Um liðna helgi var tilkynnt um fullt afnám hafta. Það er reyndar ofsögum sagt að í þeim aðgerðum sem ráðist verður í felist fullt afnám hafta, enda verða höft enn í gildi. Það verða til að mynda enn miklar takmarkanir á vaxtamunaviðskiptum og afleiðuviðskiptum. Þá er Seðlabanki Íslands enn í einhverskonar staðfestingarhlutverki gagnvart erlendum lánum og fjárfestingum fólks.
Svo er það þannig að á meðan að aflandskrónueigendur eru enn með eignir inni á sérstökum, nær vaxtalausum, reikningum og mega ekki nota þá né skipta í aðra gjaldmiðla, þá eru höft í gildi. Vissulega fyrst og síðast höft á einn afmarkaðan hóp, en samt sem áður höft.
Veðmálið um slitabúin gekk upp
Það verður að segjast eins og er að veðmál vogunarsjóða á Íslandi hafa gengið ansi vel upp. Þeir keyptu kröfur á íslensku bankana á hrakvirði skömmu eftir hrunið og sömdu svo um niðurstöðu við íslensk stjórnvöld sem tryggði þeim gríðarlegan ávinning.
Sú niðurstaða var reyndar líka fín fyrir Ísland. Þeir sem „töpuðu“ á bankahruninu voru upphaflegu eigendur krafna á íslensku bankana, meðal annars þýsk fjármálafyrirtæki og erlend tryggingafélög, sem seldu kröfur sínar strax eftir hrunið á smánarverði. Umsvifamestu aðilarnir í kröfuhafahópi bankanna fögnuðu mjög þeirri niðurstöðu sem þeir fengu þegar samið var við íslensk stjórnvöld 2015 um greiðslu hluta innlendra eigna í stöðugleikaframlög gegn því að fá að losa um allar aðrar eignir. Endurheimtir kröfuhafanna voru hærri en þeir reiknuðu með. Og þeir því eðlilega mjög sáttir með niðurstöðuna.
Eftir stóð þó enn hinn svokallaði aflandskrónuvandi. Þ.e. 319 milljarðar króna í eigu erlendra aðila. Íslensk stjórnvöld voru digurbarkaleg þegar þau tilkynntu hvernig ætti að leysa þann vanda. Stilla ætti eigendum aflandskrónanna, sem eru meðal annars bandarískir vogunarsjóðir, upp við vegg. Annað hvort myndu þeir taka þátt í lokaútboði Seðlabankans og samþykkja að greiða 190-210 krónur fyrir hverja evru, eða þeir yrðu festir á nær vaxtalausum nýstofnuðum reikningum í Seðlabankanum í tíu ár með peninganna sína. Þeir myndu hvorki fá að fara með þá né festa í öðrum fjárfestingum innan hafta. Skráð gengi á þessu tíma var 138,6 krónur og því var um að ræða 37-51 prósent álag.
Þátttaka náði ekki sársaukamörkum
Framsetningin var í takt við annað hörkutal sem einkennt hafði íslensk stjórnmál árin á undan. Hér væru við völd valmenni sem ætluðu sér að berja niður alþjóðlega fjármálakerfið og allir sem gagnrýndu þau væru að ganga erinda óvinarins, vogunarsjóða. Það hafði þó aldrei reynt á neina af þessum hörku hótunum. Stærsta málið sem leyst hafði verið, slit þrotabúa föllnu bankanna, hafði verið leyst með samningi. Aldrei reyndi á hótanir um álagningu stöðugleikaskatts, og því er ekki hægt að slá því föstu að hann hefði staðist lög eða stjórnarskrá.
Það var því í fyrsta sinn sem myndi reyna almennilega á „annað hvort eða“ valkosti sem íslensk stjórnvöld voru að setja vondu vogunarsjóðunum. Viðmælendur Kjarnans segja að sársaukamörkin hafi legið við 100 milljarða króna. Þ.e. eigendur að minnsta kosti 100 milljarða aflandskróna hefðu þurft að taka þátt í útboðinu svo aðgerðin hefði þann trúverðugleika sem til þyrfti. Fljótlega kom í ljós að uppi voru vandkvæði. Fyrst var framkvæmd útboðsins frestað. Eftir að það var loks haldið um miðjan júní 2016 var boðað til framhaldsútboðs. Ljóst var að útkoman var ekki eftir plani.
Enda kom í ljós að fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var einungis 83 milljarðar króna, og á lægsta genginu sem stóð til boða, 190 krónum fyrir hverja evru. Þorri aflandskrónueigendanna sá í gegnum hótanir stjórnvalda. Hluti þeirra fór þess í stað í mál og dældi peningum í vafasama hugveitu sem lét birta hræðilega lélegar auglýsingar um að Íslendingar væru að mismuna í íslenskum og erlendum fjölmiðlum.
