Stjórnmál eiga að snúast um hugmyndir og skynsemi. Það er eðlilegt að hugmyndir allra séu ekki þær sömu og að skynsemi eins leiði hann í aðra átt í ákvörðunartöku en skynsemi annars. Síðustu árin hefur skynsemin yfirgefið marga sem stunda stjórnmál. Þeir eru hættir að styðjast við staðreyndir en láta fullyrðingar og tilfinningar nægja til að rökstyðja ákvarðanir sínar og stefnur. Og þol gagnvart öðrum hugmyndum fer sífellt minnkandi. Samandregið má kalla þessi stjórnmál róttæka skynsemishyggju, en samkvæmt henni eru staðreyndir valkvæðar og þurfa ekki að vera raunverulegar ef þær henta ekki þeim málflutningi sem viðkomandi er að selja.
Þetta endurspeglast mjög vel í því að valdir stjórnmálamenn kalla sífellt eftir að umræða sé málefnaleg og á efnislegum forsendum en neita svo að beita fyrir sig nokkrum vitrænum rökum til að styðja málflutning sinn eða ræða aðalatriði máls. Og ef einhver er þeim ósammála, eða neitar að ræða málin á þeirra forsendum, þá er það vegna þess að viðkomandi er andstæðingur. Óvinur.
Fáránleiki sem virkaði
Þessi samsæriskenninga- og stríðspólitík hefur færst upp á annað stig fáránleikans hjá fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar og þeim sem standa honum næst.
Það er kannski ekki skrýtið að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson treysti á þessa taktík. Það reyndist honum mjög vel í pólitík framan af að búa til strámenn sem áttu að vilja Íslandi allt illt. Í Icesave-málinu var það Evrópusambandið og þáverandi ríkisstjórn. Efnahagslega var það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Bretar og Hollendingar. Í aðdraganda síðustu kosninga voru það hrægammarnir sem ætluðu að blóðmjólka Ísland.
Eftir að hafa unnið fordæmalausan og glæstan kosningasigur snéri Sigmundur Davíð sér að fjölmiðlum. Eftir mánuð á valdastóli skrifaði hann fræga grein um loftárásir þeirra, og nafngreindi þar sérstaklega fréttastofu RÚV, sem honum hefur alla tíð síðan verið sérstaklega í nöp við. Sigmundur Davíð boðaði meðal annars þáverandi útvarpsstjóra RÚV á sinn fund til að kvarta undan umræðu tiltekinna starfsmanna um Framsóknarflokkinn. Í janúar 2015 endurtók hann leikinn og boðaði þáverandi fréttastjóra 365 á fund vegna umræðu um hann sjálfan og flokk hans. Þá var Sigmundur Davíð með fyrir framan sig greiningu á skrifum fréttastjórans og annarra sem skrifuðu fyrir Fréttablaðið á þeim tíma. Forsætisráðherrann þáverandi sagði þessi skrif gera sér og ríkisstjórn sinni erfitt fyrir og væri þeim til trafala.
Þegar Seðlabanki Íslands og atvinnulífið urðu óvinir
Í ræðu sem Sigmundur Davíð hélt á Viðskiptaþingi í febrúar 2014 hellti hann sér yfir Seðlabanka Íslands fyrir að hafa greint áhrif skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar í ritum sínum, og sagðist ekki skilja af hverju hann eyddi tíma sínum í það. Frekar hefði verið ástæða til að fjalla um áhrif Icesave-samninganna á íslensk heimili. Forsætisráðherra þjóðarinnar ásakaði Seðlabanka hennar um að stunda pólitík gegn sér. Að vera óvinur.
Gagnrýnin var fordæmalaus og bar með sér að ríkisstjórn Íslands vantreysti Seðlabankanum til að gegna lögbundnum skyldum sínum. Í kjölfarið var staða Más Guðmundssonar seðlabankastjóra auglýst til umsóknar. Aðgerðirnar leiddu til þess að lykilstarfsmenn innan bankans íhuguðu að segja störfum sínum lausum og sögðu að ummæli Sigmundar Davíðs hefðu vegið að trúverðugleika bankans. Þeir upplifðu raunverulega að ákvörðunin um að auglýsa stöðu seðlabankastjórans lausa til umsóknar hefði verið hefndaraðgerð vegna þess að Seðlabankinn vann vinnuna sína og greindi áhrif fordæmalausrar skuldaniðurfellingar á jafnvægi efnahagskerfisins.
Í ræðunni frægu gagnrýndi hann einnig Samtök atvinnulífsins harðlega vegna þess að Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs samtakanna, hafði sagt á opinberum vettvangi að íslensk stjórnvöld virtust ekki vilja erlenda fjárfestingu. Sigmundur Davíð hellti sér yfir hana í ræðunni og lagði til að Samtök atvinnulífsins myndu annað hvort nota fjármagn og bolmagn sitt til að vinna með stjórnvöldum, eða spara félagsmönnum sínum framlögin og setja bara á fót bloggsíðu.
