Stjórnmálaflokkunum hefur gengið illa að mynda ríkisstjórn. Tvær formlegar tilraunir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, hafa ekki gengið upp og samtöl milli flokkanna undanfarna daga hafa ekki leitt til neinnar niðurstöðu heldur. Forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað formenn flokkanna á sinn fund og mun síðan í skýrast í framhaldinu hvað gerist.
Þetta er einkennileg staða að mörgu leyti.
Það er lélegt hjá stjórnmálamönnum að geta ekki náð saman í þessari stöðu. Þegar ríkisstjórn fellur er eðlilegt að það fari fram nokkuð ítarlegar stjórnarmyndunarviðræður. En í ljósi þess hve kraftar dreifast víða á milli margra ólíkra flokka, þá er augljóst að einstaka stjórnmálaflokkar geta ekki stillt neinum upp við vegg og ætlast til þess að einstaka stefnumál þeirra komist að í stjórnarsáttmála.
Enginn flokkur í kjörstöðu
Að vissu leyti ætti fólk frekar að horfa á stöðuna út frá því hvernig atkvæðin raunverulega skiptust og hvað fólk kaus ekki. Um 70 prósent Íslendinga vildu ekki Sjálfstæðisflokkinn, 85 prósent ekki Vinstri græna, 87 prósent ekki Pírata, um 90 prósent ekki Viðreisn eða Framsókn, 93 prósent ekki Bjarta framtíð og síðan um 95 prósent ekki Samfylkinguna.
Það er einkennilegt að forystufólk þessara flokka telji sig geta karpað um einstaka sértæk stefnumál flokkanna, á meðan staðan er eins og hún er. Enginn flokkur getur ráðið ferðinni með sínum eigin stefnumálum, hvort sem það varðar sjávarútvegsmál, skattamál eða aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Þrátt fyrir að hagvísar séu jákvæðir í augnablikinu, og full ástæða sé til að gleðjast yfir því hvernig neyðarlög og fjármagnshöft reyndust okkar björgunarhringur í fjármálakreppunni, þá er alltaf hætta á kollsteypum. Örhagkerfi eins og það íslenska er að mörgu leyti berskjaldað fyrir áföllum og stjórnmálamenn verða að horfa með ábyrgum hætti á þessa stöðu.
Nú þegar við erum farin að horfa út úr höftunum þá er mikilvægt að það eigi sér stað stöðumat á hinu pólitíska sviði þar sem stjórnmálamenn reyna að læra af því sem aflaga fór.
Það sem bjargaði Íslandi út úr miklum vanda var meðal annars beiting ríkisvalds af fullum þunga með neyðarlögunum og fjármagnshöftum. Staðan sem uppi var kallaði á þessar aðgerðir. Aðrar þjóðir gátu ekki gripið til þessara aðgerða.
Það ætti að vera kappsmál að hindra að svona staða geti komið upp aftur, og þar beinast spjótin að breyttri aðferðafræði: stefnumörkun til langs tíma.
Langtímahugsun
Ef stjórnmálaflokkarnir gætu leyst úr stjórnarkreppunni með einhverjum hætti, þá væri óskandi að þeir flokkar sem verða í ríkisstjórn nái saman um að auka langtímasýn í stjórnmálum. Eftir því er mikil eftirspurn.
Þetta á við um efnahagsmál og ekki síður mennta- og heilbrigðismál. Tími smáskammtalækninga er liðinn. Ekkert í stefnumálum flokkanna kemur í veg fyrir að þeir nái saman um það.
Jákvæðar hagtölur og bætt staða ríkissjóðs, eftir nær fordæmalausa kollsteypu, ætti að kenna stjórnmálamönnum þá lexíu að vanda til verka og hugsa áherslur hjá hinu opinbera til langs tíma. Það er mikið í húfi um það takist.