Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti í gær, með níu atkvæðum gegn tveimur, að ganga til formlegra viðræðna um myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Vinstri græn telja sig hafa fullvissu, eftir óformlegar viðræður milli flokkanna þriggja á föstudag og laugardag, að hægt verði að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu á ýmsum stoðum samfélagsins í þeirri ríkisstjórn sem nú er í pípunum. Auk þess liggi fyrir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, muni leiða ríkisstjórnina. Með öðrum orðum telja forsvarsmenn flokksins að málefnalega verði helstu kröfum þeirra mætt, bæði til lengri og skemmri tíma.
Þung undiralda er hins vegar í baklandi Vinstri grænna vegna ákvörðunarinnar um að fara í viðræðurnar og ljóst er að hún getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fylgi flokksins og forystu ef veðmálið gengur ekki upp. Sú undiralda endurspeglast best í því að tveir þingmenn flokksins af höfuðborgarsvæðinu, oddviti hans í Kraganum Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Reykjavíkurþingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson, treystu sér ekki til að styðja það að farið yrði í viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Þau hafa einfaldlega ekki pólitíska sannfæringu fyrir því að mynda ríkisstjórn með þessum tveimur flokkum, sérstaklega Sjálfstæðisflokknum.
Það er skoðun sem margir í baklandi flokksins deila. Einn viðmælandi Kjarnans sagði að það væri enginn leið til þess að halda upp á tíu ára afmæli hrunsins á næsta ári að setjast í ríkisstjórn með þeim sem orsökuðu það. Á meðal annarra sem hafa lagst gegn viðræðunum er ungliðahreyfing Vinstri grænna. Í ályktun sem hún sendi frá sér í gær segir:
Ung vinstri græn senda frá sér eftirfarandi ályktun vegna þeirra stjórnarmyndunarumræðna sem nú eiga sér stað: Ung...
Posted by Ung vinstri græn - UVG on Monday, November 13, 2017
Þessi afstaða virðist einnig vera ráðandi hjá mörgum kjósendum Vinstri grænna, sem hafa verið óhræddir við að opinbera óánægju sína á samfélagsmiðlum. Líkt og margoft hefur verið bent á undanfarna daga sögðust einungis þrjú prósent þeirra sem ætluðu sér að kjósa flokkinn í Alþingiskosningunum nýliðnu að þeir vildu sjá Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn samkvæmt niðurstöðu könnunar sem Gallup birti 20. september síðastliðinn.
Áhyggjurnar eru líka sprottnar af því að sterkasta vígi Vinstri grænna er nú á höfuðborgarsvæðinu. Þar fékk flokkurinn flest atkvæði sín í kosningunum í lok október. Ef stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk verður tekið illa þá er talið að það muni stórskaða Vinstri græn í komandi sveitarstjórnarkosningum í höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum hennar.
Samstaða Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur, sem hefur mjög sterka stöðu í grasrót Vinstri grænna, gagnvart ríkisstjórnarviðræðum skiptir miklu máli í að koma þeim á koppinn. Þær fóru saman í óformlegu viðræðurnar um liðna helgi og lögðu saman fram tillögu um að gera þær formlegar í þingflokknum í gær. Ef Svandís væri á móti þessari leið væri hún mun erfiðari fyrir flokksformanninn.
Loforð eitt, framkvæmd annað
Vert er að taka fram að engin málefnasamningur liggur fyrir sem þingflokkarnir geta tekið afstöðu til, heldur einungis afraksturs tveggja daga óformlegs samtals leiðtoga flokkanna þriggja. Það samtal skilaði nægjanlegri vissu til forystu Vinstri grænna um að hægt verði að ráðast í sókn í heilbrigðis- og menntamálum, málefnum aldraðra og öryrkja og í stórtæka innviðauppbyggingu, meðal annars í gerð samgöngumannvirkja. Þá ríkir ágæt samstaða á meðal þessara flokka um að hindra stórtækar stjórnarskrárbreytingar, skjaldborg um sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfin og áherslu á byggðarpólitík. Þeir sem hafa fyrirvara á þessu benda á að loforð séu eitt, en framkvæmd sé annað. Fái Sjálfstæðisflokkurinn að minnsta kosti fimm ráðuneyti að eigin vali í sinn hlut, líkt og hann hefur farið fram á í skiptum fyrir forsætisráðherrastólinn, þá muni hann alltaf ráða framkvæmdinni á mörgum þessara verkefna.
