Í gær setti Ólafur Ólafsson fram málsvörn sína í því sem almennt er kallað „Lundafléttan“. Málið snýst um að hópur manna á vegum Ólafs og Kaupþings blekkti stjórnvöld, fjölmiðla og almenning til að halda að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser væri að kaupa hlut í Búnaðarbankanum þegar ríkið seldi stóran hlut í honum til S-hópsins í byrjun árs 2003. Þetta liggur í raun alveg fyrir. Rannsóknarnefnd hefur sýnt fram á það með frumgögnum að Hauck & Aufhäuser var leppur sem samþykkti að halda á hlut í íslenska bankanum í tvö ár gegn þóknun upp á eina milljón evra. Þýska bankanum var tryggt algjört skaðleysi af þessu. Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna þetta svart á hvítu.
Til viðbótar sýndi rannsóknarnefndin fram á að gerðir voru baksamningar sem tryggðu að tvö aflandsfélög skráð á Tortóla myndu fá allan hagnaðinn sem yrði til af bréfunum sem Hauck & Aufhäuser hélt á. Þessi tvö félög gátu hins vegar aldrei tapað á dílnum. Ef tap yrði til myndi það lenda á Kaupþingi, sem þá hafði sameinast Búnaðarbankanum. Hið keypta bar því tapáhættuna.
En á það reyndi ekki. Bréfin í bankanum hækkuðu og mynduðu hagnað upp á marga milljarða króna. Honum var síðan skipt upp á milli aflandsfélaganna tveggja. Annað þeirra, Marine Choice, var í eigu Ólafs Ólafssonar og fékk 3,8 milljarða króna. Hitt heitir Dekhill Advisors og fékk 2,9 milljarða króna. Ekki hefur verið upplýst um hverjir eiga það félag.
Félag Ólafs fékk sína milljarða millifærða í 24. febrúar 2006. Sama dag kom Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Eglu og starfsmaður Ólafs Ólafssonar, á fund Ríkisendurskoðunar á Íslandi til að afhenda honum gögn sem áttu að sýna að Hauck & Aufhäuser hefði verið raunverulegur fjárfestir í Búnaðarbankanum, sem hann var ekki.
Almannatengslaslys
Málsvörn Ólafs er vægast sagt rýr. Hún byggir á þeirri veiku von að fjölmiðlar og almenningur kynni sér ekki málið almennilega eða máti ekki fullyrðingar hans við raunveruleikann eða fyrirliggjandi gögn. Það er ótrúlegt að hann hafi verið með almannatengla og lögmenn á dýrum fóðrum mánuðum saman við að smíða hana, miðað við innihaldsleysið. Raunar má halda því fram að áhrifin séu þveröfug við það sem lagt var upp með. Samúðin með Ólafi er líklega minni en hún var áður. Og var hún nánast engin fyrir.
Meginathugasemd Ólafs er sú að ekki hafi verið gerð krafa um að erlendur banki væri hluti af tilboði S-hópsins, sem hann leiddi, þegar sá fékk að kaupa ráðandi hlut í Búnaðarbankanum. Þetta rökstyður Ólafur með nýrri túlkun á bókun í fundargerð einkavæðingarnefndar og tölvupósti sem starfsmaður hans fékk í síðustu viku frá manni sem starfaði hjá einkavæðingarnefnd á sínum tíma, en sat ekki í henni. Manni sem nú afplánar þriggja ára dóm fyrir efnahagsbrot.
Túlkun Ólafs er í takti við helstu áhyggjur Brynjars Níelssonar, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hann setti fram á fundi með rannsóknarnefndinni sama dag og skýrsla hennar var birt í lok mars. Þá spurði Brynjar Kjartan Bjarna Björgvinsson, sem skipaði rannsóknarnefndina, að því hvað hann hefði fyrir sér að ein af grundvallarforsendum þess að S-hópurinn fékk að kaupa Búnaðarbankann hefði verið aðkoma erlends banka.
Þessi túlkun þeirra er röng og hún hefur verið hrakin ítrekað af rannsóknarnefndinni. Gögn sem sett eru fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og orð stjórnmálamanna sem komu að málinu á sínum tíma sýna það með óyggjandi hætti. Hægt er að lesa um þau á blaðsíðum 26-32 í skýrslunni.
Ólafur lýkur 50 mínútna málsvarnarávarpi sínu, sem minnir að mörgu leyti á þaulæfða tilraun til að leika áramótaávarp forseta, á því að segja að niðurstaða skýrslunnar sé hvorki sanngjörn né rétt „gagnvart þjóðinni og alls ekki gagnvart mér persónulega.“
Starfsmaður Ólafs kom að gerð baksamninga
Ólafur afgreiddi baksamninganna, sem sýndu að Hauck & Aufhäuser var viljugur leppur sem þáði greiðslu fyrir þjónustu sína og tryggði honum milljarða inn á aflandsreikning, sem aukaatriði í málinu. Þegar hann mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sagði hann að um væri að ræða samninga sem gerðir hefðu verið milli Kaupþings og Hauck & Aufhäuser og hann hefði í raun ekkert með þá að gera.
