Níu ára gamall drengur situr í bókasafninu í skólanum og les enska teiknimyndabók. Strákurinn er tvítyngdur frá fæðingu. Hann er vel í meðallagi hvað varðar lestrarfærni á íslensku og hefur að eigin frumkvæði lært að lesa ensku. Kennarinn segir við hann „koma svo, flýttu þér, við erum að fara“. Hann svarar „má ég klára að lesa þetta?“. Kennarinn kíkir og sér að hann er að lesa á ensku, „nei, við erum að lesa íslensku, hér tölum við íslensku”. Strákurinn svarar fullum hálsi „en ég er bara aðeins að lesa ensku, ég get lesið bæði ensku og íslensku, en ég er enskur“. Kennarinn segir þá við strákinn „nei, þú ert það ekki. Komdu núna, við erum að flýta okkur”.
Þegar strákurinn sagði móður sinni frá atburðinum var hann bæði leiður og pirraður. „Mamma, ef þú ert bandarísk, er ég það ekki líka?“. Hann skildi ekki hver tilgangurinn væri með yndislestri í skólanum ef honum mætti ekki einnig finnast yndislegt að lesa á ensku. Hann spurði enn fremur hvort það gæti verið að hann væri eitthvað minni í auga kennarans en aðrir því að hann væri ekki 100% íslenskur?
Ég túlkaði atburðinn aftur á móti eins og kennarinn fyrst og fremst kynni ekki að meta styrkleika og mikilvægan hlut af sjálfsmynd stráksins míns og í öðru lagi fannst mér kennarinn vera að slá verkfæri úr höndunum á honum. Ég fór einnig að velta því fyrir mér hvernig kennarinn hefði brugðist við ef þetta hefði verið barnið hennar og þau dveldu í útlöndum, þar sem hún væri að reyna af allri sinni getu að viðhalda íslenskunni?
Í Aðalnámskrá Grunnskóla (2011) er hægt að finna kafla um íslensku sem annað tungumál. Þar stendur: „Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd nemenda með annað móðurmál en íslensku að tekið sé tillit til þekkingar þeirra og færni í eigin móðurmáli og nauðsynlegt að þeir viðhaldi því. Það er ávinningur fyrir hvern mann að hafa vald á fleiri en einu tungumáli og dýrmætt fyrir þjóðfélagið“ (bls. 106). Í Lögum um Grunnskóla (16. gr.) stendur: „Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli“.
Augljóst er að eitthvað er að klikka hjá okkur þegar brotfall er hæst meðal nemenda með annað móðurmál en íslensku hér á landi. Margir þeirra fæddust hér á Íslandi og fóru í gegnum skólakerfið okkar. Sem þingmaður var það markmið hjá mér að tala og berjast fyrir þessum mikilvæga málaflokki. Ég og samherjar mínir í Bjartri framtíð náðum að semja kvæði um það í stjórnarsáttmálanum: Efla þarf stuðning við móðurmálskennslu tvítyngdra nemenda, samhliða kennslu íslensku sem annars máls. Það var augljóst að þáverandi menntamálaráðherra var ekki að velta sér eins mikið upp úr þessu og ég, svo ekkert er að finna um þennan málaflokk í nýja stjórnarsáttmálanum, því miður.
Að vera tví- eða fjöltyngdur eru ekki sérþarfir eða frávik, það er tækifæri. Rannsóknir víða um heiminn hafa sýnt að fólk sem er tví- eða fjöltyngt hefur hærri greindartölu (e. intelligence scores), öfluga hæfni til einbeitingar, hæfni til að gera og skilgreina margt í einu (e. multitasking), öfluga sköpunarfærni, sterkari samskiptahæfni (e. metalinguistic abilities), er fljótt að bregðast við aðstæðum, hefur sterka umhverfisvitund, er eftirsótt á vinnumarkaði og heilastarfsemi þeirra er virkari en fólks sem talar einungis eitt tungumál. Dr. Ellen Bailystock frá York Háskólanum í Kanada hefur sýnt fram á að minni líkur séu á því að tví- og fjöltyngdir einstaklingar greinist snemma með heilabilun eða Alzheimers, þeir greinast að jafnaði 5 árum seinna.
Vandinn er sá að hér á Íslandi erum við að keppast við að ná háum tölum úr læsisskimunarprófum og PISA niðurstöðum. Kennsla fer þá einungis fram á íslensku. Börn sem tala tvö eða fleiri tungumál fá ekki tækifæri á að sýna fram á hversu breiður þeirra orðaforði er á PISA prófum eða læsisskimunarprófum, en tvítyngd börn þekkja líklega fleiri orð og hafa orðaskilning sem dreifist lengra á milli tveggja eða fleiri tungumála. Styrkleiki og verkfæri sem er hluti af daglega lífi tvítyngdra nemenda hefur ekkert gildi í námi þeirra. Börnin mín leita til dæmis oft að skilningi á ákveðnu orði eða orðafrasa með því að beita bæði íslensku og ensku í leit að svari. Dóttir mín sagði að það væri eins og að vera með tvo sparibauka, bara með orðum sem hægt er að skipta á milli þegar þess þarf.
Ef við viljum ná árangri með öllum nemendum sem fara í gegnum skólakerfið okkar þurfum við að vera vakandi fyrir fjölbreytni og þörfunum sem eru meðal nemenda. Ný ríkisstjórn ætlar að fjárfesta í menntun og hér eru nokkrar leiðir sem ég vil benda þeim á í að fjárfesta í þessum hluta nemendahópsins.
- Námið gengur oftast best hjá börnum sem hafa náð tökum á móðurmáli. Hvetja og starfa með foreldrum í þeim tilgangi að viðhalda og efla móðurmál samhliða íslensku.
- Innflytjendur þurfa að hafa greiðan aðgang að íslensku og íslenskri menningu. Ein sterkasta leiðin til að rækta áhuga og tengsl við nýja landið og tungu þess.
- Íslenska má ekki koma í staðinn fyrir móðurmálið, markmiðið á að vera að bæta á og samhliða því. Það tekur einungis eina kynslóð að missa móðurmálið.
- Samvinna þarf að vera traust og góð milli skóla og heimila. Foreldrar tvítyngdra barna þurfa að finna stuðning og tengsl hjá kennara.
- Menntun kennara og annarra sem starfa með tvítyngdum börnum þarf að vera við hæfi. Kennurum þarf að vera kleift að mæta þörfum tvítyngdra barna og fjölmenningarlegs nemendahóps.
- Námsefni þarf að vera við hæfi tvítyngdra nemenda og allir nemendur hafa þörf fyrir fjölmenningarlega kennslu þar sem litið er á börn af erlendum uppruna sem félagsauð í skólabekk.
- Styðja við jákvætt viðhorf í garð tvítyngdra einstaklinga. Jákvætt viðhorf til nemenda óháð móðurmáli er lykilatriði í að efla jákvæða sjálfsmynd og trú á eigin getu.