Á tiltölulega skömmum tíma hefur tekist að tengja með hugbúnaði/samfélagmiðli saman tvo milljarða manna. Þetta er gert með persónuupplýsingum hvers og eins notanda.
Gert er ráð fyrir að talan verði komin í þrjá milljarða áður en árið er úti, eða sem nemur næstum helmingi mannkyns.
Facebook heitir hugbúnaðurinn/samfélagsmiðillinn.
Stjórnlaus?
Margt bendir til þess að þessi tenging meðal fólks sé orðin gjörsamlega stjórnlaus og að upplýsingastraumurinn, sem líf fólks hrærist í allan daginn út og inn, sé beinlínis byrjaður að grafa undan lýðræðinu.
Fyrrverandi framkvæmdstjóri hjá Facebook,Chamath Palihapitiy, sem stýrði meðal annars notendavexti fyrirtækisins, lét hafa eftir sér á fundi hjá Stanford háskóla á dögunum að Facebook væri beinlínis að „tæta niður samfélagið“. „Þetta snýst ekki um rússneskar auglýsingar. Þetta er alheims vandamál. Þetta er að breyta kjarnanum í því hvernig við hegðum okkur og eigum samskipti,“ sagði Palihapitiy.
Þennan veruleika og upplýsingastraum er auðvelt að misnota. Það þarf ekki endilega djúpa vasa af peningum heldur frekar gott skipulag og góða tækniþekkingu. Uppgangur falskra frétta og vinsældabrölts í stjórnmálum er meðal annars rakinn til þessara hluta.
Margar vísbendingar hafa komið fram um þetta. Má nefna upplýsingar sem komu fram við yfirheyrslur í bandaríska þinginu því til staðfestingar. Þar komu fulltrúar tæknifyrirtækjanna, Facebook, Twitter og Google, fyrir þingnefnd og voru spurðir út í ýmis mál sem snéru að upplýsingaflæði.
Ýtir undir fordóma og falska mynd
Harðasta gagnrýnin hefur beinst að Facebook. Alvarlegasti fylgifiskur þess miðils er að hann ýtir undir fordóma og mistúlkanir, della og rugl flýtur ofan á.
Fólk sér falska mynd af veruleikanum í sínum upplýsingastraumi og í ljósi þess hve yfirgnæfandi Facebook er orðið í lífi fólks þá er þarna orðið til nýtt vopn í stjórnmálum, markaðsstarfi og samfélagslegri umræðu.
Augljóst er að þessi þróun hefur verið of hröð fyrir regluverkið.
Facebook byggir á notkun persónulegra upplýsinga og hagnýtingu þeirra.
Nú hefur tekið gildi ítarlegra regluverk Evrópusambandsins, sem hefur verið lögleitt hér á landi, sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að fara eftir. Það snýr að meðferð persónuupplýsinga. Um mikla breytingu er að ræða og til marks um það hefur hlutverk Persónuverndar verið stóreflt og fyrirtæki og stofnanir vinna nú að því að efla þekkingu sína á þessum breytingum.
Margt bendir til þess að þetta sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum og að það þurfi að ganga mun lengra, til að vernda rétt fólks og koma í veg fyrir misnotkun persónuupplýsinga.
Macron Frakklandsforseti hefur nú boðið lagasetningu gegn fölskum fréttum, og verður forvitnilegt að sjá hvernig hún verður útfærð. Eflaust munu spjótin beinast að Facebook.
Hrein samviska?
Á Íslandi hafa stjórnmálamenn einnig rætt rannsókn á útbreiðslu falskra frétta og áróðurs í aðdraganda kosninganna í október, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kallaði eftir rannsókn á þessum hlutum á dögunum.
Full þörf er á því að taka þetta alvarlega og fara í gegnum hlutina nákvæmlega. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir stjórnmálaflokkanna að leggja öll spilin á borðið, gefa upp hverjir það voru sem unnu fyrir flokkanna í þessum málum.
Sé mið tekið af því hvernig umfjöllunin birtist, meðal annars dæmalaus dellu- og níðumfjöllun um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn vafalítið ekki hreina samvisku í þessum málum.
Fjölmiðlar, á Íslandi eins og annars staðar, vita vel hversu mikil áhrif Facebook hefur á gang samfélagsumræðunnar. Það verður að sjá til þess með lögum og reglum að þessi hugbúnaður verði ekki uppspretta svika, rugls og dellu, þó erfitt sé að tryggja misnotkunina alveg. Þessi nýju vopn eru hættuleg og við þurfum að passa okkur á þeim, eins og aðrar þjóðir eru nú byrjaðar að ræða af mikilli alvöru.