Fyrsti heimaleikur íslenska landsliðsins eftir epíkina á EM í sumar var í kvöld á móti Finnum. Blessunarlega fór hann fram á milli haustlægða þannig að knattspyrnuveður var boðlegt. Það var þó greinilegt að EM-bubblan er fjarlæg fortíðarminning og raunveruleikinn var tekinn við þegar nístingskaldur vindurinn smeygði sér inn að beini á meðan að þjóðsöngur liðanna var leikinn og hópur af öndum flaug yfir alvarleg liðinn.
Síðast þegar íslenskir aðdáendur hópuðu sig saman á leikvangi til að horfa á Ísland spila var það gegn Frökkum í París í átta liða úrslitum EM í meginlands-júlíhita. Þá hafði öll þjóðin, óháð stétt og stöðu, viðurkennt þá hegðun að vera andlitsmáluð og íklædd landsliðstreyju öllum stundum. Víkingaklappið varð heimsfrægt og íslensku áhangendurnir í París voru vinsælli en Hollywood-stjörnur þegar þeir gengu misjafnlega upplagðir í ljótum stuttbuxum og þvölum búningum um götur heimsborgarinnar.
Í Frakklandi stóðu áhorfendur allan tímann. Hver einasta íslensk sála söng úr sér lungun þegar Óðinn Valdimarsson hljómaði í græjunum. Allir tóku þátt í gerð stanslausra Víkingaklappa. Nú var eins og meðvitaði raunveruleikinn hafði tekið aftur tökin. Undirtektirnar í „Ferðalokum“ voru nánast engar og heilt sumar af Víkingaklöppum í öllum brúðkaupum, barnaafmælum og annars konar hópfögnuðum virtist í aðdragandum hafa skilið þjóðina eftir með kjánahroll gagnvart þeim. Bola-samstöðudásemdin frá því í Frakklandi virtist vera á undanhaldi. Það var eins og hún ætti ekki heima með kuldanum, öndunum og vonda kaffinu á Laugardalsvelli. En það átti eftir að breytast.
Minningin um Steve McClaren
Íslenska liðið var búið að eiga tvær góðar undankeppnir í röð. Komst næstum því til Brasilíu 2014 og gerði síðan auðvitað enn betur í undankeppni EM. Þótt alltaf sé hægt að ylja sér við minningarnar, og horfa á klippuna af Steve McClaren lýsa þegar Ísland komst yfir á móti Englandi, þá virðist öllum ljóst að nýtt verkefni er hafið.
Það byrjaði á tæpu jafntefli í Úkraínu i síðasta mánuði. Á móti Finnum þurftum við þrjú stig. Og að sýna að við erum stöðugt alvöru lið.
Nóg af bjór var í boði á Októberfest Þróttar fyrir leik fyrir þyrsta til að gíra sig upp fyrir leik og KSÍ fær hrós fyrir að skipta út þurru, nánast óætu, vefjunum sem blaðamönnum hefur vanalega verið boðið upp á með vonda kaffinu fyrir prýðilegar Lemon-lokur. En að leiknum.
Maður í fótbolta sem hefur ekki áhuga á fótbolta
Meiðsli gerðu það að verkum að öll tannhjól íslensku vélarinnar voru ekki til taks í þetta sinn. Auk Kolbeins Sigþórssonar vantaði Hannes Þór Halldórsson í markið og Jón Daði Böðvarsson var ekki nægilega heill til að byrja. Því byrjuðu Alfreð Finnbogason, Ögmundur Kristinsson og yfirlýstur enginn áhugamaður um fótbolta, Björn Bergmann Sigurðarson.
Ísland byrjaði miklu betur. Liðið hélt bolta vel, skapaði hálffæri og leit vel út. Áhorfendur tóku fljótt við sér þegar Tólfan fann taktinn í kuldanum og byrjaði að öskra yfir á hina stúkuna. Það tókst merkilega vel að skapa stemmingu þrátt fyrir opin völlinn og helvítis hlaupabrautina.
Eftir korter kom fyrsta Víkingaklappið. Allir tóku undir. Og það var bara ekkert kjánalegt. Það var góð tilfinning að klappið ætlar að lifa af óábyrgu ofnotkunina.
