Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór mikinn í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun. Þar sagði hann að ástæða þess að síðasta ríkisstjórn hafi sprungið hafi verið garg og atgangur „út af litlu“. Hann sagði það „út í hött“ að þess sé krafist að dómsmálaráðherra segi af sér fyrir að hafa brotið lög. Og hann sagði að sífelldar heimtingar um afsagnir, þingrof eða nýjar kosningar „út af engu“ sé „örugglega sú ástæða sem stök er mesta skýringin á þessu vantrausti sem almenningur ber til stjórnmálanna.“
Þetta er í takti við það sem formaður flokks Páls, Bjarni Benediktsson, sagði eftir síðustu þingkosningar. Þá ákvað hann að kenna fjölmiðlum, að minnsta kosti að hluta, um hversu slæm orðræðan á Íslandi væri orðin vegna þess að þeir „elski skandala“.
Þessi skoðun mannanna tveggja er nokkuð almenn í þeirra kreðsum. Að vandamálin sem eru til staðar í íslenskum stjórnmálum séu ekki þeim að kenna sem taka ólöglegar ákvarðanir, koma sér í stanslausa hagsmunaárekstra, sýna af sér leyndarhyggju með því að standa í vegi fyrir aðgengi almennings að réttmætum upplýsingum sem skipta hann máli eða hegða sér á hátt sem mjög auðvelt er að skilgreina með rökum sem misnotkun á valdi.
Ég er ekki vandamálið, þú ert vandamálið
Það séu hinir, þeir sem bendi á vandamálin, sem beri sökina. Fjölmiðlar sem upplýsa og sýna pólitískt aðhald með löglegum og eðlilegum fréttaflutningi af ákvörðunum og hegðun þeirra sem fara með valdið í samfélaginu.
Stjórnarandstöðuþingmenn fyrir að skilja ekki hvernig samspil viðskipta, stjórnmála og valds eigi að virka og sætta sig ekki við það.
Allir sem telja að það sé eðlilegt að athöfnum fylgi afleiðingar og að stjórnmálamenn eigi að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir verða uppvísir að því að fremja stórkostleg afglöp í stjórnsýsluathöfnum sínum.
Hið eðlilega „garg“
Það er fjarstæðukennt að kalla það „garg“, „pólitískan hávaða“ eða „skrípaleik“ að það sé verið að fara betur ofan í þá ákvörðun dómsmálaráðherra að skipa dómara í Landsrétt með ólögmætum hætti, og þá ákvörðun Alþingis að samþykkja þá ólögmætu aðgerð þrátt fyrir að hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hafi varað sérstaklega við því að dómaraskipanin stæðist ekki stjórnsýslulög.
Afleiðingarnar af hinni ólögmætu aðgerð ráðherrans eru margþættar. Í fyrsta lagi hafa þær dregið úr trausti á stjórnmál, þar sem dómsmálaráðherra setti ekki fram fagleg rök fyrir því að fjarlægja fjóra menn sem dómnefnd taldi á meðal 15 hæfustu, og setja fjóra aðra sem nefndin taldi ekki jafn hæfa í staðinn. Það þýðir einfaldlega að um gerræðislega ákvörðun var að ræða.
Í öðru lagi hefur ákvörðun ráðherrans dregið úr trausti á hið nýja millidómsstig, Landsrétt. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er til að mynda fyrirliggjandi að í nánustu framtíð verður reynt á lögmæti úrskurða réttarins í ljósi þess að hann var skipaður með ólögmætum hætti.
Í þriðja lagi mun ákvörðun dómsmálaráðherra kosta íslenska skattgreiðendur mjög háar upphæðir. Tveir þeirra sem teknir voru af lista dómnefndar hafa ákveðið að stefna íslenska ríkinu og krefjast skaðabóta. Augljóst er að þeir geta sýnt fram á fjártjón, sem hleypur á tugum milljóna króna hið minnsta.
Þegar allt ofangreint er talið saman er ekki sérstaklega málefnalegt að kalla það „garg“ eða „skrípaleik“ að það eigi sér stað ítarleg umræða og umfjöllun um atferli ráðherrans og afgreiðslu Alþingis á skipan í Landsrétt, sem er í andstöðu við dómstólalög. Og það er ekki hægt að kalla eftir yfirvegaðri umræðu til að auka traust á stjórnmál eina stundina en öskra svo bara „pólitískur hávaði“ þá næstu þegar sú skoðun er sett fram að eðlilegt sé í lýðræðisríki að þeir sem fari með vald séu látnir axla ábyrgð þegar þeir misfara með það.
