Mig minnir að ég hafi verið nítján ára þegar við Jón bóndi kynntumst á bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda. Hann var einn þeirra, hafði gefið út Grænlendingasögur og sitthvað fleira, þá orðinn bóndi með lagerinn geymdan í bílskúr þangað sem var innangengt úr þvottahúsinu en hafði áður verið blaðamaður og ritstjóri Fálkans. Þessi fyrrum ritstjóri og nú bókaútgefandi í hjástörfum með búskapnum, alveg að skríða inn á sjötugsaldurinn, var pokadýr hjá mér, nítján ára sígeispandi kassadömunni á bókamarkaðnum.
Við Jón urðum perluvinir á mettíma. Raunar svo góðir að þegar bókamarkaðnum lauk bauð hann mér að gerast ráðskona hjá sér á bóndabænum í Reykhólasveit. Og það varð úr. Ég pakkaði niður helstu nauðsynjum: Ævisögu Ástu Sigurðardóttur, smásögum Ástu Sigurðardóttur, nærbuxum og tannbursta.
Sauðadrukkin á taxa
Ásta átti stóran þátt í þessum óvænta vinskap okkar Jóns bónda. Hann hafði þekkt hana og djammað með henni þegar hann var spengilegur ritstjóri í Reykjavík-city og hin nítján ára ég hefði ekki getað orðið meira upp með mér að þekkja gamlan djammvin Ástu. Þau höfðu rúntað saman um bæinn í leigubíl þegar þeim leiddist... og bara, sögurnar!
Jón þreyttist ekki á að segja ráðskonu sinni sögur af Ástu og Jökli Jakobs og öllu þessu liði sem toppaði fljótt öll þau æsilegu atvik sem undirrituð hafði upplifað á Kaffibarnum. Þarna sátum við í vornóttinni og síðan sumarnóttinni og drukkum sveitakaffi með vörubílstjórum sem bönkuðu upp á til að fá bensín því Jón seldi bensín og lottómiða með Grænlendingasögunum. Vörubílstjórunum fannst nú heldur ekki amalegt að heyra um Ástu og Jökul og hvað það hefði nú verið gaman þegar þau rúlluðu öll sauðdrukkin á taxa upp í Heiðmörk.
Minn helsti og raunar eini starfi þarna var að baka sandkökur ofan í vörubílstjórana, nokkuð sem ég hélt langar ræður yfir Jóni bónda um að væri engan veginn samboðið nítján ára femínista og píndi hann til að lesa Fay Weldon, vita samviskulaus, þegar ég sá hann hengja upp þvottinn af mér, nývöknuð í eftirmiðdaginn.
Það urðu fljótlega hlutverkaskipti hjá ráðskonu og bónda þessum. Ráðskonan þurfti frið til að skrifa háfleygar smásögur þegar síðasti vörubílstjórinn hvarf út í nóttina sem þýddi að hún áskildi sér rétt til að sofa fram yfir hádegi. Og bóndinn var nógu mikill bóhem til að virða það eftir allt volkið með löngu dánum skáldavinum sínum. Varfærinn sagði hann henni að slaka á, horfa á ensku knattspyrnuna með heimalningnum og gæða sér á sandköku – sem hann var farinn að baksast við að baka sjálfur.
Á Netflix-tímum
Nú veit ég ekki hvort hann Jón vinur minn er lifandi eða dáinn. Mér varð hugsað til hans í eftiröldum jólabókaflóðsins, stuttu eftir að hafa flissað djúpt ofan í innstu iðrum líkamans að Dóra DNA, skábróður mínum, skýla sér fyrir bókalögreglunni (Bergi Ebba og Eddu Björgvins) sem öskraði á hann fyrir að taka Netflix fram yfir Steinunni Sigurðar og Sjón. Sketsinn var svo innilega fyndinn því hann var svo sannur... óþægilegur. Sérstaklega fyrir rithöfund. Þarna voru þau að gera grín að mínu innsta og höfðu, í þokkabót, innistæðu fyrir gríninu. Þessi jólin var oftar en ekki átakanlegt að hitta fólk úr bókabransanum: kollega og ýmsa þá sem vinna við útgáfu bóka.
Það var kvartað undan því að vitræn umræða um bækur væri að dragast saman með hverju árinu sem líður. Auðvitað er Kiljan á dagskrá ríkissjónvarpsins og líka fjallað um bókmenntir í útvarpinu en fátt um fína drætti í öðrum fjölmiðlum. Síðustu vikurnar fyrir jólin birtast reglulega dómar um einhverjar bækur í blöðunum, meira eins og af skyldurækni en gleði, en lítið umfram það. Umræðan um bókmenntir er álíka fátækleg og tanngarðurinn í áðurnefndum vörubílstjórum.
