Vegna umræðu í samfélaginu um skólagöngu barna á Íslandi sem eru í leit að alþjóðlegri vernd vill Rauði krossinn á Íslandi benda á nokkur atriði.
Menntun er aldrei til einskis. Fólk sem neyðist til að flýja heimkynni sín og leita sér alþjóðlegrar verndar í öðru landi gerir það ekki að gamni sínu. Börn í hælisleit sem ganga í skóla á Íslandi hafa fengið menntun sem þau annars hefðu ekki fengið. Þau hefðu í stað þess setið aðgerðarlaus að bíða örlaga sinna í nýju landi, langt frá vinum og fjölskyldu. Sum þessara barna fá hér alþjóðlega vernd og halda áfram að ganga í skóla, fá jafnvel eftir nokkurn tíma íslenskan ríkisborgararétt og eru jafngildir þjóðfélagsþegnar og allir sem svo heppnir voru að fæðast hér á landi.
Í þessari umræðu er nauðsynlegt að hafa í huga að þau börn sem sækja um alþjóðlega vernd njóta sömu mannréttinda og önnur börn hér á landi. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið lögfestur hér á landi en sáttmálinn tryggir börnum grundvallarmannréttindi og aukna vernd sama hvar þau komu í heiminn. Jafnframt er réttur barna sem sækja um alþjóðlega vernd tryggður sérstaklega í lögum nr. 91/2008 um grunnskóla er kveðið á um að öllum börnum á aldrinum 6-16 ára sé skylt að sækja grunnskóla. Í 2. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að barn sem sækir um alþjóðlega vernd skuli eiga þess kost að stunda skyldunám í grunnskóla eða sambærilegt nám innan hins almenna skólakerfis eða á dvalarstað eins fljótt og unnt er.
Þrátt fyrir þessi atriði þá njóta börn í hælisleit á Íslandi ekki öll menntunar hér á landi. Börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd eru ýmist á forræði þriggja sveitarfélaga skv. samningi við innanríkisráðuneytið, þau eru Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Reykjavíkurborg, eða á vegum Útlendingastofnunar. Börn sem eru í þjónustu sveitarfélaga hafa átt greiðari aðgang að menntun en þau börn sem hafa verið í þjónustu Útlendingastofnunar. Börnum er því mismunað eftir því hvar þau eru í þjónustu.
Rauði krossinn á Íslandi ásamt UNICEF, Umboðsmanni barna, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Kennarasambandi Íslands sendu í maí sl. bæði dóms- og menntamálaráðherra bréf þar sem bent er á aðstæður þessara barna og að tafarlausra úrræða væri þörf.
Í lok mánaðarins hefjast grunnskólar. Börnum er mismunað og fræðsluskyldu þeirra allra er ekki sinnt. Það er grafalvarlegt mál. Hvað ætla stjórnvöld að gera í því?
Höfundur er upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi.