ein heild leysist nú upp í allar sínar litlu einingar. Forstjórarnir og fjármálafólkið rífa sig úr þvölum landsliðstreyjunum og H&M-stuttbuxunum og fara aftur í jakkafatabúninginn til að græða peninga. Lagerstarfsmaðurinn fer aftur á lagerinn. Fólkið utan af landi fer aftur þangað og við borgarbúarnir aftur í Latté-sollinn. Og það er stutt í að við förum að rífast aftur um allt sem við erum ósammála um.
Vonandi hefur þessi lífsreynsla sem árangur landsliðsins, og samstaða þjóðarinnar vegna hans, þó kennt okkur eitthvað. Við getum nefnilega verið ósammála um margt en samt sameinast um ýmislegt. Í því felst ekki að kokgleypa skoðanir og meiningar annarra sem þú ert ósammála heldur kannski að læra betur að finna málamiðlanir sem við getum sætt okkur við, og fylkt okkur á bakvið það sem við erum sammála um, sama hvenær það kemur.Lestu fjórða pistil Þórðar Snæs um EM.
Lestu þriðja pistil Þórðar Snæs um EM.