Draumkennd útópía um umræðu
Í ár áttu tveir þjóðþekktir karlar jólamarkaðinn, svo að segja, og allt gott um þá að segja. Bækur byggðar á ævi þekkts fólks fengu líka athygli og það verðskuldaða. En það breytir því ekki að umræða um skáldverk, þar sem þau eru sett í samhengi við hugmyndastrauma, samfélag og heimsmál, er af skornum skammti. Tætingsleg, tilviljanakennd, hröð, stundum engin.
Ef maður reynir að ræða menningarefni við forkólfa blaða- og netmiðla eru margir hverjir fljótir að hrökkva í vörn og bera fyrir sig hinar ýmsu löggildu útskýringar á því hversu oft er illa staðið að slíku efni. Einhver sagði við mig um daginn að það væri í tísku hjá fólki eins og mér að flagga einhverri draumkenndri útópíu um hvernig þetta ætti að vera. Þetta væri jú liðin tíð. Að kryfja hugverk í opinberum díalóg.
Ný lögmál, nýr heimur
Kannski, hvað veit ég!
En ég reyndi að hugga hnuggna skáldavini mína sem voru að gefa út fyrir jólin. Sumir þeirra farnir að trúa því að bókin þeirra hefði verið ímyndun ein. Ég peppaði líka aðra vini – og í leiðinni sjálfa mig – sem veigra sér við að gefa út í öðru eins árferði.
Fyrir tíu eða fimmtán árum var miklu meira stuð að gefa út bók, þá var áræðin lifandi bókaumræða í ýmsum miðlum, tekist á um hugmyndir og fagurfræði eins og hverja aðra pólitík og smekkur á skáldum hér í bæ jaðraði við að vera flokksskírteini í stjórnmálaflokki.
Það er af sem áður var, segi ég nú bara og hræri í gamaldags sandköku. Stappfull af minningum um skáldarómantík unglinga og sauðfjárbændur á fylleríum með íðilfögrum skáldkonum. Afsprengi samfélags sem er sennilega ekki lengur til, eins og ég sé ímyndun sjálfrar mín. Kvarta á kjarnyrtu máli, pikkföst í rómantískri dillu, meðan ég bíð þess að Dóri DNA búi til brandara um hina mjög svo beisku frænku sína.
Gleymdu þessu! segir einhver. Þú hefur ekkert í nýja tækni og nýjar kynslóðir, sættu þig bara við það. Þetta er breyttur heimur! Og hann verður aldrei aftur sá sem hann var. Fjölmiðarnir eru öðruvísi, lögmálin önnur. Dísúss, sennilega er það rétt. Ég eldist í heimi sem yngist. Mig svimar.
Beta frænka á sósíalnum
En! Einu sinni sátum við Jón bóndi í sumarnóttinni og hann sagði mér frá Ástu Sigurðardóttur og ég sagði honum frá Fay Weldon og við reyktum fullt af filterslausum kamel og ég var hreykin af því að sýna fólki að það væri bókabúð í bílskúrnum hans, þó að það þyrfti að berjast við þvottabala og heimalning á leiðinni þangað. Að hann vinur minn hefði upp á eigið eindæmi gefið út Grænlendingasögur – af því að það var einhvers virði. Að ég væri að skrifa háfleygar smásögur. Að þetta væri eitthvað, öll þessi skrifuðu orð og öll samtölin okkar og vörubílstjóranna um þau.
Bílstjórunum fannst svo gaman þegar ég sagði þeim frá Sue Townsend og bókinni The Queen and I þegar drottningarfjölskyldan var flæmd frá völdum og sett á sósíalinn þar sem þau fengu úthlutað melrósiste og marmelaði. Þeir hlógu svo skein í kökumylsnuna í tannlausum gómum og kölluðu drottninguna elsku Betu frænku og við skeggræddum breska heimsveldið og allt milli himins og jarðar því það að spinna hrútavitleysu upp úr góðri bók er með betri tómstundaiðjum. En það var þá. Og ég er að verða gömul. Eins og Jón bóndi var þá. Bráðum get ég sagt sögur. Af fylleríum með hinum ýmsu lífsdrukknu skáldum. Hver nennir að hlusta?