Þótt Ísland hreyki sig af því að vera heimsmeistari í jafnrétti, og að hér hafi margt áunnist í þeim málum á skömmum tíma, þá skulum við ekki blekkja okkur gagnvart því að stóru vígin eru eftir.
Það að kona hafi verið forsætisráðherra undanfarna rúma þrjá mánuði breiðir ekki yfir þá stöðu að hún er einungis önnur konan til að gegna þeirri stöðu í Íslandssögunni. Á sama tíma hafa 25 karlar setið á þeim stóli. Konur hafa verið forsætisráðherrar þjóðarinnar samtals minna en fimm ár. Tvær konur hafa verið fjármálaráðherrar og haldið um buddu ríkissjóðs. Þær gegndu því embætti samtals í tæpt eitt og hálft ár. Þá fækkaði konum á þingi á milli kosninga og þær eru nú 38 prósent þingmanna. Í ríkisstjórn sitja fleiri karlar en konur.
Seðlabankanum hefur alltaf verið stýrt af körlum einvörðungu. Og svo framvegis.
Fjármála- og viðskiptalífið er líka að nánast öllu leyti undir stjórn karla. Fimm ár í röð hefur Kjarninn framkvæmt könnun á því hvernig kynjaskiptingin í efsta lagi þeirra sem stýra peningum hérlendis. Fimm ár í röð hefur niðurstaðan verið nánast sú sama: fyrir hverja eina konu sem stýrir peningum á Íslandi eru níu karlar á fleti.
Peningar eru hreyfiafl sem tryggir völd
Peningar eru hreyfiafl í markaðsdrifnu hagkerfi. Þeir sem stýra þeim búa yfir valdi til að láta hugmyndir verða að veruleika og móta allar áherslur í fjárfestingum.
Ef peningunum er fyrst og síðast stýrt af körlum, og til karla, þá verður aldrei jafnræði í samfélaginu. Karllægar hugmyndir fá frekar brautargengi, karlar taka áfram ákvarðanir, karlar halda á völdunum.
Stærstu fjárfestarnir á Íslandi eru lífeyrissjóðir. Þeir eru allt um lykjandi í viðskiptalífinu. Um síðustu áramót var hrein eign þeirra 3.892 milljarðar króna. Það eru um þriðjungur af heildarfjármunum sem til eru á Íslandi og sá eignarhlutur mun vaxa á næstu árum. Árið 2060 munu þeir eiga tæplega 40 prósent allra fjármuna hér. Árið 2016 áttu lífeyrissjóðirnir 70 prósent allra markaðsskuldabréfa á Íslandi og 41 allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni.
Með öðrum orðum þá er vald lífeyrissjóðanna gríðarlegt. Og þar af leiðandi hafa þeir mikið vald til breytinga.
Nær allir stjórnendur lífeyrissjóða eru karlar. Lífeyrissjóðakerfið er lífæð íslenskra verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Flestir á þeim markaði hafa þorra tekna sinna upp úr því að rukka lífeyrissjóði um þóknanatekjur fyrir milligöngu í verðbréfakaupum. 18 slík fyrirtæki eru eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Þeim er öllum stýrt af körlum. Þegar litið er yfir starfsmannalistann er ljóst að kynjahlutfallið lagast ekki mikið þegar neðar í skipuritið er komið.
Niðurstaðan er skýr. Karlar í lífeyrissjóðum fjárfesta, oft með milligöngu annarra karla, í körlum.
Breytum lífeyrissjóðunum og þá breytist samfélagið
Konur eru 49 prósent þjóðarinnar. Það veldur samfélagslegum skaða þegar þær njóta ekki jafnréttis hvað varðar völd, áhrif eða laun.
Í ljósi þeirrar samþjöppunar sem fylgir umfangi lífeyrissjóða hérlendis þá er augljós og fljótleg leið til að breyta þessu jafnvægi. Hún felst í því að breyta lögum um lífeyrissjóði á þann hátt að þeir verði að jafna kynjahlutföll á meðal þeirra sem stýra þeim, á meðal þeirra sem starfa við fjárfestingar innan þeirra og á meðal þeirra fyrirtækja sem byggja tilveru sína á þóknanatekjum frá lífeyrissjóðum. Það er hægt að breyta lögunum þannig að lífeyrissjóðir fjárfesti ekki í skráðum fyrirtækjum sem eru ekki með jafnræði á milli kynja í stjórnenda og stjórnarstöðum. Og svo framvegis.
Þetta er mjög gerlegt. Það eina sem þarf til er tvennt. Í fyrsta lagi þurfum við að viðurkenna að karlar halda enn á völdum, áhrifum og peningum hérlendis. Við þurfum að segja það upphátt. Og í öðru lagi þurfum við að búa yfir vilja til að breyta því.
Karlar eru nefnilega ekki hæfileikaríkari en konur. Þeir njóta hins vegar sögulegra forréttinda sem hafa fleytt þeim í áhrifa- og valdastöður og þaðan vilja þeir ekki fara.
Þess vegna þarf að ýta þeim til hliðar.
Leiðarinn birtist fyrst í Mannlífi 16. mars.