Ísland hefur alltaf verið land þar sem valdaklíkur hafa getað valið þær upplýsingar sem almenningur fær um ákvarðanir þeirra og athafnir. Oftast nær hefur dugað að humma af sér beiðni um slíkar upplýsingar eða beita fyrir sig rúmri túlkun á þagnarskylduákvæðum laga en þegar óþægilegir þráast við hafa ráðamenn byrst sig við þá og jafnvel reynt að grafa undan tilgangi þeirra og trúverðugleika á opinberum vettvangi. Skilaboðin eru skýr, þetta kemur ykkur ekkert við.
En ákvarðanir sem hafa gífurleg áhrif á samfélagið sem við búum í, og undirliggjandi persónulegir hagsmunir þeirra sem taka þær ákvarðanir, snerta okkur öll með beinum hætti. Þótt margt hafi breyst til hins betra með upplýsinga- og tækniþróun undanfarinna ára, og með brotthvarfi hliðvarða umræðunnar, þá tíðkast enn að háir herrar, og mikilvægar stofnanir, komist upp með að svara ekki mikilvægum spurningum.
Seðlabankinn segir nei
Seðlabanki Íslands hefur leikið lykilhlutverk í haftaríkinu Íslandi. Hann hefur stýrt höftunum og ákveðið hverjir hafi fengið tækifæri til að hagnast á þeim. Það gerði hann meðal annars með gerð fjárfestingarleiðarinnar svokölluðu.
Samkvæmt henni fengu þeir sem áttu erlendan gjaldeyri að skipta honum í gegnum Seðlabankann fyrir íslenskar krónur með um 20 prósent virðisaukningu. Alls komu 206 milljarðar króna inn í íslenskt efnahagslíf með þessum hætti og þeir sem áttu þá peninga fengu þannig 48,7 milljarða króna í virðisaukningu fyrir það eitt að skipta útlensku peningunum sínum fyrir íslenska. Þeir fengu því 23,6 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu fyrir peninginn sem þeir fluttu til Íslands. Á meðal þeirra sem nýttu sér þessa leið voru 794 innlendir aðilar. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að á meðal þeirra sem hafi gert slíkt séu menn sem hafi hlotið refsidóma fyrir efnahagsbrot. Alls fengu þessir íslensku aðilar 72 milljarða króna fyrir gjaldeyrinn sem þeir skiptu í íslenskar krónur. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarða króna.
Seðlabankinn neitar að upplýsa hverjir það eru sem fengu þetta einstaka tækifæri til að græða peninga og eignast íslenskar eignir með afslætti og ber fyrir sig þagnarskyldu. Það er því t.d. ekki hægt að bera saman þennan hóp við þann sem var opinberaður í Panamaskjölunum. Þar kom fram að hópur Íslendinga eigi faldar eignir í erlendum skattaskjólum. Margir þeirra eru menn sem runnu ævintýralega á rassinn í kjölfar hrunsins og borguðu einungis brotabrot af skuldum sínum. Samt sitja þeir á gullkistum á suðrænum eyjum og stýra umfangsmikilli fjárfestingastarfsemi, og borga fyrir upphafinn lífsstíl, með þeim óútskýrðu peningum sem þar eru.
Eitt þeirra mála sem opinberuð voru með Panamaskjölunum tengist skuldauppgjöri félaga sem Jón Ásgeir Jóhannesson, dæmdur hvítflibbaafbrotamaður sem hefur einungis greitt brotabrot af þeim skuldum sem félög hans söfnuðu upp fyrir hrunið, gerði við slitastjórn Glitnis. Í því skuldauppgjöri var panömsku félagi, stýrt af Jóni Ásgeiri og eiginkonu hans, veitt heimild frá Seðlabanka Íslands til að greiða hluta af skuldum félaga sem Jón Ásgeir stýrði með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði. Panamska félagið, Guru Invest, fékk fullt verð fyrir umrædd bréf í skuldauppgjörinu. Með skuldauppgjörinu var komið í veg fyrir að hægt væri að setja hin skuldugu félög í þrot og þar með skapaðist rými til að færa til eignir þeirra. Ekki er vitað til þess að nokkur annar erlendur aðili - því panamskt skattaskjólsfélag er sannarlega erlendur aðili - hafi fengið þessa þjónustu hjá Seðlabanka Íslands. Flestir aðrir erlendir aðilar sem eiga íslensk skuldabréf eru flokkaðir sem hluti af snjóhengju og þurfa að veita veglega afslætti af eignum sínum til að sleppa út úr íslensku hagkerfi með peninganna sína. Það má vel setja spurningarmerki um að sú afgreiðsla sem Seðlabankinn veitti einum aðila umfram aðra sé í andstöðu við viðmið stjórnarskráarinnar um jafnræði.
