Þú ert farin að grána, elskan! hrópaði vinkona á sjötugsaldri upp yfir sig þar sem við sátum og snæddum hádegisverð.
Ég hváði við. Síðustu árin hefur mér tekist að gleyma að ég sé farin að grána. Ég mæti reglulega til hárgreiðslumeistara í hverfinu mínu Schöneberg, vinalegrara konu sem galdrar burt þessa eilífðar áminningu um hækkandi aldur. Eða réttara sagt: Ég mætti til hennar þangað til nú á haustmánuðum.
Átti ég að segja henni alla sólarsöguna – eða brosa íbyggin að blákaldri staðreynd lífsins og stinga upp mig næsta bita af kjúklingi í engifersósu? Ég lét vaða, aðallega til að útskýra fyrir sjálfri mér af hverju ég valsa um með áberandi gráan hársveip.
Öfgamaður með skæri
Ég pantaði fyrst tíma hjá hárgreiðslukonunni fyrir tveimur árum. Reyndar sagði ég á okkar fyrsta fundi að mig langaði til að halda gráa lokknum og gera hann meira áberandi því ég hafði séð svo smart konu á mínum aldri sem ýkti gráu hárin með steingráum og silfruðum strípum og ég dáðist að henni fyrir að taka þetta alla leið svona ung. En hágreiðslukonan hafði verið fljót að tala mig ofan af því og freistað mín með ómótstæðilegri blöndu af espressósvörtum og karamellubrúnum háralit. Síðan klippti hún mig svo flott að ég sveif út aftur á skýi.
Kannski engin furða. Fyrsta skiptið sem ég fór í klippingu í hverfinu mínu hafði ég ráfað inn í hraðaþjónustuklippingu og snúið út aftur líkust tískuslysi á áttunda áratugnum. Það borgar sig ekki að láta öfgamann klippa sig, varð kunningja mínum að orði þegar aðalgatan fylltist af brynvörðum lögreglumönnum sem handtóku einn hraðklipparann, grunaðan um að leggja á ráðin um hryðjuverk. Seinna sá ég ekki betur en að maðurinn hefði fyrst og fremst gerst sekur um að snyrta hárið á nokkrum bókstafstrúarmönnum í mosku skammt frá – en hvað um það, máski saklaus af hryðjuverkum en pottþétt sekur um glæpi á kollum nískra góðborgara í Schöneberg sem veigra sér við að borga meira en sjö evrur fyrir klippinguna.
Angela Merkel í speglinum
Þessi kona tók hundrað evrur fyrir hársnyrtinguna, enda þaulreyndur fagmaður á sextugsaldri og kunni að klippa hár og hræra espressó saman við karamellu þannig að úr yrði eitthvað svo eðlilegt að mér tækist að gleyma að ég væri farin að grána.
Um tíma vissi ég fátt betra að setjast í stólinn hjá henni og spjalla um matarræði, hugleiðslu og bækur því konan hafði notalega návist og lumaði á ýmsu spennandi.
Einn daginn mæti ég til hennar með glóðvolgt eintak af Süddeutsche Zeitung undir arminum, spennt að sökkva mér ofan í þýska blaðamennsku – sem í gæðum jafnast á við franska matreiðslu og íslenskar sundlaugar – með baneitraðan litinn í hárinu og cappuccino-bollann við hægri hönd, enda Angela Merkel í löngu viðtali að tala um þá umdeildu ákvörðun sína, ári fyrr, að hleypa miklum fjölda flóttafólks inn í Þýskaland.
Þegar búið var að maka litnum í hárið teygði ég mig varlega eftir blaðinu og opnaði það svo forsíðumyndin af Angelu blasti við á speglinum, líkast því að hún væri sjálf mætt í klippingu & litun. Hárgreiðslukonan kipptist við þegar henni varð litið á alvörugefið andlit kanslarans og ég sá samstundis að henni varð ekki um sel. Í tví- eða þrígang mættust augu okkar í speglinum, allt þar til andrúmsloftið var orðið vandræðalegt og hún stikaði til mín með þeim orðum að í dag kæmi bara kjaftæði út úr Angelu Merkel.
