Rúmur mánuður er til kosninga og erfitt að átta sig á því hvaða mál munu stela senunni sem helstu kosningamál. Óhætt er að segja að stjórnmálaflokkarnir standi frammi fyrir krefjandi verkefni við að skipuleggja megináherslur fyrir kosningarnar 28. október.
Umhverfismálin á oddinn
Vonandi munu framboðin ekki komast upp með að skila auðu eða skauta með léttvægum hætti framhjá umhverfismálunum.
Alltof lítil umræða hefur átt sér stað um efnahagsleg áhrif Parísarsamkomulagsins sem nú hefur verið lögfest. Í því felst meðal annars markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir 2030, miðað við árið 1990.
Á dögunum var tilkynnt um nýskráningu fyrirtækisins Klappa Græna Lausna hf. á markað, en það sérhæfir sig í því að hjálpa fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og þjóðríkjum, að ná markmiðum í umhverfismálum og stuðla að sjálfbærni.
Þetta er ánægjulegt og gefur von um vitundarvakningu í þessum efnum í atvinnulífinu.
En betur má ef duga skal, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Á hinu pólitíska sviði er þörf fyrir róttækar breytingar og skýrari stefnu. Ísland er á kolrangri braut, þrátt fyrir að hér á landi séu góðar undirstöður fyrir umhverfisvæna lifnaðarhætti.
Órafjarri markmiðunum
Búist er við því að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2030 verði 99% meiri en árið 1990, ef framheldur sem horfir. Þetta hefur meðal annars verið rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, ritstýrði.
Til þess að landið standi við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu gætu íslenska ríkið og íslenskt atvinnulíf, staðið frammi fyrir rúmum 220 milljarða króna kostnaði vegna kaupa á losunarheimildum, eins og fram kom í umfjöllun á vef Kjarnans í ágúst.
Tölurnar eru síst of stórar. Rétturinn til að menga - mengunarkvótinn - er að verða síflellt dýrari og þannig er alþjóðasamfélagið að búa um hnútana, í samræmi við inntak Parísarsamkomulagsins. Lagt er upp með að þróa samkeppnishæfni ríkja á þessum grunni, í átt að meiri sjálfbærni og vistvænni lifnaðarháttum, og gera það dýrt og óæskilegra að velja leiðir til atvinnuuppbyggingar sem auka útblástur mengandi efna.
Ísland er á kolrangri leið, eins og gögn og greiningar sýna. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra gerði vel í að vekja athygli á þessu og stjórnmálamenn á hægri, vinstri og miðjunni verða ekki sakaðir um að tala ekki digurbarkalega um þessi mál.
Stórar spurningar sem þarfnast svara
En það þarf að framkvæma, breyta og bæta. Hvernig ætlar Ísland að vaxa mikið sem ferðaþjónustuland með mengunni sem fylgir flug- og skipaumferð um landið? Hvernig ætlar Ísland að glíma við samfélagslegan kostnað sem mun fylgja stóriðjunni í landinu og þeim hlutfallslegu miklu kostnaðar- og mengunarstærðum sem henni tengjast?
Vandséð er að frekari uppbygging á stóriðju geti samræmst markmiðum Parísarsamkomulagsins. Fróðlegt væri að sjá nákvæmar útleggingar á því, t.d. frá Landsvirkjun og stjórnvöldum.
Ekki verður annað séð en að sú viðbótarmengun sem fylgja mun frekari stóriðjuuppbyggingu, t.d. í kísiliðnaði, sé á skjön við inntakið í samkomulaginu.
Spennandi framtíðarsýn
Þó hér hafi verið nefnd atriði, sem mikilvægt er að greina og fá heildarmyndina fram, þá gefur Parísarsamkomulagið líka von um spennandi þróun íslensks samfélags til framtíðar litið.
Samkomulagið er í reynd áhrifamesta stefna sem fest hefur verið í lög fyrir framþróun á tækni, rannsóknarstarfi og menntun. Því þetta hangir allt saman. Ef Ísland ætlar að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið, á aðeins innan við 13 árum, þá þarf algjöra kúvendingu í hugsunarhátt stjórnmálanna.
Rafvæðing bílaflotans er algjört smámál miðað við heildarmyndina. Reyndar er rafvæðingin líka eitt auðveldasta málið í þessum efnum, þar sem Ísland býr við þau forréttindi - miðað við flest önnur ríki heimsins - að vera með eitt lítið borgarsvæði og góða innviði til að setja upp hleðslustöðvar. Með skýrum markmiðum og uppbyggingu mætti einfaldlega breyta þessu hratt, og á nokkrum árum.
Í þessum efnum geta stjórnmálamenn ekki boðið upp á innstæðulaus rifrildi um lítið sem ekkert. Þeir þurfa að vinna saman með fyrirtækjum og fólkinu í landinu. Það þolir enga bið að breyta og bæta, og greina hvernig það er mögulegt að byggja upp samkeppnishæft þjóðfélag til framtíðar litið á umhverfisvænum forsendum. Hluti af því er að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar í umhverfismálum, samhliða uppbyggingu á nútímalegu og tæknivæddu mennta- og atvinnulífi.