Frjáls viðskipti milli landa og alþjóðavæddur heimur viðskipta er grundvöllur fyrir lífskjarabætingu um allan heim síðustu áratugi.
Það er svo til óumdeilt, en þrátt fyrir bölmóð - ekki síst hjá okkur fjölmiðlafólki í umfjöllunum frá degi til dags - þá lifum við á spennandi tímum og aldrei hefur verið meiri friðsæld í heiminum, heilt á litið.
Skelfingarstríðin hluti af tilverunni
Skelfingarstríð hafa alltaf fylgt mannkyninu og eins og mál standa nú, þá er friðsæld með mesta móti og svæðum sem barist hafa við örfátækt undanfarna áratugi hefur fækkað.
Með því að benda á þessar staðreyndir þá er ekki verið að gera lítið úr þeirri skelfingu sem nú þrífst, eða spennunni sem augljósa má greina á mörgum svæðum í heiminum. Síður en svo. Einmitt vegna þess hvernig staða mála hefur þróast, til betri vegar, þá ættu þjóðir heimsins að eiga auðveldara með samstarf til að veita hjálp þar sem þarf. Óhætt er að segja að stjórnmálamönnum gangi misjafnlega vel upp í þeim efnum.
Það vakti mann líka til umhugsunar þegar Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, fullyrti í lok janúar, að heimurinn væri að búa sig undir stríð. Sérstaklega vitnaði hann til vígbúnaðarkapphlaups á landamærum margra ríkja í Austur-Evrópu. Að hans mati var þarna farin af stað atburðarás sem hefði verið mörg ár í undirbúningi, og væri nú á þeim stað að stríð - af meiri þunga en þegar hefur verið í gangi - væri líklega óumflýjanlegt.
Tollastríðin auka á vandann
Eitt af því sem vekur ugg í brjósti er uppgangur tollaverndunartals og haftabúskapar. Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, hefur að miklu leyti leitt þessa bylgju, með því að koma á tollum og höftum á viðskipti fyrirtækja í öðrum löndum. Þetta er órafjarri hugmyndinni um alþjóðavæddan heim viðskipta, og það verður að koma í ljós hver áhrifin verða á viðskiptin í heiminum.
Þegar hafa komið fram róttækar sértækar tillögur. Meðal annars 30 til 50 prósent tollur á ákveðnar vörur, eins og þvottavélar, sem eru fluttar til Bandaríkjanna. Þá hafa einnig verið settar fram aðgerðir um að hækka tolla á stál og ál. Tollurinn á innflutt stál verður 25 prósent og 10 prósent á innflutt ál.
Frekari aðgerðir eru í pípunum, ef marka má skrif blaðamanna sem eru sérhæfðir í málefnum Hvíta hússins. Þar á meðal eru róttækar tillögur um hækkun tolla á innflutta bíla, bæði frá Evrópu og Asíu.
Markmiðið með þessum aðgerðum er að skapa störf í Bandaríkjunum, fyrst og fremst. Það er hin yfirlýsta stefna, en margir óttast að tollastríð við önnur markaðssvæði, eins og Evrópusambandið og Kína, muni raska jafnvægi í alþjóðaviðskiptum með róttækum hætti.
Spáði nákvæmlega fyrir um áhrifin
Einn þeirra sem varaði við þessari stefnu Trumps, með ítarlegum skrifum fyrir um ári síðan, var Wall Street goðsögnin Seth Klarman.
Í greinum sem hann sendi fjárfestum, sem hann hefur unnið fyrir í meira en 30 ár, sagði hann að einangrunarstefna Trumps gæti grafið undan bandarísku hagkerfi til lengdar og raun einnig undan öðrum hagkerfum, í ljósi þess hve róttækar hugmyndirnar væru.
Þá gæti mikil skattalækkun á sama tíma og tollar yrðu hækkaðir leitt til vaxandi verðbólguþrýstings og vanda við að vernda samkeppnishæfni ákveðinna geira bandarísks atvinnulífs. Heilu löndin væru einnig undir í þeim efnum, vegna óbeinna áhrifa. Þá sagði hann nokkuð augljóst að spenna gæti til skamms tíma aukist í hagkerfinu sem myndi gera starf Seðlabankans erfiðara.
Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Bandaríkjanna eru síðan ekkert einkamál Bandaríkjanna, enda er meira en 60 prósent af gjaldeyrisforða heimsins geymdur í Bandaríkjadal. Miklar og hraðar breytingar á efnahagsstefnu Bandaríkjanna eru því alltaf ákveðin ögrun við umheiminn og röskun á viðskiptaumhverfinu er grundvöllur dagslegs lífs fólks í heiminum.
Ísland á allt undir opnum heimi
Á litla Íslandi, örmarkaði með aðeins 200 þúsund einstaklinga á vinnumarkaði, er óhætt að segja að tollavernd og haftabúskapur sé umsvifamikill. Tollum er beitt til að vernda landbúnað og þá er erlend fjárfesting bönnuð með lögum í sjávarútvegi, að miklu leyti. Fátt er jafn víðsfjarri hugmyndinni um markaðsbúskap eins og að banna erlenda fjárfestingu með lögum í ákveðnum geirum.
Þá má segja að okkar myntkerfi sé tollavernd í ákveðnum skilningi, þar sem sér íslenskum höftum - ýmist á útflæði eða innflæði - hefur verið beitt til að láta hlutina falla vel að íslenskum hagsmunum, einkum þeirra sem eiga fyrirtækin og digrustu sjóðina.
Til framtíðar litið ætti það að vera kappsmál fyrir Ísland að stuðla að hlutverki sínu í opnum heimi, og reyna með því að opna á tækifæri fyrir komandi kynslóðir. Frjáls viðskipti milli landa hafa leitt lífskjarabætingu undanfarinna áratuga í heiminum, og vonandi verða íslenskir stjórnmálamenn ekki of uppteknir af því að styðja tollastríðshugmyndir í út í heimi, hvort sem það er í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Stuðningurinn ætti að vera við hið opna og frjálsa, ekki hið lokaða og hefta.