Hið árlega, snaggaralega og ofsafengna rifrildi um kirkjuheimsóknir barna er hafið, og verður bráðum lokið. Sannkristinn þingmaður sem virðist ekki hafa mikla þolinmæði fyrir staðreyndum reið á vaðið með því að halda því fram að í Reykjavík væri grunnskólabörnum bannað að fara í kirkju eða halda jólatrésskemmtanir. Staðreyndavakt Kjarnann sýndi fram á það með vísun í raunveruleikann að það er rangt. Þær reglur sem gilda um slíka viðburði banna börnum alls ekki þátttöku í þeim og eru þess utan settar af ríkisvaldinu, ekki sveitarfélögum. Í reglunum er enn fremur lögð á það áhersla að það skuli „eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.“
Sjálfur er ég ekki trúaður og hef aldrei verið. Trúarbrögð eru í mínum huga órökrétt fyrirbæri. En ég er ekki hræddur við kirkjur né presta og sjö ára dóttir mín fær sannarlega að heimsækja bæði ef hún vill það. Það gerði hún í síðustu viku með grunnskólanum sínum. Sem er í Reykjavík. Það er mikilvægara í mínum huga að ala upp einstakling sem hefur getu til að mynda sér sínar eigin skoðanir á heiminum en að halda að henni mínum eigin í von um að hún taki þær upp.
Vilji til að banna val
Þótt að umræðurnar um kirkjuheimsóknirnar hafi verið í nokkuð hefðbundnum skotgröfum á þessari aðventu birtist þó grein í Morgunblaðinu á fimmtudag eftir Þorvald Víðisson, biskupsritara og einn nánasta samstarfsmann Biskups Íslands, sem skar sig úr. Í greininni veltir Þorvaldur því meðal annars fyrir sér af hverju börn og foreldrar eigi að „hafa svona mikið val varðandi þátttöku í vettvangsferð í kirkjuna í hverfinu sínu, þegar við sem foreldrar höfum nær ekkert að segja um aðra dagskrárliði skólastarfsins?“
Þarna kemur fram viðhorf embættismanns sem er makalaust. Biskupsritari telur raunverulega að banna eigi foreldrum sem hafa sterkar lífsskoðanir að hafa val um hvort að trú sem er þeim ekki þóknanleg sé haldið að börnum þeirra. Ríkið eigi einfaldlega að beita sér sérstaklega gegn því. Og svo líkir hann heimsókn í kirkju við vettvangsferð á Þjóðminjasafnið, í Seðlabankann eða á Klambratún.
Það er ekki stigs- heldur eðlismunur ofangreindum heimsóknum. Saga, efnahagsmál eða grasbali á milli umferðaræða við Norðurmýrina eru fræðsla og skemmtun. Trúarbrögð snúast um að fá fólk til að trúa á yfirnáttúrulega og að halda að fólki gildakerfi sem bersýnilega hugnast ekki öllum. Það er fullkomlega eðlilegt að foreldrar hafi val um hvort slíku sé haldið að börnum þeirra og með hvaða hætti og fjarstæðukennt að ríkið eigi að beita sér fyrir því að taka slíkt val í burtu.
Stanslaus varnarbarátta
Þessi árlega umræða þjónar þó þeim tilgangi að hún varpar ljósi á þjóðkirkju sem er að há mikla varnarbaráttu. Með hverju árinu sem líður finnst manni eins og þjóðkirkjan, og talsmenn hennar, séu sífellt að vera herskárri í því að réttlæta tilvist sína á fjárlögum og sem mikilvæga stofnun í íslensku samfélagi. Kirkjan, sem í grunninn á að vera félagsskapur kærleiks og umburðarlyndis, ratar nær aldrei í fréttir nema vegna þess að hún er að fara fram á meira fé úr sameiginlegum sjóðum okkar, vegna hneykslismála, vegna fordómafullra ummæla eða vegna innbyrðis illdeilna. Því miður.
Það er að mörgu leyti skiljanlegt að kirkjan bíti frá sér, þótt setja megi stórt spurningarmerki við aðferðarfræðina sem beitt er. Sem stofnun á þjóðkirkjan í vök að verjast við að réttlæta tilgang sinn. Samkvæmt könnunum er mikill meirihluti landsmanna hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, staðan hefur verið þannig áratugum saman og stuðningur við það er að aukast með hverju árinu. Í könnun Gallup frá því í fyrrahaust kom fram að 55,5 prósent þjóðarinnar vildi aðskilnað en 23,9 prósent voru andvíg honum.
Alls voru Íslendingar 332.529 í byrjun árs 2016. Fjöldi þeirra sem var í þjóðkirkjunni var 237.938, eða 71,5 prósent þjóðarinnar. Ein ástæða þess að enn eru svona margir skráðir í þjóðkirkjuna er sú að lengi vel var skipulagið hérlendis þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það.
Samt hefur þegnum þjóðkirkjunnar fækkað mjög hlutfallslega. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í hana. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Þeir voru 94.591 í byrjun þessa árs. Þjóðkirkja er því ekki réttnefni lengur, þegar næstum þriðji hver Íslendingur stendur utan hennar. Og fjöldi þeirra sem kjósa að gera slíkt hefur þrefaldast á fimmtán árum.
Til að takast á við þessa stöðu hefur biskup Íslands, og ýmsir aðrir fylgismenn þjóðkirkju, endurskilgreint hugtakið „aðskilnað“ á þann hátt að slíkur hafi átt sér stað árið 1997, þegar kirkjan fékk fullt vald yfir sínum innri málum. En það er auðvitað enginn vafi á því hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju. Hann þýðir að íslenskir skattgreiðendur hætti að veita fé til eins trúfélags í gegnum ríkissjóðs og að ákvæði um sérstaka ríkistrú verði tekið út úr stjórnarskrá.
