Lífeyrissjóðir landsins hafa verið í kastljósinu enn einu sinni í liðinni viku. Ástæðan var sú að hlutabréf í Högum, þar sem sjóðirnir eiga um helming hlutabréfa, hrundu. Þau hafa nú lækkað um 35 prósent frá því um miðjan maí. Annað félag sem lífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur í, Icelandair Group, hefur líka átt erfitt ár. Lífeyrissjóðirnir eiga samanlagt meira en helmingshlut í því félagi einnig. Markaðsvirði þess hefur dregist saman um á fjórða tug prósenta það sem af er ári. Samanlagt hefur markaðsvirði þessara tveggja félaga lækkað um meira en 60 milljarða króna frá áramótum. Og enn meira ef horft er lengra aftur í tímann.
Samt sem áður er ekki tapstaða á fjárfestingu stærstu lífeyrissjóða landsins í Icelandair Group eða Högum. Þeir keyptu flestir stærstan hluta bréfa sinna á mjög lágu verði og því er enn bókhaldslegur hagnaður af þeim. Auk þess hafa bæði félög skilað hluthöfum sínum prýðilegum arðgreiðslum.
En það eru óveðurský á lofti. Og þau ber að taka mjög alvarlega.
Allt of stórir innanlands vegna hafta
Gjaldeyrishöftin settu íslensku lífeyrissjóðina í mikinn vanda. Þeim ber að ávaxta fé sitt en máttu allt í einu einungis fjárfesta á Íslandi fyrir þá þúsundir milljarða króna sem þeir hafa til umráða. Og þá á annað hundrað milljarða króna sem bættust við á ári í ljósi þess að Íslendingar eru skikkaðir samkvæmt lögum að greiða hátt hlutfall launa sinna til lífeyrissjóða í hverjum mánuði.
Þessi staða varð til þess að íslenskt atvinnulíf var endurreist að mest með peningum íslenskra lífeyrissjóða. Þeir þurftu á fjárfestingatækifærum að halda og fyrirtækin þurftu fjárfesta. Til að endurreisa hlutabréfamarkað, sem hvarf í hruninu, varð lífsnauðsynlegt að fá lífeyrissjóðina með í leikinn. Og þeir voru til.
Sjóðirnir,sérstaklega þeir þrír stærstu (LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi) keyptu flestir stærstu stöður sínar á mjög lágu gengi. Til dæmis er vegið kaupgengi verslunarmanna á bréfum í Icelandair, en sjóðurinn er stærsti eigandi þess félags með 14,7 prósent eignarhlut, 4,7 krónur á hlut. Gengi bréfanna í nú um 15 krónur á hlut.
Margir höfðu þó strax áhyggjur af því að sjóðirnir væru allt of stórir í skráðu íslensku félögunum. Þau eru enda óvenjuleg skráð félög. Í flestum tilfellum er ekki um að ræða hugvitsfyrirtæki sem skráðu sig á markað til að fjármagna vöxt. Af þeim 18 félögum sem skráð eru á markað má segja að slík skilgreining eigi einungis við um þrjú félög: Össur, Marel og Nýherja.
Þjónustufyrirtæki á fákeppnismarkaði
Nei, þau félög sem skráð hafa verið á markað eftir hrunið eru fyrst og síðast þjónustufyrirtæki sem lentu í fanginu á bönkum og öðrum kröfuhöfum sínum og voru endurskipulögð á síðastliðnum áratug, eða fasteignafélög utan um eignir á Íslandi. Og þau hafa takmarkaða vaxtamöguleika. Raunar sáralitla. Kosturinn við þessi félög, sem eru í smásölu, eldsneytissölu, fjarskiptum, tryggingastarfsemi, fasteignaútleigu og flutningum á vörum og fólki er sá að þau gengu rekstrarlega vel og gátu skilað þeirri arðsemi til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur og/eða endurkaup á bréfum. Gallinn við þau flest er sá að þau starfa á örmarkaði í fákeppnis- og sumpart einokunarumhverfi. Og eru mjög viðkvæm fyrir breytingum á þeim mörkuðum.
