Úrslitaleikir hafa tilhneigingu til að vera leiðinlegir. Þeir sem hafa ekki verið það eru teljandi á fingrum annarar handar. Mexíkó 1986, kannski úrslitaleikur EM 2000, úrslitaleikur meistaradeildarinnar í Istanbúl árið 2005 koma upp í hugann. Þótt ýmsir leikir hafi innihaldið hádramatísk augnablik, t.d. magnaður sigur Manchester United á Bayern Munich árið 1999, þá var leikurinn sjálfur að mestu hundleiðinlegur.
Úrslitaleikur EM 2016 stóð algjörlega undir væntingum sem leiðinlegur úrslitaleikur. Leiðindin voru viðeigandi eftir frekar dapurt mót heilt yfir. Það sem stóð upp úr á EM 2016 var ótrúleg saga íslenska liðsins og áhorfenda þess, og að einhverju leyti hinn frábæri árangur Wales. Að öðru leyti olli mótið vonbrigðum.
Það hefur tekið tæpa viku að melta hversu óskaplega leiðinlegur úrslitaleikurinn var, svo leiðinlegur var hann. Það sem bjargaði leiknum var óvænt, og síðar hönnuð, dramatík í kringum Cristiano Ronaldo.
Skilvirkt og verksmiðjuframleitt ofurmenni
Ronaldo, eða CR7 eins og hann hefur vörumerkt sig, er ekki geðug né aðlandi manneskja. Hann er einn besti knattspyrnumaður allra tíma, hefur afrekað ótrúlega hluti, gefur ógrynni fjár til góðgerðarmála, tekur af sér sjálfur með veikum börnum, er óaðfinnanlega tónaður, á eigin nærbuxnalínu og er með skrýtna, nánast ómanneskjulega, aukavöðva á hálsinum. En það er samt eitthvað óþolandi við hann.
Það er nefnilega fullt af fólki sem skarar fram úr og tikkar útlitslega í öll box sem útlitsdýrkandi samtíminn gerir kröfu um sem er samt óþolandi. Og það er fullt af fólki sem hefur gefið fullt af peningum til góðgerðarmála til að bæta ímynd sína. Bernie Maddoff var til að mynda á fullu í slíku. Svo virðist góðvild Ronaldo stundum líka vera valkvæð. Hann er ekki alltaf að hugsa um að gera heiminn að betri stað. Ronaldo keypti t.d. fyrir ekki alls löngu eyju við Grikkland, þegar flóttamannastraumur um það svæði var sem mestur. Í stað þess að smekkfylla hana af flóttamönnum þá gaf hann umboðsmanninum sínum hana sem sumarleyfisstað.
Ronaldo má eiga það að hann hoppar hærra en flestir, skallar eins og flugskeyti, er með magnaða skottækni, staðsetur sig óaðfinnanlega og hefur komið þeirri kröfu skýrt til skila að hann eigi alltaf að vera miðpunktur alls þess sem lið hans gera, svo hann geti skorað ótrúlegt magn af mörkum. Sem hann síðan gerir. Hann hefur lagt gríðarlega mikið á sig til að þróa þessa vélrænu hæfileika og er líklega skilvirkasti knattspyrnumaður allra tíma. Og fáir ná að halda sér á toppnum í rúman áratug líkt og hann hefur gert. En það er leiðinlegt að horfa á hann.
Munurinn á Ronaldo og t.d. Lionel Messi er sá að Ronaldo hefur losað sig við allan meðfæddan hráleika fyrir skilvirka og uppæfða ofurkrafta. Messi er enn að sóla tíu manns og setja boltann í skeytin. Hann skorar meira að segja úr aukaspyrnum, sem Ronaldo gerir aldrei lengur. Án bolta eyðir Ronaldo mestum tíma sínum standandi á miðjunni, öskrandi á liðsfélaga sína fyrir að gera ekki hlutina eins og hann vill að þeir geri það og hvílandi sig fyrir næstu sókn þar sem hann mun heimta boltann.
Að bera Ronaldo og Messi saman er dálítið eins og að bera Ivan Drago saman við Muhammed Ali. Drago var verksmiðjuframleitt ofurmenni á meðan að Ali var magnað hæfileikabúnt.
Ronaldo-sýningin aðlöguð
Það sem truflar mest við Ronaldo er hversu flatur persónuleiki hann er, hversu hönnuð markaðsvara hann er og hversu ótrúlega sjálmiðaðar allar gjörðir hans eru. Allt sem Ronaldo gerir virðist snúast um að auðga vörumerkið CR7. Þetta sást mjög vel í úrslitaleik EM sem fram fór um síðustu helgi.
Það tók Ronaldo tæpar 20 mínútur að koma sér útaf eftir að Dmitri Payet hafði hnjáað hann í hnéið. Líklega hefði enginn annar knattspyrnumaður fengið jafn rúman tíma til að koma sér útaf, og svigrúm til að leggjast aftur og aftur niður til að láta sjónvarpsvélarnar mynda þjáningu sína í návígi. Það varð Ronaldo til happs að dómari leiksins, Mark Clattenburg, hatar ekki nærmyndatökur sjálfur, og tengdi því vel við leikþátt stórstjörnunnar.
Þegar Ronaldo tók loks ákvörðunina um að skipta sér út af var eins og að hann væri búinn að hanna atburðarrásina fyrirfram í huganum. Hann reif af sér fyrirliðabandið, lagðist niður í grasið, lét sækja börur þrátt fyrir að geta vel gengið og grét þvingað til að selja þá ímynd að himinn og haf væri raunverulega að farast. Fyrir þá sem eru skeptískir á þessa greiningu þá er bent á grát 19 ára Ronaldo eftir tapið í úrslitaleiknum gegn Grikkjum 2004, áður en hann breyttist í Robocop fótboltans, og þeim boðið að bera grátin saman. Sá fyrri var raunverulegur, sá síðari hluti af hannaðri atburðarrás.
