Hann var um sextugt, karlinn sem sleikti sólina í dyragættinni á karlakaffihúsinu undir skilti þar sem stóð á tyrknesku: Endastöðin.
Ég bauð góðan daginn þar sem ég silaðist kengbogin framhjá að kenna syni mínum að hjóla. Karlinn ljómaði og bað okkur að bíða og skrapp svo inn. Síðan sneri hann aftur með súkkulaði handa syni mínum og spurði hvort það mætti bjóða okkur inn. Ég var forvitin en vildi ekki bjóða syni mínum upp á að anda að sér reykmettuðu loftinu svo ég afþakkaði og við héldum áfram ferðinni með súkkulaðið sem bráðnaði undir eins. Seinna um daginn skrifaði ég á facebook að mér hefði boðist að fara inn á alvöru karlakaffihús og að rithöfundinn í mér hefði blóðlangað en konan í mér hikað við það.
Þiggðu boðið! skrifaði vinkona sem hafði áður átt heima við sömu götu í Berlín. Ég var einu sinni læst úti og fékk að hringja þarna og þetta eru yndislegir karlar.
Mér leið svolítið aulalega við að lesa þetta og hét því að þiggja boðið ef það gæfist aftur.
Atlaga karlsins
Nokkru síðar fór ég út að hlaupa og var að setja upp heyrnartólin þegar karlinn steig út í dyragættina og bauð mér að kíkja inn. Og ég þáði boðið.
Þarna inni sátu þrír eða fjórir yngri menn að spila. Karlinn bauð mér sæti við borð og náði í kaffi, ekki mokkakafi í silfurbolla – eins og ég hafði gert mér hugarlund – heldur volgt instant-kaffi. Síðan settist hann og fór að segja mér frá ódáminum syni sínum sem gæti aldrei gert neitt rétt en um leið strauk hann mér upp lærið og meðfram mjöðminni.
Þá gerðist það skrýtna. Að ég stirðnaði og það eina sem komst að var að vera ekki ókurteis, að standa upp án þess að hann tæki því sem móðgun, svona líka ákafur að trúa mér fyrir vandamálunum út af syni sínum. Ég hef oft hugsað um þessi viðbrögð, gáttuð á ruglinu í mér.
Káfið hélt áfram meðan ég reyndi að tauta eitthvað í afsökunarskyni en um leið stigu mennirnir upp frá spilunum og kvöddu karlinn sem reis á fætur, dró fyrir gluggann og var í þá mund að loka dyrunum á eftir þeim þegar ég gerði mig líklega til að fara út á eftir mönnunum.
Þá stökk karlinn á mig og slefblautar varir hans klíndust um andlit mitt og ég rembdist við að ýta honum frá mér – og með yfirnáttúrulegum krafti tókst mér að slíta mig lausa og ég rauk út og hljóp af stað.
Ég hentist blint áfram með Lady Gaga í botni og hjartað líka meðan hugurinn hamaðist við að búa til gamansögu úr atburðinum. Ég man reyndar að það var eins og hugurinn væri spíttaður, að hugsanirnar væru of hraðar fyrir hugann og það var sérstaklega óþægileg tilfinning.
Um stund hljóp ég í ráðvillu en kom loks heim þar sem ég hitti minn þáverandi eiginmann og stjúpdóttur og sagði þeim hraðmælt í léttum dúr frá asnaskapnum að hafa farið þarna inn beint upp í fangið á karlfauski úr frumstæðu fjallaþorpi sem hlyti að hafa farið á mis við lágmarks uppfræðslu um heilbrigð samskipti kynjanna.
Viðbrögð mín voru að búa til kaldhæðnislega fordómaþrungna brandara um karlinn og um leið fjölmenningarsinnann mig að hafa toppað sjálfa sig í traustinu að fara þarna inn og bara, eitthvað bull. Mér fannst þetta heitt efni í skáldsögu og hristi þetta af ör af mér, upptendruð af því vinna sögu úr því.
Mótsagnakennd viðbrögð
Einhverju sinni gengum við hjónin fram hjá kaffihúsinu og eiginmaðurinn sendi karlinum illilega ógnandi augnaráð, mátulega mafíósalegur, því það loddu einhverjir grunsamlega nýríkir náungar við kaffihúsið sem parkeruðu lúxuskerrunum alltaf upp á stétt, mér og hjólandi syni mínum til trafala.
Viðbrögð mín voru að snöggreiðast mínum fyrrverandi um leið og ég fann til skrýtinnar samlíðunar með karlinum að húka þarna, einn gegn okkur tveimur.
Mér varð hugsað til þessa í matarboði í Reykjavík um daginn þar sem vinkona mín var að tala um mótsagnakennd viðbrögð í aðstæðum sem þessum, hvernig hún hefði fundið til samúðar með samstarfsmanni á stofnun hér í bæ sem hafði margsinnis áreitt hana en hún ekki viljað kvarta undan honum, þó að henni fyndist návist hans óþægileg.
Ég lét mig nefnilega hafa það að heilsa karlinum fyrst í stað og jafnvel brosa, ef hann vék ekki af stéttinni og ég átti ein leið framhjá.
Fáránleg hegðun
Síðan fóru svo skrýtnir hlutir að gerast að þeir hefðu orðið fínn efniviður í skáldsögu. Gallinn var bara sá að ég átti í erfiðleikum með að umbreyta þeim í eitthvað annað en líðan mína – sem varð æ furðulegri.
Kaffihúsið var staðsett sömu megin götunnar og húsið sem ég bjó í, aðeins örfáum skrefum frá útidyrunum. Ég var vön að vinna ein heima á daginn og fara út að fá mér snarl í hádeginu en allt í einu fór ég að veigra mér við að fara út til þess. Mér fannst svo óþægilegt að þurfa að labba framhjá kaffihúsinu þar sem karlinn húkti vanalega í dyrunum.