Í dag er staðan þannig að lífeyrissjóðir landsins eiga um 40 prósent af skráðum hlutabréfum í Kauphöll Íslands beint. Þegar óbein eign þeirra, í gegnum fjárfestingasjóði, er tekin með þá liggur fyrir að þeir eiga rúmlega helming allra skráða bréfa. Heildarmarkaðsvirði allra skráðra bréfa var 1.080 milljarðar um síðustu mánaðarmót. Því er hægt að slá því föstu að lífeyrissjóðirnir eigi bréf sem metin séu á 500-600 milljarða króna. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendur í tryggingafélögum landsins, í Icelandair og Eimskip, þeir eiga stóra hluti í tveimur af þremur olíufélögum, um helming bréfa í Högum, eru stærstu eigendur í bæði Símanum og Vodafone, stærstir í nær öllum fasteignafélögunum og mjög stórir í HB Granda.
Innherjar og heimili selja
Í fyrrasumar seldu helstu stjórnendur Haga, eða aðrir innherjar, hlutabréf í félaginu fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Í lok september 2016 seldi stjórnarmaður í Icelandair bréf sín í félaginu. Nokkrum vikum áður hafði framkvæmdastjóri hjá Icelandair selt fyrir 130 milljónir króna. Þessir aðilar máttu selja þessi bréf. Það var ekki ólöglegt. En það var morgunljóst að erfitt var að túlka sölu þeirra með öðrum hætti en að þessir lykilinnherjar væru ekki að meta stöðu félaganna sem þeir stýrðu þannig að í besta falli væru líkur væru ekki miklum hækkunum.
Það mat var skynsamt. Á þessum tíma lá fyrir að Costco væri að fara að hefja starfsemi á Íslandi og að það myndi hafa áhrif á dagvörumarkaðinn sem Hagar störfuðu á. Einnig var ljóst að H&M ætlaði sér að opna verslanir hérlendis sem myndi hafa mikil áhrif á tekjur Haga af rekstri tiskuvöruverslana. Icelandair hafði vaxið mikið, og gengið vel, samhliða hinum gríðarlega vexti í ferðamennsku hérlendis og auknum umsvifum úti í hinum stóra heimi. En félagið hafði veðjað á að gæði og aukin þjónusta myndi trekkja að viðskipti. Til að mynda með því að vera með þjónustuþætti á borð við farangursheimildir, val á sætum, aðgang að afþreyingarkerfi, val á sætum og matarbakka fyrir börn innifalið í grunnfargjaldi.
Í ljós hefur komið að ferðalangar horfa miklu frekar á verð. Þau flugfélög, bæði innlend og erlend, sem leggja upp úr auknum sveigjanleika í greiðslu fyrir ofangreinda þjónustu, og bjóða upp á mun lægri grunnverð, eru því að verða ofan á í baráttunni. Þessi harðnandi samkeppni hefur skilað sér í mun færri bókunum hjá Icelandair en gert var ráð fyrir.
Breytingarnar urðu til þess að bæði Icelandair og Hagar hafa þurft að senda frá sér afkomuviðvaranir á þessu ári. Hagar meira að segja tvisvar. Utanaðkomandi áhrif hafa gjörbreytt markaði beggja. Og leitt til þess að hlutabréfaverðið hefur hrunið.
Það sáu fleiri þessi óveðurský sem voru á lofti en innherjar í félögunum. Kjarninn birti upplýsingar í liðinni viku um að söluhagnaður vegna hlutabréfa hjá heimilum landsins hafi numið 28,7 milljörðum króna í fyrra og hækkað um 38,3 prósent á milli ára. Í þessum tölum kemur skýrt fram að einkafjárfestar eru að selja bréf í mun meira mæli en þeir gerðu árið áður. Þeir voru að losa um fjárfestingar sínar í bréfunum. Í það má lesa að þeir hafi ekki mikla trú á þróun hlutabréfamarkaðarins í heild í nánustu framtíð.
