Góð grein hjá Bergi Þór Ingólfssyni og Þresti Leó Gunnarssyni hefur vakið athygli, en hún birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í gær.
Það er gott hjá þeim að vitna í Réttlætiskenningu Rawls, í þessu samhengi sem greinin sprettur upp úr. Þar er einn beittasti boðskapurinn sem skrifaður hefur verið um réttlæti innan stjórnmálaheimspekinnar.
Það er lögmannastéttinni til minnkunar að barnaníðingurinn Robert Downey hafi fengið lögmannsréttindi sín aftur.
Það á að gera siðferðilegar kröfur til þeirra sem sinna slíkum störfum, og það gerir stéttin, meðal annars með siðareglum.
Lögmannastéttin íslenska er lítil og einangruð við íslenska málsvæðið, og einungis 200 þúsund manna vinnumarkað, og það skiptir máli að þar sé fólk með hreina samvisku þegar kemur að alvarlegustu lögbrotum. Þetta blasir við og er augljóst í okkar örsamfélagi.
Hér eru tvær fyrstu reglurnar í siðareglum lögmanna.
1. gr. Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti.
Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
- Dæmdur barnaníðingur, er ekki sá sem „hrindir órétti", heldur er uppspretta hans. Þetta finnst mér augljóst.
2. gr. Lögmaður skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
- Barnaníðingurinn Robert Downey er augljóslega sá sem ekki gætir heiðurs lögmannastéttarinnar, með hrikalegum ólöglegum athöfnum sínum sem felast í kynferðisofbeldi gegn börnum.
Sú röksemd, að Robert Downey uppfylli ekki skilyrðin sem lögmannastéttin setur sér sjálf, meðal annars með siðareglum, er góð og gild.
En svo eru þeir til líka, sem er alveg sama um þessar siðareglur, og taka athugasemdum þar sem horft er til þeirra, með léttvægum hætti.
Mér finnst lögmannastéttin þurfa að líta í eigin barm, þegar svo er komið fyrir henni, að dæmdir afbrotamenn, af verstu sort, eru farnir að halda uppi heiðri laga og réttar í okkar samfélagi innan lögmannastéttarinnar og fyrir dómi.
Þetta er ekki spurning um annað tækifæri og að allir þeir sem brjóti af sér, eigi að geta gengið að öllum hlutum eins og þeir voru, þegar refsing hefur verið tekin út. Þannig er það ekki í tilfelli lögmannsstarfa, eins og siðareglurnar bera raunar með sér.
Þær gefa tilefni til þess að lögmannsstarfið sé ekki starf fyrir afbrotamenn af verstu sort.