Ísland náði að skora á 18 mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Fyrstu tuttugu mínúturnar voru í raun einstefna. En svo fengu Finnar eitt færi og skoruðu. Það er ekki alltaf hægt að fara auðveldu leiðina.
Þroski breytist í einbeitingarleysi
Við þessar aðstæður reyndi á þroska íslenska liðsins. Finnarnir pökkuðu í vörn og reyndu ekki einu sinni að sækja. Íslenska liðið brást ákaflega vel við. Spilaði silkimjúkt á milli sín, reyndi að finna góðar stöður og þrýsti fast á finnska múrinn. Það bar árangur á 37 mínútu þegar Kári Árnason, hrjúfasti leikmaður liðsins, jafnaði leikinn.
En þá var eins og leikurinn breyttist aftur á augabragði. Finnar reyndu að sækja og skoruðu innan tveggja mínútna. Þroski breyttist í einbeitingarleysi.
Íslenska liðið stillti sig fljótt af og hóf þolinmóða uppbyggingu að nýju. Ragnar Sigurðsson fékk dauðafæri eftir frábæra sókn en finnski markvörðurinn varði á einhvern ónáttúrulegan hátt góðan skalla hans.
Áhorfendur reyndu að Víkingaklappa liðið í gang en það var hálf máttlaust. Niðurstaðan var tapstaða í hálfleik.
Húsið sem vildi ekki hrynja
Seinni hálfleikur hefði varla getað byrjað betur fyrir Íslendinga. Þeir fengu vafasamt horn og upp úr henni var dæmt víti á Finna fyrir hendi. Gylfi Sigurðsson, sem skorar nær alltaf úr vítum, skaut boltanum í slánna, í markmanninn og þaðan datt boltinn niður á línuna. Finnski markaðurinn náði fyrstur til hans og sló í burtu. Gylfi var ekkert hættur að skjóta í tréverkið. Á 57 mínútu beygði hann boltann gullfallega með skoti utan teigs í stöng finnska marksins. Nokkrum mínútum síðar átti Gylfi svo skot á markið úr aukaspyrnu sem var varið ágætlega. Ætlaði þetta að vera einn af þessum dögum?
Íslenska liðið réð algjörlega leiknum. Hélt bolta mjög vel og byggði upp sóknir. Liðið blés og blés eins og úlfurinn en niður vildi finnska grísahúsið ekki. Árangursleysið smitaðist til áhorfenda og það var mikil deyfð yfir þeim. Einu skiptin sem heyrðist almennilega í þeim var þegar Finnar töfðu, sem þeir byrjuðu að gera ansi snemma í síðari hálfleiknum.
Þegar korter lifði leiks var Viðar Örn Kjartansson, sóknarmaðurinn sem spilar helst bara í skrýtnum fótboltalöndum, sendur inn á. Ísland hélt áfram að pressa og Finnland hélt áfram að vilja ekki vera með boltann. Aron Einar Gunnarsson átti gott skot þegar rúmar tíu mínútur voru eftir sem framkallaði sjónvarpsmarkvörslu og íslenska liðinu tókst ekki að gera sér mat úr afgöngunum. Risa-Finni sem komið hafði inn á í framlínu finnska liðsins festi sig í sessi sem mest óþolandi leikmaður vallarins með því að leggjast ítrekað niður og þykjast of meiddur til að standa.
Það ótrúlega gerist...stundum
Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma náði Alfreð Finnbogason skallaði inn gríðarlega verðskulduðu jöfnunarmarki af stuttu færi og stúkan tók rosalega við sér. Ætluðum við að klára þetta?
Svarið var já! Ragnar Sigurðsson, eða Alfreð Finnbogason, skoraði ótrúlegt flautumark sem tók smá tíma að fá staðfest að hefði verið löglegt á síðustu sekúndum leiksins. Ákaflega vafasamt, en stórkostlegt, mark. Finnarnir urðu brjálaðir, íslenska stúkan sturlaðist og allt varð allt í einu gott. Nýtt ævintýri er hafið.
Fótbolta getur stundum verið dásamleg íþrótt.