Eins og við mátti búast, þegar tilkynningin kom fram um að þrír vogunarsjóðir af Wall Street ásamt Goldman Sachs bankanum væru að eignast um 30 prósent hlut í Arion banka, þá hefur kviknað umræða um eignarhald á íslensku fjármálakerfi. Í ljósi sögunnar og Hæstaréttardóma undanfarinna ára þá ætti það ekki að koma neinum á óvart.
Spilaborgin sem hrundi
Allir æðstu stjórnendur bankanna þriggja sem féllu eins og spilaborg, 7. til 9. október 2008, hafa verið dæmdir í fangelsi, að undanskildum Halldór J. Kristjánssyni, sem var bankastjóri Landsbankans með Sigurjóni Þ. Árnasyni. Kjarninn í málunum þar sem nokkrir af þyngstu dómunum hafa fallið hefur verið fjármögnun bankanna á eigin hlutafé, langt út fyrir lögleg mörk.
Þegar á reyndi skipti þetta miklu máli fyrir íslenska bankakerfið, þar sem raunverulegt eigið fé bankanna var miklu minna en ársreikningar sögðu til um. Endurskoðunarfyrirtækið PwC hefur þegar samið sig frá dómsmálum með sátt við slitabú Glitnis og Landsbankans, en ekkert bólar á svipuðu hjá KPMG, sem var endurskoðandi Kaupþings.
Samt voru upplýsingar í ársreikningum Kaupþings í engu samræmi við þá stöðu sem skýrðist þegar rýnt var í frumgögnin um rekstur hans. Bankinn fjármagnaði eigin hlutafé að minnsta kosti yfir 40 prósent, og þá var ábyrgð starfsmanna bankans á tugmilljarða lánum sem þeir tóku til að kaupa hlutafé í bönkunum, aðeins 10 prósent, en ekki í samræmi við aðra viðskiptamenn bankans, eins og stóð í ársreikningum og uppgjörum, allt fram á árið 2008.
Eðlilegast væri að endurskoðunarfyrirtækið svaraði fyrir þetta fyrir dómi, hvers vegna það sá ekkert óvenjulegt á ferðinni og hvers vegna ársreikningar sem veittu þúsundum hluthafa jafn ranga leiðsögn um gæði eigna og áhættu í rekstri. Það verður að teljast töluvert afrek, miðað við það sem leitt hefur verið fram úr frumgögnunum fyrir dómi.
Hvað eru æskilegur eigendur?
Hvers vegna að rifja þetta upp núna? Vegna þess að nú stendur til að gera breytingu á eignarhaldi í íslenska fjármálakerfinu, þar sem rauði þráðurinn er spurningin um hvað teljist gott eignarhald fyrir fjármálakerfið. Það er ekki óeðlilegt að spyrja spurninga þegar til stendur að gera breytingar. Þvert á móti er mikilvægt að það fari fram umræða um þessi mál, samhliða því mati sem Fjármálaeftirlitið þarf að framkvæma. Til dæmis hvort skuldsett eignarhald sé æskilegt og hver stefna eigenda sé.Tveir punktar hafa verið fyrirferðamiklir í umræðu um þá stöðu sem nú er uppi í fjármálakerfinu.
1. Mikið eigið fé. Þau sjónarmið hafa sést oft að hægt sé að minnka eigið fé endurreistu íslensku bankanna umtalsvert. Greiða tugi milljarða út úr hverjum banka fyrir sig til eigenda. Eigið fé Landsbankans er 251 milljarður, eigið fé Íslandsbanka 178 milljarðar og eigið fé Arion banka 211 milljarðar. Samtals er eigið fé þessa endurreista kerfis því 640 milljarðar króna, miðað við stöðuna um áramót, og eiginfjárhlutfallið er á bilinu 25 til 30 prósent.
Margir vilja meina að það sé mögulegt að lækka þetta hlutfall, til dæmis niður í 20 prósent, án þess að öryggi kerfisins sé ógnað. Það mætti því, svo dæmi sé nefnt, greiða um 160 milljarða króna úr bönkunum. Með þessu móti yrði hægt að bæta rekstrartölurnar, út frá arðsemi eiginfjár.
Þetta vekur upp spurningar. Er rétt að lækka eigin féð? Skiptar skoðanir eru augljóslega uppi um þessi sjónarmið, en ólíkt því sem var fyrir hrun gamla kerfisins, fyrir átta og hálfu ári, þá er kerfið mun traustara en það var. Hertar reglur um gæði eigna og virkara eftirlit - bæði ytra og innra - hafa styrkt stoðirnar. Áhrifin hafa verið til hins betra. Ég fæ ekki betur séð en að það sé hið besta mál fyrir fjármálakerfið að vera með mikið eigið fé, og það þjónar almenningi vel.
Nú hefur það komið fram, að búið sé að slíta viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um að kaupa hlut í bönkunum. Þetta verður að teljast nokkuð óvænt. Vogunarsjóðirnir, ásamt Goldman Sachs, slitu viðræðunum að eigin frumkvæði í óþökk fulltrúa lífeyrissjóðanna, að því er fram hefur komið. Þá hefur enn fremur verið greint frá því, að það sé mat einhverra manna, innan Kaupþings, að hægt sé að lækka eigið fé Arion banka verulega, og hagræða enn meira, eigendum til hagsbóta.
