Einn þeirra pólitísku vinda sem blása nú um vestræn lönd eru breyttar hugmyndir um sjálft lýðræðið. Þar er á ferðinni stefna sem vill smækka sjálft lýðræðishugtakið niður í hreina meirihlutareglu. Sporgöngumenn þessarar stefnu vilja taka upp beint (plebizitert) lýðræði. Þeir telja það æðra og ósviknara en þingbundið fulltrúalýðræði. Hér heima hefur Styrmir Gunnarsson m.a. verið sterkur talsmaður þessara sjónarmiða.
Fengi þetta byr undir vængi þarf að gefa því gaum, því hér er á ferðinni varhugaverð einföldum á flóknum veruleika. Til að skýra betur og undirstrika innri kjarna vestræns lýðræðis, verðum við að átta okkur á því, að það samanstendur ekki bara af frjálsri tjáningu meirihlutaviljans sem jarteikn um fullveldi þjóðar. Vestrænt frjálslynt lýðræði er stjórnarfar sem fléttað er saman úr, og skilyrt er af margsháttar samfélagslegum, trúarlegum, menningarlegum, stofnanalegum og pólitískumleg breytum og festum. Þetta er flóknasta og vandasamasta stjórnarfyrirkomulag sem enn hefur verið úthugsað.
Það verður aðeins að veruleika í þeim ríkjum, þar sem fjölþætt borgarsamfélag, margbreytni skoðana og pólitískur þroski haldast í hendur. Svona samfélag á að auka líkur á því, að saman fari opin umræða en ekki síður friðsamleg niðurstaða úr skoðanaskiptum andstæðra hugmynda og hagsmuna. Réttarríkið og frjálsir fjölmiðlar eru einhverir mikilvægustu þættir vestræns lýðræðis, ásamt því að mannréttindi, einnig minnihluta hópa, séu höfð í hávegum. Valddreifing þarf að vera til staðar og dómstólar að vera óháðir. Þá verður frjálst og óháð umboð þjóðkjörinna fulltrúa að vera tryggt og virt sem ein af grunnreglum þingbundins lýðræðis. Því miður er of oft brotalöm á því. Hagsmunatengsl margra íslenskra þingmanna eru augljós.
Þetta sem upp hefur verið talið eru vissulega flóknar og alls ekki sjálfgefnar aðstæður sem ekki eru víða til staðar. Ef við lítum í eigin barm þá eru enn brotalamir á okkar íslenska þingbundna lýðræði og eflaust langur tími í að við fullklárum það. Má þar m.a. nefna ójafnt vægi atkvæða eftir búsetu og tíð pólitísk inngrip í skipan dómara. Útflutningur vestræns lýðræðis til nýfrjálsra landa, sem eiga langan veg ófarinn að flókinni vestrænni samfélagsgerð, hefur oftast afskræmst og/eða mistekist.
Beint lýðræði
Andstætt fulltrúalýðræðinu og forsendum, sem lýst var hér að framan, fóstra ýmsir með sér þá sannfæringu að svokallað beint lýðræði sé fulltrúa lýðræðinu fremra. Það fyrrnefnda sýni réttari þjóðarvilja. Þar eru meirihlutákvarðanir teknar með ill afturkræfu þjóðaratkvæði. Þetta form beinnar ákvarðanatöku má sannlega nota við svæðisbundnar kosningar s.s. á sveitarstjórnarstigi. Það er einnig nothæft sem takmörkuð viðbót við fulltrúalýðræðið, en getur aldrei komi í stað þess.
Svo kallað beint lýðræði er heldur ekkert sannari mynd af lýðræðinu en fulltrúalýðræðið. Þingbundnar meirihlutaákvarðanir er hægt að fella úr gildi. Ríkisstjórnir sem eru myndaðar með atkvæðagreiðslu í þinginu má leysa frá störfum, ef meirihluti þingmanna eða kjósenda vill. Það er hins vegar miklu mun örðugara að breyta niðurstöðum úr þjóðararkvæðagreiðslum. Formælendur tíðs þjóðaratkvæðis ganga einnig almennt út frá lítilli þátttöku almennings. Þó er það svo, að því lægri sem þátttakan er, þeim mun veikara er lögmæti niðurstöðunnar. Þessa reynslu þekkjum við Íslendingar. Í þjóðaratkvæðagreiðslum koma oftar þeir til leiks, sem eru sammála um það eitt að segja nei. Þeir eru síðar hvorki viljugir né hafa hæfileika til áframhaldandi samstarfs á pólitískum vettvangi. Þjóðaratkvæði bíður í reynd aðeins uppá tvo kosti: Já eða Nei.
Pólitískur menningarþroski
Þeir sem þekkja störf þjóðþinga vita að frumvörp taka margs háttar breytingum í meðförum þings og þingnefnda. Frumvörp bjóða uppá málamiðlanir og endurbætur. Sjónarmið margra samfélagshópa verða hluti af nýjum lögum. Draga má þetta saman í þeirri niðurstöðu að þjóðaratkvæði sé réttmætt við breytingar á stjórnarskrá eða ákvörðunum sem eru ígildi stjórnarskrárbreytinga.
Þýskur lögspekingur hefur sagt, að starfsemi nútíma veraldlegs vestræns lýðræðisríkis sé háð skilyrðum sem það sjálft getur ekki tryggt. Það er rétt. Skilyrðin eru þróað hagkerfi, pólitískur menningarþroski og meðvituð reynsla einnar þjóðar í víðasta skilningi.
Fyrrnefnd kreppa vestræns lýðræðis ber þess því miður einnig merki, að mörgum fulltrúum þess sé ekki fyllilega ljóst hverjar forsendur fulltrúalýðræðis okkar séu. Þeir eru því ekki í aðstöðu til að meta að verðleikum árangur þess, og geta því trauðla verið sverð þess og skjöldur. Vegna þessarar vanþekkingar hneigjast, ekki bara pópúlistar, heldur einnig reyndir lýðræðissinnar til að sjá kjarna lýðræðisins í beinum meirihluta ákvörðunum. Á alþingi hefur annars konar meirihlutaátrúnaður löngum verið áberandi. Lög eru keyrð í gegn án alvarlegra tilrauna til að ná breiðari samstöðu. Of sjaldan er leitað eftir friðsamri niðurstöðu andstæðra skoðana. Sérhagsmunir stríðast á við almannahagsmuni.
Höfundur er hagfræðingur.