Flóttinn í stólnum
Nú, hváði ég og ætlaði að mótmæla því kurteislega en náði ekki að grípa orðið því þessi rólyndislega kona varð skyndilega svo æst að hún tifaði af hugaræsingi um leið og orðin hrúguðust út úr henni. Hitt og þetta um flóttafólk sem hún fullyrti glannalega að myndi hafa af henni almennilega heilbrigðisþjónustu sem hún hefði greitt fyrir alla ævi með því að vinna hörðum höndum – og til hvers hefði hún þá verið að því? Hún gat varla undirstrikað nógsamlega að múslimar ættu enga samleið með fólki eins og sér og ættu eftir að rústa þýskri samfélagsgerð með lífsháttum sínum og allskonar ofbeldi. Reiðust var hún þó sjálfri sér að hafa á árum áður kosið Kristilega demókrata, flokk Angelu Merkel.
Brátt prísaði ég mig sæla að hafa ekki náð að mótmæla konunni því hún hefði verið vís til að skilja mig eftir með litinn í hárinu og láta hann éta af mér höfuðleðrið. Í gunguskap mínum muldraði ég eitthvað óljóst og flúði manískt augnaráðið með því að stara á blaðaviðtalið.
Þýskaland feðra ykkar
Auðvitað langaði mig að segja að ef manneskjur kenndar við Múhameðstrú væru upp til hópa eins miklar geimverur og hún virtist álíta hefði meint þýsk samfélagsgerð farið til fjandans fyrir löngu síðan – miðað við fjölda þeirra á þýskumælandi svæði. Af málflutningi hennar að dæma væri búið að margsprengja Þýskaland í tætlur meðan raunin er sú að það telst ennþá til stórtíðinda að arfaslakur kollegi hennar bjóði þjónustu sína í róttækri mosku.
En ég sagði ekkert.
Bara grúfði mig ofan í blaðið. Vissi af reynslu að það kostar sitt að rökræða við bókstafstrúaðan þjóðernissinna. Vissi líka að í þessum efnum mega staðreyndir sín einskis. Um daginn sagði þýskur kunningi minn að faðir sinn á sjötugsaldri hefði misst úr slag þegar hann las eftirfarandi slagorð í auglýsingaherferð popúlistaflokksins AFD: Við færum ykkur Þýskaland feðra ykkar.
Ég vil ekki sjá Þýskaland föður míns, grét aumingja maðurinn og lái honum enginn. En hágreiðslukonan var á öðru máli.
Ég hefði getað gengið á dyr – en hvert átti ég að fara með litinn í hárinu?
Bara eitthvert. Ég hefði átt að standa upp og fara. Skítt með litinn. Ég hefði getað rakað hárið af til áminningar um ákvörðun mína: Að stíga út úr ofbeldi þess sem veit að maður er tilneyddur til að hlusta kringumstæðnanna vegna.
Hver er ég?
Um daginn hitti ég danskan leikhúsmann í íslensku barnaafmæli í Berlín og sá sagði mér að ungur hefði hann fengið heim til sín pípulagningamann sem hefði talað svo illa um svonefnda innflytjendur að hann hefði séð eftir því alla ævi að hafa ekki rekið hann út og látið sig hafa að bíða eftir nýjum pípulagningamanni. En atvikið varð til þess að nú stígur hann undantekningalaust út úr aðstæðum sem þessum og mótmælir þannig á leikræna hátt, sama þótt hann sé staddur í leigubíl á hraðbraut eða í miðri aðgerð hjá tannlækni.
Ég sagði þá manninum frá hárgreiðslukonunni og ég sagði honum líka frá leigubílstjóra sem hafði misnotað aðstöðu sína til að boða hatursboðskap og vinkonu minni sem einn daginn trúði mér fyrir mannfyrirlitningu sinni í von um samþykki og ég sagði honum frá fjölskylduboðinu þar sem mér var krossbrugðið vegna ummæla góðlegra vandamanna.
Og ég hugsaði: Aldrei aftur. Ég ætla aldrei aftur að sitja muldrandi í barminn þegar gott fólk segir hræðilega vonda hluti vegna þess að því þykir svo kósí að-segja-það-sem-manni-finnst-undir-fjögur-augu.
Maður veit fyrst hver maður sjálfur er með því að standa upp. Ég heiti Auður, ég er farin að grána og ég fordæmi prédikara mannhaturs – hvort sem þeir skilja eigin brenglaða málflutning eða ekki.
Ég stend upp.