Þegar háskólasamfélagið og Gísli Marteinn urðu að óvinum
Sigmundur Davíð mætti svo í sjónvarpsþátt hjá Gísla Marteini Baldurssyni skömmu síðar til að ræða þessi mál. Eitt af því sem hann hafði rætt um í Viðskiptaþingsræðunni var að pólitískir krossfarar í háskólasamfélaginu ynnu gegn ríkisstjórn hans. Í þættinum sagði hann: „Það sem ég er að setja út á er þegar menn skrifa af heift og skrifa tóma vitleysu – það er ósæmandi háskólasamfélaginu, þegar menn eru bara í pólitískri herferð gegn einhverjum sem þeir líta á sem andstæðinga sína og nýta aðstöðu sína, hvort sem er í háskólanum eða einhvers staðar annars staðar, eru ekki að taka þátt í pólitískri rökræðu, eru heiftúðugir og eru herferð gegn ákveðnum hópum í samfélaginu.“ Háskólasamfélagið var í herferð gegn honum. Það var óvinur.
Hann gagnrýndi líka Gísla Martein sjálfan í viðtalinu fyrir að vera að koma skoðunum sínum of mikið á framfæri í stað þess að spyrja hann spurninga. Þegar Gísli Marteinn sagðist stýra viðtalinu sagði Sigmundur Davíð: „Nei.“ Nýr óvinur hafði fæðst.
Icesave vinir verða óvinir
Á síðustu tveimur árum hefur fjölgað verulega í óvinastoði formanns Framsóknarflokksins. Þar hafa andlitslausir erlendir kröfuhafar auðvitað verið fyrirferðarmiklir. Með því að benda á þá sem helstu andstæðinga íslenskrar þjóðar tókst Sigmundi Davíð nokkuð vel að búa til „við gegn þeim“ stemningu í samfélagi sem átti ekki gott með að skilja alla fleti þeirrar úrlausnar sem unnið var að til að klára uppgjör gömlu bankanna, og lauk með samningum um greiðslu stöðugleikaframlaga sem draga úr áhrifum útflæðis á greiðslujöfnuð Íslands.
Sá mikli sigur sem samningar ríkisins við kröfuhafa átti að verða varð þó fljótlega súr þegar gagnrýni var sett fram um að greiðslur til ríkisins vegna þeirra væru allt of lágar. Sérstaklega vegna þess að sú gagnrýni kom frá Indefence-hópnum, sem Sigmundur Davíð og nánustu samstarfsmenn hans höfðu unnið náið með þegar Icesave-deilan stóð yfir. Indefence-liðar, sem stutt höfðu Sigmund Davíð fram að þessu, urðu samstundis að óvinum hans og því var skilmerkilega komið á framfæri við þá.
Óvinir reyna að knésetja yfirburðamann
En óvinaherinn fór fyrst að taka á sig heildarmynd þegar forsætisráðherrann fyrrverandi varð uppvís að því að eiga aflandsfélag í skattaskjóli sem geymdi gríðarlega miklar fjárhæðir, að hann væri kröfuhafi í slitabú bankanna sem hann hafði unnið að slitum á og að hann hefði logið í viðtali þegar hann var spurður út í þetta.
Wintris-málið kostaði Sigmund Davíð forsætisráðherrastólinn en hann hefur aldrei sýnt neina iðrun vegna þess að öðru leyti en að hafa viðurkennt að hafa staðið sig illa í viðtalinu fræga sem hann rauk út úr. Þess í stað fór formaður Framsóknarflokksins í langt frí, hugsaði málin gaumgæfilega og mætti síðan aftur í haust með það sem hann taldi vera heildarmynd af því sem átt hefði sér stað. Söguskýring Sigmundar Davíðs er sú að hann hafi ekki gert neitt rangt heldur sé fórnarlamb risasamsæris.
Í bréfi sem hann ritaði flokksmönnum í lok júlí, þegar hann snéri aftur úr fríi, boðaði hann endurkomu sína í stjórnmál. „Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu. Viðbrögð, jafnvel ofsafengin viðbrögð gegn mér og okkur eru nú sem fyrr til marks um að andstæðingar telji sér að sér standi ógn af okkur. Þótt framsóknarmenn láti andstæðingana ekki slá sig út af laginu er mikilvægt að hafa helstu staðreyndir á hreinu.“
Panamasamsærið
Rannsókn Sigmundar Davíðs á málinu leiddi hann að þeirri niðurstöðu að handrit hefði verið skrifað að málinu, það undirbúið í sjö mánuði í mörgum löndum, og því svo framfylgt af fjölmiðlum víða um heim í byrjun apríl 2016. Fyrst ásakaði hann vogunarsjóðsstjórann George Soros um að hafa staðið að baki þessu samsæri. Hann hefði keypt Panamaskjölin sem Wintris-málið byggði á og notað þau að vild. Þegar bent var á að Soros hefði sjálfur verið opinberaður í lekanum færðist fókusinn víðar.