Ákvörðun um að heimila þessa notkun var tekin innan Seðlabankans. Það var einstaklingur, eða einstaklingar, sem tóku hana. En Seðlabanki Íslands neitar að upplýsa um hver það var sem tók hana, hvaða rök hafi verið fyrir því að taka hana né hvort einhverjir aðrir hafi fengið sömu þjónustu. Hann ber fyrir sig þagnarskyldu. Okkur kemur þetta ekki við.
Geir segir nei
Þá er auðvitað ótalið hið fræga símtal Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, um að veita Kaupþingi 500 milljóna evra neyðarlán 6. október 2008, sama dag og Geir bað guð að blessa Ísland. Gögn frá embætti sérstaks saksóknara hafa síðar sýnt að embættið telur að fjármunirnir hafi að minnsta kosti að hluta verið notaðir til að kaupa verðlaus skuldabréf af starfsmönnum og vildarviðskiptavinum bankans, þótt fyrrverandi stjórnendur hans neiti því staðfastlega að þannig hafi verið í koppinn búið. Staðfest hefur verið að íslenskir skattgreiðendur töpuðu um 35 milljörðum króna á umræddri lánveitingu. Þá er ekki tekið tillit til tapaðrar ávöxtunar á slíkri upphæð á þeim tæpu átta árum sem liðin eru frá lánveitingunni.
Fjárlaganefnd Alþingis reyndi árum saman að fá afrit af umræddu símtali. Það hafa fjölmiðlar líka gert en án árangurs. Birting samtalsins hefur strandað á því að Geir H. Haarde hefur ekki viljað gefa leyfi fyrir henni, en hann vissi ekki að samtalið hefði verið tekið upp. Og Seðlabankinn hefur ekki talið sig hafa heimild til að gera það. Þetta kemur okkur heldur ekkert við.
Forsetinn segir nei
Embætti forseta Íslands er oft sagt vera sameiningartákn. Sá sem gegnir því er enda þjóðhöfðingi og hans hlutverk á að vera að sameina þjóðina. Margt má segja um þann forseta sem nýverið hvarf úr embætti. Flest af því mun hann ugglaust segja frá sjálfur, og túlka með eigin nefi, á næstu árum.
Eitt ótrúlegasta mál sem upp kom á hans ferli sem forseti snerist um skattamál eiginkonu hans, Dorritar Moussaieff. Tæpum fimm mánuðum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hóf sitt fimmta kjörtímabil sem forseti Íslands flutti Dorrit lögheimili sitt frá Bessastöðum til Bretlands. Í yfirlýsingu var það sagt gert vegna starfa hennar fyrir fjölskyldufyrirtæki sitt, sem stundar aðallega viðskipti með demanta. Síðar hafa erlendir fjölmiðlar greint frá því að Dorrit sé reyndar ekki með lögheimili í Bretlandi heldur sé hún skráð án lögheimilis eða heimilisfestu þar í landi vegna skattamála.
Í vor var opinberað að fjölskylda Dorritar ætti félög í skattaskjólum. Kjarninn sendi forsetaembættinu ítarlega fyrirspurn um skattamál Dorritar í kjölfarið. Þar var spurt út framtaldar eignir og tekjur forsetafrúarinnar fyrrverandi á þeim tíma sem hún átti lögheimili á Íslandi, hver reiknaður stofn hennar til greiðslu auðlegðarskatts og viðbótarauðlegðarskatts hefði verið á þeim árum og hvort forsetinn hefði einhverju sinni nýtt sér ónýttan persónuafslátt maka síns. Enn fremur var spurt hvort að skattamál forsetahjónanna hefðu verið til skoðunar hjá skattyfirvöldum á árunum 2006-2015.
Fyrirspurnin var send til skrifstofu forseta Íslands í byrjun maí, eftir að Ólafur Ragnar hafði ákveðið að hætta við að hætta við að bjóða sig fram vegna þess að framkomnir frambjóðendur væru ekki nægilega merkilegur pappír að hans mati. Fjórum dögum eftir að fyrirspurnin var send hætti Ólafur Ragnar við að hætta við að hætta við.
