Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi komst aftur í sviðsljósið í liðinni viku af tvennum ástæðum. Sú fyrri vegna þess að enn einu sinni er fjölmiðill sem skilgreinir sig í almannaþágu að lenda á rekstrarerfiðleikavegg sem því miður virðist óyfirstíganlegur. Verði það raunin mun íslensk fjölmiðlaflóra verða fátækari fyrir vikið.
Hins vegar vegna þess að nokkur sjávarútvegsfyrirtæki seldu hlutinn sinn í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, fyrir óuppgefna upphæð til Eyþórs Arnalds.
Um var að ræða hlut Samherja, Síldarvinnslunnar (stærsti eigandi hennar er Samherji) og Vísis í Grindavík, alls 26,62 prósent í Árvakri. Eyþór sagði sjálfur í frétt á mbl.is að það væri honum mikið fagnaðarefni að koma að fjölmiðlarekstri með þessum hætti. Fjölmiðlar væru honum sérstakt hugðarefni. Ég sat fyrir svörum MBA-nema með honum á laugardagsmorgun. Þar ræddi hann mikið um samspil hefðbundinna miðla á borð við dagblöð og nýmiðlunar, t.d. á netinu, og kom prýðilega fyrir. Svo virðist sem Eyþór sjái ekki fyrir sér að Morgunblaðið verði prentað í því uppleggi sem það er nú prentað í nánustu framtíð. Sem eitt og sér er áhugavert, og rökrétt afstaða.
Þótt umbúðirnar breytist virðist þó ekki mikil von á breyttum áherslum við matreiðslu á innihaldinu. Þar munu hagsmunir líkast til ráða áfram för.
Sagan endurskrifuð
Eyþór er að kaupa hlut af hópi sem kom að Morgunblaðinu snemma árs 2009 og réð nokkrum mánuðum síðar Davíð Oddsson sem ritstjóra. Hann hefur síðan þá dundað sér við að endurskrifa samtímasöguna, þar sem hann sjálfur var einn aðalgerenda, sjálfum sér í hag. Líkt og blasti auðvitað við að hann myndi gera.
Davíð var ekki sá eini sem tengdist þessum hópi sem „bjargaði“ Morgunblaðinu og Árvakri snemma árs 2009 sem hafði hagsmuna að gæta í því að fá öflugan vettvang til að setja fram skoðanir og fréttir á ákveðinn hátt. Á þessum vettvangi hefur áður verið sagt frá orðum Óskars Magnússonar, fyrrverandi útgefanda Árvakurs sem leiddi björgunarhópinn, sem sagði í viðtali á Hringbraut í nóvember síðastliðnum að það hafi verið þrjú mál sem hópurinn hafi viljað „fá öðruvísi tök á í umræðunni.“ Þau hafi verið Icesave, Evrópusambandið og sjávarútvegsmál.
Við þetta má reyndar bæta að það var líka sérstakt upplegg að koma vinstri stjórninni sem sat á tímabilinu 2009-2013 frá og að koma í veg fyrir stjórnarskrárbreytingar. Það veit ég vegna þess að ég vann á Morgunblaðinu á þeim tíma sem björgunarhópurinn tók við eignarhaldinu af Íslandsbanka.
Það sem fæst fyrir 1,2 milljarða
Björgunarhópurinn hugsjónadrifni var að mestu samansettur af útgerðarmönnum. Þar til að Eyþór keypti sinn hlut í liðinni viku var 96 prósent eignarhlutur í eigu slíkra. Um er að ræða flesta stórútgerðarmenn landsins. Þeir hafa sett 1,2 milljarða króna í leiðangurinn og fengið 4,5 milljarða króna afskrifaða í leiðinni hjá Íslandsbanka. Líklega hafa þær afskriftir haft meiri áhrif á rekstrar- og samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla eftir hrun en nokkuð annað.
