Þegar yfir 650 konur sem útskrifast hafa frá Harvard Business School, einum virtasta viðskiptaháskóla heims, mótmæltu því formlega með yfirlýsingu að Steve Bannon fengi að starfa í Hvíta húsinu, þá kallaði það fram spurningar hjá mörgum. Hvers vegna gerðu þær þetta?
Djúpt á hatrinu
Skömmu síðar bættist verulega í hópinn og allflestar konur í kennaraliðinu í gegnum tíðina voru nú komnar inn í hópinn, að viðbættum fleiri nemendum. Yfir þúsund konur úr Harvard mótmæltu því formlega að Bannon fengi að koma nálægt valdaþráðunum.
Ástæðan var skýr: Þær töldu hann með öllu vanhæfan vegna þess hversu einbeitta og djúpa kvennfyrirlitningu og rasisma hann styddist við í sínum störfum, málflutningi og framkomu. Hún hefur ekki aðeins fylgt honum í gegnum áróðursvefinn Breitbart eða kosningabaráttu Trumps, heldur líka frá því hann fór að láta að sér kveða í námi og störfum.
Kenning hans er vel skrásett í gegnum málflutning, meðal annars í Harvard, en einnig sjá þeir sem hafa hvað dýpsta innsýn í bandarískt stjórnkerfi, að Bannon er meðal þeirra sem sér tækifæri í stríðum. Um þetta hefur Kate Brannan, blaðamaður Foreign Policy gagnvart Pentagon og varnarmálaráðuneytinu, skrifað nokkuð ítarlega og meðal annars flutt merkilegar fréttir af því hvernig Bannon hefur beitt sér fyrir því að slóð gagna verði eytt í Hvíta húsinu. Merkilegar fréttir um óhugnanlegan hugsunarhátt ógagnsæis.
Endurskipulagningin
Kenning Bannons er í grófum dráttum sú, að reglulega þurfi að endurskipuleggja heildarmynd Bandaríkjanna. Það er fyrst gert með valdbeitingu og síðan stefnu sem miðar að því að forgangsraða Bandaríkjunum í hag. Skilgreiningin á bandarískum hagsmunum, er síðan tengd hvíta karlinum og gömlu þungavigtaratvinnuvegum Bandaríkjanna, einkum olíuiðnaðinum. Svo lengi sem valdaþræðirnir eru í höndum hvíta karlsins, þá kann það góðri lukku að stýra að mati Bannon.
Svo því sé til haga haldið, þá er þetta ekkert ýkt mynd, heldur í takt við það sem hann hefur byggt sína heimsmynd á svo til alla tíð. Það hefur heldur herst á henni eftir að faðir hans missti allar eigur sínar í fjármálakreppunni fyrir tæpum áratug, að sögn greinenda hér í Bandaríkjunum. Hann hefur séð alþjóðavæðinguna sem blóraböggul í þeirri stöðu og telur Bandaríkin vera hlunnfarin í heimi viðskiptanna.
Einangrunarhyggjan, sem Trump hefur tekið upp á sína arma, passar alveg við þessa heimsmynd Bannons. Bandaríkin fyrst, svo hinir.
Fyrst glundroði
Hið óhuggulega í hugmyndafræði Bannons - sem hefur rúmt gildi innan stjórnar Trumps - er að fyrirboði breytinga er glundroði (Chaos). Hann vill að endurskipulagningin á Bandaríkjunum og stöðu þeirra í heiminum fari fram sem hraðast og því horfir hann til hersins. Með því að beita hervaldi Bandaríkjanna - sem er vel þekkt margföld stærð á við aðrar þjóðir - þá skapast tækifæri til endurskipulagningar.
afnvel þó Bannon hafi verið tekinn úr þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna, eftir heiftarleg rifrildi við Jared Kushner, tengdason Donalds Trumps forseta, þá er óþægilegt til þess að hugsa, að hann sé í því að leggja línurnar sem aðalráðgjafi. Hann horfir yfir öxlina á mönnum - aðallega hvítum körlum - á ögurstundu. Jafnvel þó að það fari svo, að hann fari úr nánasta baklandi forsetans, þá eru áhrifin hans djúpstæð og hafa skotið rótum.
