Fyrir nokkrum árum las ég skýrslu UNODC (United Nations Office of Drugs and Crime), undirstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi og tekur saman gögn um fíkniefnaheiminn ár hvert. Ég var í feðraorlofi og fékk þráhyggju fyrir efni skýrslunnar þegar ég fór að glugga í hana. Hún var um 300 blaðsíður og mikið magn upplýsinga í henni.
Í skýrslunni ár hvert eru teknar saman upplýsingar frá öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnamarkaðinn.
Ég starfaði á þessum tíma á Viðskiptablaðinu og skrifaði stuttan samantektarpistil um efni skýrslunnar. Hann bar heitið óvinnandi stríð.
Þrennt er mikilvægt við þessar skýrslur UNODC ár hvert.
1. Í þeim er skipulega teiknað upp hvernig fíkniefnamarkaðurinn virkar. Hvar efnin verða til og hvernig þau flæða milli landa.
2. Yfirlit er gefið um hvernig fíkniefnatengdir glæpir koma inn á borð yfirvalda, hvaða meðferð þau fá og hvernig refsingarnar eru.
3. Frumgögn frá aðildarríkjunum gera samantektina áreiðanlegt gagn um vandamálin sem tengjast fíkniefnunum.
Óhætt er að segja að þau séu yfirþyrmandi. Milljónir einstaklinga eru í fangelsi um allan heim vegna fíkniefnatengdra glæpa og svarta hagkerfið sem orðið hefur til, samhliða hinu svokallaða stríði gegn fíkniefnum, stækkar stöðugt. Það verður í reynd sífellt háþróaðara með tengingum við skelfilegustu glæpi sem um getur, þar á meðal mansal.
Núna fimm árum síðar er „stríðið gegn fíkniefnum“ í algleymingi. Árangurinn er lítill sem enginn. Ömurlegasta birtingarmynd baráttunnar gegn fíkniefnum sem sést hefur lengi er á Fillipseyjum þar sem brjálaður leiðtogi þjóðarinnar, Rodrigo Duterte, hefur sett saman lögreglusveitir til að þess að drepa fíkla og sölumenn á götuhornum, einkum í Manila. Þúsundir hafa látið lífið á skömmum tíma og Duterte forseti - sem játaði í síðustu viku að hafa kastað manni út úr þyrlu og drepið hann - segist ekki ætla að hætta fyrr en að hann hefur útrýmt fíkniefnum á Fillipseyjum.
Hræðilegt er að hugsa til þess að enginn skuli grípa inn í þessi fjöldamorð á veiku fólki þar sem öruggt er að markmiðið mun ekki nást og engum árangri skila. Þessi augljósa þversögn er þó á vissan hátt rökréttur hluti af stríðinu á heimsvísu við fíkniefnin. Vindmyllubardagi kemur upp í hugann.
I. Vandinn magnast áfram
Í Bandaríkjunum og Kanada hefur þróunin á þessu ári verið bæði átakanleg og ískyggileg. Dauðsföllum sprautufíkla sem taka of stóran skammt hefur fjölgað gríðarlega hratt. Þetta á bæði við um lyfseðilsskyld lyf, verksmiðjuframleidd lyf og síðan hefðbundnari fíknefni sem neytt er í gegnum sprautur. Talið er að tala þeirra sem látist hafa á árinu úr of stórum skammti af heróíni muni fara yfir 15 þúsund í Bandaríkjunum á árinu en til samanburðar þá létust ríflega tvö þúsund úr of stórum skammti heróíns árið 2010 og færri á árunum þar á undan frá 2001. Þetta gerist þrátt fyrir að þung viðurlög séu víða við fíkniefnatengdum brotum og að mörg hundruð þúsund manns, sem hafa hlotið dóm fyrir fíkniefnatengda glæpi, fylli fangelsi landsins.
Sambærileg hlutfallsleg hækkun hefur verið í Kanada. Fíklar deyja vítt og breitt um Ameríku og svo virðist sem Ópíum, sem heróin er unnið úr, eigi afar greiða leið inn á Bandaríkjamarkað líkt og önnur efni sem fíklar sprauta sig með. Eftirspurnin frá hinum veiku er mikil og framboðið eftir því.
Um áttatíu prósent af Ópíumi í heiminum er unnið í Afganistan og Búrma, samkvæmt UNODC. Áframvinnsla úr frumefnunum fer síðan fram víða um heim, en hefur farið vaxandi í Asíu og Austur-Evrópu síðustu árin, samkvæmt skýrslum UNODC.