Komið hefur fram að rekja megi eignarhald á sumum þessara sjóða til aflandsfélaga. Ótrúlegt er að hugsa til þess, eftir það sem á undan er gengið (og kannski líka í ljósi nýjustu tíðinda), að stjórnmálamenn hafi ekki sett lög sem banni alfarið eignarhald aflandsfélaga á stórum eignarhlutum í íslenska fjármálakerfinu. Það er einföld og áhrifarík leið, sem ýtir undir gagnsæi. Það er mikið í húfi að endurreisa traust á fjármálakerfinu, og þrátt fyrir að mörgu leyti erfiðar aðstæður, þá hefur tekist vel að byggja upp nýtt fjármálakerfi. Hægt og bítandi hefur það tekist. Það er traustara en það var, miklu einfaldara og riðar ekki til falls vegna froðueiginfjár, eins og það gamla gerði.
Að mörgu leyti saknar maður þess, að það komi góð pólitísk leiðsögn - og faglega studd frá eftirlitsstofnunum sömuleiðis - út frá þessari spurningu sem nefnd er hér að framan, varðandi eigið féð. Í bókinni Bankers New Clothes: What's wrong with banking and how to fix it, eftir Anat Admati og Martin Hellwig, er því haldið fram að einn helsti lærdómurinn af fjármálakreppunni sé sá, að eigið fé bankanna þurfi að vera „raunverulegt“, mun meira en það hefur verið á undanförnum áratugum. Hátt eiginfjár hlutfall, með raunverulega sterku eigin fé, er öryggið á oddinum.
Af þessum sökum, verða vogunarsjóðirnir og Goldman Sachs - og helstu ráðgjafar þeirra sem sumir hverjir þekkja vel stefnu stjórnvalda í þessum efnum - að upplýsa um hver sé stefna þeirra þegar kemur að eiginfjárstöðu og fjárhagslegum styrk. Varla yrði það talið æskilegt ef nýir eigendur tækju fljótt tugi milljarða úr efnahagsreikningi bankanna. Eða hvað?
Í það minnsta einn aðilinn sem er að kaupa stóran eignarhlut í Arion banka, Och-Ziff Capital Management Group, var færður niður í ruslflokk í lánshæfi daginn eftir að tilkynnt var um kaup hans á hlut í Arion banka. Í september í fyrra þurfti fyrirtækið að greiða himinháar sektir vegna mútugreiðslna og lögbrota í starfsemi fyrirtækisins. Er þetta æskilegur eigandi að fjármálakerfinu? Það verður spennandi að sjá hvernig Fjármálaeftirlitið horfir á málið, og hvaða leiðsögn eftirlitið kemur með fram varðandi skuldsett eignarhald.
2. Einfalt og innilokað fjármálakerfi. Endurreistu bankarnir þrír þjónusta nærumhverfi sitt. Einungis um 200 þúsund einstaklinga vinnumarkaður Íslands er undir. Þeir bjóða ekki upp á fjármálaþjónustu utan Íslands, og líklega mun það aldrei gerast aftur, að íslenskir bankar taki á móti innlánum erlendis. Undirstöðurnar í sjálfstæðu peningakerfi örþjóðar gera það að verkum, að líklega muni bankakerfið ekkert vaxa neitt, nema þá lítið eitt í takt við sveiflur í hagkerfinu.
Margt er erfitt fyrir bankanna í samkeppnisumhverfinu. Alþjóðlegir bankar eru með mikla markaðshlutdeild hjá góðum lántakendum, svo sem orkufyrirtækjum, alþjóðlegum fyrirtækjum eins og Marel og Össur, og stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum einnig. Bankar geta illa keppt í lánakjörum þegar kemur að svona viðskiptum. Þá hefur samkeppni á húsnæðislánamarkaði einnig harðnað, og bjóða lífeyrissjóðir nú umtalsvert betri vexti á húsnæðislánum en bankarnir.
Allt vekur þetta upp spurningar um hvernig hlutverk bankanna verður til framtíðar litið, og hvernig þeir ætla sér að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Almenningur á það skilið að eigendamál hins innilokaða íslenska fjármálakerfis séu rædd mikið og ítarlega. Það sama á við um stjórnendur bankanna, stjórnir og starfsfólk. Það á líka skilið að fá fram umræðu um þessi mál, og það ætti frekar að taka henni fagnandi en hitt.
Innihaldslaus orð Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, um „stærstu erlendu fjárfestingu á Íslandi“ - þegar vogunarsjóðirnir umbreyttu óbeinu eignarhaldi sínu í beint eignarhald - eru ekki til þess fallin að auka tiltrú á því. Vonandi verður þetta mál tekið föstum tökum á hinu pólitíska sviði, alveg eins og vonir eru bundnar við að verði raunin hjá eftirlitsstofnunum. Það er mikið undir og spor sögunnar hræða. Heilbrigt og gott fjármálakerfi er hagkerfinu lífsnauðsynlegt og uppbygging þess og undirstöður, er ekkert einkamál ráðgjafa út í bæ, elítu í fjármálakerfinu, vogunarsjóða eða forystumanna stjórnmálaflokka.