Fyrir rúmum áratug sat ég ásamt fyrrverandi eiginmanni mínum á norrænni bjórkynningu í Kristjaníu. Okkur var farið að lengja eftir dönskum vini sem ætlaði að hitta okkur.. Búlduleitur Finni fór ljóðrænum orðum um blæbrigði bragða hins norræna bjórs en minn ex var eirðarlaus og sendi sms til að reka á eftir vininum. Loks sendi vinurinn skilaboð, góðlátlega kaldhæðinn að vanda: Held ég beili. Innflytjandi af annarri kynslóð er genginn af göflunum þarna með hríðskotabyssu!
Samtímis heyrðist þyrluhvinur og sírenur þögguðu niður í hinum bjórelska Finna. Við fengum hraða lögreglufylgd út úr fyrrum hippanýlendunni en þar höfðu menn vopnaðir hríðskotarifflum arkað inn um aðalinnganginn og hafið skotárás í átökum um eiturlyfjamarkaðinn.
Augnablikið var táknrænt fyrir stemmarann í Köben þá. Allar þessar yfirlætislegu samnorrænu uppákomur, sem maður rambaði inn á sem Íslendingur, í bland við spennuþrungið andrúmsloftið í Kristjaníu og á Norðurbrú. Norðurbrú er eitt skemmtilegasta hverfið í borginni en samt veigruðu einhverjir sér við að fara í ákveðnar götur á kvöldin þar sem exótísk glæpagengi unglingsstráka og mótorhjólagengi höfðu átt í byssubardögum eftir að hasssalan var bönnuð í Kristjaníu.
Normalísering hatursorðræðu
Umræðan um átök dópsölumanna átti til að renna saman við umræðu um mótmælin gegn skopmyndunum af spámanninum Múhameð og annað ótengt svo í meðvitund samfélagsins varð til ímynduð innflytjendagrýla sem reykti stöðugt hass um leið og hún fordæmdi tjáningarfrelsið og sprengdi strætisvagna.
Dönsk samfélagsumræða var þó, þá sem fyrr, oft skemmtilega kaldhæðin og djörf, í anda húmors vinar okkar. En kaldhæðnin varð ekki til þess fallin að grynnka á spennunni í samfélaginu – sem pólaríseraðist þegar verst lét í háðsglósum meinfyndinna menningarpostula og hvatvísum upphrópunum viðkvæms flóttafólks í stöðugri vörn.
Tilfinningaþrungin umræða í bland við æsifréttamennsku ýtti undir ótta fólks við að sitja í almenningsfarartæki ásamt manneskju sem leit út fyrir að uppfylla steríótýpíska hugmynd um múslima frekar en hugmyndina um hreinræktaðan Dana í sjötta lið. Niðrandi orðræða í garð innflytjenda og flóttafólks var orðin útbreidd, eins og hún fengi andrými til að normalíserast.
Íslenskur innflytjandi
Sjálf átti ég til að upplifa mig sem fyrrum nýlendubúa eða svokallaðaðan isperker. Ég hef búið í fjórum erlendum löndum en aldrei fundið eins oft fyrir því í daglega lífinu að vera aðgreind annars flokks sem innflytjandi og hjá dönsku frændþjóðinni – þó að ég væri að gefa út skáldsögur þar og ætti góða danska vini og kollega. Það var skrýtin lífsreynsla að finna að hreimurinn minn fékk fólk á förnum vegi til að ákveða hvernig ég væri.
Maður fann því til samlíðunar með þeim sem upplifðu sig fórnarlömb menningarlegrar mismununar á einhvern hátt. Og í þessu andrúmslofti átti það helst við múslima.
Síðan þá hafa fordómar gagnvart múslimum orðið æ fyrirferðarmeiri og ótti Vesturlandabúa við hryðjuverkaárásir hefur vaxið og tekið á sig ýmsar birtingarmyndir. Á þessum tíma hef ég átt heima í hverfum þar sem búa fjölmargir múslimar, bæði í Barcelona og Berlín, og allt þetta fólk er stöðug áminning um að múslimar, með allan sinn innbyrðis ólíka bakgrunn, eru upp til hópa, eins og fólk yfirleitt, einlægir í ásetningnum að fá hversdagslífið til að fúnkera – og að menningarlegur ágreiningur er óhjákvæmilegur en eðlilegur fylgifiskur fjölmenningar. Ef allar þessar milljónir manna og kvenna aðhylltust eins öfgafullar hugmyndir og sumir ætla þeim, þá hefði tölfræðilega verið hægðarleikur að margsprengja Evrópu í tætlur síðustu árin.