En andstaðan við hið fyrirhugaða stjórnarsamstarf innan þingflokks Vinstri grænna, og víðar í baklandi flokksins, þarf ekki endilega að vera veikleiki í komandi samningaviðræðum við þá tvo stjórnmálaflokka sem hafa ráðið Íslandi þorra sinnar tilveru. Þvert á móti gæti hún þrýst á að þeim málefnaáherslum sem Vinstri græn leggja áherslu á verði gefið mikið pláss í væntanlegum stjórnarsáttmála til þess að erfiðara verði fyrir baklandið að rísa upp gegn honum. Nema auðvitað skattahækkunum. Þær eru út af borðinu.
Þá liggur fyrir að ekkert umburðarlyndi verði gagnvart leyndarhyggju, öllu sem gæti flokkast sem valdníðslu, fyrirgreiðslu og óheiðarleika í væntanlegu ríkisstjórnarsamstarfi. Frambjóðendur Vinstri grænna keyrðu sína kosningabaráttu að stórum hluta á slíkum loforðum, og stilltu sér þannig upp sem andstöðunni við Sjálfstæðisflokkinn. Eða eins og Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem nú styður ríkisstjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum, sagði í grein rúmum mánuði fyrir kosningar: „Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við.“
Nú verða Vinstri græn að ganga á hólm við þessa hluti innan frá. Og sýna í verki hver skoðun þeirra er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Skýr krafa verður gerð að þeim sem verður á eða framkvæma fúsk verði látnir sæta pólitískri ábyrgð með einum eða öðrum hætti. Erfitt sé að líta fram hjá því að síðustu þrjár ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa sprungið og að engin þeirra hafi í raun gert það vegna málefnaágreinings, heldur vegna annarra mála sem ansi margir innan Vinstri grænna tengja við spillingu eða leyndarhyggju.
Sumir viðmælendur Kjarnans telja að þetta aðhald geti einnig verið gæfa næstu ríkisstjórnar. Hún haldi aftur af athæfi sem hingað til hefur fengið að viðgangast og stuðli þannig að bættum vinnubrögðum.
Allir geta ekki verið sigurvegarar
Eftir síðustu kosningar lýstu nánast allir flokkar sig sigurvegara. Tveir flokkar gátu gert það með réttu: Miðflokkurinn sem náði besta árangri sem nýtt framboð hefur nokkru sinni náð og Flokkur fólksins sem náði inn á þing í fyrsta sinn. Vandamál beggja flokkanna er að hinir flokkarnir sex telja þá ekki stjórntæka. Það á sérstaklega við um Miðflokkinn og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Vinstri græn bættu við sig einum þingmanni og töldu sig hafa unnið sigur. Í ljósi þess að um var að ræða næst besta árangur flokksins frá upphafi má taka undir það, en sigurinn er í besta falli smár og súr í ljósi þess að Vinstri græn mældust með miklu meira fylgi í aðdraganda kosninganna en þau enduðu með þegar talið var upp úr kjörkössunum.
Samfylkingin fékk sína næst verstu útreið í sögunni og taldi sig hafa unnið sigur. Píratar náðu inn í þriðju kosningunum í röð og töldu sig hafa unnið sigur, þrátt fyrir fylgistap. Viðreisn náði að klóra sig aftur inn á þing úr vonlausri stöðu en tapaði samt þremur þingmönnum og taldi sig hafa unnið varnarsigur. Framsóknarflokkurinn fékk sína verstu niðurstöðu í Íslandssögunni og taldi sig hafa unnið sigur. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, sem tapaði fimm þingmönnum og fékk næst minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni fengið, lýsti sig sem sigurvegara.
Vinstri græn eru því, hvernig sem á það er litið, að leiða taparana tvo sem lifðu af síðustu kosningar inn í ríkisstjórn.
Katrín leggur allt undir en Bjarni fær að lifa af
Það eru þó fleiri fletir á stöðunni. Hinn pólitíski veruleiki er að Vinstri græn, og sérstaklega Katrín Jakobsdóttir, þurfa nauðsynlega á því að halda að komast í ríkisstjórn til að viðhalda trúverðugleika og festast ekki einungis í hlutverki þess sem er á móti. Flokkurinn þarf að sýna að hann sé tilbúinn að axla ábyrgð á samfélagsþróuninni. Katrín er að leggja allt sitt persónufylgi, og fylgi flokksins, undir með því að ná þessu markmiði með því að fara í samstarf með höfuðandstæðingi sínum.