Í einn og hálfan tíma sást svo hvorki tangur né tekur af CR7. Þegar framlengingin hófst haltraði hann hins vegar dramatískur út úr búningsherberginu eins og frelsarinn endurfæddur og átti sviðið eftir það. Hann var augljóslega ekki að fara að vinna leikinn sem leikmaður og því var plan B að láta sem sigurinn væri tilkominn fyrir, og vegna, hans. Ronaldo fór að ganga um að klappa leikmönnum Portúgala hvetjandi á höfuðið, tók yfir tæknilega svæðið fyrir framan varamannabekk liðsins með ofsalátum (nú gat hann bæði hoppað og gengið) og ýtti Fernando Santos, þjálfara liðsins með því algjörlega til hliðar.
Framleiðendur sjónvarpsþáttarins sem úrslitaleikurinn var spiluðu með. Þegar eitthvað gerðist í leiknum þá var oftar en ekki skipt yfir á nærmynd af viðbrögðum Ronaldo áður en atvikið hafði einu sinni verið endursýnt. Ronaldo-sýningin var aðlöguð að því að Ronaldo var ekki lengur á meðal leikenda, heldur áhorfandi. Hann fór frá því að vera stjörnuleikmaður í að vera stjörnuáhorfandi. En hann var alltaf stjarnan í sýningunni.
Eins og Jesús kristur á krossinum
Þegar sigurinn var í höfn þá var nánast fyrsta skot sem sjónvarsáhorfendur sáu viðbrögð Ronaldo. Hann fór síðan og náði í fyrirliðabandið sitt af Nani, klæddi sig að nýju í búning, gekk um og fagnaði (engar börur nauðsynlegar) og tók síðan á móti bikarnum með hætti sem hann hefur örugglega æft milljón sinnum fyrir framan spegilinn svo að hárgreiðslan, líkamstjáningin og skrýtnu hálsvöðvarnir væru nákvæmlega eins og þeir ættu að vera fyrir Instagram-myndina sem PR-fulltrúinn hans tók af stundinni. Stundinni þegar hann tók við sigurlaununum sem liðsfélagar hans höfðu unnið fyrir hann.
Systir Ronaldo lýsti þjáningum bróður síns skömmu síðar í færslu á Instagram. Þar líkti hún þolraun Ronaldo, þegar hann grét yfir að þátttöku sinni í úrslitaleik EM væri lokið, við þjáningar Jesús Krists á krossinum.
Það er auðvitað eðlileg samlíking því, líkt og Men in Blazers tvíeykið hafa bent á, þá henti Jesús auðvitað míkrófón fréttamanns út í vatn í fýlukasti, gagnrýndi Ísland fyrir smælingjahátt fyrir að fagna jafntefli og nýtti hvert tækifæri sem honum gafst til að rífa sig úr að ofan til að sýna heiminum geirvörtunar sínar.
Smælingi tryggði honum síðasta ímyndarpúslið
Hinar raunverulegu stjörnur voru hins vegar hinir leikmenn Portúgal, aukaleikararnir í Ronaldo-sýningunni. Þeir unnu EM með því að spila eins og Grikkland hafði gert á móti þeim 2004. Og gerðu það afburðavel. Skærust allra þeirra hefði átt að vera Eder, miðlungsframherji sem ólst upp á munaðarleysingarhæli og komst ekki í liðið hjá Swansea í fyrra, en skoraði stórglæsilegt sigurmark í einum stærsta leik sem fer fram. En flestar fréttir sem skrifaðar eru um Eder þessa daganna snúast bara um að Ronaldo hafi sagt við hann, áður en hann kom inn á, að Eder myndi skora. Þrumunni stolið.
Og ef Ronaldo á að þakka einhverjum fyrir það að hann geti hreykt sér af því að hafa unnið risatitil á landsliðssviðinu, sem fullkomnar arfleiðina og gerir það örugglega að verkum að Messi hættir við að hætta að spila með landsliði sínu, þá ætti hann að þakka Arnóri Ingva Traustasyni, leikmanni íslenska landsliðsins. Hefði Arnór Ingvi ekki skorað sigurmarkið gegn Austurríki í uppbótartíma, og gert Guðmund Benediktsson að frægasta íþróttalýsanda í heimi í leiðinni, þá hefði Ronaldo nær örugglega aldrei náð í úrslitaleikinn.
Jafntefli Íslands gegn Austurríki hefði sent Portúgal í erfiðari helming úrslitakeppninar þar sem liðið hefði þurft að spila á móti Englandi, Frakklandi, Þýskalandi og svo líklega Króatíu í úrslitum. Lið Ronaldo sýndi að þeir gátu, með heppni og kænsku, þröngvað sig í gegnum einu tvo erfiðu leikina sem þeir spiluðu á mótinu, á móti Króatíu og Frakklandi, Þar sem mörk seint í uppbótartíma fleyttu þeim ósanngjarnt til sigurs. En liðið vann einungis einn leik í venjulegum leiktíma allt mótið, á móti Aaron Ramsey-lausu liði Wales í undanúrslitum. Líkurnar á því að liðið hefði verið jafn heppið í ofangreindum fjórum leikjum í röð og það var gegn Króatíu, Póllandi, Wales og á endanum Frakklandi eru litlar.