Stjórnmálamenn að bregðast
Á tólf vikum, frá því Trump tók við völdum og hvítu karlarnir með honum, þá hefur jafnvægið í alþjóðastjórnmálunum raskast og hættan á miklum stríðsátökum, til viðbótar við átökin sem nú þegar eiga sér stað, er talin veruleg. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á tólf vikum, hvað þetta varðar.
Skyndileg stefnubreyting bandarískra stjórnvalda í Sýrlandi, þar sem 59 Tomahawk flugskeyti flugu á valin skotmörk stjórnarhersins í Sýrlandi í kjölfar efnavopnaárásar, hefur skerpt á víglínum.
Bandaríkin standa gegn Rússum og Sýrlendingum. Samhliða standa Bandaríkin með Japan og Suður-Kóreu þegar kemur að ógninni frá hinum óútreiknanlega Kim Jong-Un í Norður-Kóreu. Kínverjar virðast líklegastir til að vera sá aðili sem stillir til friðar, eins og rætt er um málin hér í Bandaríkjunum. En sögulegur skjöldur Kínverja, þegar Norður-Kórea er annars vegar, setur málin í flókna stöðu.
Það sorglegasta við þessa þróun er að staða efnahagsmála í heiminum, í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu þar með talið, hefur farið batnandi og um margt spennandi tækifæri framundan þegar kemur að tækni og breytingum. Til dæmis hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum verið í því að fella niður regluverk, sem átti að ýta undir vistvænni lífshætti, en á sama tíma eru bandarísk tæknifyrirtæki að leiða frumkvöðlastarf þegar kemur að notkun á vistvænni tækni til að draga úr mengun. Þetta eru einkennilegar þversagnir, en í ljósi sögunnar og þeirra öfga sem einkenna fjölbreytnina í Bandaríkjunum, þá ætti þetta ekki að koma svo mikið á óvart.
Stjórnmálamenn finnst mér vera að bregðast almenningi með valdabrölti sínu og pópulisma, með hræðsluáróðri og einangrunartali. Hinn alþjóðavæddi heimur er líklega eitt það stórkostlegasta sem skapast hefur í mannkynssögunni, og viðbrögð þjóðanna eftir hörmungar stríðstíma fyrra og seinna stríðs, hafa lagt grunninn að meiri friði og framþróun en marga óraði fyrir. Einangrunarhyggjan ætti að kveikja viðvörunarljós.
Ísland og umheimurinn
Eitt af því sem Ísland og íslenskt atvinnulíf getur lagt af mörkum í þessari stöðu, er að tala óhikað og hátt fyrir alþjóðavæddum heimi. Það var áhugavert að spjalla um þetta við aðstoðarráðherra samgöngumála í Noregi, Reyni Jóhannesson, á dögunum en hann taldi mikla hagsmuni vera undir þegar að þessu kæmi. Noregur, Ísland og önnur ríki á Norðurlöndum og við Eystrasalt gætu lagt sitt af mörkum með góðu og nánu samstarfi á sviði laga og reglna, til dæmis á sviði 5G væðingarinnar, sem mun leggja grunninn að örum tæknibreytingum. Þannig væri unnið formlega gegn einangrunarhyggjunni.
Það má síðan nefna það, að einn helsti áhættugeirinn þegar kemur að stríðsátökum er ferðaþjónusta á heimsvísu. Þegar stríð brjótast út þá ferðast fólk minna, og stundum getur fólk ekki ferðast, ef stríðsátökin breiðast út. Ferðamenn breyta áformum sínum og miklir sviptivindar geta þá myndast í ferðaþjónustunni. Mikið fjölmenni á nýjum svæðum, en færri á öðrum.
Ástæðan er til að fylgjast grannt með þessu, til dæmis hvað ferðalög frá Bandaríkjunum varðar, en þaðan kom fjórðungur allra ferðamanna í fyrra.
Leggjum okkar af mörkum
Þó smáþjóðir eins og Ísland hafi takmarkaða möguleika til að leggja sitt af mörkum þá geta þær helst gert það með því að tala skýrt með alþjóðavæðingunni.
