Árinu 2016 lauk með látum, árið 2017 hófst með látum; allt sat fast í verkfalli sjómanna. Því lauk vonum seinna og 19. febrúar var skrifað undir kjarasamning sem var samþykktur. Það var þriðji samningurinn sem forsvarsmenn sjómanna undirrituðu. Flotinn fór úr höfn, en skaðinn var skeður. Það er gömul saga og ný, að sjaldan veldur einn þegar tveir deila og fjarri er það mér að kenna einhverjum um, af hverju verkfallið dróst svo á langinn. Skaðann af verkfallinu bera báðir deilendur. Enn er vinna framundan við að ná þeim mörkuðum aftur sem töpuðust og endurheimta orðsporið. Ég hef fulla trú á því að íslenskur sjávarútvegur muni ná fyrri stöðu á erlendum markaði. Án hennar þrífst íslenskur sjávarútvegur varla, atvinnugrein sem svo margir treysta á í einni eða annarri mynd.
Sjávarauðlind getur af sér aðra auðlind
Margar fréttir hafa borist af því undanfarin misseri, að ný skip séu að koma til landsins og einnig af stórhuga framkvæmdum í landvinnslu. Fréttir bárust til dæmis af því í september að fyrirtækið G. Run í Grundarfirði ætli að ráðast í mikla uppbyggingu á landvinnslu, þar sem verður ein fullkomnasta vinnsla landsins. Gerður var stór samningur við Marel um kaup á vélum og annar við Skagann3X á Akranesi um búnað. Í nýju frystiskipi Samherja sem smíðað var í Noregi, eru vinnsludekk meðal annars hönnuð og smíðuð af Slippnum á Akureyri, fiskvinnsluvélar eru meðal annars frá Vélafli á Ólafsfirði og Marel, frystikerfi, búnaður og öll lagnavinna er frá Kælismiðjunni Frost á Akureyri og fiskimjölsverksmiðjan um borð er framleidd af Héðni. Dæmin um hug- og handverk íslenskra iðnfyrirtækja í sjávarútvegi eru miklu fleiri.
Þetta leiðir hugann að merkilegri staðreynd, sem er þó auðskiljanleg. Sjávarútvegur á Íslandi er miklu meira en bara veiðar og vinnsla, þótt sjósóknin sjálf sé grunnurinn. Sjávarútvegur er undirstaða annarrar auðlindar í landi. Starfsemi fjölmargra fyrirtækja víða um land byggist að miklu leyti á sjávarútvegi í einni eða annarri mynd. Sem dæmi má nefna Skagann3x á Akranesi sem hefur tvöfaldast að stærð á undanförnum árum. Sömu sögu er að segja af Völku í Kópavogi. Samhengið á milli stöðu íslensks sjávarútvegs og afkomu fjölmargra iðn- og hugbúnaðarfyrirtækja virðist ekki alltaf vera ljóst, en fylgnin er veruleg. Það á einnig við um mörg fyrirtæki í nýsköpun og líftækni.
Áhersla á umhverfismál
Á undanförnum árum hafa komið ný og fullkomin skip til landsins og framhald verður á, á næstu árum. Ný skip eru búin nýjustu tækni til orkusparnaðar og eru mun hagkvæmari en eldri skip sem hverfa úr flotanum. Þetta er jákvæð þróun á allan hátt, ekki síst út frá umhverfissjónarmiðum. Í nýrri skýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að orkunotkun í sjávarútvegi hefur dregist saman um 43% á tímabilinu 1990 til 2016. Ýmislegt veldur, meðal annars ný skip og tækni. Olíunotkun í sjávarútvegi mun halda áfram að minnka á næstu árum og reikna má með að heildarsamdráttur í olíunotkun sjávarútvegsins muni nema 53% árið 2030, sé miðað við upphafsárið 1990. En svo kallað Parísarsamkomulag miðast við þetta tímabil.
Gjaldtaka fram úr hófi er skaðleg
Til að fyrrgreint markmið náist, er algert skilyrði að sjávarútvegurinn verði í færum til að fjárfesta. Það verður ekki tryggt með óhóflegri skattlagningu. Að sjálfsögðu stendur ekki á sjávarútveginum að leggja til samneyslunnar það sem honum ber, en gjöld langt umfram það sem önnur fyrirtæki í sjávarútvegi, annars staðar í heiminum er gert að greiða, mun til lengri tíma hafa slæmar afleiðingar. Ekki bara fyrir sjávarútveginn heldur langt út fyrir hann, eins og leiða má af því sem að ofan er skrifað. Höfum hugfast að rúmlega 98% af öllum afla fer á alþjóðlegan markað. Þar er víglína íslensks sjávarútvegs, sem mörgum virðist hulin. Án fótfestu á alþjóðlegum markaði er tómt mál að tala um íslenskan sjávarútveg sem undirstöðuatvinnugrein á Íslandi.
Sjávarútvegsfyrirtækjum er gert að greiða veiðigjald. Ýmsum þykir það lágt. Nú er það svo að tekjuskattur fyrirtækja er 20% - einnig sjávarútvegsfyrirtækja. Þegar búið er að bæta veiðigjaldi við þá hafa þessir tveir skattstofnar verið nærri 44% af hagnaði að meðaltali á ári hverju frá 2010. Verði engin breyting gerð á veiðigjaldi á komandi ári, má áætla að tekjuskattur og veiðigjald verði um 58-60% af hagnaði í sjávarútvegi. Það gefur augaleið að svo umfangsmikil gjaldtaka mun hafa skaðleg áhrif. Hún mun draga harkalega úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og hraða verulega samþjöppun. Alþingi verður að átta sig á þessari stöðu og axla ábyrgð.
Sjávarútvegur áfram í fararbroddi
Það er engin ástæða til annars en bera höfuðið hátt og vera stoltur af íslenskum sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er hornsteinn í íslensku efnahagslífi, hann er sjálfbær og umhverfisvænn, hann býður upp á örugg og vel launuð störf, hann er drifkraftur nýsköpunar og tækni og í raun einstakur um margt á heimsvísu. Tækifærin eru óendanleg ef rétt er haldið á spilunum.
Gleðilegt ár og góðar stundir.