Í dag er 20. desember og það eru einungis fjórir dagar til jóla. Bjúgnakrækir kom til byggða í nótt og skildi eftir smá gjafir í skónum hjá krökkum um allt landið. Ég viðurkenni að vera ekki í miklu jólastuði í ár. Ég hef reynt að koma mér þangað með því að gera allt sem hinir Íslendingarnir gera. Ég hengdi t.d. jólaljós utan um húsið mitt í fyrsta skipti á ævinni, skreytti innandyra bæði hátt og lágt, fór með börnin mín á jólaleikritið „Jólaflækja” eftir Berg Þór Ingólfsson, bauð tengdamömmu á jólahlaðborð, bakaði allt of margir jólasmákökur, skrifaði jólakort og hef nú þegar keypt fullt af jólagjöfum. Það er jú sælla að gefa en að þiggja. Þrátt fyrir allt þetta finn ég jólatilfinninguna hvergi. Er ég að gera eitthvað vitlaust?
Getur verið að það sé vegna þess að á mánudaginn, 18. desember, var Alþjóðlegur dagur farandfólks (International migrants day) og hugur minn var og er með þeim? Getur verið að innst inni í mér veit ég að öll þessi „jólagleði”, peningar og orka sem fer í að finna hana ristir ekki djúpt? Getur verið að hjartað mitt sé enn þá á Grikklandi með fylgdarlausum börn og fjölskyldum sem búa í flóttamannabúðum? Er ég full af samviskubiti vegna þess að ég ver tímanum í að gera fullkomin íslenskt jól með mín börnum þegar ég veit að úti í hinum stóra heimi, og reyndar hér á Íslandi líka, eru svo mörg börn sem glöð myndu þiggja þó ekki væri nema örlítið meira en venjulega um jólin.
Í síðustu viku sendi Útlendingastofnun tilkynningu til Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Reykjavíkurborgar um að ekki væru lengur forsendur fyrir jólauppbót þar sem reglugerð, sem tók gildi fyrr á árinu, segði til um að þess þyrfti ekki. Reyndar var fréttin sett fram þannig að hælisleitendum væri ekki kleift að halda jólin hátíðleg. Sem betur fer verður það leiðrétt og þessi viðkvæmi hópur getur gert örlítið betur við sig en venjulega. En hvað þýðir „hátíðleg“ fyrir fólk sem er á flótta?
Hælisleitendur fá heilar 8.000 kr. á viku á hvern fullorðinn einstakling og börnum er úthlutað 5.000 kr. í matarpeninga. Jólauppbótin sem greidd var fyrir ári síðan var tvöföld þessi upphæð í eitt skipti. Það þarf ekki hagfræðing til að sjá að sú upphæð nær ekki utan um jólastússið sem ég get ráðist í. En hugsanlega gæti hún aukið gleði barnafjölskyldu í neyð. Þessar auka 5.000 kr. sem jólauppbótin hefði bætt við gæti dugað fyrir dúkku, litlum Lego kassa eða skemmtilegu spili fyrir eitt barn á flótta. En þetta eru auðvitað ekki íslensk börn svo það er kannski óþarfi að þau njóti hátíðarinnar? Í kommentakerfum var fréttum um brottfall jólauppbótar til hælisleitenda fagnað. Þegar ákveðið var að leiðrétta það komu fram enn verri athugasemdir um mismunun. Óánægjan við prinsipp sem tengjast því að koma vel fram við alla um jólin birtast í orðljótri gremju. Ég minni á að þetta fólk er langt í burtu frá öllu og öllum sem það þekkir og þykir vænt um. Það verður ekki boðið til veislu í þeirra fjölskyldum á meðan við njótum samvista við þá sem okkur eru kærastir.
En þarna liggur hundurinn grafinn. Ég finn ekki jólagleði því ég finn fyrir sorg og áhyggjum. Jólin eiga að vera sá tími ársins þegar við eigum að sameinast um frið á jörð. Sá tími þegar hugurinn leitar til þeirra sem eiga um sárt um binda og sá tími sem við eigum að nota til að hugsa um fleiri en okkur sjálf. Ef við settum líf farandfólks í eðlilegt samhengi myndum við finna hve fáránlegt það er að vera reiður yfir því að „þessu fólki“ sé veittur smá stuðningur viku fyrir jól.
Fleira fólk en nokkru sinni fyrr flýr heimalönd sín í leit að betra lífi. Farandfólk telur 258 milljónir manns. Sannleikurinn er sá að til er fólk sem ákveður að flytja til annars ríkis af fúsum og frjálsum vilja. Fólk sem sækir um hæli eða alþjóðlega vernd á hins vegar ekki í mörg hús að venda og það, að flýja heimaland sitt, er ekki val þessa fólks. Því miður eru örlög þess oft spurning um líf eða dauða. Af þessum 258 milljónum eru 65,6 milljónir (þar af helmingur undir 18 ára aldri) þvingaðar til að flýja vegna stríðs eða ofsókna. Má þar nefna Rohingja og Palestínumenn sem dæmi. Tölfræði Sameinuðu þjóðanna segir okkur að á sjötta þúsund manns úr þessum hópi hefur látið lífið á þessu ári og að minnsta kosti 12,000 börn hurfu í Evrópu í fyrra. Enginn veit hvar þau börn eru niðurkomin eða hvort þau eru yfir höfuð á lífi.
Hér á Íslandi erum við ekki að glíma við vanda sem fylgir komu tuga þúsunda manna sem leita verndar og nýs lífs eins og stjórnvöld á Grikklandi, Spáni eða Ítalíu. Hér fækkar komu hælisleitenda. Við höfum hins vegar einstakt tækifæri til að sýna heiminum gott fordæmi um þann boðskap sem jólin ættu að bera með sér. Og ykkur sem haldið upp á kristin gildi vil ég spyrja, hvað ef dómsmálaráðherrann í Betlehem hefði breytt reglugerð í nóvember árið sem Jesús fæddist og foreldrar hans ekki heldur fengið inni í fjósinu? Ég vona að menn séu ekki búnir að gleyma þessum hluta af hinum kristnu gildum og að þau nái til allra, ekki bara þeirra sem sumir telja þess verðuga.