Einn daginn rankaði ég við mér í hnipri á milli tveggja kyrrstæðra bíla við umferðargötuna fyrir framan húsið. Þá hafði ég stigið út, séð karlinn og brugðið svo að ég henti mér á milli bílanna og grúfði mig niður meðan ég beið þess í hjartsláttarkasti að hann færi aftur inn.
Þessi skringilega hegðun ágerðist; ég faldi mig ítrekað eins og hrædd mús á milli þess sem ég skrifaði stórkarlalega pistla í fjölmiðla á Íslandi og þóttist ekki hræðast neitt. Ég tók upp á því að hjóla út á kaffihús eða labba stóran hring til þurfa ekki að fara þarna framhjá. En ég náði botninum daginn sem ég hljóp með son minn skelfingu lostin fyrir hraða traffíkina á götunni til þess að þurfa ekki að labba út götuna að gangbrautinni.
Barnamorð og sprenging
Á þessu tímabili gerðist það að tveir litlir drengir á aldur við son minn hurfu með stuttu millibili. Þeir höfðu verið pyntaðir hræðilega og myrtir af piparsveini í móðurhúsum. Það var erfitt að leiða þetta hjá sér, sama hvað ég reyndi, því forsíður gulu pressunnar eru auglýstar í hverri blaðasjoppu og varla hægt að komast hjá því að sjá vísanir í hrikalegan glæpinn og horfa í augun á þessum litlu drengjum.
Einhvern veginn náði þetta tvennt að eyðileggja borgina fyrir mér. Ég hugsaði ekki rökrétt, á tímabili var ég stöðugt hrædd við fáránlega hluti og andvaka af streitu við tilhugsunina um allt sem gæti komið fyrir son minn í næsta nágrenni.
Til að toppa þetta allt saman sprengdi nágranni í blokk á móti heimili mínu sig í loft upp um miðja nótt og tók næstu íbúðir með sér í sprengingunni. Svart gapið inn í blokkina blasti við með brotnum gluggum lengi á eftir, beint andspænis skrifborðinu þar sem ég sat, með stigvaxandi þráhyggju, og skrifaði.
Vinkonur hefðu feisað karlinn
Ég sagði engum frá líðan minni því ég áttaði mig ekki á henni sjálf. Ég hafði búið til gamansögu um atvikið með karlinum sem þótti fyndin í matarboðum og það var ekki fyrr en systir mín kom í heimsókn frá Íslandi að ég viðurkenndi fyrir henni hvernig mér liði og hún tengdi það við atvikið á Endastöðinni – sem hún kallaði Alheimskarlrembukaffihúsið. Ég hafði smættað atvikið, farið ítrekað yfir það í huganum og fundist það lítilvægt miðað við hvað hefði getað gerst, það eina sem ég skildi ekki voru þessi öfgafullu viðbrögð mín. Mér fannst ég ekki hafa stjórn á neinu lengur og ég var hætt að vilja gera nokkuð á kvöldin nema fara helst klukkan hálf níu í rúmið og kúra þar í öryggi ein með syni mínum.
Í sumar flutti ég óvænt frá Berlín til Reykjavíkur þar sem ég er nú búin að vera í átta mánuði og á þeim tíma, í miðri metoo-byltingu, hef ég náð að sjá hversu skrýtið tímabil þetta var. Svo skrýtið að ég skil varla ennþá hvað gerðist.
Hér eru mínar gömlu góðu lífsreyndu vinkonur sem hefðu verið eldsnöggar að feisa þennan karl hefðu þær verið innan seilingar og ég er svo þakklát fyrir að vera nálægt þeim því sumt getur kona bara rætt við vinkonur sínar til að staðfesta eigin órökréttu en þó raunverulegu upplifun.
Kona í karlabúningi
Það versta við þetta allt er að innst inni hélt ég að enginn myndi gera svona við mig. Ég hafði lent í óþægilegum atvikum á yngri árum og skrifað þau fordómafull á æskuna eins og það væru bara yngri, reynslulausar konur sem lentu í svona. Ég hafði árum saman upplifað mig sem rithöfund frekar en konu eins klikkað og það kann að hljóma; rithöfund í karlkyni í fagheimi sem hefði roð við hvaða karlmanni sem væri og gæti svarað fullum hálsi.
Ef ég lenti í skrýtnu atviki hristi ég það af mér, ef einhver sagði eitthvað óviðeigandi við mig þóttist ég ekki vera týpan sem kippti sér upp við það. Mér fannst ég ekki vera lengur týpan sem væri hægt að beita ofbeldi – eins hrokafullt og það hljómar – og leit frekar framhjá því en að gangast við því að ég væri úr sama efni og aðrir. Ég get ekki alveg útskýrt þetta, það var eins og árum saman hefði ég ekki viljað kvengera mig nema bara sem móður með syni mínum. Og svo rankaði ég þarna við mér, svínbeygð bak við bíl út af slefandi karlfugli á einu af karlrembukaffihúsum heimsins.
En þetta atvik lifir ekki með mér lengur, það er farið úr kerfinu, aðeins undarleg minning og uppspretta í forvitnilegar vangaveltur, sérstaklega þegar ég les karla nota mótsagnakennd viðbrögð kvenna við kynferðislegri áreitni gegn þeim. Því það er einmitt það sem viðbrögðin eru, mótsagnakennd. Þau meika engan sens því kynferðisleg áreitni meikar engan sens. Einkennileg hegðun vekur einkennileg viðbrögð.
Allt verður óeðlilegt.
Hversdagurinn óbærilega óeðlilegur.