Að undanförnu hefur svo staðið yfir viðbótarfjársöfnun upp á nokkur hundruð milljónir króna til að brúa tap í fyrra og áframhaldandi rekstur.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í frétt á mbl.is í síðustu viku, þar sem tilkynnt var um að hann væri að selja sig út úr ævintýrinu, að Samherji væri ánægður með hvernig til hafi tekist. Blaðið hafi náð að halda velli, staðið hafi verið vörður um faglega blaðamennsku og „miðlað upplýsingum um mál sem vörðuðu þjóðina gríðarlega miklu og hafa nú sum hver verið farsællega til lykta leidd. Nú eru því uppi aðrar aðstæður og tímabært að hverfa af þessum vettvangi.“
Ljóst er að Þorsteinn Már má vera ánægður með árangurinn af kaupunum í breiðum skilningi. Þótt reksturinn hafi verið afleitur þá er hægt að mæla árangurinn á margan anna hátt. Til dæmis í því að veiðigjöld voru lækkuð, komið hefur verið í veg fyrir að eignarhald þjóðar á auðlindinni sé tryggt í stjórnarskrá og ekki var gengið inn í Evrópusambandið.
Heilt yfir hefur tekist að verja kerfin sem passa upp á að íslenskt hagkerfi er sniðið að þörfum handfylli milljarðamæringa í stað þess að vera sniðið að aðstæðum launafólks í landinu.
Stigið yfir línuna í forsetakosningunum
Í áðurnefndu viðtali við Óskar Magnússon var hann einnig spurður hvort Morgunblaðið væri hagsmunagæslufjölmiðill. Hann svaraði því til að það væri hann „sjálfsagt að einhverju leyti.“ Menn þyrftu hins vegar að gera greinarmun á skoðanagreinum á borð við leiðara, Reykjavíkurbréf og Staksteina og svo hinn vandaða fréttaflutning. Það má taka undir með Óskari að margt er mjög vandað á Morgunblaðinu. Ritstjórn blaðsins er líklega sú besta á landinu. Hokin af reynslu, þekkingu og getu sem er ómetanlegt í blaðamennsku.
En það er rangt hjá Óskari að ekkert hafi verið fiktað í fréttunum. Hann reyndar viðurkenndi það síðar í viðtalinu að farið hefði verið mjög nálægt, og jafnvel yfir strikið í forsetakosningunum í fyrra, þar sem ritstjóri blaðsins var í framboði og miðlar Árvakurs voru notaðir miskunnarlaust bæði til að tala upp Davíð Oddsson og rægja sigurstranglegasta frambjóðandann, Guðna Th. Jóhannesson.
Það var vissulega að mestu gert í ónafngreindum skoðanaskrifum, þar sem Guðna var m.a. líkt við Donald Trump, en það var sannarlega líka gert í fréttum. Hér er til að mynda hlekkur á frétt á mbl.is sem enginn var skrifaður fyrir. Í fréttinni er 28 sekúndna myndband sem enginn er merktur fyrir þar sem ummæli Guðna er klippt saman til að láta hann líta út sem ósannindamann.
Hagsmunir eigenda ofar öðru
Dæmin um að fréttavettvangur miðla Árvakurs hafi verið notaður með þessum hætti eru fleiri. Miklu fleiri. Hér verður látið duga að styðjast við þau sem snúa beint að hagsmunum sjávarútvegs og hafa birst á undanförnu rúmu ári. Hér að neðan sést forsíðufrétt í Morgunblaðinu 22. desember 2015. Tilefnið var að Evrópusambandið hafði samþykkt nokkrum dögum áður að framlengja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum um sex mánuði og Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafði sagt opinberlega að afstaða Íslands gagnvart stuðningi við aðgerðirnar yrði óbreytt. Við myndum styðja þær enda þjóðarhagsmunir að standa með vestrænum ríkjum innan NATO og Evrópu í milliríkjadeilum þar sem grundvallarmannréttindi og lýðræði væru undir.
Fréttin er um skoðun Kolbeins Árnasonar, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á óbreyttri afstöðu Íslands til viðskiptaþvingananna.
Nokkrum dögum síðar, 4. janúar 2016, var önnur forsíðufrétt birt framan á Morgunblaðinu. Nú var hún um skoðun Jens Garðars Helgasonar, stjórnarformann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Þar kallaði hann eftir því að hagsmunir Íslands yrðu settir í forgang þegar ákvörðun um stuðning við viðskiptaþvinganir yrði tekin. Með því átti hann við hagsmuni sjávarútvegs. Í báðum fréttum eru svo settar fram svimandi háar tölur um tap þjóðarbúsins ef ekki verði látið undan þrýstingi þeirra.