Það er ekki síður pólitískt lífsspursmál fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að koma flokki sínum í ríkisstjórn sem búi yfir breiðri skírskotun. Þótt Bjarni tali digurbarkalega og beri sig vel þá er staða hans veik. Á meðan Bjarni hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hann fengið fjórar af fimm verstu niðurstöðum sínum í kosningum og gengið mjög illa að höfða til nýrra kjósenda. Þá liggur fyrir að Bjarni hefur nánast einstakt lag á því að rata í hneykslismál og aðstæður þar sem grunsemdir gætu vaknað um hagsmunaárekstra eða spillingu. Þótt flokkurinn hafi alltaf staðið við bakið á sínum formanni, og finnist umfjöllun um hann oft og tíðum ósanngjörn, er þreyta gagnvart þessu ástandi innan hans. Það er lítið í það spunnið að vera alltaf að verja persónulegar gjörðir einstaklinga úr forystunni í stað þess að einbeita sér að því að koma stefnumálum flokksins á framfæri.
Bjarni, sem er oft sagður vera úr tefloni sökum þess hve ótrúlega honum gengur að standa af sér allskyns mál sem myndu binda enda á pólitískt líf flestra stjórnmálamanna, á ekki mikið eftir af pólitískri inneign sinni. Ef hann leiðir ekki Sjálfstæðisflokkinn til valda gæti vel verið gerð atlaga að honum á landsfundi flokksins snemma á næsta ári.
Með myndun fyrirhugaðrar ríkisstjórnar getur Bjarni fengið skjól til að byggja sig aftur upp undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur sem afkastamikill fjármálaráðherra sem myndi stuðla að stórtækum uppbyggingaverkefnum. Og, ef honum tekst vel til, ritað nýjan kafla í pólitísku sögu sína sem yrði laus við ásakanir um spillingu, fyrirgreiðslu, leyndarhyggju og pólariserandi átök.
Risastórt veðmál
Niðurstaða kosninganna í fyrra og þeirra sem haldnar voru í haust var sú að sá tími, sem flokkar með svipaðar pólitískar áherslur geta bundist böndum og valtað yfir samfélagið í krafti meirihluta síns á þingi, er liðinn. Að minnsta kosti í bili. Það er augljóslega engin krafa um það í ljósi þess að átta ólíkir flokkar voru kosnir á þing, fleiri en nokkru sinni áður.
Stjórnmálamenn verða að axla stóran hluta ábyrgðarinnar á því ástandi sem ríkir. Þeir hafa, þvert á flokka, hreint út sagt hagað sér eins og flón á köflum síðastliðinn áratug. Og valdið miklum skaða með því að ala á óeiningu og heift.
Kúvending Vinstri grænna gagnvart Sjálfstæðisflokknum er nú rökstudd með því að best sé að breyta kerfinu innan frá. Það er því eins gott fyrir Vinstri græn að hinir tveir flokkarnir sem setjast í ríkisstjórn Katrínar haldi sig á fyrirgreiðslumottunni. Það hefur þeim oft og tíðum reynst erfitt á undanförnum áratugum. Bara í síðustu ríkisstjórn áttu samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokks að kyngja því að Bjarni Benediktsson hafi setið á tveimur skýrslum fram yfir kosningar, Landsréttarmálinu þar sem innanríkisráðherra framdi lögbrot og leyndarhyggjunni í kringum uppreist æru. Sú ríkisstjórn starfaði einungis í átta mánuði. Og kostaði Bjarta framtíð sitt pólitíska líf.
Ef það gerist ekki mun kostnaðurinn af því ekki lenda hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, kjósendur þeirra vita að hverju þeir ganga og hafa söguna til að máta sig við. Nei, hann mun lenda kyrfilega hjá Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum.
En ef þessari ríkisstjórn tekst vel til, ef hún verður stjórn mikilla verka sem breið sátt verður um, ef henni tekst að innleiða ný vinnubrögð í stjórnmál og aðra áru yfir þau, ef henni lánast að sitja heilt kjörtímabil og ef henni tekst að forðast fyrirgreiðslu og frændhygli, þá gæti hún orðið raunverulegur plástur á samfélagsmeinið. Og leitt okkur í átt að skaplegri og sanngjarnari sambúð í þessu frábæra landi allsnægta sem við búum í.