Búið er að boða til kosninga 29. október næstkomandi. Búast má við að eiginleg kosningabarátta, sem á sér stað að loknum prófkjörum, uppstillingum og þingstörfum, muni verða snörp, eða rúmur mánuður. Allt bendir til þess að tekist verði á um kerfisbreytingar í komandi kosningum. Flokkar alls staðar að úr hinu pólitíska litrofi sem vilja breyta landbúnaðarkerfinu með hagsmuni neytenda að leiðarljósi, breyta stjórnarskrá, afnema kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu, eru fylgjandi eðlilegum nýtingargjöldum fyrir afnot af auðlindum og vilja fjölga störfum í öðrum greinum en frumvinnsluatvinnuvegum munu taka við stjórnartaumunum eftir kosningar miðað við stöðuna í könnunum nú, og raunar nánast allt kjörtímabilið.
Varðstöðuflokkarnir, sem vilja sem minnstar breytingar á kerfinu og samfélaginu og sitja nú á valdastóli, munu að samkvæmt því vera í stjórnarandstöðu eftir haustkosningarnar, enda virðist enginn vilji vera til að vinna með Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki.
Til að breyta þeirri stöðu sem er uppi - þar sem flokkar utan stjórnar mælast að jafnaði með 65 prósent fylgi en stjórnarflokkar með í mesta lagi 35 prósent - þarf eitthvað róttækt og umfangsmikið að gerast. Stjórnmálaflokkar í fylgisvanda, sem er sannarlega að finna í stjórn og stjórnarandstöðu, þurfa að bjóða kjósendum eitthvað sem fær þá til að gleyma af hverju þeir ætluðu ekki að kjósa flokkanna og til að finnast þeir ætla að umbreyta hversdagslegu lífi til hins betra eins og töfrasprota væri veifað.
Þar sem tíminn er knappur og töfrabrögð sem gætu virkað ekki mjög sýnileg virðast ýmsir ætla að bregða á það ráð að endurnýta gamlar sjónhverfingar. Og vinsælasta bragðið í bókinni er hið svokallaða afnám verðtryggingar.
Ekki bara bundið við Framsókn
Tveir flokkar hafa skorið sig úr í notkun á þeirri lýðskrumsbrellu sem afnám verðtryggingar er. Um er að ræða flokka sem þola illa hvorn annan, Framsóknarflokk og Samfylkingu. Tveir þingmenn Samfylkingar lögðu fram frumvarp um bann á veitingu verðtryggðra neytendalána í janúar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði nýverið í útvarpsviðtali að til hefði staðið að kynna plan um afnám verðtryggingar í september á þessu ári. Nú verði þó ekkert af því vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti því og nánast enginn nema Morgunblaðið vill veita honum lengri frest frá kosningum til að ná að pólitískum vopnum sínum. Óskýrt tal Sigmundar Davíðs um afnám verðtryggingar fær þó hljómgrunn hjá ýmsum öðrum stjórnmálamönnum Framsóknarflokksins.
Allt á þetta stjórnmálafólk sem talar mest um afnám verðtryggingar það sameiginlegt að hafa ekki lagt fram neinar útfærslur á því hvernig slík aðgerð færi fram sem byggðar eru á grunni staðreynda. Annað hvort skilur það ekki verðtryggingu og afleiðingar afnáms hennar, sem er alvarlegt, eða það er vísvitandi að blekkja kjósendur sína, sem er enn alvarlegra. Að bölsóttast út í verðtryggingu er nefnilega eins og að kenna pennanum um það sem hendin skrifar. Verðtrygging er ekkert annað en tól sem er notað til að draga úr sveiflum þess örmyntar-, hávaxta- haftakerfis sem við rekum hér á Íslandi. Sökudólgur aðstæðna okkar er gjaldmiðillinn og peningamálastefnan. En það hentar ekki öllum að tala um það.
Færa eignir til skuldara
Í vikunni skrifuðu tveir Framsóknarmenn, ráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson og þingmaðurinn Elsa Lára Arnardóttir, grein þar sem þau lögðu fram leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar fyrst að ekki muni takast að afnema hana.
Það má sjóða tillögur þeirra saman í tvær. Annars vegar að tryggja það með lagasetningu að áhættu vegna verðbólgu verði skipt á milli verðtryggðra lántakenda og lánveitenda þeirra. Hins vegar að breyta eigi vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu, þannig að húsnæðisliðurinn sé tekin út úr henni.
