Undanfarna daga og vikur hafa Vinstri græn virst vera í lykilstöðu varðandi stjórnarmyndun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt allt sem hann getur til að fá flokkinn til lags við sig og Vinstri græn fengu fordæmalaust umboð til að mynda mjög breiða fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri. Hvorugt gekk upp og skýringarnar sem gefnar eru á því eru jafn ólíkar og litirnir í regnboganum. En allar virðast þær ganga út á að annað hvort Vinstri græn eða Viðreisn hafi eyðilagt stjórnarmyndunarviðræðurnar.
Ef rætt er við fólk innan Vinstri grænna gekk fimm flokka stjórnin ekki upp vegna þess að Viðreisn voru allt og stíf, of hægrisinnuð, hafi ekki viljað gera málamiðlanir og í raun ekkert haft sannfæringu fyrir þessari stjórn. Um hafi verið að ræða biðleik til að komast í fangið á Sjálfstæðisflokknum, sem síðan hafnaði flokknum í annað sinn.
Ef rætt er við fólk í sumum miðjuflokkunum kemur í ljós óánægja með verklag viðræðnanna, verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hrútskýringar Vinstri grænna um sjávarútvegsmál og efasemdir um að full heilindi hafi búið að baki viðræðunum. Mörgum viðmælendum þar finnst eins og Vinstri græn hafi stanslaust verið að reyna að finna leið út úr þessu fimm flokka partýi. Og hafi loksins fundið hana með því að tilkynna blaðamanni Fréttablaðsins um tillögur sínar um hátekju- og stóreignaskatt áður en þær voru kynntar viðræðuaðilum um myndun ríkisstjórnar. Um hafi verið að ræða biðleik til að komast í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn, sem síðan gengu ekki upp vegna þess að annar flokkanna vill lækka skatta, afnema lágmarksútsvar og ekki leggja auknar álögur á breiðu bökin, hinn vill hækka skatta og nota ríkissjóð sem jöfnunartæki
Nú er Katrín Jakobsdóttir orðin þreytt. Hún vill að allir hvílist og er farin að velta upp möguleikanum á þjóðstjórn og nýjum kosningum, þótt enginn annar stjórnmálaleiðtogi sé sammála henni um að það sé tímabært. Skilaboðin sem koma frá flokksmönnum eru líka mjög óræð. Svandís Svavarsdóttir virtist fagna því að viðræður við Sjálfstæðisflokk hefðu siglt í strand og fimm flokka stjórnin með öllum nýju flokkunum virðist vera hennar fyrsta val. Varaformaðurinn Björn Valur Gíslason skrifaði hins vegar pistil á heimasíðu sína í gær þar sem hann sagði að næsta ríkisstjórn verði ekki mynduð utan um kerfisbreytingar. Í morgun skrifaði hann svo annan pistil þar sem hann sagði að næsta ríkisstjórn verði mynduð um fjármögnun velferðarkerfisins, sem aðrir flokkar hafi neitað Vinstri grænum um í viðræðum til þessa.
Svo virðist sem Vinstri græn séu í vandræðum með að sætta ólíkar fylkingar innan síns flokks um hver persónuleiki hans sé. Samhliða hefur flokkurinn gefið frá sér frumkvæðið við myndun ríkisstjórnar.
Samfylkingin talaði á kjósendur, ekki við þá
Ástæða þess að staðan í íslenskum stjórnmálum er allt í einu orðin svona flókin er margþætt. Önnur stærsta breytan er sú að hin frjálslynda miðja hefur splundrast úr einum flokki í fjóra. Og í leiðinni hefur frjálslynda fólkið sem var orðið hornreka innan Sjálfstæðisflokksins bæst í hópinn. Hin er að engum nema Sjálfstæðisflokknum finnst Framsóknarflokkurinn vera stjórntækur vegna veru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í honum.
