Ég hlustaði á stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í gær og umræður um hana. Þetta var fyrsta ítarlega pólitíska umræðan sem fer fram fyrir opnum tjöldum um það sem er framundan í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórn Bjarna tekur við keflinu með byr í seglum í efnahagslegu tilliti, þar sem erlendir ferðamenn eru í aðalhlutverki.
Hagtölurnar segja sögu hagkerfis sem er í töluverðri spennu, eins og þetta horfir við mér frá vesturströnd Bandaríkjanna. Í Bandaríkjadölum talið þá hækkaði verð á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu um ríflega 35 prósent í fyrra og verðlag um ríflega 16 prósent. Atvinnuleysi er undir þrjú prósent og að mati Seðlabanka Íslands er margt sem bendir til þess að mikil vöntun verði á vinnuafli á næstunni, sökum mikils uppgangs, ekki síst hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Í fyrra urðu til 7.300 ný störf, samkvæmt Vinnumálastofnun, og hagvöxtur á næstu árum verður 4 til 5 prósent á ári - í krónum talið - gengi spár eftir.
Hér á eftir koma nokkrir punktar sem ég tók niður úr ræðum forystufólks flokkanna.
1. Stefnuræða Bjarna var kannski ekki beitt, en hún var góð. Komið var inn á helstu atriði stjórnarsáttmálans og það nefnt sem blasir við mörgum um þessar mundir: hagstjórnin verður krefjandi á næstunni þrátt fyrir að ríkisstjórnin taki um margt við góðu búi. Það er mikil spenna í hagkerfinu, það má ekki mikið útaf bregða. Sérstaklega var gott að fá fram hjá honum mikinn stuðning við uppbyggingu í menntakerfinu. Þaðan hafa borist neyðaróp, af öllum skólastigum, á undanförnum árum. Í ræðunni var enn fremur horft til framtíðar, og talað til komandi kynslóða. Það var skemmtileg nýbreytni, skulum við segja. Það fer ekki alltaf mikið fyrir því að hanskinn sé tekinn upp fyrir komandi kynslóðum í vinsældarbrölti stjórnmálamanna. Það var grátbroslegt þegar Bjarni mismælti sig og talaði óvart um Panamaskjöl frekar en Parísarsamkomulag. Hann virðist eiga erfitt með að hrista þetta af sér, einhverra hluta vegna.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar- og ferðamála, flutti sína fyrstu ræðu við tilefni sem þetta, og flutti hana af miklu öryggi, eins og um reynslubolta væri að ræða. Hún tók ekki mikla áhættu í efnistökum en málaflokkarnir eru afar mikilvægir. Það mun mikið reyna á hana á kjörtímabilinu, ekki síst þegar kemur að því að styrkja innviði ferðaþjónustunnar.
2. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, flutti heldur flata ræðu, en hún var samt ábyrg og það mátti greina svipaðan tón í henni og hjá forsætisráðherra: nú þýðir ekki að ganga hratt um gleðinnar dyr heldur þarf ábyrga hagstjórn. Ég lít svo á að Viðreisn og Björt framtíð hafi mikil tækifæri um þessar mundir þar sem alþjóðlegt yfirbragð hefur frá upphafi verið hluti af þeirra stefnu og skilboðum. Alþjóðavæðingin á undir högg að sækja víða um heim. Bandaríkin eru að breytast í vígvöll hennar sem einhvern tímann hefði nú þótt saga til næsta bæjar. Benedikt fannst mér koma ágætlega til skila áherslum sem birtast í stjórnarsáttmálanum, um að kúvenda ekki kerfinu heldur gera agaðar breytingar til góðs. Nákvæmar útfærslur láta hins vegar bíða eftir sér, einkum og sér í lagi þegar kemur að peningastefnunni. Forvitnilegt verður að fylgjast með þeim málum. Stendur til að breyta henni eða ekki? Ekki liggur fyrir svar við þessu hjá ríkisstjórninni ennþá en búast má við skýrari stöðu í lok ársins.
3. Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, og Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, einblíndu - eðlilega - á sína málaflokka en töluðu jafnframt um að ríkisstjórnin sem nú væri tekin við völdum ætlaði sér að bæta vinnubrögðin á Alþingi. Óttarr hefur oft minnst á þetta á sínum þingmannaferli og ég myndi segja að það væri töluverð pressa á honum að láta nú hendur standa fram úr ermum hvað þetta varðar. Hann sagði að þó margt gott mætti segja um heilbrigðiskerfið þá þyrfti að styrkja það og bæta, ekki síst með meiri samhæfingu. Björt Ólafsdóttir hefur dregið skarpa línu í sandinn og segir ekki koma til greina að fleiri stóriðjuverkefni fá ívilnanir hér á landi af hálfu stjórnvalda. Sá tími sé liðinn. Þá boðaði hún friðun Kerlingafjalla og Þjórsárvera. Það eru stórar yfirlýsingar sem náttúruverndarsinnar eflaust fagna. Stærsta umhverfismál kjörtímabilsins snýr þó að Parísarsamkomulaginu og hvernig stjórnvöld ætla sér að draga úr mengun og ýta undir vistvænni lífstíl. Orðin tóm duga ekki í þeim efnum, heldur þarf að leggja fram nákvæmlega útfært plan sem síðan er farið eftir. Forvitnilegt verður að sjá það og markmiðin.
4. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fannst mér tala skýrt fyrir jafnarstefnunni og komast vel frá ræðum sínum. Katrín er hinn sanni leiðtogi vinstri manna á Íslandi, það sést glögglega þegar málefnaleg barátta er annars vegar. Þá er hún í essinu sínu. Hún gagnrýndi stjórnvöld af nokkurri hörku fyrir að útfæra ekki nægilega vel stefnu sína í ríkisfjármálum. Það er að vilja ekki ná í fjármagn til þeirra sem „breiðu bökin“ hafa heldur frekar að horfa til þess að uppsveiflan í hagkerfinu muni gefa meira fjármagn í ríkissjóð. Það er nokkuð til í þessu hjá Katrínu. Það þekkja allir sem reka heimili og fyrirtæki að það kann ekki alltaf góðri lukku að stýra þegar „kakan“ er að stækka að auka eyðsluna alveg stanslaust. Það sama gildir um ríkissjóð. Benedikt tjáði sig samt um þetta atriði sérstaklega, og sagðist horfa til þess að fjármálstjórn ríkisins yrði ábyrg, eins og áður segir.
Logi átti ágæta spretti í sinnu ræðu, og ræddi meðal annars um mikilvægi þess að íslenskt samfélag væri opið öllum, ekki bara sumum. „Ísland er ríkt land og hér eru aðstæður til að skapa eitt samfélag fyrir alla. Það nægir ekki að ríða net sem grípur þá sem falla milli skips og bryggju, við verðum byggja samfélag sem aðstoðar fólk til sjálfsbjargar og gerir því kleift að byggja á styrkleikum sínum: Samfélag þar sem fá allir tækifæri og verkefni við hæfi.“
5. Björn Leví Gunnarsson, Viktor Orri Valgarðsson og Ásta Guðrún Helgadóttir mynduðu eina samfellda rödd fyrir hönd Pírata. Mér fannst þau sýna að Píratar ætla sér að ekki að leyfa stjórnarflokkunum að komast upp með koma sínum stefnumálum áfram hljóðalaust. Viktor Orri var þeirra bestur í sinni jómfrúarræðu á Alþingi. Þó það sé nú þegar orðið vinsæll samkvæmisleikur hjá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins að gera frekar lítið úr Pírötum, sé mið tekið af umræðu á samfélagsmiðlum, þá má ekki gleyma því að Píratar unnu mikinn kosningasigur í síðustu kosningum og gætu vel náð meiri byr í segl í stjórnarandstöðu. „Ferðamannastraumurinn margfaldast ár eftir ár með tilheyrandi gjaldeyristekjum, ofgnótt af makríl synti til Íslandsstranda og krónan styrkist gagnvart nærliggjandi hagkerfum. Þessar „góðu ytri aðstæður” hafa vissulega jákvæð áhrif á efnahag landsins, en þær eru ekki pólitík. Makríllinn kom ekki til Íslands til að fá leiðréttingu á húsnæðislánunum sínum og ferðamenn laðast ekki að landinu vegna lækkandi veiðigjalda,“ sagði Viktor Orri meðal annars í ræðu sinni.
6. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður og forsætisráðherra, komu fram með stefnu Framsóknarflokksins, hvert með sínum orðum. Það kom í hlut Sigurðar Inga að rifja upp Icesave-málið og minna á afrekin frá síðasta kjörtímabili; bættari staða ríkissjóðs og lækkun á skuldum heimilanna. Sigurður Ingi minntist ennfremur á það að hann hefði töluverðar áhyggjur af því að ríkisstjórnin myndi ekki sinna landsbyggðinni. Þau skilaboð hafa komið frá honum áður og sem landsbyggðarmaður, ef svo má segja, þá má taka undir þær raddir að einhverju leyti. En ríkisstjórnin verður þó að fá að njóta vafans þar sem kjörtímabilið er rétt að byrja. Kristján Þór Júlíusson er samt sem áður eini ráðherrann sem býr utan við 100 kílómetra radíus höfuðborgarsvæðisins.
7. Lilja Dögg sýndi klærnar í sinni ræðu og kom fram - eins og oft áður - með skarpa sýn á efnahagsmálin. Þar er hún á heimavelli og virðist standa flestum þingmönnum framar í því að greina stefnu og strauma þegar peningamálastefnan er annars vegar. Hún minntist á athyglisverða hugmynd sína um stöðugleikasjóð, sem hún gerði að umtalsefni á vef Kjarnans milli jóla og nýárs, og sagði stjórnvöld geta komið honum upp til dæmis með því að fá fjármuni úr gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands og halda síðan áfram að safna í hann inn í framtíðina með arði frá auðlindum.
8. Sigmundur Davíð kom brattur upp í pontu og sagði stefnuræðu forsætisráðherra ekki hafa verið efnismikla, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hann sagði hana ekki hafa verið um neitt og ekki hefði enn sést glitta í neitt sem máli skipti hjá ríkisstjórninni. Hann sagði kosningarnar 29. október hafa verið þær „undarlegustu“ sem fram hefðu farið á undanförnum áratugum, án þess að skýra það neitt frekar. Ég fékk á tilfinninguna að þingmenn ættu erfitt með að hlusta á Sigmund Davíð í salnum og veitti því athygli að Bjarni Benediktsson horfði mikið niður í borðið á meðan Sigmundur Davíð gagnrýndi hann. Hann spurði meðal annars að því hvort greiningarvinna sem unnið hefði verið að í fjármálaráðuneytinu, varðandi afnám verðtryggingar, hefði farið með Bjarna í stjórnarráðið eða farið í „pappírstætarann“ í fjármálaráðuneytinu. Líkt og Sigurður Ingi þá minntist Sigmundur Davíð á verk fyrri ríkisstjórnar og þá einkum og sér í lagi fyrstu mánaðana eftir að ríkisstjórn hans tók við völdum, vorið 2013. Þá hefði komið fram skýr áætlun um hvað þyrfti að gera og eftir því farið.
Ræða Sigmundar Davíðs var kröftug og þrátt fyrir að þingheimur virtist ekki mikið vera að taka orð hans til sín, eins og ég skynjaði þetta, þá er greinilegt að Sigmundur Davíð er ekki af baki dottinn þrátt fyrir allt.
Utanríkismál í brennidepli
Framundan er merkilegt tímabil fyrir margra hluta sakir. Komið var inn á flest málin sem augljóslega verða áberandi, en þó ekki öll. Utanríkismálin voru ekki mikið rædd í gær en ljóst má vera að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og hans fólk í ráðuneytinu mun þurfa að fylgjast grannt með gangi mála í heiminum á næstu misserum. Í fyrsta skipti í meira en tvo áratugi virðist vera að koma upp skýrt uppbrot á valdajafnvæginu í heiminum, þar sem erfitt er að segja til um hvernig málin þróast. Að þessu sinni er það í hinum vestræna heimi. Bloomberg greindi frá því í gær að Kínverjar væru ánægðir með að Bandaríkin - undir stjórn ólíkindatólsins Donalds J. Trump - væru að fara út úr TPP viðskiptasamingi tólf þjóða, þar sem meðal annars risavaxinn Asíumarkaður er undir. Hvað þýðir þetta fyrir Ísland og hver eru líkleg ruðningsáhrif á markaði og alþjóðastjórnmálin? Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör enda mikil óvissa uppi. Til viðbótar við Brexit-áhrifin þá gæti skipt miklu máli fyrir Ísland til framtíðar litið að greina stöðu mála rétt og halda vel á spöðunum.
Það er í aðstæðum eins og þessum þar sem reynir á klókindi við hagsmunagæslu. Ísland er örríki sem er berskjaldað fyrir miklum alþjóðlegum breytingum, eins og dæmin sanna, og þetta má ekki vanmeta.