Það skal viðurkennt hér strax, áður en lengra er haldið, að ég stend af alefli með Gísla Marteini Baldurssyni í deilum hans á Twitter við fólkið sem er í forsvari fyrir Sjálfstæðismenn í Reykjavík, Halldór Halldórsson og Mörtu Guðjónsdóttur þar á meðal.
Helsta gagnrýni hans snýr að því að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík virðist vera að taka stöðu með því, að þenja borgarsvæðið áfram út og talar gegn eflingu almenningssamgangna.
Gísli Marteinn er þekktur fyrir allt annað, og á tíma sínum sem borgarfulltrúi talaði hann eindregið fyrir mikilvægi þess að þétta borgarsvæðið, stöðva útþenslu borgarinnar og reyna þannig að skapa aðstæður fyrir alþjóðlegra og nútímalegra mann- og atvinnulífi (svona í þokkalegri einföldun).
Fallegasti staður á Íslandi
Ég sleppi því að gera Vatnsmýrina að umtalsefni að þessu sinni (lesendur geta hlustað á þennan hlaðvarpsþátt Tvíhöfða, frá 3. desember 2014, í hlaðvarpi Kjarnans í staðinn. Líklega fyndnasti þáttur útvarpssögunnar, og þar kemur Vatnsmýrin við sögu). Oft vill umræðan í borginni fara út á flugvöllinn þar, en þangað ætti hún ekki að fara, þó augljóslega sé hægt að framþróa borgina inn á það svæði, án þess að þenja það nokkuð út. Það blasir við öllum, en deilan um hvar flugið á að vera er svo annað mál sem ekki verður gert að umræðuefni hér.
Það sem mér finnst erfitt að átta mig á, þegar kemur að stefnu Sjálfstæðismanna í Reykavík, er hvers vegna þeir ná að skapa jafn eldfimar deilur um þéttingarverkefni í borginni, jafnvel við fyrrverandi borgarfulltrúa í sínum eigin flokki. Flokkurinn hefur sjálfur átt beina aðild að skipulagsvinnu og ákvörðunum um aukna samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og þess vegna er undarlegt að það þurfi oft að skapa deilur um framþróun þéttingarverkefna í borginni. Hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nágrannasveitarfélögunum virðist stundum vera meiri skilningur á þörfinni á þéttingu byggðarinnar heldur en innar borgarinnar sjálfrar.
Margir samverkandi þættir
Húsnæðisvandinn á höfuðborgarsvæðinu er alls ekki bara meirihlutanum í Reykjavík að kenna, heldur öllum sveitarfélögunum í sameiningu og líka stjórnmálamönnum í landsmálunum.
Þegar markaðsverð húsnæðis var undir byggingarkostnaði, í næstum tvö ár eftir hrun, þá safnaðist upp mikil byggingarþörf. Eftirspurnin var stöðug og til viðbótar kom síðan hinn mikli vöxtur í ferðaþjónustunni, með sínum miklu áhrifum á fasteignamarkað.
Á þessum tíma var lítið sem ekkert byggt, enda vildi enginn verktaki vera að tapa peningum, og flestir stóðu þeir höllum fæti eftir hremmingar hrunsins. Á þessum tímapunkti var umræða í gangi um mikilvægi þess að ríki, sveitarfélög og stéttarfélög kæmu að uppbyggingu húsnæðis, til að mæta fyrirsjáanlegri þörf á markaðnum. Lítið sem ekkert fór hins vegar fyrir þessari uppbyggingu.
Þarna byrja mistökin að hrannast upp og deilan um stöðu einstakra lántaka eftir hrunið, var það mál sem fyrst og síðast náði eyrum Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna á árunum 2013 og fram að kosningunum haustið 2016, sem fóru fram eftir uppljóstranir Panamaskjalanna.
Mitt í fordæmalausum fasteignaverðshækkunum sem hafa verið undanfarið knúnar áfram af ónægu framboði, á árunum 2014 og 2015, þá víkkuðu stjórnvöld veðhlutföll heimila um 80 milljarða með ríkispeningum, einkum og sér í lagi hjá ríku fólki á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var gert með millifærslum inn á verðtryggð lán fólks.
Þessa peninga hefði verið hægt að nota til að byggja upp á húsnæðismarkaðnum, eða í eitthvað allt annað. Þessi aðgerð gerði lítið sem ekkert gagn fyrir heildina og stuðlaði ekki að jafnvægi á húnsæðismarkaði, síður en svo.