Samfylkingin ætlaði sér að verða hinn sósíal-demókratíski jafnaðarmannaflokkur landsins með sterkar rætur í verkalýðshreyfingunni en líka regnhlíf yfir öll hin fínni blæbrigði stjórnmálanna á borð við femínisma, alþjóðasamvinnu og almennt frjálslynd viðhorf. Flokkurinn átti að vera breytingarafl og póll á móti Sjálfstæðisflokknum. Lengi vel gekk þessi hreyfing upp. Hún fékk yfir 30 prósent atkvæða og var um tíma stærsta stjórnmálaafl á Íslandi. En kjörtímabilið 2009-2013, þegar Samfylkingin leiddi ríkisstjórn, upplifðu allt of margir kjósendur hennar fjarlægð frá þeim sem stýrðu flokknum og þeim stefnumálum sem hann lagði áherslu á. Samfylkingin missti tengslin við ræturnar – efnahagslegan veruleika verkalýðs og millistéttar – og lagði of mikla áherslu á önnur mál. Leiðtogar hennar birtust kjósendum sem sjálfsánægð elíta sem taldi sig vita betur og talaði niður til kjósenda sinna úr fjarlægð, í stað þess að nálgast þá á jafningjagrundvelli. Þeir fengu það ekki á tilfinninguna að Samfylkingin væri að berjast fyrir þeim málum sem skiptu kjósendur mestu máli. Þess vegna tókst Framsóknarflokknum til að mynda að ná svona miklu magni atkvæða frá flokknum með þeirri einföldu Trump-taktík að lofa að gefa afmörkuðum hópi landsmanna peninga vegna þess að þeir voru með verðtryggð íbúðalán og náðu að selja þann gjörning sem samstöðu með verkalýð og millistétt, þótt hann hafi auðvitað ekki verið það heldur brjálæðisleg millifærsla á peningum allra til sumra. En Framsókn átti beint samtal við kjósendur um beinar aðgerðir. Á meðan talaði Samfylkingin alltaf um almennar aðgerðir sem áttu að hafa óljósari óbein áhrif á líf landsmanna.
Sú ímynd sem kjósendur höfðu af forystu Samfylkingarinnar fékkst síðan staðfest í huga margra áður kjósenda flokksins þegar fyrrverandi varaformaður hans réð sig sem framkvæmdastjóra hagsmunagæslusamtaka fjármálafyrirtækja sem hafa þann eina tilgang að þrýsta á að fjármálafyrirtæki fái tækifæri til að græða meiri peninga. Samtök fjármálafyrirtækja beindu því meira að segja til Alþingis nýverið að lífeyrissjóðum, sem bjóða mun betri kjör á íbúðalánum en bankar, yrði gert óheimilt að lána beint til einstaklinga og fyrirtækja. Nokkuð ljóst er að hagsmunir lántakenda réðu þar ekki ferðinni.
Frjálslynda miðjan aldrei sterkari
Ofangreind þróun leiddi til fylgishruns Samfylkingarinnar og þeir sem ekki fundu lengur tengsl við flokkinn fóru annað. Þeir fóru í Bjarta framtíð, Pírata og Viðreisn (einungis um fimmtungur kjósenda þess flokks kemur frá Sjálfstæðisflokknum). Samfylkingin hafði mest fengið 31 prósent atkvæða. Miðjuflokkarnir fjórir sem sprottið hafa upp úr hnignun hennar eru nú með 37,9 prósent atkvæða. Því má færa rök fyrir að hin frjálslynda miðja íslenskra stjórnmála hafi aldrei verið sterkari, þótt hún samanstandi af fjórum flokkum. Í ljósi þessa er umbótablokkin á miðjunni sannarlega með umboð til að mynda ríkisstjórn finni hún sér samstarfsaðila.
Þeir flokkar sem hafa mótað íslenska stjórnkerfið og vilja þar af leiðandi eðlilega halda því eins óbreyttu og mögulegt er – Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur – mynda síðan kerfisvarnarblokk. Þeir fengu samanlagt 41,9 prósent atkvæða og eru því sannarlega með umboð til að mynda ríkisstjórn líka, fáist einhver til að verða þriðja hjólið undir þeirra vagni.
Á milli eru svo Vinstri græn með sín 15,9 prósent atkvæða og geta mögulega ráðið því hvort breytingar eða íhald verði ofan á í íslenskum stjórnmálum.
Sjálfsvirðing hjásvæfunnar
Í dag virðist staðan bjóða upp á þrjá stjórnarmöguleika, haldi samstarf Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og margyfirlýstur samtakamáttur frjálslyndu flokkanna um að vinna ekki með Framsókn.