Aukin samkeppni og minnkandi hlutverk
Þegar Ísland var einfaldara samfélag var hlutverk kirkjunnar mun víðfeðmara. Hún var velferðarþjónusta, menntastofnun, sinnti ráðgjöf og var nánast einráð á markaði þegar kom að því að veita andlega fyllingu. Þannig er málum enn háttað í mörgum einfaldari samfélögum með veikari kerfi, eins og til dæmis í miðríkjum Bandaríkjanna eða þriðja heims ríkjum. Trúboð er enda að mestu beint að vanþróuðum ríkjum og -svæðum þar sem meiri líkur eru á árangri við fótfestu en í þeim þróuðu.
Í hraða hins sjálflæga og flókna nútíma- og neyslusamfélags er baráttan um sálir almúgans orðin ansi strembin fyrir kirkjuna. Það eru helst þeir sem standa veikast og hafa brennt allar aðrar brýr að baki sér, t.d. með neyslu og ólifnaði, sem sjá ljósið og finna nýjan tilgang í kristni. Ríkið hefur fyrir margt löngu tekið við hlutverki hennar sem þjónustuveitandi og samkeppnin á markaði um andlega fyllingu og lífstilgang er orðin þannig að trúin hefur tapað fyrir vörum, tómstundum eða iðkunum sem skila markvissari árangri fyrir neytendur en samneyti við almættið.
Þetta er eðlileg þróun samhliða aukinni upplýsingu og menntun, framgangi tækni og vísinda og aukinnar fjölmenningar sem er tilkomin vegna alþjóðavæðingar. Kirkjan glímir við mikla tilvistarkreppu og sífellt erfiðara verður með hverju árinu að réttlæta þá forgangsröðun á skattfé að eyða um fjórum og hálfum milljarði króna á ári – að meðtöldum sóknargjöldum en án kostnaðar við rekstur kirkjugarða – í rekstur þjóðkirkju þegar skortur er á fjármagni í heilbrigðis-, mennta-, samgöngu-, velferðar- og löggæslumál. Við þurfum spítala, skóla, gott samgöngukerfi, fjárhagslegt stuðningsnet við þá sem lenda undir í samfélaginu og lögreglu. En við þurfum ekki trú.
Það þarf enginn að hætta að halda jól
Þessi tilvistarkreppa leiðir að því að talsmenn báknsins reyna sífellt að víkka út gildi hennar fyrir samfélagið. Í grein biskupsritara, sem minnst var á hér að ofan, var neitað fyrir að í kirkjuheimsóknum fælist trúboð. Þvert á móti mætti saga og menning börnunum. Aðrir og röklausari, en reiðari, fylgismenn þjóðkirkju hafa gengið lengra og sagt að við getum ekki haldið jól án þess að vera með kirkju á fjárlögum. Það er ein mesta rökleysa og hugsunarvilla sem sett hefur verið fram.
Auðvitað er rétt að saga okkar og menning er samofin kristni. Hún er hins vegar líka samofin heiðni, þrátt fyrir að hún hafi verið bönnuð með lögum fyrir um þúsund árum síðan. Og erfitt að er að halda öðru fram en að menning okkar sé nú orðin afar lituð af neysluhyggju og vestrænum áhrifum, sérstaklega frá Bandaríkjunum. Allt þetta, og ýmislegt annað, blandast saman í því menningarkerfi sem við höfum komið okkur saman um í íslensku samfélagi.
Þess vegna höldum við enn upp á bóndadaginn, förum á þorrablót og gefum frí í vinnunni á sumardaginn fyrsta. Allt á þetta rætur sínar í heiðni. Þess vegna erum við farin að halda Valentínusardaginn hátíðlegan, sníkja nammi á Hrekkjavöku, bjóða upp á tilboð á Svörtum fössurum og jafnvel bjóða fólki í þakkargjörðarhátíðarmat. Allt er þetta arfleið markaðssettar vestrænnar neyslumenningar sem við höfum innleitt og verður sífellt fyrirferðarmeiri. Og þess vegna höldum við upp á páska og jól, giftum okkur og skírum í kirkjum með prestum, og minnumst þannig arfleifðar okkar og hlutverki kristinnar trúar í íslenskri samfélagsuppbyggingu öldum saman. En við þurfum ekki að forgangsraða 4,5 milljörðum króna á ári á fjárlögum til trúarstofnunar til að gera það.
Tími kirkjunnar sem stofnunar er liðinn. Og það var táknrænt fyrir þá stöðu að við kusum okkur í fyrsta sinn þjóðarleiðtoga í sumar sem stendur utan hennar. Þótt að kostnaðarsamt gæti verið fyrir ríkið til skamms tíma að slíta á tengslin þá myndi það margborga sig til lengri tíma. Ég er nokkuð viss um að aðskilnaður ríkis og kirkju myndi virka sem lyftistöng fyrir hina evangelísku-lúthersku kirkju á Íslandi. Sem frjáls félagasamtök þá væri hún ekki lengur bundin því að umræða um hana snerist nær einvörðungu um peninganna sem hún tekur til sín úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ef hún væri ekki stofnun þá þyrfti kirkjan ekki lengur að eyða allri orku sinni í að réttlæta tilveru sína, heldur gæti hún sótt á með jákvæðum formerkjum og einbeitt sér að því að sinna þeim stóra hópa Íslendinga sem þykir þjónusta hennar eftirsóknarverð, og er án nokkurs vafa tilbúinn til að borga áfram fyrir hana.
En þangað til að þetta gerist – og það er ekki spurning um hvort heldur hvenær – munu umræðuátökin haldast í sömu skotgröfunum. Og ef til vill harðna áður en þau blíðkast á ný.