Veðmálið um aflandskrónurnar er líka að ganga upp
Síðan leið og beið án þess að vandamálið sem eftirstandandi aflandskrónueignirnar, rúmlega 200 milljarðar, voru leystist. Síðasta ríkisstjórn gerði ekkert til að takast á við það, þótt augljóst væri að ómögulegt yrði að afnema höft áður en það yrði gert.
Fyrir skemmstu var greint frá því að fulltrúar stjórnvalda hefðu fundað með fulltrúum þeirra sjóða sem áttu stærstan hluta þeirra í New York til að reyna að leysa vandann. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa reyndar átt sér stað samskipti alla tíð síðan að uppboðið fór fram í fyrrasumar. Þau samskipti hafa að mestu farið fram í gegnum Lee Buchheit, helsta ráðgjafa Íslands í haftamálum. Fundinn í New York sátu embættismenn úr bæði fjármála- og efnahagsráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór til New York í síðustu viku til að taka þátt í viðburðum á vegum Sameinuðu þjóðanna í tengslum við HeForShe-átakið þá fundaði hann með Buchheit, sem hafði áður fundað með fulltrúum stórra eigenda aflandskróna.
Á sunnudag var svo tilkynnt um það sem stjórnvöld vilja meina að sé algjört afnám hafta, en er það augljóslega ekki. Samhliða var tilkynnt um samkomulag við eigendur 90 milljarða aflandskróna um að þeir fari út á genginu 137,5 krónur.
Þetta samkomulag þýðir ýmislegt. Í fyrsta lagi þýðir það að eigendur þessara króna hafa aukið virði eigna sinna um 38 prósent með því að bíða átekta, að mestu vegna gengisstyrkingar. En álagið sem íslensk stjórnvöld setja á það gengi sem býðst aflandskrónueigendunum hefur líka lækkað, og er nú um 20 prósent. Í öðru lagi eru íslensk stjórnvöld þar af leiðandi að gangast við því að framkvæmd útboðsins í fyrra hefði mistekist herfilega og að gefa þyrfti mun meira eftir til að leysa vandann. Í þriðja lagi vekur síðan athygli að eigendur einungis um helmings aflandskrónueignanna tóku tilboði Seðlabankans. Hinir, sem eiga 105 milljarða króna, virðast ætla að „kalla blöffið“ aftur. Þegar hefur verið opinberað að fjárfestingarsjóðurinn Loomis Sayles hafi hafnað tilboði Seðlabankans, en hann á um 30 til 40 milljarða króna hér á landi. Aðrir stórir sjóðir, Autonomy Capital, Eaton Vance og Discovery Capital Management, hafa neitað að tjá sig um afstöðu sína.
Þeir þurfa enda ekkert að fara. Flest bendir til þess að gengi íslensku krónunnar haldi bara áfram að styrkjast með auknum fjölda ferðamanna og gengishagnaðurinn sem slíkt býr til er miklu betri en flest önnur fjárfestingartækifæri sem bjóðast alþjóðlegum fjárfestum. Á meðan svo er þá er það hagur sjóðanna að reyna að fá þessum hömlum sem á þá voru settar hnekkt fyrir dómstólum. Vinni þeir það mál fá þeir nefnilega að fara út á miklu betri kjörum.
Ísland hefur líka grætt
Þrátt fyrir að þessir blessuðu fjárfestinga- og vogunarsjóðir hafi grætt fullt á Íslandsveðmálum sínum þá hefur Ísland komið vel út úr þeirri ótrúlega viðsjárverðu stöðu sem landið var í haustið 2008. Setning neyðarlaga og fjármagnshafta (ríkisstjórn Geirs H. Haarde), afnám sólarlagsákvæðis (ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur) og svo loks samkomulag við kröfuhafanna um að skipta hermanginu á milli þeirra og ríkissjóðs (ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar) voru allt vel heppnaðar aðgerðir. Hægt er að rífast um útfærslu en samandregið þá tóku allar þessar ríkisstjórnir réttu stóru ákvarðanirnar. Og niðurstaðan er sú efnahagslega staða sem blasir við Íslandi í dag. Ævintýralegur hagvöxtur, tíu ára kaupmáttaraukning á einu ári, gjörbreytt skuldastaða, risastór óskuldsettur gjaldeyrisvaraforði, nær ekkert atvinnuleysi, verðbólga undir markmiði árum saman og mikil losun hafta. Nú er okkar helsta vandamál gríðarleg styrking krónunnar og okkur vantar útflæði úr íslensku hagkerfi til að mæta hinu mikla innflæði. Augljósasta útflæðið eru eignir aflandskrónueigenda.
