Í gær birtust tvær aðsendar greinar í Morgunblaðinu. Önnur er eftir Gunnlaug Ingvarsson og í henni boðar Frelsisflokkurinn framboð til borgarstjórnar næsta vor. Þar segir: „Frelsisflokkurinn styður einstaklings- og persónufrelsið og þess vegna tölum við máli þjóðfrelsis og réttlætis og viljum verja fullveldisrétt þjóðarinnar. Þess vegna höfnum við ESB-aðild, viljum endurskoðun EES-samningsins og boðum úrsögn úr Schengen. Við höfnum þöggun og ritskoðun og styðjum skoðana- og tjáningarfrelsið. Við munum því ekki falla fyrir þungum straumi hins pólitíska rétttrúnaðar sem tröllríður samfélaginu[...]Frelsisflokkurinn vill gerbreytta og aðhaldssamari stefnu í málum innflytjanda. Núverandi stefna og galopin löggjöf er að koma okkur í koll og straumur hælisleitenda til landsins er að verða óviðráðanlegur og kostnaður vex veldisvexti milli missera. Slíkt mun aðeins leiða til ófriðar og skerðingar á lífskjörum og frelsi.[...] Við viljum engar öfgar, aðeins að skynsemin ráði för og að stigið verði á bremsurnar og að við hendum okkur ekki út í fúafen óheftrar fjölmenningar, eins og ráðamenn og menningarelítan hér virðist helst vilja. Við sem viljum fara hægar höfum líka rétt á okkar skoðunum án þess að vera úthrópuð og þögguð niður. Og enn og aftur, ekki öskra á okkur, við erum alls ekki á móti útlendingum eða að íslensk menning megi ekki blandast menningarstraumum annarra.“
Hin greinin er eftir Einar S. Hálfdánarson og er birt á besta stað á leiðarasíðu Morgunblaðsins. Á sama stað og reglulega eru birtar greinar eftir þingmenn, ráðherra eða annað áhrifafólk. Fyrirsögnin greinarinnar var: „Er bull og lýðskrum að tengja aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur við stöðu fátækra Íslendinga?“ Greinarhöfundur svarar síðan eigin spurningu neitandi.
Innihaldslausum hræðsluáróðri ýtt inn í meginstrauminn
Þessar greinar eru hluti af pólitískri orðræðu sem verið er að gera að hluta af meginstraumnum. Hún gengur út á það að pólitískur rétttrúnaður óskilgreindrar umræðu-elítu – stundum kölluð „góða fólkið“ – hamli því að gríðarlega alvarleg vandamál tengd innflytjendum, og sérstaklega hælisleitendum, séu rædd hérlendis. Afleiðingin sé sú að barnaskapur þessa hóps sé að búa til aðstæður sem muni valda miklum samfélagslegum skaða. Sem muni drepa íslenska menningu, ganga á íslenskt velferðarkerfi og skapa stórhættu fyrir hvítu innræktuðu kristnu þjóðina sem býr hér fyrir og er að mestu skyld nokkra ættliði aftur í tímann.
Helsti vettvangurinn fyrir þessa normalíseringu ótta gagnvart útlendingum er Morgunblaðið. Ritstjóri blaðsins hefur tekið þennan málflutning og gert algjörlega að sínum. Í síðustu viku tók hann sér til að mynda leyfi frá því að tala upp Donald Trump – mann sem setur nýnasista og þjóðernisöfgahreyfingar undir sama hatt og fólk sem berst fyrir mannréttindum og flaut til valda með því að hræra duglega í rasistapottum – til að taka upp málstað Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, nú óháðs borgarfulltrúa, og rétt hennar til að kalla kennslu barna hælisleitenda „sokkinn kostnað“. Ritstjórinn sagði að þetta væri „leyfilegt umræðuefni“. Að pólitísk rétthugsun fámennrar netklíku kæmi hins vegar í veg fyrir að umræðan um hælisleitendur, sem hann virðist reyndar ítrekað blanda saman við innflytjendur, sé tekin.
Nokkrum dögum áður hafði háskólaprófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson, þekktasta fylgitungl ritstjórans, mætt í útvarpsviðtal og látið að því liggja að hælisleitendur kæmu hingað til lands til að leggjast á velferðarkerfið og láta það sjá fyrir sér.
Á fimmtudag í síðustu viku skrifaði svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, grein í Viðskiptablaðið þar sem hann kallaði eftir þori til að ræða flóttamannamál. „Ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafa það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans eru þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar,“ skrifaði Sigmundur Davíð.
