En þegar kemur að efnahagsmálunum þá rekur fólk yfirleitt upp stór augu. Mikill gangur kemur fólki á óvart og þeir sem áhuga hafa á þjóðfélagsmálum og alþjóðlegri þróun, t.d. Blaðamenn eða tæknimenntað fólk, það er alltaf svolítið hissa á stöðunni þegar hún hefur verið færð í Bandaríkjadal.
Í stuttu máli er hún svona:
- Umfang hagkerfisins jókst í fyrra var um 25 prósent miðað við árið á undan.
- Verðlag hækkaði um ríflega 20 prósent.
- Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 35 prósent.
- Kaupmáttur launa hefur aukist um 50 prósent á tveimur árum.
Og svo framvegis. Hröð styrking krónunnar teiknar upp mynd af hagkerfi í gríðarlegum vexti sé litið í gegnum gleraugu Bandaríkjdals. Ísland toppar alla lista hjá þróuðum ríkjum þegar að þessum hagstærðum kemur, þessi misserin, mælt í stærstu mynt heimsins.
Fólk verður yfirleitt hissa en svo fylgir umræða um smæð landsins, sjálfstætt myntsvæði og hagkerfi sem einungis tekur til tæplega 200 þúsund einstaklinga á vinnumarkaði.
Staðan á Íslandi hefur gjörbreyst til hins betra á síðustu árum og það hefur sýnt sig að þær fordæmalausu aðgerðir sem gripið var til í hruninu - neyðarlög og fjármagnshöft - hafa reynst björgunarhringur og einnig ástæða viðspyrnu og uppbyggingar.
Eftir vel heppnaðar aðgerðir sem beindust að slitabúum föllnu bankanna í fyrra, þá er uppi áhugaverð staða. Þjóðarbúið hefur ekki verið með betri skuldastöðu gagnvart útlöndum í áratugi, og afgangurinn af vöru- og þjónustujöfnuði er verulegur, ekki síst vegna hins mikla uppgangs í ferðaþjónustunni.
Seðlabanki Íslands hefur verið að vinna markvisst gegn styrkingu krónunnar á undanförnu einu og hálfu ári, en samt hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal styrkst um 30 prósent, gagnvart evru um 25 prósent og gagnvart pundinu um 35 prósent.
Bandaríkjadalur kostar nú 106 krónur en kostaði tæplega 140 krónur fyrir einu og hálfu ári. Evran kostar nú 113 krónur en kostaði 150 krónur fyrir einu og hálfu ári. Pundið hefur svo hrapað eftir Brexit kosninguna síðastliðið sumar og kostar nú 131 krónu en var á 206 krónur fyrir einu og hálfu ári.
Ef ekki hefði komið til inngripa Seðlabankans þá hefði verðið á Bandaríkjadal eflaust farið langt undir 100 krónur og líklega á evrunni líka.
Þó ennþá eigi eftir að leysa úr aflandskrónuvandanum, þá er staðan áhugaverð núna og margt virðist vera „með“ krónunni. Á sama tíma og kallað er eftir því að höftin verði afnumin að fullu strax, þá virðist blasa við staða sem ýtir enn frekar undir styrkingu krónunnar gagnvart helstu myntum. Innstreymi til landsins er mikið, en minna frá því.
Vaxtahækkanir erlendra seðlabanka gætu unnið gegn því og er það helst Seðlabanki Bandaríkjanna sem kemur þar upp í hugann.
Það hefur komið fram í máli Janet Yellen, seðlabankastjóra, að vaxtahækkanir í Bandaríkjunum séu í kortunum og það er ekki ólíklegt að þær muni hafa víðtæk áhrif á fjármagnsmörkuðum.
Vaxtamunarviðskiptin eru þó ekki eins lífleg nú og þau voru fyrir hrunið.
Svo vikið sé aftur að samtölum við fólk í útlöndum, um stöðu mála á Íslandi, þá er það mín reynsla að það skilji lítið í því hvernig kerfi við erum með og hvernig þetta gangi upp til lengdar.
Það verður að teljast svolítið hrollvekjandi ef við fylgjum þeirri trú í blindni, að halda áfram í kerfi sem virðast dæmt til þess að skapa efnahagslega rússíbanareið fyrir almenning - aftur og aftur - í stað þess að grípa til aðgerða sem geta tryggt meiri stöðugleika.
Vonandi þarf ekki að horfa upp á harða brotlendingu kerfisins í þetta skiptið, en enginn ætti að efast um að hagkerfið er á of mikilli ferð og þörf er á því að spenna beltin og hægja á.
Þegar hagsmunakórarnir, í ferðaþjónustu og útgerðinni á útflutningshliðinni og svo einnig aðrir kórar á innflutningshliðinni, eru farnir að syngja þá er best að huga vel að stöðunni og reyna að átta sig á því hvar rétta efnahagslega laglínan liggur. Vandi er um slíkt að spá, eins og sagan segir okkur.