Frá því um miðja síðustu viku hefur staðið yfir framsetning á viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins við málinu sem sprengdi síðustu ríkisstjórn. Fyrir rúmri viku síðan var spáð fyrir um viðbrögðin á þessum vettvangi. Að þau yrðu heiftúðleg og að í þeim myndi felast reiði gagnvart reiðinni. Að þeim sem tóku ákvarðanir sem sköpuðu ástand myndu ekki líta á sig sem ástæðu þess að við stefnum nú í kosningar í annað sinn á einu ári, heldur hina sem neita að viðurkenna hegðun þeirra. Viðbrögðin hafa verið nákvæmlega þau sem spáð var.
Tæknin sem beitt er kallast á ensku „gaslighting“, eða gaslýsing, og er þekkt pólitískt bragð. Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
Tilgangurinn er að fá viðföng, í þessu tilfelli þann hluta almennings sem misbýður framganga ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins í málum sem snúast um uppreist æru dæmdra barnaníðinga, til að efast um eigin dómgreind. Með því að setja fram nýja skilgreiningu á því sem átti sér stað, og endurtaka þá skilgreiningu ítrekað, er reynt að búa til nýjan veruleika sem lætur þá sem misbauð líta út fyrir að vera nánast veika á geði fyrir að draga þær ályktanir sem þeir drógu. Þeim er sagt, með hörku, valdhroka og ofsa, að svart sé hvítt og upp sé niður. Þeir eigi eiginlega að biðjast afsökunar á fávisku sinni og fáránleika. Gerendur séu í raun fórnarlömb. Og öfugt.
Ástæðan fyrir því að viðbrögðin voru fyrirsjáanleg er sú að þetta er ekki í fyrsta sinn á undanförnum árum sem þetta gerist. Svo fjarri lagi. Nákvæmlega sömu aðferð var beitt í kjölfar bankahrunsins, í Lekamálinu, Í Orku Energy-málinu, í aðdraganda birtingu Panamaskjalanna, í kjölfar birtingar Panamaskjalanna, þegar tveimur mikilvægum skýrslum var haldið frá almenningi í aðdraganda kosninga og þegar dómsmálaráðherra braut lög með skipun sinni á dómurum í Landsrétt. Ugglaust vantar einhver önnur skýr dæmi í þessa upptalningu. Og svo situr auðvitað fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins á ritstjórastóli í Hádegismóum og gaslýsir nær daglega yfir okkur öll sinni sögufölsun og eymdarlegu samfélagssýn. Sýn sem í felst að samfélagið sé til fyrir hina fáu, og þeirra sé valdið til að ákveða hvernig atburðir séu túlkaðir. Eina sem Íslandi vanti séu fleiri „við“ en færri „þið“.
Það má ekki allt sem er ekki ólöglegt
Gaslýsingin í því máli sem felldi ríkisstjórnina felst, líkt og áður sagði, efnislega í því að kenna öllum öðrum um þá atburðarás sem er að leiða okkur í kjörklefann en þeim sem raunverulega bera ábyrgðina. Þetta er gert með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi er lagt upp með að um lagatæknilegt atriði sé að ræða. Þ.e. að ástæða þess að ríkisstjórnin hafi sprungið hafi verið sá misskilningur að Sigríður Andersen hafi brotið lög þegar hún valdi að segja Bjarna Benediktssyni frá aðkomu föður hans að uppreist æru dæmds barnaníðings, á sama tíma og hún og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stóðu mjög hart gegn því að þolendur, aðstandendur þeirra, aðrir þingmenn, fjölmiðlar og almenningur allur myndi fá umræddar upplýsingar. Þess vegna fóru hermenn Valhallar mikinn, jafnt í opinberri umræðu, á samfélagsmiðlum og í einkaskilaboðum, þegar umboðsmaður Alþingis sagði ekkert tilefni til að rannsaka atferli Sigríðar sem mögulegt lögbrot. Þeir héldu því fram að sú niðurstaða sýndi á óyggjandi hátt að stjórnarslit hefðu verið illa undirbyggt gönuhlaup og að fórnarlambið væri í raun bara eitt, Sjálfstæðisflokkurinn.
Það er tvennt sem er mjög athugunarvert við þessa söguskýringu. Í fyrsta lagi hefur gagnrýnin ekki snúist um að lögbrot hafi verið framin, heldur að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi valið að leyna upplýsingum sem þeir vissu, eða hefðu að minnsta kosti átt að vita, að kæmu sér pólitískt illa fyrir þá. Gaslýsingarfólk gera því gagnrýnendum upp afstöðu í málflutningi sínum og gagnrýna hana svo. Búa til strámann.
Það var val Sigríðar að segja Bjarna einum frá aðkomu föður hans að málinu og það var val Bjarna að segja engum öðrum frá því í júlí, þegar hann var upplýstur um það. Í því fólst pólitískur og almennur trúnaðarbrestur. Þau kláruðu traustinneign sína hjá samstarfsmönnum og athæfi þeirra gekk gegn siðferðisvitund ansi margra. Þess vegna sprakk ríkisstjórnin og þess vegna gagnrýnir fólk úr öllum öðrum áttum en innan úr Valhöll framferðið.
Í öðru lagi felst í söguskýringunni að allt megi sem ekki sé ólöglegt. Með sömu rökum er hægt að segja að það sé í lagi að halda fram hjá. Að sýna maka sínum niðrandi framkomu. Að svíkja og blekkja ættingja sína. Að vera óheiðarlegur í samskiptum. Sá sem geri slíkt megi ekki hljóta afleiðingar af, vegna þess að það standi ekkert í lögum um að hegðun hans sé bönnuð. Þessi skýring er fjarstæðukennd fyrir flest fólk með snefil af sómakennd.