Fyrirspurninni hefur enn ekki verið svarað. Það hefur ekki einu sinni fengist svar frá skrifstofu forsetans hvort það standi til að svara henni efnislega eða ekki. Niðurstaðan er sú að okkur, almenningi, kemur ekki við hvort að eiginkona þjóðhöfðingja landsins hafi borgað skatta hérlendis á meðan að hún hafði hér lögheimili.
Sigmundur Davíð segir nei
Ísland á líka fyrrverandi forsætisráðherra sem var fyrirferðamikill í umfjöllun sem byggði á Panamaskjölunum. Sá heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og telur sig fórnarlamb risasamsæris blaðamanna og vogunarsjóðsstjóra. Það dugar enda ekkert minna til þegar fella þarf yfirburðamenn af stalli.
Þetta ofsóknarbrjálæði á sér auðvitað enga stoð í raunveruleikanum. Þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar um að allt hafi verið lagt á borðið varðandi skattaskjólsfélagið Wintris og tengd málefni þá er það ekki svo. Sigmundur Davíð hefur ekkert skýrt af viti og ekki svarað neinum þeirra spurninga sem skipta máli. Ástæðan er mögulega sú að vinir hans í Bítinu og á Útvarpi Sögu, nánast eina fjölmiðlafólkið sem forsætisráðherrann fyrrverandi talar við, spyrja hann ekki slíkra spurninga.
Sigmundur Davíð hefur ekki birt neinar upplýsingar um eignir Wintris, heldur einungis valdar upplýsingar úr skattframtölum sem sýna einvörðungu að eiginkona hans hafi greitt einhvern skatt vegna auðs síns. Það er ómögulegt að sjá á þeim gögnum sem Sigmundur Davíð hefur birt hvort að allur skattur hafi verið greiddur.
Aðstoðarmaður hans hefur sagt í svörum við fyrirspurnum Kjarnans að ekki standi til að birta beint yfirlit yfir eignir Wintris enda séu það „mjög persónulegar upplýsingar og einhverstaðar hlýtur fólk að draga línuna“. Wintris skilaði ekki svokölluðu CFC-framtali til skattayfirvalda líkt og aflandsfélög í eigu íslenskra skattgreiðenda áttu að gera. Skattayfirvöld hafa því engin tæki önnur en að biðja Sigmund Davíð og eiginkonu hans fallega um að upplýsa sig, hafi þau áhuga á að komast til botns í því hvort Wintris hafi greitt rétta skatta. Og það er ekki hægt að nálgast þessar upplýsingar í ársreikningum Wintris, þeir eru ekki til.
Því byggir sú fullyrðing Sigmundar Davíðs að allar skattgreiðslur hafi verið greiddar á því að fólk trúi honum að svo hafi verið.
Fyrir utan skattgreiðslur þá er stærsta málið varðandi Wintris auðvitað það að félagið er kröfuhafi í bú föllnu bankanna. Þær kröfur urðu til þegar Wintris keypti skuldabréf, sum víkjandi, á Landsbanka Íslands, Kaupþing og Glitni fyrir hrun. Það er reyndar ekki hægt að staðhæfa að bréfin hafi verið keypt fyrir hrun en ekki á kröfueftirmarkaði, því Sigmundur Davíð vill ekki birta upplýsingar sem staðfesta það.
Fjármálaráðuneytið segir nei
Helsta arfleið sitjandi ríkisstjórnar verður hin svokallaða leiðrétting. Millifærsluaðgerð á fé úr ríkissjóði til valin hóps Íslendinga sem var með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Kostnaður er áætlaður einhvers staðar um 80 milljarða króna.
Upphaflega var þessi aðgerð seld sem leiðrétting á forsendubrest, og miðaði þá við að endurgreiða ákveðið prósentuhlutfall í skaðabætur fyrir verðbólguskot sem átti sér stað á á tilteknu tímabili. Það prósentuhlutfall, forsendubresturinn sjálfur, var hvergi að sjá í lokaútgáfu leiðréttingarinnar. Þá snerist aðgerðin einfaldlega um að koma peningum til þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn á grundvelli leiðréttingarloforðsins, enda markaðurinn þá þegar búinn að leiðrétta sig að mestu sjálfur. Þ.e. húsnæðisverð hafi hækkað umfram „forsendubrestinn“.