Þetta er einfaldlega ósatt. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er það rakið ítarlega hvernig tölvupóstsamskipti um gerð bak- og leynisamninganna voru. Einn þeirra sem fær þá tölvupósta er Guðmundur Hjaltason, starfsmaður Ólafs Ólafssonar. Í þeim er einnig tilgreint að Guðmundur hafi verið með í því að semja samninganna og sé samþykkur þeim. Hluti tölvupóstana var líka sendur á Ólaf sjálfan.
Ólafur sagðist ekki hafa hugmynd um hver ætti hitt félagið sem græddi milljarða króna á fléttunni, Dekhill Advisors. Samt snérust tölvupóstarnir og fléttan sem starfsmaður hans var að vefa ásamt Kaupþingi og þýska bankanum, í umboði Ólafs, um það hvernig ætti að koma ágóðanum af fléttunni annars vegar til Ólafs og hins vegar til Dekhill Advisors. Það er ansi ótrúverðugt þegar mjög þröngur hópur örfárra manna er að makka saman um hvernig eigi að skipta herfangi vafasamra viðskipta milli tveggja félaga að enginn þeirra viti hver eigi annað félagið. En það er línan frá Kaupþingsmönnunum fyrrverandi, Ólafi Ólafssyni og Guðmundi Hjaltasyni, starfsmanni hans.
Við fíflin
Fyrir Ólafi er það ekki blekking eða lygi að segja ósatt í tilkynningum til Kauphallar. Í viðtölum og yfirlýsingum sem sendar eru á fjölmiðla. Í svörum sínum fyrir rannsóknarnefnd eða Ríkisendurskoðun. Það eru bara viðskipti. Og fyrst ríkið fékk það verð sem það samdi um á það að halda kjafti og hætta þessu veseni. Hitt kemur því ekkert við.
Samandregið þá gerir Ólafur ekki athugasemdir við efnislega niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Hann gerir bara athugasemdir við það að því sem lýst er í skýrslunni sé kallað blekking og lygi. Ólafur segir nefnilega að honum finnist þessir gjörningar allt í lagi. Við sem erum ósammála erum fíflin, ekki hann. Annað hvort heldur Ólafur því fram gegn betri vitund eða hann trúir því í alvöru að svo sé. Það er eiginlega erfitt að ákveða hvort er verra.
Í ljósi þess að Ólafur hafði ekkert nýtt fram að færa þá, og lagði ekki fram nein ný gögn sem bæta neinu við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar né hrekja hana með nokkrum hætti, þá er erfitt að skilja til hvers hann kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær. Fundurinn varð enda einhvers konar leiksýning án tilgangs.
Það kom enginn vel út úr þessum fundi. Ólafur lét nefndina líta út fyrir að hafa leyft honum að koma fyrir sig án þess að átta sig á tilgangi þess. Og Ólafur sjálfur skoraði ekki mörg stig í viðleitni sinni við að kaupa aftur mannorð sitt með því að segja einfaldlega að hann teldi sig ekki hafa gert neitt rangt.
Þetta skiptir máli
Það sem átti sér stað í kringum kaup á hlut ríkisins á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum var hins vegar rangt. Þar tók hópur manna sig saman og blekkti stjórnvöld, fjölmiðla og almenning. Sendi frá sér rangar yfirlýsingar og tilkynningar og hefur síðan raðlogið um málið í um 15 ár.
Þótt Ólafi finnist svona rannsóknir tilgangslausar og vilji að stjórnvöld horfi bara til framtíðar þá höfðu þessir gjörningar gífurlegar afleiðingar. Þeir gerðu hann ævintýralega ríkan og áhrifamikinn. Þeir færðu honum aðgang að gríðarlegum lánsfjármunum, og skiluðu því að afskriftir vegna hans námu 64 milljörðum króna. Þeir færðu Kaupþingi hátt lánshæfi og viðskiptabankastarfsemi. Þetta allt leiddi af sér kokteil af ævintýralegu svindli og efnahagsbrotum í starfsemi Kaupþings sem spilaði stóra rullu í stærð þess áfalls sem hrunið haustið 2008 var fyrir íslenska þjóð. Venjulegt fólk sem fann raunverulega fyrir þeim áhrifum í gegnum skert lífsgæði, áföll og missi. Samfélag týndi öllu trausti vegna samblands stjórnmála, viðskipta og siðblindu.
Það skiptir máli. Jafnvel þótt Ólafur Ólafsson sjái það ekki.