Gerendur verða þolendur og þolendur verða gerendur
Önnur afvegaleiðing er sú að kenna þingmanni Pírata, Smára McCarthy, um neikvæðar fréttir af Íslandi í útlöndum vegna þess máls sem nú er í hámæli. Og að hann sé að eyðileggja orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta er rökstutt með því að Smári setti færslu á Twitter þar sem hann valdi lélega og ósmekklega samlíkingu til að lýsa yfirhylmingu Sjálfstæðisflokksins á upplýsingum um meðmælabréf föður forsætisráðherra. Stærstu fjölmiðlar heims slógu upp fréttum af falli ríkisstjórnarinnar á Íslandi og ástæðunni fyrir fallinu. Þráðurinn í þeirri umfjöllun er ekki Smári McCarthy, heldur ákvarðanir tveggja íslenskra ráðherra og aðkoma föður annars þeirra að uppreist æru dæmds barnaníðings. Og svo er málið sett í samhengi við öll hin hneykslismálin sem upp hafa komið á Íslandi á síðustu árum vegna ákvarðana íslenskra ráðherra. Hjá þeim sem bera ábyrgð á þeim málum liggur sökin á versnandi ímynd Íslands á alþjóðavettvangi, ekki hjá Pírata með lélegt nef fyrir samlíkingum.
En súrrealískasta viðbragðið á þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason sem kenndi Ríkisútvarpinu um töf á birtingu gagna um uppreist æru vegna þess að það vandaði sig við að svara umsögn dómsmálaráðuneytisins eftir að það hafði synjað fjölmiðlinum um aðgengi að gögnunum. Samkvæmt röksemdarfærslu Vilhjálms liggur sökin ekki hjá þeim sem synjaði fjölmiðli ranglega um aðgengi að gögnum, heldur hjá þeim sem réttilega taldi að umrædd gögn ættu að vera opinber, og kærði málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem staðfesti þann skilning. Ef Ríkisútvarpið hefði ekki kært synjun gagnanna þá hefðu þau aldrei verið birt.
Hafa allir aðrir rangt fyrir sér?
Þolendur kynferðisbrota, og aðstandendur þeirra, risu upp og neituðu að láta bjóða sér að réttur manna sem studdu uppreist æru fyrir dæmda barnaníðinga til að leynast væri ofar rétti þeirra til að vita hverjir veittu kvölurum þeirra syndaaflausn. Þessir þolendur upplifa aðstæður þannig að forsætisráðherra hafi unnið gegn þeirra hagsmunum, og að hann hafi beitt sér fyrir hagsmunum annarra. Þær segja um dómsmálaráðherra að það sé þeirra „upplifun að hún í raun hefur barist gegn okkur.“ Varðandi viðbrögð ráðherranna og svör segja þær að þau séu „einkennandi fyrir þöggun“. Hafa þessi þolendur rangt fyrir sér? Er dómgreind þeirra bara brengluð og þarf einfaldlega að afrugla hana með vísun í að engin lög hafi verið brotin?
Eru þau 57 prósent landsmanna sem telja að það hafi verið rétt að slíta stjórnarsamstarfinu, og þau 77 prósent sem töldu rétt að efna til nýrra kosninga, bara að misskilja stöðuna?
Er fólk sem beitir dómgreind sinni til að máta atburði við siðferðisvitund sína og kemst að þeirri niðurstöðu að óheiðarleiki dragi úr trausti gagnvart stjórnmálamönnum sem verða uppvísir af honum bara vitleysingar? Fullkomin flón?
Má allt sem er ekki ólöglegt?
Nei, auðvitað þarf ekki að láta mat sitt á atburðum síðustu daga passa við söguskýringar gerenda í málinu. Fólk á að líta fram hjá þessum tilraunum og meta málið út frá fyrirliggjandi staðreyndum og eigin dómgreind.
Að bakka niður í skotgrafirnar
Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir snúast ekki um flokkapólitík. Þær snúast ekki með neinum hætti um stefnumál stjórnmálaflokka eða málefnaáherslur. Þær snúast um að enn og aftur ákváðu stjórnmálamenn að gera eitthvað sem stór hluti umbjóðenda þeirra misbýður.
Sjálfstæðisflokkurinn og stefnumál hans eiga augljóst erindi við hluta þjóðarinnar. Hann er, samkvæmt síðustu kosningum, stærsti flokkur landsins og nýtur stuðnings 20-30 prósent landsmanna. Það ber að virða. En flokkurinn þarf líka að virða að 70-80 prósent landsmanna sér heiminn ekki eftir hans forskrift.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn gæti haft það í sér að horfa inn á við, axlað ábyrgð og sýnt snefil af auðmýkt þá væri hann ekki í þeirri stöðu að horfa fram á mikið fylgistap, dvínandi áhrif og litla sjáanlega möguleika á því að starfa í ríkisstjórn að kosningum loknum. Ef hann reyndi að skilja sjónarmið annarra í stað þess að gaslýsa á þau þá gæti flokkurinn verið hluti af lausn á klofningsvanda þjóðarinnar.
En viðbragðið er ekki auðmýkt heldur forherðing. Það sama og alltaf þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins gerast sekir um að hneyksla þjóðina eða flækja sig í bersýnilega hagsmunaárekstra. Að taka samtrygginguna fram yfir almannahag, reyna að afvegaleiða umræðuna með gaslýsingu, ráðast á gagnrýnendur af hörku og bakka um leið lengra niður í skotgrafirnar.
Þess vegna velur Sjálfstæðisflokkurinn að vera hluti af vandamálinu og auka enn á klofninginn í samfélaginu, í stað þess að verða valkostur að lausninni.