Traust þarf að ávinna sér
Það er ekki hægt að panta traust. Það verður að vinna fyrir því. Líkt og rakið var nýverið á þessum vettvangi þá telja sjö af hverjum tíu Íslendingum að spilling sé til staðar í íslenskum stjórnmálum og mun fleiri Íslendingar telja að það sé mikilvægt að hafa stjórnmálatengingar til að komast áfram í lífinu en þeir sem búa í nágrannaríkjum okkar.
Þessi staða er ekki til komin vegna þess að fjölmiðlar séu svo óskammfeilnir og óheiðarlegir. Hún er ekki til komin vegna þess að stjórnarandstaðan „gargar“ svo mikið. Nei, hún er til komin vegna þess að ákvarðanir og athafnir ráðamanna hafa verið þess eðlis að almenningur treystir því ekki að þeir séu heiðarlegir.
Þetta traust er beintengt við einstaklinganna sem stjórna. Sviptingar síðustu ára hafa sýnt það að þegar mjög umdeildir menn, sem legið hafa undir ámæli fyrir fyrirgreiðslu, sérhagsmunagæslu, hagsmunaárekstra og misbeitingu valds hafa stigið úr valdastöðum og aðrir sem eru ekki með slíkan farangur sest í þeirra stað þá hefur traust almennings rokið upp. Þegar umdeildur og pólitískur forseti sem setið hafði í 20 ár lét af embætti og nýr, að allt öðru meiði, tók við embættinu jókst ánægja með störf forseta um 20 prósentustig. Þegar ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur tók við af ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fór stuðningur við ríkisstjórnina á meðal almennings úr um 25 prósent í 67 prósent. Við blasir að sjö af hverjum tíu landsmönnum eru ekki að öllu leyti sammála Katrínu í pólitík. Þá væri flokkur hennar með mun meira fylgi. En almenningur virðist treysta því að hún sé heiðarleg og ærleg. Þess vegna nær traust á henni sem leiðtoga langt út fyrir Vinstri græna.
Pólitíska menningin er vandamálið
Það er líka hægt að tapa trausti. Og það er hægt að gera það hratt. Til dæmis er hægt að gera það með því að segja mörg orð án þess að þau hafi neina sérstaka merkingu þegar þeim er raðað í setningar. Það er sú aðferð sem Katrín Jakobsdóttir hefur notað til að takast á við Landsréttarmálið og kröfur um afsögn Sigríðar Á. Andersen.
Hún hefur sagt að það eigi að taka niðurstöðu Hæstaréttar „alvarlega“ en ekkert útskýrt hvað það þýðir, að öðru leyti en að í þeim alvarleika felist ekki krafa um afsögn dómsmálaráðherra. Hún hefur sagt að ráðherrar séu ekki hafnir yfir lög og að Hæstiréttur eigi að vera endir allra þræta, án þess að gera nokkra athugasemd við það að dómsmálaráðherra situr áfram í ljósi þess að hún segist einfaldlega vera ósammála dómi Hæstaréttar.
Katrín hefur sagt að það sé ekki hluti af pólitískri menningu á Íslandi að ráðherrar segi af sér, og notað það sem rökstuðning í málsvörn sinni fyrir Sigríði Á. Andersen. En við blasir að sú pólitíska menning er nákvæmlega vandamálið sem dregur úr trausti á stjórnmál. Menning sem landsmenn telja að sé hlaðin spillingu, fyrirgreiðslu, hagsmunaárekstrum og valdníðslu. Það er ekki tilfinning að svo sé, heldur sýna kannanir það ítrekað.
Þeir sem segja frá aðstæðum sem orka tvímælis orsaka ekki vantraust. Það eru þeir sem skapa þær aðstæður sem eru vandamálið. Og þeir sem sýna meðvirkni gagnvart aðstæðunum eða kjósa að þegja. Og verða þannig hluti af vandamálinu, ekki lausninni.