Síðan er Ísland líka í þeirri stöðu að þurfa sárlega á erlendu vinnuafli að halda til að halda hlutunum gangandi og á það jafnt við um næstum allar greinar atvinnulífsins. Sjávarútveg, ferðaþjónustu, orkufrekan iðnað, hugbúnaðargeirann og háskólastarf. Allsstaðar er þörfin fyrir þekkingu frá útlöndum mikil og fer vaxandi.
Hugsum um þá sem þjást
Í þessum aðstæðum er hollt að hugsa til þeirra sem eru þolendur stríðsátaka nú um stundir, til dæmis í Sýrlandi. Þar hefur 22 milljóna þjóð - á stórfenglegu svæði - vera sundrað. Meira en helmingur þjóðarinnar er á flótta, hálf milljón er látin og stórþjóðir heimsins, eins og Bretar og Bandaríkin, hafa það nú á stefnuskránni að loka landamærunum fyrir fólki í sárri neyð. Þvílík skömm, þvílík mannvonska.
Það var gott að lesa grein sem Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, skrifaði á dögunum þar sem hann færði rök fyrir því, að Ísland - og raunar þjóðir heimsins - þyrftu að taka skýra afstöðu um að standa með flóttamönnum og innflytjendum.
Þeir hefðu lagalegan rétt til að þess að leita að betra lífi, þvert á landamæri. „Ríki heims eru bundin af alþjóðlegum samningum um mannréttindi. Flóttamenn njóta samkvæmt þeim réttinda án manngreinarálits vegna kynþátta, trúarbragða eða ættlands. Þá er óheimilt að endursenda þá til ríkis þar sem lífi þeirra eða frelsi myndi ógnað. Hvort svo sé þarf að meta sérstaklega fyrir hvern og einn flóttamann og þeim er frjálst að bera slíkt mat undir dómstóla. Þessir alþjóðlegu samningar takmarka fullveldisrétt Íslands og annarra ríkja til að taka gerræðislegar ákvarðanir um aðgang flóttamanna að landssvæðum þeirra. Á okkar tímum fela þessar takmarkanir á fullveldi í sér ákveðnar áskoranir fyrir ríki heims, en yfirlýstur vilji samningsaðila stendur óbreyttur: að standa með flóttamönnum án tillits til ættlands þeirra.“
Þetta er holl áminning frá Reimari.
Það má síðan benda íslenskum fyrirtækjum sérstaklega á það, að þeir hafa ýmsar leiðir ráða flóttamenn í vinnu sem hafa það sem þarf til að sinna störfunum. Það þurfa ekki allir flóttamenn að koma til landsins í gegnum þunglamalega ferli stjórnmálamanna. Ef einhverjir hafa sýnt aðlögunarhæfni og vilja til að leysa úr vandamálum, þá er það venjulegt fólk sem hefur flúið skelfingu stríðs. Það getur komið hingað sjálft ef það fær vinnu og fyrirtæki eru tilbúin að aðstoða það með formleg atriði sem fylgja flutningum úr flóttamannabúðum.
Þessi samvinna þjóða og innleiðing á alþjóðlegum réttindum fólks er kjarninn í alþjóðavæðingunni og mannréttindabaráttu undanfarinna áratuga. Samvinnu þjóða heimsins, landamæralausum tækifærum.
Þeir sem hafa grætt mest á þessari hugsjón eru þeir sem minna mega sín. Allar tölur styðja það.
Það er ógnvænlegt til þess að hugsa að menn eins og Steve Bannon og hans líkir, séu farnir að láta að sér kveða gegn alþjóðavæðingunni. Látum þá ekki setja einangrunarhyggju og sérhagsmuni einstakra ríkja á oddinn. Það er mikið í húfi, ekki síst fyrir litlar þjóðir sem eru alveg berskjaldaðar í alþjóðavæddum heimi. Þar er helsta skjólið fólgið í opnum og frjálsum viðskiptum, opnu og frjálsu mannlífi, og opnu og frjálsu flæði þekkingar.