Flestir eigendur Morgunblaðsins hittast líka á fundum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þar sem þeir sitja í stjórn.
Blaðið tók svo annan snúning á hagsmunagæslu fyrir sjávarútveginn í sjómannaverkfallinu. Sú hagsmunagæsla birtist vissulega að mestu í skoðanaskrifum og fólst í því að þrýsta á hið opinbera að greiða hluta af launum sjómanna, svo að útgerðin þyrfti ekki að gera það. Hluti stjórnarþingmanna, allir úr röðum Sjálfstæðisflokksins, voru sömu skoðunar og ráðamennirnir sem fóru með ákvörðunarvaldið í málinu sögðust í einkasamtölum finna fyrir gríðarlegum þrýstingi sem settur væri að mestu fram í gegnum ónafngreinda heimildarmenn í Morgunblaðinu.
Minnisvarði um óheilindi
Báðar þessar orustur töpuðust blessunarlega. Sömu sögu er að segja af forsetaframboði Davíðs, en hann beið afhroð þrátt fyrir að geta beitt fyrir sig fjölmiðlaveldi, miklum fjármunum og hluta af kosningavél stærsta stjórnmálaflokks landsins. En öll eru málin minnisvarði um hversu óskammfeilin hagsmunagæsla og misbeiting fjölmiðla getur verið.
Heilt yfir má þó segja að fjárfesting útgerðarinnar í Árvakri hafi margborgað sig. Flestum tilraunum til að breyta kerfum samfélagsins á þann veg að þau virki fyrir fjöldann en ekki handfylli manna sem hafa hagnast ævintýralega á nýtingu auðlindar sem þeir eiga ekki, hefur verið hrint. Samanlagt hefur eigið fé sjávarútvegs, að meðtöldum arði sem hefur verið greiddur til eigenda, líkast til aukist um yfir 400 milljarða króna síðan í hruninu. Það er dágóð ávöxtun á þeim 1,2 milljarði króna sem þegar hefur verið settur inn í Árvakur frá byrjun árs 2009. Í raun er óskiljanlegt af hverju stórútgerðarmenn eru ekki kosnir viðskiptamenn ársins á hverju ári, fyrir það að ná að viðhalda þeirri skiptinu á arðsemi sem er af nýtingu sameiginlegrar auðlindar, ár eftir ár eftir ár.
Almenningur ræður sínum aðstæðum
Það eru vendingar í íslenskum fjölmiðlum. 365 verður brátt brotið upp og stór hluti þess fyrirtækis fer inn í skráð fjarskiptafyrirtæki á markaði sem rekið er með mjög skýr arðsemissjónarmið. Þar verður því skýrt að höfuðmarkmið fjölmiðlastarfsemi Vodafone verður að búa til hagnað fyrir hluthafa, ekki að veita aðhald, miðla upplýsingum og vera gagnrýnin á samfélagið sem við búum í. Það getur vel verið að arðsemi og öflug fréttaþjónusta geti farið saman. En það getur líka verið að svo verði ekki.
Staða, og saga, Árvakurs hefur verið rakin nokkuð ítarlega hér að ofan og ekki er við því að búast að breyting verði á stefnu þess fyrirtækis. Flest allir aðrir einkareknir fjölmiðlar eru reknir með tapi, og sumir eru fjármagnaðir með huldufé sem enginn veit hver veitir til þeirra. Stór krítískur miðill með mikla dreifingu og mikilvægt hlutverk virðist síðan vera að hverfa af sviðinu. Þetta er umhverfið sem ramminn utan um fjölmiðlun hefur skilað okkur. Þar sem hagsmunir, arðsemi og leynilegar fjárveitingar eru í lykilhlutverkum. Stjórnvöld virðast því miður ekki líkleg til að bregðast við þessari stöðu. Markaðurinn og hagsmunirnir eiga bara að sjá um þetta.
Því stendur það enn og aftur upp á almenning að ákveða hvernig fjölmiðlaumhverfi hann vill. Það er hægt að gera með því að styrkja þá fjölmiðlun sem viðkomandi telur að skipti máli.
Hægt er að styrkja Kjarnann með því að ganga í Kjarnasamfélagið og greiða fast mánaðarlegt framlag til að efla starfsemi hans. Það gerir þú með því að smella hér.