Tilbeiðsla tölvuleikja eða íslam
Ég óttast ekki múslima frekar en aðra, aftur á móti þekki ég óttann við árásir vitfirringa almennt. Um daginn heyrði ég skell í Kringlunni. Ef ég hefði heyrt skellinn í verslunarmiðstöð í vinsælu hverfi í Berlín hefðu fyrstu viðbrögðin verið að leita útgönguleiðar.
Fréttaflutningur vestrænna miðla síðustu árin hefur fætt af sér þá skrumskældu mynd að hryðjuverk pólitískra bókstafstrúarmanna séu daglegt brauð. En hverju ódæði eru gerð slík skil að þau skilja eftir sig ranghugmyndir eins og eftir pöntun ódæðismanna. Það sér ekki fyrir endann á þeim og eitthvað hræðilegt gæti gerst á morgun, hvar sem er – en þau eru samt ekki algeng í stóra samhenginu. Oftar en ekki er ódæðismaðurinn vitfirrtur einfari, hvort sem hann aðhyllist íslam eða tilbiður tölvuleiki eins og Breivik. Nú er rúmt ár síðan vörubíll keyrði inn á jólamarkað skammt frá hverfinu þar sem ég bjó í Berlín. Um svipað leyti gekk vinur minn yfir torgið og tvær íslenskar vinkonur hjóluðu framhjá. Sjálf hafði ég komið við þarna skömmu áður og leitt hugann að því að staðsetningin væri táknrænt skotmark við hlið Kaiser-Wilhelm Gedächtniskirche sem var sprengd í seinni heimsstyrjöldinni en látin standa til áminningar um fánýti stríðs.
Þannig var ég farin að hugsa en spornaði gegn óttanum með því að láta hann ekki ráða för. Ef ég fór með barninu mínu í mannþröng í verslunarmiðstöð eða lest fann ég, þegar síst varði, fyrir meðvitund um árás vitfirrings. Óttinn var ekki rökréttur. En raunverulegur. Ég skynjaði það við að flytja aftur til Íslands, þá hvarf innilokunarkenndin sem var farin að elta mig inn í mannþröng á vinsælum stöðum. En auðvitað eru líka vitfirringar á Íslandi sem geta framið ódæði…
Hermenn að undirbúa hryðjuverk
Nú má ekki gera lítið úr hættu á hryðjuverkum og leyniþjónustur hafa komið í veg fyrir mörg. Í borg eins og Berlín er spennan stundum áþreifanleg, eins og þegar brynvarðar lögreglur hlupu okkur mæðginin nánast niður við leit að grunuðum hryðjuverkamanni, stuttu eftir að maður, grunaður um að leggja á ráðin um hryðjuverk, hafði verið handtekinn í stigagangi vina okkar.
Nokkru áður hafði ég fengið hræðilega 7-evru klippingu á Cutman á aðalgötunni í hverfinu og síðar orðið vitni að því þegar tugir lögreglumanna þyrptust þangað inn til að handtaka einn klipparann. Borgar sig ekki að láta öfgamann klippa sig – skrifaði vinur minn á facebook-vegginn minn.
Í Barcelona reyndi ellilífeyrisþegi í næstu götu við heimili mitt að sprengja neðanjarðarlestina – vænsti karl og góður afi, sagði apótekarinn þar steinhissa. Kolbrún Bergþórs var nálæg slíkri árás í sömu borg um daginn og aðrir vinir mínir hafa verið í næsta nágrenni við hryðjuverkaárásir. En vitfirringarnir eru víða og allskonar, í Þýskalandi komst nýlega upp um hermenn sem ætluðu að fremja hryðjuverk til þess eins að koma sökinni á múslima.
Ofbeldi orðanna
Vitfirringar fremja ódæði og yfirvöld rembast við að koma vörnum við. En á sama tíma er áskorun að láta ekki óttann villa sér sýn og búa til grýlur úr saklausu fólki. Þessi ótti gýs upp í hvert skipti sem við heyrum af gölnum einfara í Evrópu sem gengur af göflunum. Þessi ótti ræðst með orðum og fordómum – ofbeldi – á saklaust fólk. Það er ekki spurning um hvort það verði bráðum annað hryðjuverk eða hvort Íslendingar verði þar nálægt. Það verður. Stóra spurningin er: Hvernig eru viðbrögð okkar við hryðjuverki?
Enginn á skilið að vera dæmdur á öðrum forsendum en eigin orðum og gerðum. Íslenskur innflytjandi í Köben á ekki skilið að vera uppnefndur isperker. Ungur maður ættaður frá … til dæmis Íran á ekki skilið að vera uppnefndur perker – eða hryðjuverkamaður. Ótti okkar við ofbeldi afsakar ekki ofbeldi gagnvart saklausu fólki.