Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og einn þeirra sem á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, lét hafa eftir sér í Fréttablaðinu í gær, að hann væri ekki hrifinn af því að Ólafur Ólafsson, sem dæmdur var í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani málinu, kæmi til að gefa skýrslu fyrir nefndinni, ef almenningur gæti fylgst með í beinni útsendingu.
Rökin fyrir þessu mati Brynjars eru þessi hér eftirfarandi: „Ég er ekki viss um að hann eigi að vera í beinni útsendingu ef hann á að nýtast okkur eitthvað. Þá er þetta allt komið á þvæling á meðan við erum á viðkvæmum stað í skoðuninni. Þá er hætt við að þessi umræða fari út og suður áður en við ljúkum okkar vinnu. Það getur verið óþægilegt fyrir okkur en það er mitt mat. Við munum svo ræða það nánar í nefndinni,“ segir Brynjar við Fréttablaðið.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið undir með Brynjari, og telur óskynsamlegt að hafa fundinn í beinni útsendingu
Þetta mat Brynjars og Njáls Trausta er undarlegt.
Nokkur atriði má þar nefna.
- Málið sem er til skoðunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, það er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, er ekki viðkvæmt að neinu leyti. Fyrst og síðast er það mikilvægt fyrir almenning, stjórnvöld og Alþingi, þar sem frumgögn hafa nú verið leidd fram sem sýna að stjórnendur Kaupþings og Ólafur Ólafsson, einn stærsti hluthafi þess banka á starfstíma hans, blekktu stjórnvöld, almenning og Alþingi.
Fólkið sem kom að þessu hefur verið staðið að blekkingum og hefur ennþá ekkert sagt eða gert, sem bendir til þess að frumgögnin sem sýnd eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis séu röng. Þau segja söguna eins og hún er. Ef þingmenn geta ekki haldið opinn nefndarfund um þetta mál, þegar það á að spyrja persónur og leikendur spurninga út frá skýrslum og frumgögnum, þá er eðlilegt að efast um hæfi þeirra til setu á Alþingi. Ekkert þarf að fara á „þvæling“ þó fjallað sé um málið fyrir opnum tjöldum. - Opnir nefndarfundir tíðkast víða og þjóna þeim tilgangi að stuðla að gagnsæjum vinnubrögðum þings, sem ýta undir traust á verkum þess. Þegar umfjöllun, umræða og rökræða fer fram fyrir opnum tjöldum þá getur almenningur fylgst með því hvernig uppgjör við tiltekna atburði eða mál fer fram.
Í Bandaríkjunum má segja ýmislegt um hið pólitíska svið, en það er algengt að nefndarfundir í þinginu séu í beinni útsendingu og þá er oft um mun flóknari og viðkvæmari hluti að ræða heldur en viðskiptin með hlutinn í Búnaðarbankanum. Má nefna einstakar aðgerðir Bandaríkjahers og umfjöllun um þær í þinginu, en þeir fundir eru oft í beinni útsendingu. Þar sem spurt er um flóknar aðgerðir, erfiða ákvörðunatöku og stundum skelfilegar afleiðingar fyrir saklaust fólk.
Önnur dæmi sem má nefna eru viðbrögð þjóðþinga víða um heim í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, en þá björguðu ríkissjóðir og seðlabankar umheiminum frá efnahagslegum glundroða með fjárhagsinnspýtingu til að halda rekstri banka lifandi og hjólum efnahagslífsins gangandi. Í Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi og víðar, voru fundir í þjóðþingum opnir og í beinni útsendingu, þegar bankastjórar og aðrir komu fyrir þingið og svöruðu spurningum. Oft var þetta nærri atburðunum í tíma og skömmu eftir haustið 2009 voru ekki öll kurl komin til grafar enn, þegar umræðan var lifandi og opin. Á Íslandi tókst Alþingi ekki að hafa umræðu um uppgjörið við hrunið opna, og voru nefndarfundir lokaðir oftast nær og aldrei fóru fram opnir fundir þar sem persónur og leikendur voru kallaðir til, t.d. eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út árið 2010.
Það hefði verið í takt við gagnsæ vinnubrögð að gera þetta og líklega hefði það líka stuðlað að betri vinnubrögðum Alþingis og meira trausti á störfum þess í kjölfar hrunsins. - Það eina sem mögulega er viðkvæmt í málinu núna, er að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli vera að hugsa á þeim nótum, að það kunni að vera skaðlegt fyrir Alþingi að láta fundinn fara fram í beinni útsendingu þar sem fjallað er um viðskiptin með hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Varla trúa þeir því, Brynjar og Njáll Trausti, að þetta sé viðkvæmt fyrir viðfangsefnið sem slíkt, í ljósi þess að viðskiptin eru fyrir löngu um garð gengin og loksins búið að upplýsa um málið með frumgögnum. Ólafur Ólafsson hefur sagt að hann sé tilbúinn að koma fyrir nefndina, og nefndin ræður því hvort hún vill að hann komi fyrir hana. Hann sagði rannsóknarnefndinni ósatt um fyrrnefnd viðskipti og er með almannatengslafulltrúa í vinnu þessi misserin við að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Hann hefur hlotið þungan dóm fyrir alvarleg lögbrot í Al Thani málinu svokallaða, fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm, eins og áður sagði. Það er vel hugsanlegt að þessi forsaga bitni á trúverðugleika þess sem hann hefur að segja. En það er vitaskuld ekki þannig að hann ráði því hvort fundurinn verði opinn eða ekki.
Það er ekki svo að Alþingi þurfi að óttast það, að fjalla um þessi mál, sem tengjast 14 ára gömlum viðskiptum, fyrir opnum tjöldum. Rök Brynjars eru léleg, eins og að framan er rakið, og dæmi frá öðrum þjóðþingum sýna einnig, að þau eru ekki haldbær, með tilliti til þess hvort umfjöllunarefnið er viðkvæmt að hans mati eða ekki. Viðkvæm mál þola vel gagnsæja málsmeðferð, eins og Brynjar ætti að þekkja úr lögmannsstörfum sínum í opinberum málum.
Brynjar er sjálfur á hálum ís í málinu, enda hefur hann opinberlega tekið upp hanskann fyrir Kaupþingsmenn og ritað sínar lengstu greinar opinberlega til að verja gjörðir þeirra - Ólafs þar á meðal - í Al Thani málinu, sem að mörgu leyti er líkt því sem átti sér stað í viðskiptunum með hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Jafnvel þó lagalegar ályktanir Brynjars í skrifum hans hafi ekki reynst réttar, í ljósi dóms Hæstaréttar í málinu, þá geta svona skrif eins og Brynjar hefur staðið í, dregið úr trúverðugleika hans þegar kemur að umfjöllun um mál sem tengjast þeim mönnum sem hann hefur tekið upp hanskann fyrir.
Það má sérstaklega nefna það, að greinar Brynjars fyrir Kaupþingsmenn opinberlega, eru ekki hluti af lögmannsstörfum hans heldur einungis hans mat á stöðu þeirra mála sem fjallað var um. Þannig að ekki er hægt að nefna það honum til varnar þegar þetta er annars vegar, að hann hafi verið að sinna lögmannsstörfum.
Fróðlegt verður að sjá hvernig aðrir nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en Brynjar og Njáll Trausti horfa á þetta mál og hvort það sé gott eða slæmt að láta umfjöllun þingsins um það fara fram fyrir opnum tjöldum.