Fjárfestingarleiðarfarar fara
Ljóst má vera að árið í ár verður enn verra. Í ár losnar nefnilega um bindingu á hluta þeirra fjármuna sem fluttir voru til landsins með gríðarlegri virðisaukningu í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Alls komu um 206 milljarðar króna inn í landið eftir þeirra leið og eitt þeirra skilyrða sem eigendur þess fjármagns þurftu að uppfylla var að binda féð hérlendis í fimm ár.
Fyrsta útboð fjárfestingarleiðarinnar fór fram í febrúar 2012 þannig að sá fimm ára binditími er nú liðinn hjá hluta þeirra sem nýttu sér leiðina. Um 40 prósent þess fjármagns sem flutt var inn í landið með þessum hætti var fjárfest í hlutabréfum. Það eru 82,4 milljarðar króna. Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur í held hækkað mjög mikið á þessu fimm ára tímabili. Þegar eru farin að sjást þess merki að fjárfestar sem komu inn í gegnum fjárfestingaleiðina fari aftur út með peninganna sína þegar þeir geta.
Þeir hafa enda margfaldað fjárfestinguna sína. Fyrst fengu þeir allt að 20 prósent virðisaukningu bara fyrir að fara leiðina. Svo hafa hlutabréfin hækkað mjög í verði og loks skilaði styrking krónunnar þeim tugprósenta gengishagnaði. Líklega hafa fáir fjárfestar í heiminum fengið jafn góða ávöxtun á fé sitt og þeir sem þetta gerðu á síðustu fimm árum.
Auk þess sjást merki um að áhugi á hlutabréfaviðskiptum sé almennt að dragast saman. Heimili landsins hafa aldrei átt jafn lítið hlutfall af hlutabréfum og nú. Og frá því í febrúar, þegar gengi bréfa í Icelandair hrundi, hafa heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Íslands dregist saman um tugi prósenta í hverjum mánuði, þegar miðað er við sama mánuð árið áður.
Geta illa losað sig án þess að verðið hrynji
Samandregið þá hefur innkoma Costco, og áhrif þess á Haga, sýnt hversu viðkvæm fjárfesting í þjónustufyrirtæki á örmarkaði sem er vant fákeppni getur verið. Costco er alþjóðlegt stórfyrirtæki sem hefur aðgang að miklu betri fjármögnun en íslensk fyrirtæki. Er með miklu betri innkaupaverð hjá birgjum. Og getur rekið sig með miklu minni álagningu en íslensku samkeppnisaðilarnir. Það verður líka athyglisvert að sjá hver áhrif Costco verða á uppgjör eldsneytissala á borð við N1 og Skeljung þegar þau birta næstu uppgjör sín. Nýverið var nefnilega greint frá því að Costco, sem rekur einungis tólf eldsneytisdælur á einni stöð í Garðabæ, selji um sjötta hvern eldsneytislítra sem seldur er á höfuðborgarsvæðinu. Því sé hlutdeild fyrirtækisins á svæðinu þegar um 15 prósent. Morgunljóst er að ýmis önnur þjónustufyrirtæki sem hafa hingað til einungis þurft að keppa við önnur innlend félög á fákeppnismörkuðum eru jafn viðkvæm fyrir innkomu erlendra fyrirtækja sem geta snýtt markaðnum hér að vild, kjósi þeir svo. Innkoma þeirra er enda alltaf til bóta fyrir neytendur, að minnsta kosti til skamms tíma. Og neytendur hafa sýnt að þeir hika við ekki við kjósa með fótunum og veskinu.
Sömu sögu er að segja af Icelandair. Lágfargjaldaflugfélög með litla yfirbyggingu og litla sem enga innbyggða þjónustu í verðin hjá sér eru málið eins og er og Icelandair þarf að breyta sér til að keppa. Það getur tekið tíma og ekkert er meitlað í stein með árangurinn.
Þetta setur íslensku lífeyrissjóðina í mjög erfiða stöðu vegna gríðarlega umfangsmikillar hlutabréfaeignar þeirra. Þeir eru nefnilega orðnir það stórir í hlutabréfastöðum að erfitt, og líklega ómögulegt, verður fyrir þá að losa um stórar stöður í félögum sem glíma við erfiðleika án þess að það verði til þess að bréfin hreinlega hrynji.