Með öðrum orðum er nákvæmlega vitað hvaðan efnin koma og ef það væri vilji til að stoppa framleiðsluna alveg eða minnka hana dramatískt þá yrði það gert. Ekki vantar hermenn í Afganistan en viljinn til að stöðva framleiðsluna er enginn. Enda gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir umheiminn ef dregið yrði hratt úr framboðinu. Hinir veiku myndu þá leita í önnur og jafnvel hættulegri efni. Hinn samfélagslegi lýðheilsuvandi kæmi þá með krafti upp á yfirborðið.
Árangurinn (það er að segja góðu tölurnar í bókunum og skýrslunum) sem náðst hefur í lögreglustarfi í Bandaríkjunum og víða í Evrópu snýr öðru fremur að borgarsvæðum sem hafa náð árangri í að ná niður glæpatíðni í hverfum sem áður voru óöruggari. Ekkert bendir hins vegar til þess að framboð af fíkniefnum sé minna eða færri séu veikir vegna þeirra.
II. Í grunninn er þetta heilsuvandi
Með öðrum orðum: Það er vitað að í grunninn er um lýðheilsuvanda sem tengist beint geðrænum kvillum og fíknisjúkdómum að ræða. Þess vegna hefur það takmarkaða þýðingu að ráðast á framleiðslusvæðin. Hvort sem það eru slétturnar í Afganistan eða Kókalaufsbúgarðar í Suður-Ameríku.Milljörðum Bandaríkjadala hefur verið varið árlega í það sem kallað hefur verið stríð gegn fíkniefnum. Í rúmlega þrjá áratugi, frá því Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseti setti af stað mikið ímyndarstríð gegn fíkniefnum árið 1981, hefur staða mála ekkert batnað en fangelsi hafa að miklu leyti fyllst af fólki sem hefur fengið dóma fyrir fíkniefnatengda glæpi.
Hörð stefna yfirvalda víða hefur engum árangri skilað. Þungir dómar breyta engu, ekkert dregur úr eftirspurninni og ótímabærum dauðsföllum vegna fíkniefnaneyslu fjölgar.
Hvað er til ráða?
Eitt er vitað eftir reynslu síðustu áratuga. Harðar aðgerðir lögreglu virka ekki þegar kemur að því að draga úr vandamálum. Þungir dómar virka ekki. Boð og bönn virka ekki. Það er ekki að draga úr neyslu og vandamálin eru ekki að minnka. Þetta liggur fyrir. Skýrslur UNODC eru góð heimild um þetta og það sama má segja um aðrar stofnanir sem fjalla um þessi mál.
Stjórnmálamenn, sem beint og óbeint móta stefnu yfirvalda þegar kemur að fíkniefnatengdum vandamálum, hafa gjörsamlega brugðist. Frá þeim hafa engar lausnir komið.
Ef við horfum á hlutina á Íslandi, þá eru útlínurnar að mörgu leyti svipaðar. Lögreglan - sem horfist í augu við verstu hliðar fíkniefnaheimsins í daglegum störfum - þarf að taka virkari þátt í umræðu um málaflokkinn og hvernig á að nálgast hann. Hvað er að virka vel og hvað illa. Við vitum að stórir fíkniefnafundir virðast engu skila fyrir heildina, svo blaðamannafundir um þá eru leiksýningar og ekkert annað. Hafa engin áhrif á neitt.
Stjórnmálamenn sýna þessum málum líka of lítinn áhuga. Þeir virðast ekki skilja vandamálin, kynna sér ekki alþjóðlegu gögnin nema lítið eitt. Á Íslandi deyr fólk ár hvert úr fíkn sinni í tugatali. Hryllingurinn sem þessu fylgir tætir sundur fjölskyldur og skilur eftir sviðna jörð. Það á ekki að gera lítið úr þessu.
Fjármagn sem fer í læknismeðferðir og forvarnarstarf er alltof lítið og lítið mark er tekið á þeim sem benda á þetta finnst mér. Læknar og sálfræðingar þar á meðal. Fólk sem býr yfir sérfræðiþekkingu á viðfangsefnum fíknisjúkdóma.
