Ísland er örríki, eitt það minnsta í veröldinni sem heldur úti eigin myntkerfi og sjálfstæðri peningastefnu (Aðeins er Seychells eyjar eru minni, með 95 þúsund einstaklinga). Vinnumarkaðurinn telur um 200 þúsund einstaklinga.
Það er rétt tæplega einn tíundi af vinnumarkaðnum á Seattle-svæðinu, þar sem ég bý.
Ég fór á dögunum í heimsókn á ritstjórn Seattle Times, rótgróins fjölmiðilsins hér á svæðinu, sem hefur á sér gott orð fyrir vönduð efnistök.
Togstreita atvinnulífs og stjórnmála
Framundan eru kosningar á svæðinu og er helsta spennan í kringum borgarstjórakosningar. Vöxturinn á Seattle-svæðinu hefur verið ævintýralegur og ekki sér fyrir endann á honum næstu 10 til 15 árin, samkvæmt greiningum borgaryfirvalda.
Ástæðurnar eru margþættar en tengjast hröðum vexti í hugbúnaðargeiranum (Amazon, Microsoft, frumkvöðlafjárfestingar, Cloud-þjónustumargfeldisáhrif), almennum vaxandi umsvifum í rótgrónum atvinnugeirum svæðisins (stór og vaxandi flutningastarfsemi, stærsta herstöð Vesturstrandarinnar, Boeing) og síðan náttúrulegri fólksfjölgun og ört vaxandi kaupmætti.
Eitt af því sem blaðamenn Seattle Times sögðu mér að væri erfiðast fyrir borgaryfirvöld þessi misserin, er að vinna vel með fyrirtækjunum og að „halda öllum góðum“. Þetta væri ekki beint hægri eða vinstri pólitík - ekki spurning um ívilnanir eða eitthvað slíkt - heldur meira spurning um að byggja upp traust og góð samskipti.
Vaxtaverkir
Vöxtur Amazon hefur reynt mikið á svæðið, en fyrirtækið hefur verið að ráða um tvö til þrjú þúsund starfsmenn í mánuði á svæðinu að undanförnu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru orðnar of litlar - þó að við fyrstu sýn virðist það nú óraunverulegt - og þá er bankað á dyrnar hjá borgararyfirvöldum.
Forstjórinn og stofnandinn Jeff Bezos, segir borgaryfirvöld í Seattle of svifasein. Allt í einu birtist síðan tilkynning frá fyrirtækinu um að Amazon ætlaði sér að byggja aðrar höfuðstöðvar, og bauð öllum borgum Bandaríkjanna að koma fram með tillögur. Atlanta er nú talin líklegust, en Seattle borg hefur ekki gefið upp von um að ná samningum við fyrirtækið fyrir höfuðstöðvar númer tvö.
Þetta atriði er nefnt hér til sögunnar, í samhengi við stöðu mála í íslenskum stjórnmálum, og hvernig úrlausnarefni geta stundum verið þverpólitísk.
Eins og oft virðast væntingar vinstri flokkanna nú teknar að skrúfast upp, en ég hef enga trú á því að það verði auðsótt að mynda stjórn til vinstri eftir kosningar. Það verður mikil hreyfing á fylginu fram að kosningum og vafalítið kemur stjórnarkreppa upp úr kössunum eins og í fyrra.
Þetta er mikið áhyggjumál fyrir almenning í okkar litla samfélagi, því alveg sama hverjar skoðanir fólks eru þá skiptir máli að samvinnugrundvöllurinn á milli stjórnmálaflokka liggi fyrst og síðast eftir almannahagsmunalínunni.
Í atvinnulífi landsins eru ólíkar skoðanir eins og í elítuhópum stjórnmálaflokkanna. Stjórnmálaflokkar geta ekki búið sér til óvini í hagkerfinu, hvort sem það er í smásölu, sjávarútvegi, fjármálum, menntastofnunum, landbúnaði, eða einhverjum öðrum geirum. Stundum eru málin þannig vaxin - eins og í tilfelli togstreitu Amazon og Seattle borgar - að það þarf að leggjast vel yfir málin og finna góðar lausnir sem gagnast hagkerfinu vel, í góðu samstarfi. Í lausnum fá kannski ekki allir allt sem þeir vilja, en þær eru ákveðin niðurstaða á hollum og góðum rökræðum.
Ekki spurning um hægri eða vinstri
Það er stundum erfitt að sjá hvað er til hægri og vinstri, eins og undanfarinn áratugur í íslenskum stjórnmálum ber með sér. Neyðarlög og fjármagnshöft - framkvæmd af öllum heimsins þunga ríkisvaldsins - björguðu landinu frá altjóni, og síðan þá hefur ríkið haldið áfram á svipaðri braut og nýtt sér þessar aðgerðir til að eignast fjármálakerfið að nánast öllu leyti og endurskipuleggja atvinnulífið með stórfelldum skuldaafskriftum.
Þetta er hið besta mál, en enginn skal reyna að halda því fram að þetta tengist hægri stjórnmálum með einhverjum hætti. Þarna er ríkisvaldið miðpunkturinn í björgunarstarfinu og stjórnmálamenn úr öllum flokkum eftir hrunið, geta verið stoltir af þessu starfi.
En þeir geta ekki verið stoltir af þeirri stöðu sem virðist komin upp í stjórnmálunum. Mikil togstreita, skortur á samstarfsvilja og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og hagsmunum. Öll þessi atriði eru þau sem helst einkenna stjórnmálin þessa dagana, og þetta er stjórnmálamönnunum sjálfum að kenna. Þeim hefur mistekist að nýta góðar ákvarðanir í endurreisnarstarfi efnahagsmála til að byggja upp traust og mannleg samskipti í stjórnmálunum.
Vonandi kemur ríkari samstarfsvilji hjá stjórnmálamönnum - þvert á flokka - upp úr kössunum en sést í kortunum þessi misserin. Það er ekki boðlegt að hafa stöðuna eins og hún er núna. Svo einfalt er það.