Þegar þetta birtist eru vonandi tugþúsundir kvenna að undirbúa sig undir að ganga út af heimilum og vinnustöðum og fylkja liði á Austurvöll til að mótmæla því óréttlæti að kynbundinn launamunur skuli enn vera til staðar. 41 ári eftir að íslenskar konur brutu blað með sambærilegum aðgerðum, og spurðu meðal annars um það hvenær allir menn yrðu taldir menn, með sömu störf og líka sömu laun. Ætli þær hafi grunað að 41 ári síðan yrði ennþá útlit fyrir að rúmlega 50 ár yrðu í að það rættist?
Það er hægt að taka fjöldamörg dæmi úr rannsóknum sem sýna launamun á milli kynja á Íslandi, bæði óleiðréttan launamun og þegar búið er að leiðrétta fyrir ýmsum breytum. Meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri tekjur að meðaltali.
Jafnrétti á vinnumarkaði er eitt stærsta jafnréttismálið á Íslandi. Launajafnrétti er forsenda þess að hægt sé að ná fram jafnrétti á fleiri sviðum, til dæmis að hægt sé að bæta foreldrajafnrétti á Íslandi. Ef við hættum að borga konum minna en körlum eru líkur á því að karlar hætti að sleppa fæðingarorlofinu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, en hafa í miklum mæli minnkað eða hætt alveg við að taka á undanförnum árum. Ef karlar verja meiri tíma með börnunum sínum græða allir og ef foreldrar bera jafnari byrðar á heimilinu eru líka meiri líkur á því að konur þurfi ekki að vera í hlutastörfum eða vinna minna en karlar, sem hefur áhrif á bæði óleiðréttan og leiðréttan launamun. Þannig hefur launajafnrétti mikil keðjuverkandi, jákvæð áhrif á allt samfélagið.
Karlar, karlar alls staðar
Til þess að jafnrétti náist á vinnumarkaði þurfa líka allir að eiga sömu möguleika á framgangi í starfi. Kjarninn hefur reglulega tekið saman fjölda kvenna og karla í ýmsum stjórnunarstöðum, og í stuttu máli er staðan á Íslandi árið 2016 þessi:
Ríkisstjórninni er stýrt af tveimur körlum og var lengst af á þessu kjörtímabili, líkt og flestum öðrum kjörtímabilum, skipuð körlum að meirihluta til. Forseti Alþingis er karl, forseti Íslands er karl. Karlar eru í meirihluta þingmanna, eins og alltaf hefur verið, og útlit er fyrir að verði áfram eftir kosningarnar um helgina.
Af 87 æðstu stjórnendum fyrirtækja í íslensku fjárfestinga- og fjármálakerfi eru sex konur, samkvæmt nýjustu úttekt Kjarnans. 81 karl, 6 konur. Ein kona stýrir banka, ein sparisjóði. Eina konan sem stýrði skráði félagi á markaði var látin fara úr því starfi fyrir skömmu, þannig að hver einasta fyrirtæki sem er á markaði er með karl við stjórnvölinn. Ein kona stýrir lánafyrirtæki, tvær lífeyrissjóðum, ein Framtakssjóði Íslands. Sex konur eru stjórnarformenn í skráðum fyrirtækjum og tíu karlar. Svo er forstjóri Kauphallarinnar karl, það eru líka seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur Seðlabankans. Og þrátt fyrir að lög séu í gildi um að hlutföll hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent er það langt frá því að vera tilfellið. Af 982 stjórnarmönnum í 270 stærstu fyrirtækjum landsins eru 665 karlar og 317 konur. Það þýðir 32% konur og 68% karlar.
Dæmigerður stjórnarmaður í íslensku atvinnulífi er karlmaður á sextugsaldri.
Líkt og annars staðar í samfélaginu er líka munur á tekjum karla og kvenna í stjórnendastöðum. Þetta sést til að mynda á tekjublöðum Frjálsrar verslunar, sem sýndi í sumar að ekki sé nóg með að karlar séu miklu fleiri í stjórnunarstöðum heldur hafa þeir miklu hærri tekjur. Úttektin er auðvitað ekki tæmandi, en tekur samt saman laun 450 forstjóra fyrirtækja á Íslandi. Þar af voru 376 karlar og 74 konur. Konurnar höfðu að meðaltali 1.423 þúsund krónur í laun á meðan karlar höfðu að meðaltali 2.238 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að konurnar höfðu að meðaltali tæplega 64 prósent af meðallaunum karlanna. Kvenkyns millistjórnendur höfðu um 74% af launum karlanna.
Þá erum við ekki einu sinni farin að ræða það að konur sinna láglaunastörfum í mjög miklum mæli, þrátt fyrir samfélagslegt mikilvægi margra þeirra starfa.
Ábyrgð þeirra sem geta breytt
Af hverju er eins og það sé lögmál að karlar stjórni peningum á Íslandi? Átta árum eftir að karlar meira og minna settu allt á hliðina, eru þeir við stjórnvölinn. Lífeyrissjóðirnir, sem sýsla með peninga okkar allra, eru að miklu leyti í höndum karla. Þessir sjóðir ráða mjög miklu, og gætu ef þeir vildu komið miklum breytingum til leiðar í jafnréttismálum. En það hefur ekki verið tilfellið. Karlar skipa karla í stjórnunarstöður, í stjórnir og svo framvegis – bestu stöðurnar og bestu launin. Þetta hefur svo smitunaráhrif, og karlastemningin gerir konum sem þó komast áfram erfiðara fyrir.
Launamisrétti er kerfislægur vandi, og honum verður ekki útrýmt nema með kerfisbundnum aðgerðum. Það er ekki nóg að stofnanir og fyrirtæki sýni lit með því að hleypa konunum á vinnustaðnum á Austurvöll í dag. Hvernig væri að í stað þess að stjórnendur þessara stofnana og fyrirtækja tækju slíkar ákvarðanir, eins og fjölmargir hafa gert fyrir daginn í dag, myndu þeir taka ákvörðun um að ráðast að rót vandans og fara að borga fólki af báðum kynjum sömu laun? Hvernig væri að jafnréttismál yrðu kosningamál, og allir flokkar tækju saman höndum til að breyta þessu?
Af því að ég þarf að ganga út úr vinnunni eftir nákvæmlega klukkutíma verður þessi leiðari ekki mikið lengri, þótt af nógu sé að taka. Getum við sem samfélag farið að hunskast til að útrýma kynbundnum launamun. Ég set ekki spurningamerki við þetta og ég ætla ekki að biðja vinsamlega.
Helst vildi ég að við þyrftum aldrei aftur að halda þennan dag hátíðlegan. Það er kannski óraunhæft, en tilhugsunin um að allan starfsferil minn og kvenna á mínum aldri verði launamunur milli kynja staðreynd er algjörlega óbærileg. Ég neita að trúa því að við sættum okkur við það.