Landsréttarmálið hefur tekið nýja beygju á síðustu dögum. Nú liggur ekki bara fyrir að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt, heldur virðist blasa við að ákvarðanir hennar geti mögulega kostað íslenska ríkið feikilega háar fjárhæðir.
Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem urðu báðir af dómarasæti í Landsrétti vegna ákvörðunar Sigríðar, stefndu ríkinu vegna þeirra. Þeir eru báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skattframtöl og þar með upplýsingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjártjón vegna þeirra ákvarðana dómsmálaráðherra sem um ræðir í málinu“. Hvorugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af viðurkenningarkröfu um fjártjón.
Tveir aðrir menn sem voru á lista dómnefndar yfir þá sem átti að skipa dómara höfðuðu ekki mál. Annar þeirra, Jón Höskuldsson héraðsdómari, hefur nú sent kröfu á íslenska ríkið þar sem hann krefur íslenska ríkið um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Jón krefst þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krefst þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Ljóst er að krafa Jóns hleypur á tugum milljóna króna. Landsréttardómarar fá 1,7 milljónir króna í laun á mánuði en héraðsdómarar 1,3 milljónir króna. Bara launamunurinn er því um 280 þúsund á mánuði, eða yfir 30 milljónir króna á níu árum.
Jón verður ekki í neinum vandræðum með að sýna fram á fjártjón sitt. Laun hans eru opinber og ákvörðuð af kjararáði, alveg eins og laun dómara við Landsrétt.
Úr sjöunda sætinu og út í kuldann
Þá stendur einn þeirra fjögurra sem færðir voru af lista dómnefndar eftir, Eiríkur Jónsson. Hann var talinn sjöundi hæfasti umsækjandinn af dómnefnd, en hlaut samt sem áður ekki náð fyrir augum Sigríðar Á. Andersen.
Þess í stað ákvað Sigríður að leggja til að meðal annars Jón Finnbjörnsson, sem lenti í 30. sæti á hæfislista dómnefndarinnar, yrði einn af þeim 15 sem skipaðir verða í dómaraembættin. Í rökstuðningi sínum fyrir þessari, og fleiri, breytingum á röðun umsækjenda tiltók Sigríður að niðurstaða hennar væru sú að fleiri en þeir 15 sem dómnefndin hefði mælt með væru hæfir til að verða dómarar við Landsrétt, og að hún teldi að dómarareynsla ætti að hafa meira vægi en nefndin hefði ákveðið.
Vandamálið við þennan rökstuðning er að í 117 blaðsíðna ítarlegri umsögn dómnefndar um umsækjendur um embætti 15 dómara við Landsrétt, sem er aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins, er reynsla umsækjenda af dómsstörfum meðal annars borin saman. Þar kemur í ljós að þrír umsækjendur sem lentu neðar en Eiríkur í heildarhæfnismati nefndarinnar voru með minni dómarareynslu en hann, en rötuðu samt sem áður inn á lista Sigríðar yfir þá sem hún vildi skipa í dómarasætin 15. Það er eina rannsóknin sem gerð hefur verið á dómarareynslu í málinu.
Ofan á það hefur Hæstiréttur Íslands síðan komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt. Rökstuðningur Sigríðar, sem hún færði fyrir því að tilnefna ekki ofangreinda fjóra menn, sem dómnefnd hafði metið á meðal þeirra hæfustu, en skipa þess í stað fjóra aðra sem voru ekki jafn hæfir, er að mati Hæstaréttar ekki nálægt því fullnægjandi og uppfyllir ekki lágmarkskröfur sem til slíks eru gerðar.
Það var því aldrei kannað almennilega, né rökstutt með viðeigandi hætti, hvort þeir fjórir sem Sigríður handvaldi til að sitja í réttinum í trássi við niðurstöðu dómnefndar væru hæfari en hinir. Hún sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni heldur tók geðþóttaákvörðun við umfangsmestu nýskipun dómara í Íslandssögunni.
Gríðarlegt fjárhagslegt tjón
Eiríkur er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann er fæddur árið 1977 og er því fertugur að aldri. Eiríkur á því um 27 ár eftir á vinnumarkaði miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félags prófessora ætti Eiríkur að vera með á bilinu 659.683 til 727.572 krónur í mánaðarlaun. Það er um einni milljón króna frá þeim mánaðarlaunum sem hann hefði haft sem dómari við Landsrétt. Bara launin sem Eiríkur verður af vegna ólögmætrar ákvörðunar dómsmálaráðherra eru því um tólf milljónir á ári.
Eiríkur hefur ekki lagt fram kröfu á íslenska ríkið. Ef hann myndi gera það, og honum yrði t.d. bætt tíu ára tekjumissi, þá myndi það þýða að fjártón vegna launa sem höfð voru af honum yrði um 120 milljónir króna. Ef honum yrði bætt 20 ára tekjumissi yrði sú tala 240 milljónir króna. Og svo framvegis. Þá á eftir að taka tillit til lífeyrisgreiðslna og annarra launatengdra réttinda dómara sem Eiríkur mun ekki fá vegna ólögmætrar ákvörðunar Sigríðar.
