Nú liggur það staðfest fyrir sem ansi margir hafa talið fullvíst árum saman. Þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei raunverulegur eigandi að stórum hlut í Búnaðarbanka Íslands líkt og haldið var fram þegar S-hópurinn svokallaði keypti 45,8 prósent hlut í bankanum. Áður hafði komið fram að S-hópurinn, sem var hópur manna með rík pólitísk tengsl sérstaklega við Framsóknarflokkinn, greiddu aldrei krónu úr eigin vasa fyrir hlutinn heldur fengu lánað fyrir honum í Landsbanka Íslands.
Þröngur hópur sem samanstóð af höfuðpaurnum Ólafi Ólafssyni, helstu samstarfsmönnum hans, Kaupþingi og mörgum helstu stjórnendur þess banka, lykilmönnum innan Hauck & Aufhäuser og tveimur aðilum innan franska bankans Societe General tóku þátt í fléttunni.
Völd og milljarðar
Tilgangur þeirra var margþættur.
Í fyrsta lagi blasir við að verið var að veita kaupunum á Búnaðarbankanum trúverðugleika með því að láta svo út líta að erlendur banki væri fyrir eigin reikning að taka þátt í þeim. Í þeirri ömurlega ófaglegu fegurðarsamkeppni sem íslensk stjórnvöld settu upp og kölluðu einkavæðingarferli fengust nefnilega mörg stig fyrir slíka aðkomu.
Í öðru lagi var tilgangurinn sá að undirbúa farveginn fyrir að sameina Búnaðarbankann, sem var viðskiptabanki með gott lánsmatshæf, og Kaupþing. Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið að við sameininguna hefðu Kaupþingsmenn fengið það sem þeir þurftu; „lánshæfismat og viðskiptabankagrunn á Íslandi." Afleiðingarnar þekkja allir: fimmta stærsta gjaldþrot heimssögunnar og slóði lögbrota sem framin voru í starfi bankans.
Í þriðja lagi voru þessir aðilar sem að fléttunni stóðu að hagnast stórkostlega. Baksamningar sem Ólafur, samverkamenn hans og Kaupþingsmenn gerðu við Hauck & Aufhäuser gerðu það að annar vegar að verkum að þýska einkabankanum var tryggt algjört skaðleysi og hins vegar að aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Bresku Jómfrúareyjum og fjármagnað af Kaupþingi, yrði raunverulegur eigandi að hlutnum í Búnaðarbankanum. Þegar Hauck & Aufhäuser seldi hlut sinn í Eglu (félaginu sem hélt utan um stóran hluta í sameinuðum banka Búnaðarbankans og Kaupþings) sat eftir rúmlega 100 milljón dala hagnaður í Welling & Partners eftir að Kaupþing hafði fengið upphaflega skuld sína greidda. Á gengi dagsins í dag eru þetta um ellefu milljarðar króna. Kaupandinn að hlutnum var Kjalar, félag Ólafs Ólafssonar og nær öruggt er að lánað hafi verið fyrir viðskiptunum að öllu leyti, enda virtist Ólafur hafa ótakmarkaðan aðgang að lánsfé, sérstaklega í bankanum sem hann átti stóran hluta í. Þannig má segja að kaup Ólafs á stórum hlut í Búnaðarbankanum, með aðkomu vina sinna í Kaupþingi, hafi veitt honum nær frjálsan aðgang að fjármunum úr bankanum.
Milljörðunum sem sátu eftir í Welling & Partners var skipt upp á milli aflandsfélaga Ólafs annars vegar og aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur nær öruggt að hafi verið í eigu Kaupþings eða helstu stjórnenda þess banka hins vegar.
Mesta hneyksli Íslandssögunnar
Einkavæðing bankanna á árunum 2002 og 2003 er mesta hneyksli Íslandssögunnar. Þar fékk hópur manna með enga reynslu af bankarekstri að kaupa ráðandi hlut í tveimur ríkisbönkum í einu tilviki án þess að leggja fram nokkurn pening, og í báðum tilvikum þar sem viðkomandi hópar fengu lánað hjá hinum bankanum sem þeir voru ekki að kaupa. Við kaupin fengu þessir hópar gríðarleg völd yfir íslensku samfélagi. Þeir og vinir þeirra keyptu upp fullt af fyrirtækjum, réðu Elton John til að spila í afmælunum sínum, stofnuðu góðgerðarsjóði til að þykjast ægileg mikilmenni, böðuðu sig í kampavíni og átu gull.