Verið hrædd og kjósið mig til að verja ykkur
Um er að ræða pólitískt herbragð. Þeir sem beita því stilla upp tilbúnum pólitískum rétttrúnaði sem strámanni og láta sem að hann meini þeim að hafa skoðun. Þetta er sama aðferðarfræði og andstæðingar innflytjenda, fjölmenningar og hreinræktaðir rasistar eða öfga-þjóðernissinnar hafa beitt víða í Evrópu og í Bandaríkjunum upp á síðkastið. Hún gengur út á að mála upp velvilja og samkennd sem barnaskap sem ógni „sönnum landsmönnum“. Megintilgangurinn er að stilla innflytjendum og flóttafólki upp sem andstæðingum þeirra sem telja aðstæður sínar ekki boðlegar. Og fá þá síðan til að kjósa sig á grundvelli þess hræðsluáróðurs.
Það er enginn ótti við að taka neina umræðu um innflytjendur, flóttamenn eða hælisleitendur hérlendis. Umræðan er þvert á móti mjög opin. Þrátt fyrir að það sé sífellt endurtekið sem rök fyrir hatursfullum áróðri þá er líkast til enginn sem er ósammála því að afgreiðslu hælisumsókna verði flýtt eins og kostur er. Best væri ef hægt yrði að afgreiða allar slíkar á nokkrum dögum. Og það er verið að gera nákvæmlega þetta. Tölur Útlendingastofnunar sýna það svart á hvítu. Umsækjendur um vernd sem eru í þjónustu annað hvort stofnunarinnar eða sveitarfélaga hefur fækkað úr 820 í desember í 580 þann 1. ágúst, eða um 30 prósent á um átta mánuðum.
Það er hagur íslensks samfélags og það er hagur þeirra sem eru að sækja um hæli hér.
Það er heldur ekki áberandi í „umræðunni“ að vilji sé til þess að svipta nokkurn málfrelsinu sem tjáir sig um málefni komufólks. Það er hins vegar gerð sú krafa að málflutningur þeirra sé studdur rökum. Svo er það auðvitað ófrávíkjanlegur þáttur málsfrelsisins að fá að vera ósammála og gagnrýna þegar þannig ber undir.
Það sem talsmönnum einangrunarhyggju, einsleitni og guðhræðslu gremst mest er að vera kallaðir rasistar. Þannig var það til að mynda fyrir tveimur árum þegar þingmaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, brást við því að ég kallaði hann rasista með því að kalla mig „rasista umræðunnar“. Ástæða þess var sú að þingmaðurinn, Ásmundur Friðriksson, hafði látið út úr sér ummæli sem falla að öllu leyti undir orðabókaskilgreininguna á hugtakinu rasismi. Þetta er mjög algengt hjá þeim sem aðhyllast rasísk stjórnmál. Að mála sig upp sem fórnarlömb öfgaafla sem vilja svipta þá frelsi, í stað þess að horfa í spegil og sjá öfgarnar og frelsissviptinguna í eigin málflutningi. Ég var rasisti fyrir að kalla hann rasista.
Sá sem tileinkar sér t.d. menningarlegan rasisma dregur upp tvískipta mynd af sínum menningarheimi annars vegar og útlendingum og öllum utanaðkomandi hins vegar. Skiptir heiminum upp í „við“ og „hinir“. Svarthvíta mynd sem aðgreinir hið „góða“ frá hinu „illa“. Það gerði Ásmundur skýrt. Og það gera langflestir sem hafa tekið upp sambærilegan boðskap og hann.
Það er mjög einfalt að losna við að vera kallaður rasisti. Ekki segja hluti sem falla undir skilgreininguna á rasisma.
20 manns á mínútu
Það hefur verið bent á það áður á þessum vettvangi að fjölmargar staðreyndir hrekja uppistöðuna í þessum hræðsluáróðri. Svo virðist sem að nauðsynlegt sé að gera það mjög reglulega í ljósi þess að pólitíska herbragðið sem verið er að beita gengur út á að endurtaka vitleysu nógu oft og vonast til þess að hún umbreytist þá í raunveruleika. Það mun Kjarninn gera eins oft og með þarf.
Það er til að mynda staðreynd að samhliða auknum fjölda innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda þá hefur kostnaður hins opinbera vegna félagslegrar framfærslu hríðfallið. Ömurlegur málflutningur um hælisleitendur sem velferðartúrista heldur því ekki vatni. Þá er vinsælt að halda því fram að fylgni sé milli þess að innflytjendum, flóttamönnum og hælisleitendum fjölgi hérlendis og aukinnar glæpatíðni. Í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2016 segir að brotum hafi fækkað í umdæminu á árinu. Þannig var til að mynda ekkert manndrápsmál til rannsóknar hjá embættinu á árinu 2016. Á sama tíma og innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur hafa aldrei verið fleiri.
Umræðunnar vegna skulum við líka horfa blákalt á stöðuna í heiminum. Í honum eru 65,5 milljónir manna á vergangi, samkvæmt tölum frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Flóttamannahjálpin telur að 28.300 manns þurfi að meðaltali á dag að flýja heimili sín vegna átaka eða ofsókna. Það gera nánast 20 manns á mínútu.