Ekkert af ofangreindum aðgerðum eru ótrúleg pólitískt afrek heldur voru ríkisstjórnir einfaldlega að bregðast við aðstæðum á þann hátt sem landsmenn eiga að búast við að þær geri, með almannahagsmuni að leiðarljósi. Sumt sem var gert hefði mátt gerast miklu fyrr. Sumt mistókst eða fór öðruvísi en áætlað var. En niðurstaðan var á endanum mjög góð fyrir íslenskt efnahagskerfi.
Það er hins vegar þannig að sumir stjórnmálamenn verða alltaf að tala upp eigið ágæti og láta sem þeir séu ómissandi. Ef ekki nyti þeirra við þá fari allt til helvítis. Þessi aðferðarfræði var mjög mikið notuð af Framsóknarflokknum á síðasta kjörtímabili og hefur nú verið endurvakin eftir nokkra lægð.
Eru allir flugumenn nema Framsókn?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þurfti að segja af sér sem forsætisráðherra eftir að hafa orðið uppvís af því að ljúga í viðtali þar sem hann var spurður um aflandsfélag sem hann átti. Hann upplýsti ekki um að hann hefði verið kröfuhafi í bú föllnu bankanna á sama tíma og hann kom að úrlausn mála þeirra sem forsætisráðherra. Forsætisráðherrann fyrrverandi hefur ekki viljað svara spurningum um hvenær hann keypti skuldabréf útgefin af föllnu íslensku bönkunum upp á rúman hálfan milljarð króna. Og Sigmundur Davíð hefur enn ekki svarað lykilspurningum í málinu, eins og hvaða eignir séu vistaðar inni í Wintris. Ómögulegt er að sjá hvort félagið hafi greitt alla skatta á meðan að slíkum spurningum er ósvarað.
Í stað þess að svara þessum spurningum hefur Sigmundur Davíð búið til miklar samsæriskenningu um að samvinna erlendra vogunarsjóða, sérstaklega vogunarsjóðastjórans George Soros, og innlendra jafnt sem erlendra fjölmiðla hafi fellt hann. Um nokkurt skeið hefur Framsóknarflokkurinn verið að fjarlægja sig frá þessum málflutningi Sigmundar Davíðs. En á því varð breyting á sunnudag.
Í Facebook-færslu sem hann birti eftir að tilkynnt var um nýtt tilboð til aflandskrónueigenda, og þann gengishagnað sem þeir munu innheimta vegna styrkingar krónunnar taki þeir tilboðinu, sagði Sigmundur Davíð: „Planið gekk upp hjá vogunarsjóðunum. Þeir fengu kosningar, nýja ríkisstjórn, nýja stefnu og nýtt verð. „Special price for you my friend.“ Hann lagði ekki fram nein gögn sem styðja við þessa samsæriskenningu, ekki frekar en í öll hin skiptin þegar hann hefur borið slíkar ásakanir á torg.
Fleiri í flokki Sigmundar Davíðs tóku undir þennan málflutning. Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður flokksins, spurði á Facebook hvort nú væri komin skýringin „á því af hverju Björt framtíð og Viðreisn vildu ekki vinna með Framsókn. Vissu þeir kannski að þennan afslátt til Vogunarsjóðanna, hefðu Framsóknarmenn aldrei samþykkt? Engin gögn voru lögð fram til að undirbyggja þessa framsetningu.
Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi bæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavogi, sagði: „Vogunarsjóðirnir fá mun betri afgreiðslu hjá núverandi ríkisstjórn heldur en þeirri fyrri. En hvað er 20 milljarða afsláttur á milli vina?“
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, fór í útvarpsviðtal og sagði: „Nú er spurning hvort nýr fjármálaráðherra [Benedikt Jóhannesson] hafi einhver tengsl við hrægammasjóðina eða hvort ríkisstjórnina skorti almennt kjark? Fjármálaráðherra þarf að standa þjóðinni skil á því hvers vegna hann krýpur við hreiður hrægamma.“
Og Lijla Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins sem hefur verið að færa orðræðu flokksins inn á vitrænar brautir í betri takt við raunveruleikann á undanförnum misserum, tók meira að segja þátt í leiknum. Hún sagði í útvarpsviðtali að „aðilar sem neituðu að taka þátt í útboðinu í júní, en eru að fara út núna á miklu hagstæðara gengi og þess vegna eru þeir búnir að græða cirka 20 milljarða á því að bíða. Það er það sem við erum að setja út á, það er svolítið verið að verðlauna freka kallinn.“
Það er engu líkara en að Framsóknarflokkurinn lifi í þeim veruleika að allir nema hann sjálfur séu flugumenn sem vinni fyrir erlenda vogunarsjóði.
En veruleikinn er auðvitað ekki þannig.