Sá fyrsti hefur verið reyndur tvisvar, en það er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Í bæði skiptin hefur formaður Sjálfstæðisflokksins slitið þeim viðræðum þegar forsvarsmenn hinna flokkanna tveggja héldu að einungis ætti eftir að innsigla hjónabandið. Í kjölfar slitanna hefur Bjarni Benediktsson í bæði skiptin gert hosur sínar grænar fyrir Katrínu Jakobsdóttur.
Viðreisn og Bjartri framtíð hlýtur því að líða dálítið eins og hjásvæfunni sem langar að verða kærastinn/kærastan en fær bara símtal klukkan hálf fimm að nóttu um helgar þegar eigulegri viðreynslur Sjálfstæðisflokksins hafa ekki skilað neinum árangri, en hann langar samt í samneyti. Og slíkar hjásvæfur hætta alltaf á endanum að svara í símann, ef þær hafa einhvern snefil af sjálfsvirðingu. Sérstaklega í ljósi þess að flokkarnir fóru opinberlega að reyna við Samfylkingu og Pírata þegar ljóst var að Vinstri græn ætluðu á formlegt stefnumót með Sjálfstæðisflokki. Það verður ekki mikil reisn yfir því ef flokkarnir skríða til baka til Sjálfstæðisflokksins ef hann kallar og verði þá makinn sem valdaflokkurinn þarf að sætta sig við til að halda völdum, ekki sá sem hann vill.
Hinir tveir möguleikarnir eru annars vegar þriggja flokka íhaldsstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eða fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?
Píratar, sem allir stjórnmálaflokkar kepptust við að dæma úr leik fyrir fram vegna þess að flokknum skorti sveigjanleika og þingmenn hans voru of óútreiknanlegir, virðist vera eini flokkurinn sem er að leggja sig af alvöru fram við að gera málamiðlanir og sætta ólík sjónarmið til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Það er alveg klárt að flokkarnir fimm sem hefja viðræður í dag geta alveg náð saman um breytingar á sjávarútvegskerfinu sem tryggi ríkissjóði hærri rentu fyrir nýtingu auðlindarinnar. Þeir geta alveg náð saman um táknrænar breytingar í landbúnaði sem eiga að gagnast bændum og neytendum, en síður samkeppnisvernduðum milliliðum. Þeir eiga vel að geta komið sér saman um að auka tekjur ríkissjóðs með nýrri gjaldtöku til að standa undir auknum kostnaði vegna fjárfestinga í heilbrigðiskerfi, menntamálum og innviðauppbygginu. Til þess þarf Viðreisn einfaldlega að hætta að bíða við símann eftir Sjálfstæðisflokknum og Vinstri græn að ákveða að flokkurinn sé umbótaafl.
Það er líka hægt að koma sér saman um miðju-hægri stjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks, eða íhaldsstjórn hans með Framsókn og Vinstri grænum. En ef miðjuflokkarnir tveir, sem eru beinlínis stofnaðir utan um kerfisbreytingar, halda að það verði hlaupið að því að ýta slíkum í gegnum Sjálfstæðisflokkinn, eða Vinstri græn halda að það verði hlaupið að því fá að hækka skatta til að auka framlög til velferðarmála, þá er þeim bent á að ræða við Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún hefur unnið að kerfisbreytingum á húsnæðiskerfinu og fyrir því að fá aukin fjárframlög inn í velferðarkerfið allt síðastliðið kjörtímabil. Hvorugt gekk eftir með þeim hætti sem Eygló lagði upp með og í júlí sagði hún að það hefðu verið mikil átök, stundum slagsmál, við Sjálfstæðisflokkinn um framlög inn í velferðarkerfið.
Þannig að eftir stendur að stjórnarmyndun á Íslandi virðist velta á því að tveir flokkar, Viðreisn og Vinstri græn, taki afstöðu til þess hvort þeir vilji breytingar í stjórnkerfinu eða ekki. Báðir geta komist í ríkisstjórn breytinga og báðir geta komist í íhaldssama ríkisstjórn sem mun standa vörð utan um helstu stjórnkerfi. Skýrt umboð er fyrir báðum leiðum. Flokkarnir tveir þurfa bara að ákveða hvað þeir ætli að verða þegar þeir verða stórir.