Vænisýkin náði svo hámarki á miðstjórnarfundi á Akureyri nýverið þegar formaður Framsóknarflokksins hélt rúmlega klukkutímalanga ræðu með glærum. Á glærunum birtist sterkt myndmál sem ætlað var að styðja við þann málflutning hans að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri sterkasti stjórnmálamaðurinn í hinum vestræna heimi. Á Íslandi hafi stjórnvöld sigrast á alþjóðafjármálakerfinu og Íslendingar væru eina þjóðin í heiminum sem hefði gert það. Um leið birti hann mynd af merki Framsóknarflokksins.
Næsti fasi ræðunnar snerist um hvernig síminn hans hafi verið hleraður, brotist hefði verið inn í tölvuna hans, hann hafi verið eltur víða í útlöndum af skuggalegum andstæðingum og fulltrúar „kerfisins“ reynt að lokka hann inn í bjálkakofa í Norður-Dakóta til að semja við hann um að hætta að standa svona fast í lappirnar gegn þeim.
Sigmundur Davíð óskaði reyndar eftir því að rekstrarfélag stjórnarráðsins myndi skoða hvort brotist hefði verið inn í tölvuna hans 1. apríl síðastliðinn, þremur dögum áður en að frægur Kastljósþáttur um Wintris var sýndur. Þá var þegar búið að ganga frá öllum samningum við kröfuhafa föllnu bankanna og engin sýnileg ástæða fyrir þá að vera að brjótast inn hjá honum. Enda fundust engin staðfest ummerki um að slíkt innbrot hafi átt sér stað við ítarlega skoðun rekstrarfélagsins á því.
Eftir að hafa talað sig upp færði Sigmundur Davíð sig yfir í að útlista hvað þyrfti að gera til að hin óslitna sigurganga sín gæti haldið áfram, þrátt fyrir einbeittan vilja óvina hans til að koma í veg fyrir það. Hann hvatti flokksmenn til að taka sér hermenn Wellington í orustunni um Waterloo til fyrirmyndar í þeirri baráttu sem væri fram undan. „Þetta er stundum tilfinningin, að riddararnir séu að sækja að okkur,“ sagði hann. Standa þyrfti saman gegn óvinunum til að sigur ynnist. Öllum var ljóst að samstaðan sem Sigmundur Davíð kallaði eftir snérist um að styðja hann sjálfan. Óskorað og án fyrirvara.
Eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, sem Sigmundur Davíð hefur síðar sagt að hafi einungis verið fenginn tímabundið til að setjast í þann stól fyrir sig á meðan æsingamenn róuðust, sagði að hann gæti ekki unnið áfram í forystu Framsóknarflokksins með formanninum og fleiri áhrifamenn kölluðu eftir að hann viki varð til enn einn óvinur: andstæðingar innan flokksins.
Óheilindi og vænisýki
Sagan mun dæma Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem einn áhugaverðasta og umdeildasta stjórnmálamann sem uppi hefur verið á Íslandi. Maðurinn sem kom svo ferskur inn í hinn staðnaða Framsóknarflokk árið 2009 og leiddi hann til ótrúlegs kosningasigurs í apríl 2013 hefur orðið uppvís að fordæmalausum óheilindum og ótrúlegri vænisýki, sem birtist í því að hann er ófær um að líta í eigin barm og býr þess í stað alltaf til strámenn sem hægt er að kenna um ófarir hans.
Á undanförnum árum hefur fjölgað mikið í þeim strámannaher sem tekið hefur sig saman til að fella Sigmund Davíð, að hans mati. Í honum eru RÚV, nær allir aðrir fjölmiðlar landsins, liðsmenn annarra stjórnmálaflokka, ýmis hagsmunasamtök, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Íslands, Gísli Marteinn Baldursson, háskólasamfélagið, atvinnulífið, Indefence, 26 þúsund manns sem mótmæltu honum á Austurvelli í byrjun apríl, 80 prósent þjóðarinnar sem segist ekki treysta honum, ónafngreindir og andlitslausir kröfuhafar, menn sem elta hann í útlöndum eða brjótast inn í tölvuna hans, nafngreindir vogunarsjóðastjórar, alþjóðafjármálakerfið og hluti Framsóknarflokksins.
Í júní 2013 skrifaði Sigmundur Davíð grein á heimasíðu sína um fuglahræður. Í niðurlagi hennar segir: „Ef stjórnmálin eiga að virka sem skyldi, ef menn vilja raunverulega bæta stjórnmálin, þurfa menn að vera reiðubúnir til að vinna saman og gefa fólki sem vill láta gott af sér leiða tækifæri til þess. Aðalatriðið er að ræða málin út frá staðreyndum og rökum en ekki fordómum og gömlum brellum. Strámenn geta reynst vel til að fæla fugla af ökrum, en þeir hafa lítið hlutverk í uppbyggilegri pólitískri rökræðu.“
Sigmundur Davíð dagsins í dag ætti að lesa þessa grein sem Sigmundur Davíð skrifaði fyrir þremur árum. Og máta hana á sjálfan sig.