Og miskabóta. Það er nefnilega þannig að Hæstiréttur komst að þeirra niðurstöðu að Ástráður og Jóhannes Rúnar ættu að fá miskabætur frá ríkinu. Auk þess var íslenska ríkinu gert að greiða allan málskostnað í máli þeirra, og þyrfti því væntanlega að gera slíkt hið sama færi möguleg skaða- og miskabótakrafa Eiríks fyrir dómstóla.
Samandregið getur fjárhagslegt tjón af ólögmætri ákvörðun Sigríðar Á. Andersen í Landsréttarmálinu því hlaupið á hundruðum milljónum króna.
Viðbúin viðbrögð
Því var spáð á þessum vettvangi að viðbrögð sitjandi stjórnvalda yrðu þau að niðurstaða Hæstaréttar myndi ekki hafa áhrif á setu Sigríðar í ríkisstjórn. Það reyndist rétt mat og reynt er að láta eins og að krafa um slíkt sé beinlínis fjarstæðukennd.
Samt á að taka niðurstöðu Hæstaréttar „mjög alvarlega“ og „gaumgæfa“ hana og „læra af þessari niðurstöðu til að svona mál endurtaki sig ekki“, án þess þó að útskýrt sé hvað það þýði nákvæmlega. Enda oft erfitt að lagfæra skaða sem þegar er búið að valda. Dómsmálaráðherra er auðvitað með „fullt traust“ frá formanni Sjálfstæðisflokksins og „allt of langt gengið“ er að krefjast afsagnar hennar að mati sjálfskipaðs lögfræðilegs yfirvalds flokksins.
Í júní 2017 skrifuðu Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, nú heilbrigðisráðherra, grein á vef Vinstri grænna sem fjallaði meðal annars um Landsréttarmálið. Þar stóð: „Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endan á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“
Nú segir Katrín hins vegar að hún telji að málið rýri ekki traust almennings til Landsréttar. Í viðtali við RÚV segir forsætisráðherra: „Það er auðvitað ekki heppileg byrjun en ég vænti þess að þetta eigi ekki endilega að hafa áhrif á traustið á dómstólinn sem slíkan.“
Þetta er ansi skörp U-beygja á örfáum mánuðum.
Hvað er ásættanlegur kostnaður við ráðherra?
Ólögmæt geðþóttaákvörðun dómsmálaráðherra er að verða ansi kostnaðarsöm. Hún hefur augljóslega dregið úr trausti á dómskerfinu í heild og sérstaklega nýju millidómstigi.
Hún segist vera efnislega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og að hún muni setja nýjar reglur sem heimila frekar svona fúsk. Ráðherrann hefur ekki sýnt snefil af auðmýkt heldur komið fram af miklum hroka. Það vantraust sem er til staðar gagnvart dómskerfinu vegna ákvarðana hennar mun því áfram vaxa á meðan ráðherra sem viðhefur slíka stjórnsýslu, og virðist ekki sjá neitt athugavert við það, situr við völd.
Pólitískt hefur framganga Sigríðar Á. Andersen verið mjög kostnaðarsöm fyrir þá flokka sem setið hafa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn á þessu ári. Fyrst fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð, sem stillt var upp við vegg í einkasamtölum í málinu og sagt að það þyrfti að fara í gegn til að ríkisstjórn flokkanna þriggja myndi lifa af. Báðir flokkar kyngdu þessu og reyndu meira að segja að rökstyðja ákvörðun sína með fjarstæðukenndum rökum sem stóðust enga nánari skoðun. Það er kristaltært að framganga Bjartrar framtíðar í Landsréttarmálinu spilaði stóra rullu í því að sá flokkur þurrkaðist nánast út í síðustu kosningum. Og framganga Viðreisnar hafði bein áhrif á þá fækkun þingmanna sem sá flokkur varð fyrir.
Nú er gengið á pólitíska inneign Vinstri grænna í málinu. Þingmenn flokksins, sumir hverjir nokkurs konar sjálfskipaðir heilagir siðferðisvitar þjóðarinnar á undanförnum árum, stíga nú fram hver á fætur öðrum og verja það að Sigríður sitji áfram sem dómsmálaráðherra. Ansi margir flokksmenn Vinstri grænna rifja nú upp orð Drífu Snædal, fyrrverandi framkvæmdastjóra flokksins og lykilmanneskju í uppbyggingu hans, þegar hún sagði sig úr honum vegna stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokk. Drífa sagði óumflýjanlegt að Vinstri græn myndu verða í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin myndu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. „Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi,“ sagði Drífa.
Og þá er ótalinn sá kostnaður sem íslenska ríkið þarf líkast til að leggja út í í beinhörðum peningum vegna ákvörðunar Sigríðar Á. Andersen. Þ.e. greiddar miskabætur og málskostnaður og þær bætur sem niðurstaða Hæstaréttar virðist benda til að Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson eigi mögulega rétt á. Bætur sem gætu hlaupið á hundruðum milljóna króna.
Eftir stendur því spurningin: Hvað má einn ráðherra kosta án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir hann?