Enda 80 milljarðar aðeins um 1,6 prósent af heildarvirði fasteignamats íbúða, og rýmkun á veðhlutfalli sumra sem því nemur, gerir lítið annað en að bæta hag þess fólks, persónulega.
Þetta skiptir engu fyrir heildarmarkaðinn og stuðlar ekki að bættri stöðu þar, en upphæðin er risavaxin þegar litið er til reksturs ríkisins almennt. Mun frekar stuðlaði aðgerðin að meira ójafnvægi og ýtti undir meiri hækkun fasteignaverðs, en hvergi í heiminum hefur verð hækkað meira en á höfuðborgarsvæðinu á síðustu þremur árum.
Uppbyggingartími
Nú er svo komið að gríðarleg uppbygging er í gangi, ekki síst í Reykjavík, og allt bendir til þess að jafnvægi muni komast á fasteignamarkaðinn í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu á næstu tveimur til þremur árum, þó vissulega geti ýmislegt óvænt gerst í efnahagslífinu, eins og dæmin sanna.
Hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir þennan framboðsskort? Jú, það hefði verið hægt, en margir samverkandi þættir eru ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að byggja hraðar upp. Einn þátt til viðbótar má nefna, og það er skortur á iðnaðarmönnum. Það vantar einfaldlega fleiri til að byggja hraðar og meira.
Breytir ekki mikilvægi þéttingar
Höfuðborgarsvæðið, þó órsmátt sé í alþjóðlegu samhengi, er eitt af mörgum borgarsvæðum í heiminum sem glímir nú við mikinn vöxt og fjölgun íbúa á hverju ári. Víða eru vandamálin stór og mikil, og má nefna Seattle svæðið sem dæmi um það.
Ekkert borgarsvæði vex hlutfallslega hraðar í Bandaríkjunum, enda mikill uppgangur í efnahagslífi svæðisins, þar sem hraður vöxtur tæknifyrirtækja er helsti vaxtarbroddurinn.
Húsnæðisskortur er stærsta málið í stjórnmálum á svæðinu og ekki augljóst hvernig á að leysa hann, þar sem uppbyggingin nær ekki að anna eftirspurninni, þrátt fyrir að kranar séu sýnilegri en húsin og allar hendur á fullu.
Stórfelld uppbygging á almenningssamgöngum á að stuðla að því að þétta svæðið í heild, og gera það mögulegt að byggja hraðar upp og þá með hagkvæmari hætti - einmitt án þess að þenja það til hins ítrasta, heldur nýta hverfin og svæðin betur sem fyrir eru og tengja þau með mannlífi sem fylgir almenningssamgöngum.
Hljómar þetta kunnuglega?
Umræðan um Borgarlínuna og styrkingu almenningssamganga á höfuðborgarsvæðinu snýr ekki einungis að því að styrkja miðborgina, eða miðborgarsvæðið, eins og margir virðast halda.
Heldur mun hún, líkt og raunin á að verða á Seattle svæðinu, stuðla að því að þétta svæðið í heild og minnka útþenslu svæðisins, með því að bæta lífskjörin í öllum hverfum sem fyrir eru.
Það mun verða bylting fyrir marga að komast á örfáum mínútum frá heimili til vinnu, með greiðvirkum samgöngum. Þau hverfi sem þegar eru tilbúin munu styrkjast og verða eflaust enn vinsælli en núna. Fjárfestingar í uppbyggingarverkefnum eins og þessum erlendis fara fram óháð því að bílar geti farið keyra sjálfir innan tíðar, með tilheyrandi áhrifum á borgarsamfélögum.
Það ætti vekja borgarfulltrúa til umhugsunar.
Gísli Marteinn hefur rétt fyrir sér
Sjálfstæðismenn verða að horfast í augu við það að Gísli Marteinn hefur rétt fyrir sér í sinni borgarpólitík. Hans sýn er í takt við nútímann og raunveruleikann. Í ljósi þess að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri - sem augljóslega er orðinn höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins í borginni fyrir komandi kosningar á næsta ári - hefur svipaða sýn á borgarpólitík og Gísli Marteinn, þá gæti leiftursóknin gegn honum farið jafn illa og sú gagnrýni sem beinst hefur að Gísla Marteini.
Alveg óháð því, að kannanir hafa verið að sýna veika stöðu minnihlutans í borginni, þá ættu sjálfstæðismenn í borginni að hafa meiri metnað en svo, að finna því allt til foráttu þegar unnið er að þéttingu borgarinnar og uppbyggingu í takt við alþjóðlegar áherslur.
Það er eftirspurn eftir ferskum vindum og framsýnum lausnum.