Virðingarleysi stjórnmálamanna hefur birst í gegnum tíðina með ýmsum hætti. Til dæmis hafa þeir sett milljónir árlega í trúrofstækishópa í nafni meðferðar við fíknisjúkdómum og geðrænum kvillum. Þetta er ömurlegra en orð fá lýst og afleiðingarnar eftir því. Byrgis-málið kemur upp í hugann hér. Það er geymt en ekki gleymt, og sýnir hversu lágt stjórnmálamenn voru tilbúnir að leggjast í niðurlægingarför sinni gegn veiku fólki. Skýrslur sem sýndu vandamálin voru settar niður í skúffu og haldið áfram í forheimskum leiðangri.
Virðingin fyrir fólkinu sem er háð fíkniefnunum er lítil sem engin og mannvonska yfirvalda á sér því miður lítil takmörk. Það er á vissan hátt verið að níðast á veiku fólki með því að hafa það í fangelsum fyrir neysluglæpi og sums staðar í heiminum er það hundelt og drepið, eins og dæmin frá Fillipseyjum sanna. Það þarf ekki að leita í þær öfgar til að finna slæm dæmi.
Hringir þetta engum bjöllum um að hugsanlega séum við - hinn alþjóðavæddi heimur - á rangri braut í þessu stríði?
Það er kominn tími til þess að málaflokkurinn sem snýr að fíknitengdum sjúkdómum verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar. Útgangspunkturinn ætti þar að vera sá að viðurkenna að árangurinn af refsistefnu - sem keyrð hefur verið þvert á landamæri um árabil - er enginn og margt bendir til þess að í stefnunni felist mannvonska gagnvart veikum, þvert á nýjustu upplýsingar og þekkingu.
Þetta minnir um margt á þann tíma þegar geðveikir voru ólaðir niður, settir í sloppa og hafðir í gluggalausum rýmum. Það var gert að grunni til vegna vanþekkingar og áhugaleysis yfirvalda. Með aukinni þekkingu hefur þetta breyst.
Starfshópur Sameinuðu þjóðanna, sem falið var að kafan ofan í þennan málaflokk, hefur bent á nauðsyn þess að breyta um stefnu og lagt til algjöran viðsnúning, snúa frá boðum og bönnum, draga úr hörku og einblína á að forvarnir og að hjálpa hinum veiku. Að hætta hinni róttæku stefnu gegn fíkniefnaframleiðslu, sölu og neyslu, og horfa frekar á málaflokkinn sem lýðheilsuvanda. Þetta er stórmál. Risavaxið samfélagslegt mál. Þverpólitískt, ef það róar einhvern.
Spurningin um lögleiðingu fíkniefna eða ekki lögleiðingu er oft borin upp. Það er ekki aðalatriðið, þó ég hallist að því að boð og bönn virki ekki í ljósi þess sem að framan er greint. Aðalatriðið ætti frekar að vera það, að rýna gögn og reynslusöguna af þeirri stefnu sem rekin hefur verið svo til alls staðar á vesturlöndum, með misjafnlega mikilli hörku þó.
III. Horfist í augu við mistök ykkar
Þetta er fullreynt.
Það er kominn tími á að draga lærdóm af mistökum og árangursleysi. Fyrstu skrefin gætu verið þau að hlusta á raddir sérfræðinga sem hafa bent á skelfilegar afleiðingar fjársveltis fangelsismálaflokksins. Horft á stöðu mála á Íslandi, þá skiptir nýtt fangelsi litlu sem engu í samanburði við það að sjúkir einstaklingar fái læknisaðstoð og viðurkenningu á veikindum sínum. Það er hið stóra samfélagslega mál.
Við skuldum þeim sem ekki eru lengur meðal okkar vegna veikinda sinna að gera eitthvað í málunum. Hryllingssögurnar eru of margar og þeim fækkar ekkert. Þvert á móti.
Fjölskyldur eru bjargarlausar gagnvart ómennsku fíknisjúkdóma og geðrænum rússíbana sem þeim fylgja. Niðurlægingin sem fylgir stefnunni í réttarvörslukerfinu er síðan samfélagsmein sem verður að uppræta.
Nú er mál að linni. Vonandi verða þessi málefni framar í forgangsröðinni hjá stjórnmálastéttinni á nýju ári. Hún mótar stefnuna. Hún skuldar sjálfsgagnrýni þegar að þessu kemur og miklu betri og dýpri rýningu á gögnum. Hún verður að horfast í augu við algjört árangursleysi sitt - þvert á landamæri - og niðurlægjandi aðgerðir gagnvart þeim sem minna mega sín.