Báðar þessar aðgerðir eru verulega vanhugsaðar og hvetja til aukinnar skuldsetningar. Ef það verður sett þak á hversu mikið lántakandi mun þurfa að borga af verðbótum lána sína þá mun hann „græða“ þegar verðbólgan fer yfir það þak. Einungis þeir sem skulda munu fá þann „gróða“. Sá kostnaður sem í dag myndi lenda á þeim sem tók lánið myndi í staðinn lenda á lánveitandanum. Á Íslandi eru nokkrir aðilar sem veita íbúðarlán. Þar er stærstur Íbúðalánasjóður, sem er 100 prósent í eigu íslenska ríkisins. Þar næst koma viðskiptabankarnir þrír, en tveir þeirra - Íslandsbanki og Landsbankinn - eru í eigu ríkisins og það á einnig 13 prósent hlut í þeim þriðja, Arion banka. Síðustu stóru leikendurnir á íbúðalánamarkaði eru svo lífeyrissjóðir landsins, sem eru í eigu sjóðsfélaga og hafa það eina markmið að ávaxta iðgjöld okkar til að borga Íslendingum sem mestan lífeyri í ellinni.
Tvennt gæti gerst við slíkar aðstæður. Lánveitandinn myndi einfaldlega taka kostnaðinn sem verður til vegna þaksins og velta honum út í vextina sína. Þannig færist hann aftur til lántakenda og öll æfingin var ekki til neins.
Hins vegar gætu lánveitendurnir kyngt kostnaðinum og hann myndi þar með færast yfir á eigendur þessarra aðila: skattgreiðendur og sjóðsfélaga lífeyrissjóða. Virði eigna ríkisins - bankanna og Íbúðalánasjóðs - myndi lækka og sömuleiðis virði eigna lífeyrissjóðanna.
Þeir sem myndu njóta góðs af þessu kerfi eru þeir sem skulda verðtryggt (rúmlega 80 prósent allra íbúðalána eru verðtryggð). Þeir sem myndu borga fyrir það án þess að fá neitt til baka eru þeir sem skulda ekki. Þ.e. leigjendur, eignarlausir, skuldlausir og aðrir sem hafa ekki tekið íbúðarlán.
Ef hin leiðin sem Gunnar Bragi og Elsa Lára boðuðu yrði að veruleika - að húsnæðisliðurinn yrði tekin úr vísitölu neysluverðs - þá væri verðhjöðnun á Íslandi í dag. Við slíkar aðstæður myndi höfuðstóll lána þeirra sem eru með verðtryggð lán lækka. Og þeir þar með einir Íslendinga græða á aðgerðinni.
Semsagt: þeir einir myndu græða sem skulda. Verðtryggt.
Leiðir til að dýpka vandann
Þriðja leiðin sem talað hefur verið um að ráðast í er að banna ný verðtryggð neytendalán. Hluti þingmanna Samfylkingarinnar hafa meðal annars barist fyrir slíku. Stundum fylgir með sú útfærsla að breyta eigi öllum verðtryggðum lánum samhliða í óverðtryggð lán, líkt og það breyti með einhverjum hætti getu þeirra sem hafa ekki efni á slíkum til að greiða af þeim.
Nú virðist sem að stefnt sé að því að leggja fram ríkisstjórnarfrumvarp sem taki eitt skref í þessa átt. Það á að banna svokölluðu Íslandslán, sem eru 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur reyndar reiknað það út að 40 prósent þeirra sem eru með slík lán myndu ekki standast greiðslumat fyrir annars konar lánum. Um er að ræða vinsælasta lánaformið á Íslandi þar sem að það gerir fólk með lágar eða meðaltekjur kleift að eignast húsnæði en greiða mun lægri upphæð fyrir það á mánuði en í öðrum lánaformum eða á leigumarkaði.
Semsagt: sá bráðavandi sem er á íslenskum húsnæðismarkaði í dag vegna skorts á framboði myndi magnast gífurlega.
Verðtrygging er ekki vandamálið
Ég er ekki talsmaður verðtryggingar. Það er líklega ekkert sem myndi bæta lífskjör íslensks launafólks meira en að því myndu bjóðast eðlilegir vextir á risastóru lánunum sem það þarf að taka til að kaupa sér þak yfir höfuðið.
En sú staða sem er uppi í dag er ekki verðtryggingunni að kenna. Hún er afleiðing pólitískra ákvarðana um að halda hér uppi örmynt og peningastefnu sem gagnast fyrst og síðast þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem lifa í öðrum efnahagslegum veruleika en íslenskt launafólk. Fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa aðgengi að lánsfé í öðrum myntum eða eiga digra sjóði á aflandseyjum og hagnast því í krónum talið þegar íslenska hagkerfið tekur sínar reglubundnu dýfur, með tilheyrandi áhrifum á kjör og eignarstöðu íslenskra launamanna.
Fyrir tæpu ári síðan skrifaði ég leiðara um afnám verðtryggingar sem lauk á eftirfarandi orðum:
„Og umræða um afnám verðtryggingar, með allskyns krúsídúllu-leiðum sem fela í sér millifærslur úr sameiginlegum sjóðum eða notkun á pólitísku valdi til að knýja fram ósjálfbærni í rekstri lánafyrirtækja, er ekkert annað en hávaði til að beina sjónum almennings að vandamáli sem skapast vegna vandamáls í stað þess að horfa á vandamálið sjálft. Vegna þess að það vandamál heitir íslenska krónan.“
Þessi orð eiga enn jafn vel við nú og þá.