Þetta er fólk sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna átaka eða ofsókna, sem oftar en ekki eru afleiðing af aðgerðum Vesturveldanna í þeirra heimshorni. Af þeim sem eru skilgreindir á vergangi eru einungis 17 prósent sem stendur í Evrópu, þeirri álfu þar sem lífsgæðin eru mest. Langflestir eru í Miðausturlöndum eða í Afríku.
Skilgreindir flóttamenn eru 22,5 milljónir. Evrópa getur því gert miklu betur í viðtöku flóttamanna.
Tíu að meðaltali á ári
Ísland hefur tekið á móti 645 kvótaflóttamönnum frá árinu 1956. Á næsta ári munum við taka við 50 í viðbót og höfum þá tekið við 695 á 62 árum, eða rúmlega tíu á ári að meðaltali. Við eigum að taka á móti miklu fleiri og það er í raun skammarlegt að jafn ríkt land og Ísland rétti ekki þeim verst settu í heiminum stærri hjálparhönd.
Til viðbótar koma hingað hælisleitendur í stríðum straumum. Ísland rekur mjög harða stefnu og afar fáir þeirra fá hér hæli. Þeim sem sækja hingað til lands í leit að hæli hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Það er enda mannlegt að vilja tækifæri til betra lífs. Umsóknir um hæli voru 51 árið 2010 en voru orðnar 355 árið 2015. Í fyrra þrefölduðust umsóknir og voru 1.130, þau mál sem fengu efnismeðferð voru um helmingur þeirrar tölu. Um 80 prósent þeirra umsókna sem afgreiddar voru í fyrra var synjað. Það þýðir að þeir sem fengu vernd voru 110 talsins. Það sem af er þessu ári hafa 82 fengið vernd og umsækjendur hafa verið 626. Haldi þróunin áfram verður fjöldi þeirra sem sækja um hæli hérlendis mjög svipaður því sem hann var í fyrra. Þetta er allt og sumt. Allur ægilegi fjöldinn sem hópur fólks eyðir allri sinni orku í að hræðast og hræða aðra með.
Augljóst var að sú aukning sem varð í fyrra og í ár myndi aukning leiða af sér kostnað. Í nýbirtu uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins kemur fram að hrein útgjöld vegna réttinda einstaklinga hafi verið 2,2 milljarðar króna sem var 1.251 milljónum meira en áætlað var. Þar segir: „Í fjárheimildum vegna ársins 2017 voru verulega vanáætlaðar í fjárlagagerð fyrir árið 2017 í ljósi fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna á síðustu mánuðum ársins 2016. Kostnaður vegna þessara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfirstandandi ári.“
Þessi kostnaður fellur fyrst og síðast til vegna þess að það þarf að afgreiða miklu fleiri umsóknir. Það er verið að gera það mun hraðar en áður og þeim sem vistaðir eru á vegum Útlendingastofnunar og sveitarfélaga hríðfækkar. Kostnaðurinn er til kominn vegna þess að íslensk stjórnvöld eru að svara kalli um hraðari afgreiðslutíma.
Tökum umræðuna
Það þarf að taka djúpa pólitíska umræðu um flóttamenn, hælisleitendur og innflytjendur. En hún á ekki að byggja á hræðslu sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum og ömurlegum pólitískum tilraunum til að stilla útlendingum upp sem orsök þess að traðkað sé á sumum hópum íslensks samfélags.
Ísland getur tekið við miklu fleiri flóttamönnum og hælisleitendum en landið gerir. Við eigum líka að opna dyrnar fyrir mun fjölbreyttari hópi innflytjenda sem myndu glæða samfélagið okkar blæbrigðum og auka efnahagslega velsæld. Og manna störfin sem við munum ekki geta mannað sjálf ef við ætlum að halda áfram að auka efnahagslega velsæld. En fyrst og síðast eigum við að gera það vegna þess að það er rétt að gera það.
Það er siðferðisleg skylda okkar sem ríks lands sem hefur hagnast gríðarlega í alþjóðavæddum heimi. Og það er manneskjuleg skylda okkar gagnvart fólki í vanda að rétta því hjálparhönd. Við höfum komist hjá því að takast á við þessa siðferðisspurningu vegna þess að við erum eyja úti í miðju Atlantshafi og það er ekki hægt að ganga hingað eða sigla á fleka. En við komumst ekki upp með það lengur, né ættum við að gera það. Flóttamannavandinn er sameiginlegur vandi heimsbyggðarinnar og það þurfa allir að leggja sitt að mörkum. Líka litlar ríkar eyjur fullar af hvítu fólki.
Það eru allir til í að taka umræðuna um komufólk. Munurinn á hópunum sem hana vilja taka er hins vegar nálgunin á hana. Hluti vill nálgast hana af samkennd og með vísun í staðreyndir. Hinir, popúlistarnir, vilja nálgast hana út frá hræðsluáróðri, tilfinningum og pólitísku valdabrölti.