Tæpum sex árum eftir að gengið var frá sölu á ríkisbönkunum hrundi spilaborg krosseignatengsla, lána til tengdra aðila, markaðsmisnotkunar og fordæmalausrar fjármögnunar á kaupum á eigin bréfum yfir eitt stykki samfélag á eyju út í miðju ballarhafi. Venjulegt fólk þurfti að takast á við afleiðingarnar og axla aðlögunina, jafnt efnahagslega sem sálræna.
Allt traust milli almennings og stofnana hvarf á einni nóttu. Það var kannski ekki skrýtið, í ljósi þess að stjórnvöld höfðu brugðist algjörlega þegar þau ákváðu að selja ríkisbankanna með þeim hætti sem gert var. Fjármálaeftirlitið reyndist í kjölfarið ekki nægjanlega burðugt til að komast að því hver endanlegur eigandi að risahlut í Búnaðarbankanum væri og Ríkisendurskoðun tók sig að lokum til og hvítþvoði þessa framkvæmd tvisvar.
Allt átti þetta rætur sínar að rekja til þeirra blekkinga sem Ólafur Ólafsson og Kaupþingshirðin komust upp með að beita síðla árs 2002, og snemma árs 2003, þegar þessi hópur sölsaði undir sig Búnaðarbankann með blekkingum og svindli.
Mun ekki hafa neinar afleiðingar
Enn og aftur hefur ítarleg rannsókn á gjörningi sem haldið hefur verið að okkur að hafi verið í himnalagi, sýnt að að baki honum stóð ekkert nema ömurleg spilling og óheilindi. Tilgangurinn var að sölsa undir sig völd og græða ævintýralega mikið af peningum.
Opinberun nefndarinnar í dag mun hins vegar ekki hafa neinar frekari beinar afleiðingar. Ef mennirnir sem græddu á Hauck & Aufhäuser-fléttunni voru uppvísir af einhverju sem er ólöglegt þá er það fyrnt í dag. Tregða íslenskra ráðamanna síðustu 15 árin til að láta rannsaka þennan verknað tryggði það. Og við virðust ekki ætla að læra af þessu heldur. Örfáir dagar eru síðan að aðilar með eignarhald kyrfilega falið á aflandseyjum keyptu ráðandi hlut í því sem var einu sinni Búnaðarbankinn. Viðbrögð ráðamanna voru þau sömu og árið 2003. Því var fagnað ægilega að meintir útlendingar hefðu svona mikla trú á litla, heimóttarlega Íslandi.
Ólafur Ólafsson, og aðrir sem græddu á þessum snúningi á íslensku samfélagi, munu áfram eiga milljarða króna í erlendum skattaskjólum. Hann mun áfram eiga eitt stærsta flutningafyrirtæki landsins, byggja hér hótel og semja við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á lóðunum hans. Von bráðar kemur örugglega enn ein aðsenda greinin frá eiginkonu hans í Fréttablaðið þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að yfir standi nornaveiðar. Líklegast sé, enn og aftur, um vitlausan Óla að ræða. Í kjölfarið fylgir síðan allur sirkusinn í kringum þessa dæmdu glæpamenn og magnar upp steypuna.
Klassísk siðblinda
Ég ætla hins vegar að vona að þessi ítarlega skýrsla, sem byggir niðurstöðu sína á gríðarlegu umfangi gagna, slái á þessi harmakvein í eitt skipti fyrir öll. Í henni er sýnt fram á það, svart á hvítu, að Ólafur og Kaupþingsmenn, svindluðu stórkostlega á íslensku samfélagi. Þeir blekktu stjórnvöld, almenning og fjölmiðla til að komast yfir banka og til að hagnast um milljarða króna sem runnu inn í aflandsfélög.
Enginn þessara manna hefur beðist afsökunar. Enginn hefur skilað neinu af því fé sem þeir komust yfir með óheiðarlegum hætti. Enginn hefur sætt sig við niðurstöðu dómstóla í þeim málum sem rekin hafa verið gegn þeim, eftir reglum réttarríkisins.
Eina sem þeir hafa gert er að grafa undan dómskerfinu með því að borga lögmanna- og almannatengslaher hundruð milljóna króna fyrir að valda áframhaldandi skaða. Þeir hafa fengið meðgjöf hjá sumum fjölmiðlum sem hafa gert þeirra málstað að sínum. Og þeir skammast sín ekki neitt.
Það sem einkennir hegðun þessa hóps er algjör skortur á samúð og samlíðan. Athafnir þeirra eru að öllu leyti sjálfhverfar og þeir hika ekki við að beita blekkingum til að fá það sem þeir vilja. Þeir ljúga og sýna af sér fullkomið samviskuleysi. Hvatirnar sem drífa þá áfram eru peningar og völd. Allt eru þetta grunneinkenni klassískrar siðblindu.
Og í Hauck & Aufhäuser-fléttunni sýndi þessi hópur á sér allar þessar hliðar.