Þessi aðgerð hefur haft djúpstæðar afleiðingar. Hún hefur t.d. gert það að verkum að vaxtabætur þeirra lág- og millitekjuhópa sem hana þáðu hafa lækkað allverulega og þannig eru þeir að greiða sína leiðréttingu sjálf. Hún hefur haft ruðningsáhrif á fasteignamarkaði og gert það að verkum að þau vandamál sem þar blasa við hafa aukist mikið.
Alls fengu 94 þúsund einstaklingar og börn þeirra þær 80,4 milljarða króna sem greiddar voru út í leiðréttingunni. Það er sirka helmingur Íslendinga sem er á vinnumarkaði. Hlutfallslega voru flestir sem fengu leiðrétt á aldrinum 46 til 55 ára, þorri upphæðarinnar fór á höfuðborgarsvæðið og um tekjuhæsti fimmtungur landsmanna fékk samtals 19,8 milljarða króna í niðurgreiðslur á lánum sínum. 1.250 manns sem greiddu auðlegðarskatt, og áttu þá yfir 75 til 100 milljónir króna í hreinni eign, fékk 1,5 milljarð króna. Þeir sem voru þegar búnir að borga upp verðtryggðu húsnæðislánin sín fengu 5,8 milljarða króna í svokallaðan sérstakan persónuafslátt. Sem á mannamáli þýðir bara reiðufé. Og hluti leiðréttingarinnar fór til fólks sem borgar hvorki skatta hérlendis né skuldar krónu í verðtryggðum íslenskum krónum.
Frekari skipting á því hvernig þessi fordæmalausa peningagjöf úr ríkissjóði dreifðist hefur hins vegar ekki fengist. Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar óskuðu í október í fyrra sameiginlega eftir nýrri skýrslu um leiðréttinguna, þar sem skýrsla Bjarna Benediktssonar, sem skilað var til Alþingis í lok júní 2015 hafi ekki svarað öllum þeim spurningum sem hún átti að gera. Þetta var í annað sinn sem þingmennirnir óskuðu eftir nýrri skýrslu. Það gerðu þeir fyrst í júlí 2015. Beiðni þingmannanna var hins vegar ekki samþykkt á Alþingi þá og þar af leiðandi var ekki verið hægt að svara henni. Seinni beiðnin var hins vegar samþykkt 20. október 2015.
Þingmennirnir tíu fóru meðal annars fram á að fá að vita hvernig heildarupphæð leiðréttingarinnar, um 80,4 milljörðum króna, skiptist eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki og hvernig heildarupphæðin dreifist á milli allra framteljenda eftir hreinum eignum.
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um skýrsluna í byrjun júní þá fengust þau svör hjá fjármálaráðuneytinu að unnið væri að gerð hennar og að henni yrði skilað til Alþingis þegar hún yrði tilbúin. Nú, tæpum þremur árum eftir að Sigmundur Davíð og Bjarni kynntu leiðréttinguna með viðhöfn í Hörpu, hafa ekki fengist svör við grundvallarspurningum um hvernig hún skiptist. Það kemur okkur ekki við.
Okkur kemur þetta víst við
Opin stjórnsýsla, gegnsæ ákvörðunartaka og skýrt hæfis- og ábyrgðarferli þeirra sem vinna að henni er lykilatriði í að endurheimta traust íslensks almennings á stjórnkerfið og stjórnmál. Þeir tímar þar sem valdaklíkur geta ákveðið hlutina, og stýrt upplýsingaflæði um sig, úr bakherbergjum er liðinn. Krafan um að fá svör við ofangreindum spurningum, sem skipta allar gríðarlegu máli til að hægt sé að gera upp undanfarin ár og bæta kerfið um leið, mun ekkert hverfa. Ekkert frekar en t.d. krafan um að fá skýr svör um aðkomu Hauck & Aufhäuser að hinni brjáluðu einkavæðingu Búnaðarbankans, rót þess vanda sem við höfum glímt við alla tíð síðan. Nú er loksins unnið að svari við þeirri ráðgátu og er það væntanlegt fyrir áramót, þrettán árum eftir að Búnaðarbankinn var seldur til S-hóps Ólafs Ólafssonar og Finns Ingólfssonar.
Það er nauðsynlegt að fjölmiðlar - og almenningur allur - haldi skýrt á lofti kröfum um að upplýsingar sem snerta okkur öll séu uppi á borðum. Að þær verði settar fram án túlkunar og án þess að hluta sé haldið eftir. Fólk þarf að fá tækifæri til að meðtaka og greina upplýsingar og mynda sér síðan sjálft skoðun á þeim.
Okkur kemur þetta nefnilega allt saman við.